Hoppa yfir valmynd

Nr. 117/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 117/2018

Fimmtudaginn 28. júní 2018

A

gegn

Mosfellsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Mosfellsbæjar, dags. 20. mars 2018, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. febrúar 2018, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Mosfellsbæ fyrir marsmánuð 2018. Umsókn kæranda var tekin fyrir á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar þann 1. mars 2018 og var synjað með vísan til 14. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar sem tók málið fyrir á fundi þann 20. mars 2018 og staðfesti synjunina. Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að starfsmönnum sé falið að innheimta ofgreidda fjárhagsaðstoð í samræmi við 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 27. mars 2018. Með bréfi, dags. 28. mars 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Mosfellsbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. apríl 2018. Greinargerð Mosfellsbæjar barst með bréfi, mótteknu 23. apríl 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. apríl 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. maí 2018 og voru þær sendar Mosfellsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið hvött af félagsráðgjafa hjá Mosfellsbæ til að sækja um skólastyrk en ekki verið upplýst um að það þyrfti að sækja um styrkinn fjórum vikum áður en nám hæfist. Aðstæður kæranda uppfylli að öðru leyti öll skilyrði k-liðar 15. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð. Kærandi eigi eitt ár eftir af náminu sem hún sé skráð í og ef hún ljúki ekki náminu núna muni hún ekki útskrifast þar sem fagið sé ekki kennt við skólann á næsta ári.

Kærandi tekur fram að hún hafi verið á fjárhagsaðstoð vegna óvinnufærni en langi virkilega að breyta því og leggja á sig skólagöngu til að búa sér og börnum sínum betri framtíð. Námið henti henni vel þrátt fyrir líkamlega annmarka þar sem það sé kennt í lotum og í fjarnámi. Þá sé kærandi komin með vilyrði fyrir vinnu að námi loknu en væntanleg útskrift sé sumarið 2019. Í ákvörðun kæranda um að sækja um skólastyrk felist viðleitni hennar til að koma undir sig fótunum, hjálpa sjálfri sér svo að hún geti haft tækifæri til að framfleyta sér í framtíðinni. Að mati kæranda sé því furðulegt að synja henni um skólastyrk vegna tímasetningar umsóknar. Kærandi vísar til þess að með synjun á skólastyrk hafi Mosfellsbær gengið gegn sínu eigin markmiði með veitingu fjárhagsaðstoðar og kæft niður leið hennar til sjálfshjálpar. Kærandi sjái sér ekki fært að halda áfram náminu nema til aðstoðar komi, vegna tímabundinna erfiðra aðstæðna á meðan hún sé að ná fullri heilsu á ný. Hún myndi neyðast til að sækja um fjárhagsaðstoð vegna óvinnufærni en sveitarfélagið sé tilbúið að styrkja hana sem óvinnufæra ef hún stundi ekki skóla. Kærandi bendir á að hún eigi ekki nein réttindi annars staðar í kerfinu og því muni hún ekki getað séð fyrir sér og börnunum sínum án fjárhagsaðstoðar. Það sé von hennar að úrskurðarnefndin hnekki synjun Mosfellsbæjar og veiti henni skólastyrk frá 1. mars 2018 fram að útskrift ef möguleiki sé.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Mosfellsbæjar er vísað til þess að hún hafi á fundi 26. september 2017 greint félagsráðgjafa frá þeirri fyrirætlun að sækja skóla í janúar 2018. Kærandi hafi því greint frá þeirri áætlun sinni með góðum fyrirvara. Líkt og fram komi í bókun um fundinn hafi kæranda ekki verið bent á að hún þyrfti að sækja um með fjögurra vikna fyrirvara, eingöngu að það þyrfti að sækja sérstaklega um styrkinn. Kærandi gerir athugasemd við að Mosfellsbær hafi bætt því við að ástæða synjunar sé einnig að námið leiði ekki til stúdentsprófs. Hún geti nýtt einingar úr náminu upp í stúdentspróf. Það sé með ólíkindum að sveitarfélagið ætli að krefja hana um endurgreiðslu á fjárhagsaðstoð fyrir janúar og febrúar en það sé eingöngu til þess fallið að gera stöðu hennar verri og stefna henni í meiri skuldir. Synjun sveitarfélagsins hafi nú þegar valdið kæranda og börnum hennar enn meiri félagslegum erfiðleikum en áður. Ef kærandi hefði ætlað að gefa villandi upplýsingar um málefni sín hefði hún ekki sótt um skólastyrk og beðið um leiðbeiningar. Kærandi krefst þess að Mosfellsbær veiti henni fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. mars til 1. júní 2018 samkvæmt vottorði um óvinnufærni og að hún fái að halda náminu áfram á meðan á veikindum stendur án þess að það komi til synjunar á fjárhagsaðstoð. Kærandi vísar til þess að hún hafi sent inn umsókn um fjárhagsaðstoð vegna óvinnufærni með vottorði eða að samþykktur verði skólastyrkur fyrir vor- og sumarönn skólans en það liggi inni umsóknir fyrir báðar annir. Þá fer kærandi fram á að Mosfellsbæ verði meinað að krefja hana um endurgreiðslu á fjárhagsaðstoð fyrir janúar og febrúar á grundvelli villandi eða rangra upplýsingar þar sem hún hafi sannarlega látið vita af ætlun sinni um námið. Hún hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir janúar og febrúar á grundvelli óvinnufærni með vottorði þess efnis sem sé sannleikanum samkvæmt.

III. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu frá því í júlí 2013. Í fyrstu hafi verið um að ræða fjárhagsaðstoð að hluta vegna skerts bótaréttar hjá Vinnumálastofnun en síðar á grundvelli óvinnufærni vegna heilsubrests. Í viðtali við starfsmann fjölskyldusviðs þann 26. september 2017 hafi kærandi greint frá því að hún væri að íhuga að fara í nám eftir áramótin og þá að sækja um skólastyrk á meðan á náminu stæði. Kærandi hafi verið upplýst um að ekki væru sömu reglur fyrir skólastyrk og hefðbundna fjárhagsaðstoð og áréttað að hún hefði samband við starfsmann sviðsins áður en hún sækti um námið til að ræða stöðuna frekar. Í viðtali við starfsmann fjölskyldusviðs þann 27. febrúar 2018 hafi komið fram að kærandi væri í námi. Hún hafi þá verið hvött til að sækja um styrk vegna skólagöngunnar og skila inn tilskildum gögnum vegna námsins. Við könnun málsins hafi komið í ljós að nám kæranda uppfyllti ekki ákvæði k-liðar 15. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð um að það leiði til þess að nemandi geti síðar hafið lánshæft nám. Þá hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins um að skila inn umsókn um framfærslu í námi fjórum vikum áður en nám hefst. Umsókn kæranda frá 19. febrúar 2018 hafi því verið synjað með vísan til 14. gr. reglnanna.

Mosfellsbær tekur fram að kæranda hefði mátt vera ljóst að hún þyrfti að sækja um skólastyrk áður en nám hæfist, sbr. það sem að framan greinir um viðtal við starfsmann fjölskyldusviðs 26. september 2017. Auk þess beri kærandi ábyrgð á því að tilkynna um breytingar á högum sínum en á umsóknareyðublaði sé sérstaklega tekið fram að umsækjendur um fjárhagsaðstoð skuldbindi sig til að gera grein fyrir öllum breytingum sem kunni að verða á högum þeirra og/eða þeim upplýsingum sem þeir hafi gefið. Umsækjendur þurfi að haka í slíka yfirlýsingu áður en umsókn sé skilað rafrænt.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Mosfellsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir mars 2018.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var synjað á grundvelli 14. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð en samkvæmt ákvæðinu njóta einstaklingar, sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð nema fullnægt sé skilyrðum k-liðar 15. gr. reglnanna um námsstyrki/lán vegna náms. Ákvæði k-liðar 15. gr. er svohljóðandi:

„Heimilt er að veita einstaklingi sem þegið hefur fjárhagsaðstoð undanfarna sex mánuði og á við mikla félagslega erfiðleika að stríða samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa, fjárhagsaðstoð til framfærslu í námi. Forsenda þess að ákvæði þetta sé nýtt er að umsækjandi og félagsráðgjafi geri með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram kemur m.a. skólasókn að lágmarki 80%, námsframvinda og/eða einkunnir. Miðað er við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið lánshæft nám. Til viðbótar við fjárhagsaðstoð er heimilt að veita styrk á hverri önn vegna kaupa á bókum að hámarki 25.000 krónur og skólagjöld að upphæð 20.000 krónur. Leggja skal inn umsókn um framfærslu í námi fjórum vikum áður en nám hefst. Aðstoðin er liður í umfangsmeiri aðstoð af hálfu fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar. Ákvarðanir samkvæmt þessu ákvæði skulu teknar fyrir hverja önn.“

Af hálfu Mosfellsbæjar hefur komið fram að kærandi hafi ekki uppfyllt framangreint skilyrði þar sem nám hennar leiði ekki til lánshæfs náms og að umsókn um framfærslu í námi hafi ekki verið skilað inn fjórum vikum áður en nám hófst.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá Mosfellsbæ um árabil. Í viðtali við starfsmann fjölskyldusviðs þann 26. september 2017 greindi kærandi frá því að hún væri að íhuga að fara í nám eftir áramótin. Kærandi var þá upplýst um að ekki giltu sömu reglur um skólastyrk og hefðbundna fjárhagsaðstoð. Umsækjendur væru ekki sjálfkrafa samþykktir inn á skólastyrk og áréttað að kærandi hefði samband við starfsmann sviðsins áður en hún sækti um námið til að ræða stöðuna frekar. Í viðtali við starfsmann fjölskyldusviðs þann 27. febrúar 2018 greindi kærandi frá því að hún væri byrjuð í námi. Óumdeilt er að framangreint skilyrði k-liðar 15. gr. reglnanna um tímamörk var ekki uppfyllt vegna náms kæranda á vorönn 2018. Kærandi hefur gert athugasemd við málsmeðferð Mosfellsbæjar og vísað til þess að hún hafi verið hvött til að sækja um skólastyrk en ekki verið upplýst um að það þyrfti að sækja um styrkinn fjórum vikum áður en nám hæfist. 

Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er sú skylda lögð á hendur stjórnvaldi að leiðbeina og aðstoða þá sem til þess leita um þau málefni sem eru á starfssviði þess. Stjórnvaldi ber að veita aðila þær leiðbeiningar sem honum eru nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna. Í gögnum málsins liggur ljóst fyrir að kæranda var þann 26. september 2017 greint frá því að ekki giltu sömu reglur um skólastyrk og hefðbundna fjárhagsaðstoð og áréttað að hún hefði samband áður en hún sækti um nám. Að mati úrskurðarnefndarinnar gáfu þær upplýsingar tilefni til að kærandi myndi kynna sér nánar hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að fá greiðslu fjárhagsaðstoðar samhliða námi. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að kæranda hafi verið leiðbeint með ófullnægjandi hætti. Úrskurðarnefndin telur þó að rétt hefði verið að upplýsa kæranda um framangreind tímamörk k-liðar 15. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Með vísan til þess að umsókn kæranda um námsstyrk barst eftir tilskilin tímamörk er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði k-liðar 15. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð vegna náms á vorönn. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Hvað varðar kröfu kæranda um að Mosfellsbæ verði meinað að krefja hana um endurgreiðslu á fjárhagsaðstoð fyrir janúar og febrúar tekur úrskurðarnefndin fram að hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í málinu þar sem málið er til lykta leitt, þ.e. svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Mosfellsbær hafi tekið endanlega ákvörðun um að innheimta ofgreidda fjárhagsaðstoð. Krafa kæranda um að sveitarfélaginu verði meinað að krefja hana um endurgreiðslu á fjárhagsaðstoð er því ekki tæk til efnismeðferðar hjá nefndinni að svo stöddu. Að því virtu er þeim þætti kærunnar vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 20. mars 2018, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er staðfest. Kröfu kæranda um að Mosfellsbæ verði meinað að krefja hana um endurgreiðslu á fjárhagsaðstoð er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta