Mál nr. 6/2007
Þriðjudaginn, 29. júní 2007
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 28. mars 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 26. mars 2007.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 7. febrúar 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Mér undirritaðri hefur verið hafnað um fæðingarstyrk og vel ég því þá leið að kæra þann úrskurð.
Mér er hafnað á þeim grundvelli að ég uppfylli ekki lögheimilis skilyrðin sem liggja fyrir til að eiga rétt á fæðingarstyrk frá Íslandi. Þar sem ég flyt út þann 4. janúar 2006 en hóf ekki nám fyrr en í september sama ár. Einnig kæri ég þennan úrskurð af þeim grundvelli að ég á engan rétt hér í því landi sem ég dvel í, vegna þess að ég er námsmaður frá Íslandi. Og er því algjörlega réttindalaus og ráðalaus ef þið hafnið umsókn minni.
Ég flyt til B-lands þann 4. janúar 2006 og hugðist fara strax í nám. En ákvað að bíða eina önn og koma fjölskyldunni fyrir og aðlagast tungunni. Fór ég því í tungumálaskóla fram til júní 2007. Ég hóf síðan nám í D-háskóla og stunda nám á braut er nefnist E-fræði. Þetta er námshæft lán og tekur 2 ár og er 120 points sem nemur fullu 2 ára íslensku háskólanámi.
Ég er íslenskur ríkisborgari, hef alla tíð búið og unnið á Íslandi og borgað minn skatt samviskusamlega. Því er mér mikil furða á að ég fái höfnun á þessum styrk sem rétt nær að bjarga manni í gegnum sumarið þar sem ég augljóslega get ekki stundað vinnu vegna ungs aldurs barns. Því stend ég alveg ráðalaus.
Ég tel mig uppfylla öll þau skilyrði sem ég þarf að uppfylla. Hef búið á Íslandi lengur en í fimm ár, flyt lögheimili mitt út tímabundið vegna náms, borga mína skatta og gjöld heima á Íslandi eins og hver annar Íslendingur, hef skattalega heimilisfesti á íslandi. Er búinn að vera í 6 mánaða samfeldu námi fyrir fæðingu barnsins, held áfram fullu námi eftir fæðingu barnsins.
Því er mér það að ósk að þið sjáið ykkur fært um að sjá af synjun þessa styrks til mín, svo ég geti klárað mitt nám og verið heima með nýfæddu barni mínu samhliða náminu.“
Með bréfi, dagsettu 28. mars 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. maí 2007. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.
Með umsókn, dags. 22. janúar 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 2. mars 2007.
Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 16.10.2006. Staðfesting frá D-háskóla um að kæranda hafi verið veitt námsvist við skólann, dags. 27. júlí 2006. Staðfesting frá D-háskóla um að kærandi hafi staðist fyrstu önn og muni halda áfram á aðra önn frá 8. janúar til 29. júní 2007, dags. 17. janúar 2007. Yfirlit frá D-háskóla um nám E-fræðum, útprentað 23. ágúst 2006. Bréf frá kæranda, dags. 21. febrúar 2007. Tölvupóstur frá Vinnumálastofnun- Fæðingarorlofssjóði til kæranda, dags. 13. apríl 2007 og viðbótargögn er bárust frá D-háskóla, dags. 28. febrúar 2006. Tölvupóstur frá Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði til nemendaskrár D-háskóla, dags. 27. apríl 2007, og svar frá þeim með tölvupósti, dags. 30. apríl 2007. Auk þess lágu fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.
Kæranda var synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hún hefði ekki verið með lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og ekki væri séð að hún hefði flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms. Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. febrúar 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Var í bréfinu tiltekið að kærandi hafi ekki haft lögheimili á Íslandi við fæðingu barnsins.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Á flutningsvottorði, dags. 28. nóvember 2005, kemur fram að kærandi hafi flutt lögheimili sitt til B-lands 4. janúar 2006. Með bréfi D-háskóla til kæranda, dags. 28. febrúar 2006, staðfestir skólinn að hann hafi móttekið umsókn kæranda um skólavist.
Þann 27. júlí 2006, eða rúmu hálfu ári eftir lögheimilisflutning, berst kæranda bréf frá D-háskóla þar sem staðfest er að hún hafi fengið námsvist við skólann. Með tölvupósti Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. apríl 2007, var farið fram á að D-háskóla upplýsti hvenær kærandi hafi sótt um skólavist við skólann. Í svari D-háskóla, dags. 30. apríl 2007, kemur fram að skólinn hafi móttekið umsókn kæranda um skólavist 27. febrúar 2006 eða tæpum tveimur mánuðum eftir lögheimilisflutninginn. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að undanþáguákvæði 1. mgr. 17. gr. rgl. nr. 1056/2004 eigi við í tilviki kæranda. Hefur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður ekki skoðað sérstaklega hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám að öðru leyti.
Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og greiðslu fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar hafi réttilega verið synjað.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. maí 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóði um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 11. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr
Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.
Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl. skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 2. mars 2007. Samkvæmt gögnum málsins flutti hún lögheimili sitt til B-lands 4. janúar 2006. Hún hóf síðan nám í E-fræðum í september 2006. Í bréfi frá skólanum dags. 28. febrúar 2006 er staðfest móttaka á umsókn kæranda um skólavist.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir ekki staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hennar í D-háskóla. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. ffl. um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Samkvæmt því skapaði námið henni þegar af þeirri ástæðu eigi rétt til fæðingarstyrks sem námsmanni.
Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar sbr. 1. mgr. 18. gr. ffl. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl. skulu foreldrar eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi ekki lögheimili á Íslandi við fæðingu barns. Greiðsla fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi kemur því ekki til álita.
Með hliðsjón af framangreindu, er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda, staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson