Hoppa yfir valmynd

Nr. 392/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 392/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050051

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. maí 2019, kærði […], kt. […], ríkisborgari Serbíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2019, um að synja henni um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að synja henni um ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefin tímabundin dvalarleyfi fyrir íþróttafólk á árunum 2013, 2014 og 2015 til fimm til sjö mánaða fyrir hvert ár. Lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á sama grundvelli þann 18. maí 2016 en leyfi vegna ársins 2015 rann út þann 30. september það ár. Var kæranda í kjölfarið veitt dvalaleyfi með gildistíma til 15. nóvember2016. Þann 27. mars 2017 sótti kærandi um dvalarleyfi á sama grundvelli og fékk útgefið dvalarleyfi með gildistíma til 31. október 2017. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 23. janúar 2018. Var henni veitt dvalarleyfi á þeim grundvelli með gildistíma frá 28. apríl 2018 til 20. janúar 2019. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi fyrir íþróttafólk þann 8. mars 2019 sem útgefið var sem endurnýjun fyrra dvalarleyfis þann 4. apríl 2019 með gildistíma til 1. mars 2020. Þann 9. september 2018 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. maí 2019, synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda. Ákvörðunin var tilkynnt umboðsmanni kæranda þann 14. maí 2019. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 28. maí 2019 og þann 10. júní sl. barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að útlendingur hefði dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem gæti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Kærandi hafi fengið útgefin dvalarleyfi hér á landi í sjö skipti en þar sem kærandi hafi sótt um dvalarleyfi eftir að gildistími leyfanna hafi verið útrunninn hafi aðeins eitt leyfanna verið endurnýjun á fyrra leyfi. Uppfyllti kærandi því ekki fyrrgreint skilyrði um samfellda dvöl og var umsókn hennar því synjað.

 

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi dvalið hér á landi sem íþróttamaður síðan árið 2013. Kærandi hafi leikið knattspyrnu en einnig sinnt öðrum og fjölbreyttum starfsskyldum hjá viðkomandi íþróttafélagi við góðan orðstír. Fram kemur að vegna vanheilsu foreldra hennar hafi kærandi verið fjölskyldu sinni innan handar yfir vetrartímann en snúið aftur hingað til lands á hverju vori. Af þeim sökum hafi íþróttafélagið sótt árlega um tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi fyrir kæranda. Í greinargerðinni segir að kærandi hafi aðlagast íslensku samfélagi vel og getið sér gott orð sem knattspyrnumaður. Þá hafi hún staðist munnlegt stöðupróf í íslensku. Vinnuveitandi kæranda hafi óskað eftir starfskröftum hennar allt árið um kring og hafi kærandi því lagt fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Kærandi byggir kröfu sína á því að Útlendingastofnun hafi ekki tekið efnislega afstöðu til umsóknar hennar um ótímabundið dvalarleyfi. Vísar kærandi til þess að í athugasemdum með ákvæði 58. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga sé tiltekið það meginskilyrði að útlendingur þurfi að hafa dvalist hér á landi í samfellt fjögur ár til að öðlast ótímabundið dvalarleyfi. Í athugasemdunum segi að gert sé ráð fyrir að skemmri dvöl erlendis, t.d. vegna orlofs, starfs eða náms, leiði ekki til þess að dvölin teljist ekki samfelld. Telur kærandi ljóst af orðalagi athugasemdanna að ekki sé um tæmandi talningu að ræða á þeim ástæðum sem geti búið að baki skemmri dvöl umsækjanda erlendis. Byggir kærandi á því að dvöl hennar í heimaríki, sem hafi haft þann tilgang einan að annast foreldra sína, eigi ekki að leiða til þess að dvöl hennar hér á landi síðastliðin ár teljist ekki samfelld. Því beri að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun og veita kæranda ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Fari svo að kærunefnd fallist ekki á með kæranda að dvöl hennar í heimaríki falli undir skamma dvöl erlendis byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi falli undir ákvæði 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Í ákvæðinu séu veittar undanþágur frá skilyrðum 1. mgr. 58. gr. laganna, en umsókn kæranda hafi lotið að því hvort hún hafi átt rétt á ótímabundnu dvalarleyfi eftir styttri dvöl en fjögur ár. Í lögskýringargögnum með ákvæði 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga komi fram að undanþágan sé sett í þágu hagsmuna íslensks samfélags. Vísar kærandi til bréfs frá vinnuveitendum hennar þar sem greint er frá mikilvægi hennar fyrir íþróttafélagið.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi á hverju ári frá 2013. Á árabilinu frá 2013 til 2018 hafði kærandi þó einungis heimild til dvalar hér á landi hluta úr ári á grundvelli tímabundinna dvalarleyfa fyrir íþróttafólk sem voru útgefin henni til handa í tilgreindan mánaðarfjölda á ári. Frá 28. apríl 2018 hefur kærandi haft rétt til dvalar hér, fyrst á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki og síðar á grundvelli dvalarleyfis fyrir íþróttafólk en síðarnefnda leyfið er enn í gildi.

Fyrir liggur að bæði dvalarleyfi fyrir íþróttafólk og dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 63. gr. og 5. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi hafði ekki samfelldan rétt til dvalar hér á landi á árabilinu 2013 til 2018 er ljóst að dvöl kæranda á þeim tíma gat ekki verið samfelld. Er því ekki unnt að líta svo á að dvöl kæranda í heimaríki á hverju ári frá 2013 til 2018 hafi verið „skemmri dvöl“ enda ljóst af leyfasögu hennar að gildistímar dvalarleyfa hennar veittu henni ekki heimild til samfelldrar dvalar hér á landi. Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hún hafi dvalist samfellt hér á landi í fjögur ár skv. dvalarleyfi áður en hún lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi.

Í 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er kveðið á um heimild til að víkja frá tilteknum skilyrðum 1. mgr. í undantekningartilvikum. Samkvæmt b-lið er t.a.m. heimilt að víkja frá skilyrði um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, en undanþágan á við um útlendinga sem hafa dvalið hér á landi á grundvelli náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, eða þegar doktorsnemi hefur dvalið hér á landi í tiltekinn tíma á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. Ljóst er að ákvæðið getur ekki átt við um kæranda, sem hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis fyrir íþróttafólk, sbr. 63. gr. laga um útlendinga. Þá eiga aðrar undanþágur í 58. gr. laga um útlendinga frá skilyrði 1. mgr. ákvæðisins um samfellda dvöl ekki við í máli kæranda.

Að framangreindu virtu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                 Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta