Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 505/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 505/2023

Fimmtudaginn 18. janúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2023, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árunum 2022 og 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. október 2023, var óskað eftir gögnum frá kæranda vegna tekna hans á tímabilinu febrúar til september 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. desember 2022 til 30. september 2023 vegna lífeyrisgreiðslna, samtals að fjárhæð 2.499.372 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. október 2023. Með bréfi, dags. 19. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 16. nóvember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. nóvember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tekur kærandi fram að honum finnist óskiljanlegt að vera ekki látinn vita að hann ætti að greiða atvinnuleysisbætur til baka. Kærandi sé búinn að vera á sjó í 40 ár og þar á undan í smíði og hafi alltaf unnið, borgað skatta og skyldur en ekki verið að skoða svona hluti. Kærandi hafi byrjað að taka lífeyri í febrúar 2023 og þá fengið tvær eingreiðslur frá öðrum sjóðum þannig að desember og janúar ættu ekki að teljast með. Einnig ætti að fella niður júlí, ágúst og september vegna bréfs sem kærandi hafi fengið í júní út af samkeyrslu. Kærandi hafi þá hringt í Vinnumálastofnun og rætt við starfsmann sem hafi sagt honum að hann þyrfti að taka út persónuafslátt sinn og því hafi hann talið sig vera í góðum málum. Til vara fari kærandi fram á að öll upphæðin verði felld niður vegna kunnáttuleysis síns og athugunarleysis Vinnumálastofnunar.    

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. nóvember 2022. Á umsókn um atvinnuleysisbætur hafi kærandi sagst vera reiðubúinn til að hefja störf frá og með þeim degi. Engin tekjuáætlun hafi verið skráð hjá Vinnumálastofnun samhliða umsókn. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt 8. desember 2022.

Með erindi, dags. 2. október 2023, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun greiðslna og hann inntur eftir skýringum á tekjum frá febrúar 2023 til september 2023 frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Með ákvörðun, dags. 6. október 2023, hafi kæranda verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 2.499.372 kr. vegna tímabilsins frá desember 2022 til og með september 2023. Þá hafi verið óskað eftir greiðsluáætlun frá kæranda vegna Greiðslustofu lífeyrissjóða með erindi, dags. 6. október 2023, og honum tilkynnt um frestun frekari greiðslna þar til gögn bærust og hægt væri að taka afstöðu til réttar hans til greiðslna. Með ákvörðun, dags. 19. október 2023, hafi umsókn kæranda verið hafnað þar sem fyrirséð væri að áætlaðar tekjur kæranda myndu skerða atvinnuleysisbætur hans að fullu. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 17. október 2023.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um rétt launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysistrygginga. Mál þetta varði skerðingu á greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna en höfnun Vinnumálastofnun byggi á því að tekjur kæranda komi til með að skerða bætur hans að fullu. Kærandi fái reglulegar tekjur frá lífeyrissjóðum en þær greiðslur nemi ríflega 800.000 kr. á mánuði. Vinnumálastofnun beri á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að taka ákvörðun um skerðingu á atvinnuleysistryggingum vegna tekna atvinnuleitenda. Í ákvæðinu segi meðal annars:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hennar skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hennar til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hennar um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hún fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Við útreikning á skerðingu Vinnumálastofnunar sé horft til reiknireglu 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem stofnuninni sé gert að framfylgja við skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tekna. Ákvæðið feli í sér að þegar samanlagðar tekjur og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemi óskertum rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta, að viðbættu frítekjumarki, skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem séu umfram. Reikniregla sú sem birtist í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi setja upp með eftirfarandi hætti:

Þar sem kærandi sé ekki í hlutastarfi sé tryggingarhlutfall hans ekki skert og því yrði enginn munur á atvinnuleysisbótum hans og óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta. Útreikningur á skerðingu þegar atvinnuleitandi sé einungis með tilfallandi tekjur eða fjármagnstekjur og sé ekki í hlutastarfi megi því einfalda með eftirfarandi hætti:

Bótréttur kæranda sé 100% miðað við framlögð gögn og ætti hann þá rétt á fullum atvinnuleysisbótum, eða 331.298 kr. á mánuði árið 2023. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga sé 81.547 kr. Samkvæmt tekjuupplýsingum kæranda hafi hann verið með 823.285 kr. í tekjur á mánuði í október 2023 en fram að því tekjur frá 795.053 kr. upp í 820.531 kr. á mánuði á árinu 2023. Skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda yrði því eftirfarandi:

(823.285kr. - 81.547 kr.)/2 = 370.869 kr. Skerðing til kæranda myndi því nema 370.869 kr. Óskertrar grunnatvinnuleysisbætur nemi 331.298 kr. á mánuði. Skerðing sé því meiri en sem nemi rétti kæranda til atvinnuleysisbóta. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga og því hafi Vinnumálastofnun borið að hafna umsókn kæranda. 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2023, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 30. september 2023 vegna greiðslna frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða fyrir desember 2022 janúar til september 2023 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Ljóst er að þær greiðslur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna en ekki lá fyrir tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun vegna greiðslnanna. Kærandi hefur borið fyrir sig kunnáttuleysi og athugunarleysi Vinnumálastofnunar.

Þann 28. nóvember 2022 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að upplýsa þyrfti um allar breytingar á persónulegum högum inni á „Mínum síðum“ og að upplýsa þyrfti um allar tekjur. Einnig var kæranda bent á að ítarlegri upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldu sína til að tilkynna Vinnumálastofnun um framangreindar greiðslur með viðeigandi hætti. 

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun vegna framangreindra greiðslna kæranda fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2023, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta