Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 580/2022 Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 580/2022

Miðvikudaginn 22. mars 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 9. desember 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 18. maí 2022 á umsókn um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól og afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands frá 24. nóvember 2022 um lyftu í bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 4. apríl 2022, var sótt um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 18. maí 2022, var umsókn kæranda synjað og rökstuðningur veittur fyrir ákvörðuninni með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 25. maí 2022. Með umsókn, dags. 16. október 2022, var sótt um styrk til kaupa á lyftu í bifreið og fleiri tækja í bifreið. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 24. nóvember 2022, var ákvörðun vegna umsókna kæranda frestað þar sem upplýsingar skorti til þess að unnt væri að klára afgreiðslu. Með bréfi, dags. 19. desember 2022, samþykktu Sjúkratryggingar Íslands síðan styrk vegna lyftu og fleiri tækja í bifreið að undanskilinni rafknúinni festingu en í stað þess var samþykkt krókafesting. Með umsókn, dags. 15. nóvember 2022, var sótt um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. desember 2022, var umsókn kæranda synjað og rökstuðningur veittur fyrir ákvörðuninni með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 21. desember 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. desember 2022. Með bréfi, dags. 14. desember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 16. janúar 2023, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að kærandi óski eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði synjun Sjúkratrygginga Íslands á styrk til kaupa á lyftu í bifreið og rafknúnum hjólastól.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi þörf fyrir rafknúinn hjólastól og lyftu í bíl vegna færniskerðingar svo að hann komist á milli staða. Hann sé aðeins X ára gamall en sé ófær um að bjarga sér sjálfur. Eiginkona hans sé með hann heima en það sé að verða erfiðara, bæði að lyfta honum inn í bíl og vera alltaf að lyfta hjólastól inn og út úr bílnum, og kveðst hún ekki endast í því mikið lengur. Kærandi og eiginkona hans vilji því fá rafmagnshjólastól og lyftuna til að hann geti notið þeirra réttinda að geta tekið þátt í lífinu og ferðast á milli staða. Ekki sé að sjá að það sé ódýrari kostur að setja hann inn á hjúkrunarheimili sem stefni í hafi þau ekki aðgang að þeim hjálpartækjum sem þau þurfi til að geta verið heima. Eiginkona kæranda hafi einu sinni misst hann í götuna og þau eigi ekki að búa við það að vera dauðhrædd um að missa ástvini sína þegar verið sé að færa þá inn og út úr bíl þar sem þau fái neitun á beiðni um afnot af hjálpartækjum sem séu nú þegar til.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 9. desember 2022, hafi umsókn um rafknúinn hjólastól verið synjað á þeim grundvelli að reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja hafi ekki heimilað greiðsluþátttöku. Í niðurlagi bréfs hafi komið fram frekari rökstuðningur fyrir synjun:

„Umsókn um Sango Slimline rafknúinn hjólastól hefur verið skoðuð vandlega með tilliti til þarfa viðkomandi. Ekki er unnt að sjá að forsendur hafi breyst frá því umsókn dagsett 18.05.2022 var send Sjúkratryggingum (SÍ). Stofnun hefur því miður ekki heimild til að samþykkja þennan stól á grundvelli reglugerðar nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja, sbr. fyrri afgreiðslu. Umsókn er metin eftir færni og sjúkdómi umsækjanda og út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja hjá SÍ er talið að Sango Slimline rafknúinn hjólastóll með aðstoðarmannastýringu muni ekki auka sjálfstæði umsækjanda til athafna daglegs lífs né bæta færni hans.

Bent er á þann möguleika að sækja um hægindahjólastól með hjálparmótor fyrir aðstoðarmann.“

Ákvörðun vegna umsóknar um hjálpartæki í bifreið hafi verið frestað þann 24. nóvember 2022 þar sem upplýsingar hafi skort til þess að unnt væri að klára afgreiðslu umsóknar. Þann 19. desember 2022 hafi umsókn um lyftu í bifreið kæranda verið samþykkt en ekki hafi verið samþykktar rafknúnar festingar fyrir hjólastól heldur krókafestingar. Þessi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Tekið er fram að ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar gildi um hjálpartæki. Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna kveði á um að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji.

Í 2. mgr. 26. gr. sé hjálpartæki í skilningi laganna skilgreint sem tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig komi fram að hjálpartækið verði að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja sé sett með stoð í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að hjálpartæki sé tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Sjúkratryggingum Íslands sé falið að gera einstaklingsbundið mat vegna hverrar umsóknar og taka ákvörðun á grundvelli gildandi laga og reglugerða.

Farið hafi verið yfir umsókn kæranda á sínum tíma og framkvæmt einstaklingsbundið mat vegna hennar.

Umsókn um lyftu í bifreið, auk fleiri tækja í bifreið kæranda, hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 16. október 2022. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi ákvörðun verið frestað þar sem nauðsynlegar upplýsingar hafi skort til þess að unnt væri að klára afgreiðsluna. Ljóst hafi orðið við afgreiðslu umsóknar um hjálpartæki í bifreið að rafknúinn hjólastóll yrði ekki samþykktur og hafi því verið litið svo á að með þeim einfalda hjólastól sem kærandi  hafi áður haft myndi skábraut duga. Þegar ljóst hafi verið að kærandi ætti rétt á hægindahjólastól með hjálparmótor fyrir aðstoðarmann hafi Sjúkratryggingar Íslands samþykkt að greiða fyrir lyftubúnað í stað skábrautar. Þann 19. desember 2022 hafi umsóknin verið samþykkt að mestu, að undanskilinni Dahl Docking station, rafknúinni festingu, sem hafi verið synjað á þeim grundvelli að reglugerð heimilaði ekki greiðsluþátttöku, en í stað hennar hafi verið samþykkt krókafesting. Rafknúin festing fyrir hjólastól auki, að mati Sjúkratrygginga Íslands, ekki sjálfsbjargargetu umsækjanda, sbr. ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 760/2021, og því ekki nauðsynleg. Festing í einhverri mynd sé nauðsynleg til þess að tryggja öryggi hjólastólanotenda í bifreiðum og uppfylli krókafesting þau skilyrði sem gerð séu um örugga festingu á hjólastól í bifreið samkvæmt ákvæðum sem fram komi í reglugerð Samgöngustofu nr. 822/2004. Lyfta hafi því þegar verið samþykkt í bifreið kæranda.

Í rökstuðningi með umsókn um rafknúinn hjólastól frá 15. nóvember 2022 komi fram um sjúkdómsástand kæranda að hann sé að takast á við fjölþætta færniskerðingu vegna […] sem hafi áhrif á vitræna getu og hreyfigetu. Hann sé oft ófær um að stýra hjólastól sjálfur og fái aðstoð þegar hann ráði ekki við það. Hann sé fær um að gefa til kynna þegar honum líði ekki vel og hvert hann vilji komast. Þá þurfi hann sólarhringsaðstoð við alla daglega iðju.

Í fyrri umsókn frá 4. apríl 2022 hafi komið fram að kærandi gangi ekki lengur, tali ekki og þurfi manneskju með sér á öllum tímum sólarhrings. Í gátlista með umsókninni komi fram að færni kæranda sé engin og hann þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Kærandi geti ekki flutt sig í eða úr stólnum án aðstoðar, hann geti ekki gætt að sér og skynjað hættu. Þá sé sjón, fjarlægðarskyn og ratvísi kæranda engin, handafærni hans sé engin, auk þess að stólnum verði stjórnað af þeim sem keyri hann. Þá komi einnig fram að eiginkona kæranda muni stjórna stólnum og sjá um allt tengt honum þar sem að kærandi hafi ekki færni til þess.

Umsókn um Sango Slimline rafknúinn hjólastól með aðstoðarmannsstýringu hafi verið synjað 9. desember 2022. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafi borist hafi ekki verið talið að slíkur stóll myndi auka sjálfsbjargargetu kæranda. Af rökstuðningi sjúkraþjálfara megi sjá að kærandi sjálfur muni ekki geta nýtt hjálpartækið án aðstoðar.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 760/2021 sé hjálpartæki tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar séu styrkir vegna hjálpartækja greiddir til þess að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs og sé einkum um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis. Í kafla 12 23 reglugerðarinnar segi enn fremur að rafknúinn hjólastóll sé samþykktur vegna skaða, sjúkdóms og verulegrar minnkunar á almennri færni sé talið nauðsynlegt og hentugt að bæta möguleika viðkomandi til að annast daglegar athafnir sínar. Matið byggist fyrst og fremst á því hvort viðkomandi hafi skertan kraft í handleggjum eða hvort handafærni muni skaðast við not á handdrifnum hjólastól. Enn fremur sé tekið tillit til heildargetu einstaklingsins.

Þá segir að kærandi þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og af rökstuðningi sé ekki hægt að sjá að rafknúinn hjólastóll muni auka sjálfsbjargargetu hans. Ljóst sé af þeim upplýsingum sem hafi fylgt umsókn að færni kæranda sé mjög skert og auk þess komi fram að eiginkona kæranda muni stjórna stólnum og sjá um allt honum tengt þar sem kærandi hafi ekki færni til þess. Að mati Sjúkratrygginga Íslands muni rafknúinn hjólastóll því ekki auka sjálfsbjargargetu hans og færni við athafnir daglegs lífs.

Þegar farið sé yfir umsókn kæranda um rafknúinn hjólastól og þann rökstuðning sem hafi fylgt, sé ekki að sjá að umsókn uppfylli þau skilyrði sem sett séu í reglugerð nr. 760/2021.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021 skuli hjálpartæki vera nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs og leiða til aukinnar sjálfsbjargargetu. Kærandi þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og ekki sé að sjá að rafknúinn hjólastóll muni auka sjálfsbjargargetu hans. Líkt og fram hafi komið í svarbréfi sé bent á þann möguleika kæranda að sækja um hægindahjólastól með hjálparmótor fyrir aðstoðarmann. Slíkur stóll, auk þeirra hjálpartækja í bifreið kæranda sem þegar hafi verið samþykkt, myndi að mati Sjúkratrygginga duga til þess að kærandi komist öruggur á milli staða.

Af þeim rökstuðningi sem hafi borist muni rafknúinn hjólastóll að mati Sjúkratrygginga ekki auka sjálfsbjargargetu kæranda og sé því ekki nauðsynlegur í skilningi reglugerðar nr. 760/2021.

Það sé því mat Sjúkratrygginga Íslands að með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól og afgreiðslu stofnunarinnar á styrk til kaupa á lyftu í bifreið. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni tóku Sjúkratryggingar Íslands nýja ákvörðun vegna umsóknar um lyftu og tæki í bifreið þar sem allur búnaður var samþykktur nema rafknúin festing en þess í stað samþykkt krókafesting. Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um sjúkratryggingar, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Sjúkratrygginga Íslands. Sjúkratryggingar Íslands hafa nú samþykkt greiðsluþátttöku vegna lyftu í bifreið kæranda og verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi sé ósáttur við niðurstöðuna. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar varðandi lyftubúnað í bifreið er þeim hluta kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur sé ekki greiddur sé hjálpartæki eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar, þar á meðal útivistar og íþrótta.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar.

Í umsókn kæranda kemur fram að sótt sé um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með mótorstýringu (pinna) samkvæmt lið 12 23 06 í fylgiskjali með reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja. Flokkur 12 í fylgiskjalinu fjallar um ferlihjálpartæki og hjálpartæki við flutning. Í flokki 12 23 er fjallað um rafknúna hjólastóla og þar segir meðal annars:

„Rafknúnir hjólastólar eru einungis drifnir með rafgeymum, hámarkshraði takmarkast við 10 km/klst. Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þá ef þeir leiða til aukinnar/bættrar færni. Rafknúinn hjólastóll er samþykktur vegna skaða, sjúkdóms og verulegrar minnkunar á almennri færni ef talið er nauðsynlegt og hentugt að bæta möguleika viðkomandi til að annast daglegar athafnir sínar. Skilyrði er að fyrir liggi mat heilbrigðisstarfsmanns, t.d. iðjuþjálfa eða sjúkraþjálfara, á þörf fyrir rafknúinn hjólastól. Matið byggist fyrst og fremst á hvort viðkomandi hafi skertan kraft í handleggjum eða hvort handarfærni muni skaðast við not á handdrifnum hjólastól. Enn fremur er tekið tillit til heildargetu einstaklingsins. Rafknúnir hjólastólar eru að jafnaði greiddir ef viðkomandi getur ekki notað handdrifinn hjólastól eða komist lengri ferðir á handdrifnum hjólastól. Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvaða rafknúnir hjólastólar, hleðslutæki og rafgeymar eru keyptir í hverju tilviki og úthlutar þeim síðan til notkunar meðan þörf einstaklingsins er fyrir hendi..“

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda á þeirri forsendu að rafknúinn hjólastóll með aðstoðarmannsstýringu myndi ekki auka sjálfstæði kæranda til athafna daglegs lífs eða bæta færni hans. Var kæranda bent á þann möguleika að sækja um hægindahjólastól með hjálparmótor fyrir aðstoðarmann.

Í umsókn kæranda um rafknúinn hjólastól, dags. 15. nóvember 2022, útfylltri af C iðjuþjálfa, eru sjúkdómsgreiningar kæranda […]. Sjúkrasögu kæranda er lýst svo:

„A er með […]. Færni hans hefur farið hratt aftur og sjálfsbjargargeta við adl orðin mjög skert vegna vitrænnar skerðingar og verkstols.“

Um rökstuðning fyrir hjálpartækinu segir svo:

„Þau eru búin að kaupa stólinn en óska eftir styrk frá Sjúkratryggingum fyrir kostnaði. A er að takast á við fjölþætta færniskerðingu vegna […] sem hafa áhrif á vitræna getu og hreyfigetu. Hann er oft ófær um að stýra hjólastól sjálfur, færni betri fyrri part dags en svo fær hann aðstoð þegar hann ræður ekki við þá iðju. Hann er fær um að gefa til kynna þegar honum líður ekki vel með orðum og hegðun og hvert hann vill komast. Hann notar rafmagnshjólastólinn daglega sem hefur einfaldað daglegt líf til muna og verið mikið þarfaþing þar sem hann fer í dagþjálfun í öðru sveitarfélagi vikulega og þarf sólarhringsaðstoð við alla daglega iðju. Óskað er eftir að Sjúkratryggingar samþykki þörf hans fyrir stólnum sem hefur skapað tækifæri fyrir hann að komast ferða sinna í þjálfun og læknisþjónustu eftir þörfum.“

Í læknisvottorði D heimilislæknis, dags. 17. október 2022, segir um sjúkdómsástand kæranda:

„A er X ára gamall maður með mjög alvarlega og hratt versnandi […] með miklum hreyfitruflunum og málstoli og […]. Einnig fyrri saga um […]). Hratt versnandi einkenni, algerlega bundinn við rafmagnshjólastól og hreyfigeta orðin nánast engin. Hann þarf fulla/algera umönnun og hjúkrun sem eiginkona hans sinnir. Er engan veginn fær um að komast úr stól í bíl, jafnvel með aðstoð. Þarnast nauðsynlega sérútbúins bíls með þar til gerðum lyftubúnaði fyrir stólinn.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól. Við það mat lítur úrskurðarnefndin til allra fyrirliggjandi gagna um aðstæður kæranda og metur þær með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti. Í umsókn, dags. 15. nóvember 2022, kemur fram að kærandi sé að takast á við fjölþætta færniskerðingu vegna […] sem hafa áhrif á vitræna getu og hreyfigetu. Hann sé oft ófær um að stýra hjólastól sjálfur, færni sé betri fyrri part dags en svo fái hann aðstoð þegar hann ráði ekki við þá iðju. Í fyrirliggjandi læknisvottorði, dags. 17. október 2022, kemur fram að einkenni séu hratt versnandi, kærandi sé algerlega bundinn við sinn rafmagnshjólastól og hreyfigeta sé orðin nánast engin. Hann þurfi fulla/algera umönnun og hjúkrun sem eiginkona hans sinni. Þá kemur fram í gátlista með umsókn á rafknúnum hjólastól, útfylltum af E, dags. 11. maí 2022, að færni kæranda sé engin, hann þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs, sé nánast hættur að tala og fari allra sinna ferða í hjólastól. Fram kemur að hjálpartækið verði notað af eiginkonu kæranda heima við og eins mikið og þau þurfi við athafnir daglegs lífs.

Úrskurðarnefndin lítur til þess að skilyrði fyrir styrk til kaupa á hjálpartæki samkvæmt orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 er að hjálpartækið teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir dagslegs lífs. Við mat á því hvort framangreind skilyrði séu uppfyllt ber meðal annars að líta til markmiða laga nr. 112/2008, 1. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá metur nefndin hvort notkun hjálpartækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði kæranda í víðtækum skilningi í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.

Af 26. gr. laga um sjúkratryggingar leiðir að stjórnvöldum er skylt að leggja á það einstaklingsbundið og heildstætt mat hverju sinni hvort skilyrði séu til að fallast á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga til kaupa á hjálpartæki, með tilliti til þeirra markmiða sem búa að baki ákvæðinu. Ákvæðið kveður meðal annars á um að hjálpartæki sé tæki sem meðal annars sé ætlað að auðvelda umönnun.

Af framangreindri lýsingu á færni kæranda má ráða að kærandi sé ógöngufær og notist við hjólastól. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og færni hans er mjög skert og mun hann ekki geta stjórnað rafknúnum hjólastól sjálfur heldur yrði honum stjórnað af eiginkonu hans. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála myndi rafknúinn hjólastóll eflaust koma sér vel fyrir kæranda og eiginkonu hans og auðvelda þeim að komast á milli staða. Sjúkratryggingar Íslands hafa bent þeim á þann möguleika að sækja um hægindahjólastól með hjálparmótor fyrir aðstoðarmann. Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands er bundin ákveðnum skilyrðum samkvæmt 26. gr. laga um sjúkratryggingar. Úrskurðarnefndin fær ekki ráðið, með hliðsjón af því að færni kæranda er nánast engin, að rafknúinn hjólastóll væri til þess fallinn að auka sjálfstæði kæranda, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá verður hvorki ráðið af gögnum málsins að rafknúinn hjólastóll sé kæranda nauðsynlegur til að bæta möguleika hans til að annast daglegar athafnir sínar, draga úr fötlun hans né að auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu, líkt og áskilið er í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008. Úrskurðarnefndin telur því að skilyrði fyrir greiðslu styrks til kaupa á rafknúnum hjólastól séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól, er staðfest. Þeim hluta kæru er lýtur að lyftubúnaði fyrir hjólastól í bifreið, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta