Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 95/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli  A nr. 95/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A , að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 24. maí 2012 fjallað um höfnun hennar í vinnumarkaðsúrræðinu „Vinnandi vegi“. Vegna þessarar höfnunar kæranda á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 29. maí 2012 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 31. maí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 17. desember 2011.

Í tölvupósti til kæranda, dags. 5. mars 2012, var hún boðuð á svokallaða Atvinnumessu sem halda átti 8. mars 2012 í Laugardalshöllinni og var það liður í vinnumarkaðsátakinu „Vinnandi vegi“. Kæranda var sendur annar tölvupóstur 15. mars 2012 og henni tilkynnt um næstu skref í „Vinnandi vegi“. Hún var upplýst um sameiginlegt átak Vinnumálastofnunar, samtaka atvinnurekenda, sveitarfélaga, stéttarfélaga og ríkisins undir yfirskriftinni VINNANDI VEGUR. Vær markmið átaksins að skapa ný starfstækifæri fyrir atvinnuleitendur með því að auðvelda fyrirtækjum að fjölga starfsfólki. Bent var á að Vinnumálastofnun hefði gert samning við fjórar einkareknar ráðningarþjónustur sem muni koma að miðlun í þessi störf ásamt Vinnumálastofnun. Kærandi var beðin að skrá sig hjá einni af þessum fjórum ráðningarskrifstofum fyrir 1. apríl 2012. Tekið var fram að með skráningu samþykki atvinnuleitandi að upplýsingar um ráðningu í starf eða höfnun á starfi verði send til Vinnumálastofnunar og að fylgst yrði með skráningum. Í tölvupóstinum voru leiðbeiningar um skráningu í umrætt átak.

Loks voru kæranda send textaskilaboð í farsíma hennar 28. mars 2012 þar sem hún var spurð hvort hún væri búin að skrá sig og henni bent á að um skylduskráningu væri að ræða.

Kærandi sinnti ekki boðun Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum sem stofnunin hafði gert samning við með þeim hætti sem krafist hafði verið. Kæranda var sent bréf, dags. 15. maí 2012, þar sem fram kemur að hún hafi ekki orðið við þessum tilmælum og leit Vinnumálastofnun því svo á að hún hafi hafnað þátttöku í nefndu vinnumarkaðsúrræði. Kæranda var gefinn kostur á að upplýsa Vinnumálastofnun um ástæður þess. Henni var enn fremur tjáð að hún gæti af þessum ástæðum þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í svari kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 24. maí 2012, kemur fram að sonur hennar hafi verið lengi veikur og hún hafi gleymt að skrá sig. Hún sé á leiðinni á námskeið 25. maí 2012 á vegum Vinnumálastofnunar og hafi hún sett það undir sama hatt. Skýringar kæranda voru ekki metnar gildar á fundi Vinnumálastofnunar 24. maí 2012 og var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 29. maí 2012, að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði frá og með 29. maí 2012.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar sem var veittur með bréfi dags. 8. júní 2012.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. maí 2012, kemur fram að hún hafi gleymt að skrá sig á vinnumarkaðsúrræðið „Vinnandi veg“ vegna veikinda ungs sonar síns. Kærandi kveðst vera einstæð móðir tveggja drengja og hafi engar aðrar tekjur til þess að framfleyta fjölskyldunni.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. júní 2012, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá í virkri atvinnuleit sem sé reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Þá beri atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun, án ástæðulauss dráttar, um þær breytingar sem kunni að vera á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi sinnti ekki boði stofnunarinnar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum í tengslum við vinnumarkaðsátakið „Vinnandi veg“. Segi kærandi að hún hafi gleymt því þar sem sonur hennar hafi verið veikur og að hún hafi haldið að með því að skrá sig á annað námskeið hjá Vinnumálastofnun hafi hún uppfyllt þessa skyldu sína. Vinnumálastofnun taki almennt tillit til þess að upp geti komið veikindi hjá atvinnuleitanda eða fjölskyldumeðlimi sem geti valdið því að viðkomandi geti ekki tekið þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Verði atvinnuleitandi þá að tilkynna stofnuninni fyrirvaralaust yfirvofandi fjarvistir og í kjölfarið skila læknisvottorði sem staðfesti veikindi. Í máli kæranda sé þó ekki um að ræða námskeið eða vinnumarkaðsaðgerð þar sem henni hafi verið skylt að mæta á ákveðinn stað á ákveðnum tíma. Vissulega hafi kærandi verið boðuð á Atvinnumessu í Laugardalshöll 8. mars 2012, en í kjölfar þess að hún mætti ekki þangað hafi hún verið beðin, í tvígang, að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum sem Vinnumálastofnun hafi gert samning við fyrir 1. apríl 2012. Kærandi hafi ekki sinnt þeirri boðun og taki hún fram að hún hafi gleymt því þar sem sonur hennar hafi verið veikur. Vinnumálastofnun vekur athygli á því að það eina sem kærandi hafi þurft að gera hafi verið að skrá sig á heimasíðu einnar af ráðningarstofunum, en tenglar inn á heimasíður þeirra hafi verið sendir í tölvupósti til kæranda. Slík umsókn sé hvorki tímafrek né flókin og geti því gleymska kæranda sökum veikinda sonar hennar ekki afsakað það að hún hafi ekki uppfyllt skyldu sína gagnvart Vinnumálastofnun.

Með því að hafa ekki skráð sig hjá einni af fjórum ráðningarstofum í vinnumarkaðsátakinu „Vinnandi vegi“ hafi kærandi ekki uppfyllt skyldu sína gagnvart Vinnumálastofnun skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær er fram komi í bréfi hennar til stofnunarinnar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti ekki réttlætt það að kærandi hafi ekki skráð sig hjá neinni af ráðningarstofunum.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. júlí 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í III. kafla laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, er fjallað um vinnumarkaðsaðgerðir. Í 13. gr. sömu laga kemur meðal annars fram að atvinnuleitandi skuli gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skuli atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. laganna og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem standi honum til boða.

Samkvæmt 1. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir er með vinnumarkaðsaðgerðum meðal annars átt við vinnumiðlun. Í 10. gr. laganna er vinnumiðlun nánar lýst og felst hún meðal annars í því að Vinnumálastofnun haldi skrá yfir laus störf og aðstoði atvinnuleitendur við atvinnuleit. Vinnamálastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga um þátttöku atvinnuleitenda í einstökum vinnumarkaðsúrræðum sem aðrir þjónustuaðilar annast framkvæmd á. Samkvæmt þessu fellur sú krafa Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur skrái sig hjá tilteknum ráðningarstofum undir vinnumarkaðsaðgerðir í skilningi laganna.

Bótaþegar þurfa að uppfylla margvíslegar skyldur þegar þeir koma inn í kerfið og þann tíma sem þeir þiggja bætur. Þessum skyldum er lýst í þeim lögum og reglum er gilda um atvinnuleysistryggingar og er bótaþegum leiðbeint sérstaklega um þessar skyldur í kynningarefni og á kynningarfundum. Má sem dæmi um skyldur nefna kröfuna um að vera staddur hér á landi og skylduna til að tilkynna um breytingar á högum sínum.

Meðal þeirra skyldna sem hvíla á bótaþegum er að bregðast við boði um þátttöku í sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum á vegum Vinnumálastofnunar. Slíkar aðgerðir geta verið af margvíslegum toga, svo sem boð um að mæta í viðtal og þátttaka í námskeiðum. Þegar bótaþegar hafa verið boðaðir sérstaklega til þátttöku í slíkum aðgerðum hvílir á þeim sú skylda að bregðast við boðinu, en geri þeir það ekki getur það leitt til viðurlaga í formi niðurfellingar bóta. Í ljósi þess að aðgerðir þessar geta verið af margvíslegum toga er mikilvægt að bótaþegum sé gert ljóst að um vinnumarkaðsúrræði sé að ræða og að höfnun á þátttöku geti leitt til missis bóta. Slíkt er að auki einfalt, enda er bótaþegum ávallt tilkynnt með formlegum hætti um boð um þátttöku í slíkum aðgerðum. Í þeim tilvikum er bótaþegar eru beðnir að skrá sig hjá ráðningarstofum mætti veita slíkar leiðbeiningar í boðunarbréfi um skráninguna. Í þessu sambandi má benda á að þegar atvinnuleitendur eru boðaðir í starfsviðtöl er þeim sérstaklega leiðbeint um að það geti varðað missi bóta bregðist þeir slíkri boðun eða hafni starfi án ástæðu.

Ekki verður séð að kæranda hafi verið leiðbeint um að aðgerðaleysi hennar við skráningu á ráðningarstofu gæti varðað hana missi bóta. Úrskurðarnefndin telur að með því hafi leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki verið gætt nægilega og því verði að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 24. maí 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá og með 29. maí 2012.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta