Hoppa yfir valmynd

Nr. 106/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 106/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020009

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.               Málsatvik og málsmeðferð

Þann 8. október 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2020, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. október 2020. Þann 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU20100021, dags. 29. október 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku ásamt fylgigagni þann 2. febrúar 2021. Í beiðninni var þess krafist að fyrrgreindur úrskurður yrði endurupptekinn, ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin og hins vegar á því að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram nígerískt vegabréf, útgefið 19. apríl 2012, sem hann telur að skeri endanlega úr um auðkenni hans. Kærandi vísar til þess að kærunefnd útlendingamála hafi byggt á því í úrskurði sínum í máli kæranda, nr. KNU20050031, að stjórnsýsla í heimaríki hans sé gölluð, íbúaskráning stopul og illa skipulögð. Mikil spilling og ógagnsæjar reglur varðandi útgáfu opinberra vottorða hafi leitt til þess að auðvelt væri að fá útgefin vottorð á röngum forsendum gegn mútugreiðslu. Þá sé skjalafölsun landlægt vandamál og mikið um útgáfu falsaðra skjala allt frá fæðingarvottorðum til prófskírteina. Með vísan til þessa sé erfitt að afla gagna sem geti talist áreiðanleg að mati íslenskra stjórnvalda, jafnvel þó þau séu ekki fölsuð. Kærandi vísar einnig til þess að engin afdráttarlaus sönnun sé um að fæðingarvottorð hans sé falsað þó það hafi þótt ótraustvekjandi. Kærandi telur að kærunefnd hafi ranglega haldið því fram að það hafi komið fram í skýrslu lögreglu að skjalið væri falsað þar sem einungis hafi verið leiddar að því líkur að skjalið væri falsað. Kærandi vísar til þess að þegar stjórnvöld reiði sig á mat sérfræðinga, eins og í þessu tilfelli, sé ótækt að þau fari ranglega með niðurstöður rannsóknar þeirra og það hvort skjöl séu fölsuð eður ei. Það sé sérfræðinga að meta og ótækt að kærunefnd víki frá mati þeirra. Þá bendir kærandi á að dagblaðið sem hann hafi lagt fram hjá Útlendingastofnun hafi stafað frá systur hans og honum hafi verið ókunnugt um áreiðanleika þeirra gagna.

Kærandi vísar til þess að lögskýringargögn séu fáorð um 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga en ákvæðið verði helst talið eiga við þegar útlendingur eigi sjálfur sök á því að mál hafi tafist eða hann hafi að öðru leyti ekki verið samvinnuþýður við úrlausn málsins. Þá hafi kærandi reynt að afla gagna frá heimaríki en eins og áður hafi komið fram sé stjórnsýsla þar gölluð, íbúaskráning stopul og illa skipulögð.

Kærandi telur það því hafið yfir allan vafa að ákvörðun kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum sem nú liggi fyrir. Skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu því ótvírætt uppfyllt.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. desember 2018. Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 8. október 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 12. október 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi kærunefnd að þar sem skilyrði b- og d-liða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls, væru ekki uppfyllt þá væri ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefði tekið.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að úrskurðað var í máli hans. Til stuðnings beiðni um endurupptöku máls síns lagði kærandi fram nígerískt vegabréf, útgefið 19. apríl 2012. Kærunefnd sendi vegabréfið í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Leiddi rannsókn vegabréfsins í ljós að ekki væri neitt að sjá sem gæfi til kynna að búið væri að eiga við vegabréfið á einn eða annan hátt, auk þess sem mörg öryggisatriði hefðu verið skoðuð og sannreynd. Þá kom jafnframt fram að enginn útstimpill frá Nígeríu væri í vegabréfinu. Í viðtali hjá kærunefnd, þann 13. ágúst 2020, greindi kærandi frá því að hafa yfirgefið heimaríki sitt við 14 ára aldur og farið þaðan til Líbíu, þar sem hann hafi verið í fangelsi í 11 ár. Jafnframt greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi ekki snúið aftur til heimaríkis eftir að hafa flúið þaðan árið 2005. Miðað við tímalínu frásagnar kæranda hefði hann átt að vera í fangelsi í Líbíu þegar vegabréfið sem hann lagði fram var gefið út. Þá var kæranda leiðbeint í viðtali hjá kærunefnd, þann 13. ágúst 2020, um framlagningu frekari gagna sem gætu sýnt fram á auðkenni hans en í viðtalinu greindi kærandi frá því að erfitt væri fyrir sig að útvega vegabréf til að sýna fram á auðkenni sitt. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 4. febrúar 2021, óskaði kærunefnd eftir skýringum á framangreindu ósamræmi auk þess sem kærunefnd óskaði eftir upplýsingum um það hvers vegna kærandi hefði ekki lagt fram vegabréfið á fyrri stigum málsmeðferðar hans. Í svari frá kæranda, dags. 12. febrúar 2021, kom fram að lýsing hans á fangelsisdvöl sinni í Líbíu hefði verið orðum aukin en hann hefði verið í fangelsi í u.þ.b. þrjú ár og hafi svo snúið leynilega aftur til heimaríkis til þess að afla sér vegabréfs, en einungis staldrað stutt við. Þá hafi kærandi jafnframt dvalið í Níger og notað vegabréfið til þess að komast til Líbíu en beðið landa sinn að skila vegabréfinu til bróður síns í heimaríki. Þá hafi bróðir kæranda sent honum vegabréfið en kærandi hefði óttast að það yrði ekki tekið gilt vegna þess að það væri útrunnið. Þá kom fram í svari kæranda að hann þjáist af minnisleysi og honum hafi verið ávísað sterkum lyfjum sem hafi gert honum erfitt að greina á skilmerkilegan hátt frá aðstæðum sínum.

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis koma þá fram í stafliðum a-d í ákvæðinu. Í d-lið ákvæðisins kemur fram að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins. Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun og kærunefnd byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann væri í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að samtökum sem hann hafi gengið til liðs við á unga aldri. Til stuðnings þeirri málsástæðu lagði kærandi fram dagblað með blaðagrein frá heimaríki þar sem fram kemur að staðið hefði yfir leit að kæranda í þeim tilgangi að fá hann til að útskýra aðild sína að tilteknum samtökum og aðkomu hans að morði sem framið hafi verið af meðlimum samtakanna. Kærunefnd sendi dagblaðið til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í skjalarannsóknarskýrslunni kom fram að pappírsörkin sem greinin væri prentuð á væri ekki hluti af upprunalega blaðinu og því talin fölsuð. Þegar kærandi var spurður út í fölsunina í viðtali hjá kærunefnd, gaf hann þær skýringar að systir hans hefði sent honum dagblaðið og hann hefði ekki vitað að um falsaða grein væri að ræða. Í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020, kom fram að til að sanna auðkenni sitt hefði kærandi lagt fram handskrifað nígerískt fæðingarvottorð gefið út af spítala árið 1998. Kærunefnd sendi vottorðið til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Leiddi rannsókn skjalsins í ljós að fæðingarvottorð kæranda væri mjög ótraustvekjandi og að öllum líkindum falsað. Eftir leiðbeiningar kærunefndar til kæranda um að leggja fram frekari gögn til að sanna auðkenni sitt, lagði kærandi fram tvö skjöl, annars vegar fæðingarvottorð (e. Attestation of Birth) og hins vegar eiðsvarna yfirlýsingu um aldur (e. Affidavit of Age Declaration). Kærunefnd sendi skjölin í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum og leiddi rannsókn skjalanna í ljós að fæðingarvottorðið hefði að geyma stafsetningarvillur í þurrstimpli útgáfuyfirvalds sem væri ótraustvekjandi en yfirlýsingu um aldur væri erfitt að leggja mat á þar sem hún byggði á framburði móður kæranda, en erfitt væri að meta hvort sá framburður væri ábyggilegur. Eins og að framan greinir byggði kærunefnd á því í úrskurði sínum frá 8. október 2020 að skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga væru ekki uppfyllt og því væri ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. með vísan til þess tíma sem mál hans hefði tekið.

Kærunefnd telur að þrátt fyrir að kærandi hafi lagt fram vegabréf sem sýni fram á auðkenni hans í skilningi b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, séu skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. sömu laga ekki uppfyllt í máli kæranda. Með því að leggja fram fölsuð gögn til stuðnings frásögn sinni, auk þess að leggja ekki fram vegabréf sitt við meðferð málsins hjá stjórnvöldum, getur kærandi eðli máls samkvæmt ekki talist hafa veitt kærunefnd upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins líkt og d-liður 2. mgr. 74. gr. laganna kveður á um. Því telur kærunefnd að framlagt gagn leiði ekki til þess að forsendur séu fyrir endurupptöku úrskurðarins.

Þá kemur fram í a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að ákvæði 2. mgr. 74. gr. eigi ekki við ef útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd. Af framangreindri umfjöllun um framlögð gögn kæranda má ráða að kærandi hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá hefur kærandi með framlagningu þessara fölsuðu skjala átt þátt í því að málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum hefur dregist og að ekki hafi fengist niðurstaða innan tímamarka, sbr. d-liður 3.mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. þegar sérstaklega standi á. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að slíkt geti t.d. átt við ef ekki sé mögulegt fyrir útlending, sem að öðru leyti sé samvinnuþýður, að afla gagna frá heimalandi sínu, t.d. um það hver hann sé. Kærunefnd telur með vísan til fyrri umfjöllunar ekki vera ástæðu til að víkja frá skilyrði a-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga í máli kæranda.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 8. október 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

                                                                                                                               Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                    Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta