Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 302/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 302/2015

Miðvikudaginn 25. maí 2016

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. október 2015, kærði B hrl. f.h., dánarbús A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júlí 2015, um endurreikning og uppgjör ofgreiddra bóta á árinu 2014.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

A lést þann X og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hennar. Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2014 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að hinni látnu hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.789.335 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 21. júlí 2015, fór Tryggingastofnun fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta hjá kæranda. Óskað var eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 29. júlí 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. september 2015, var rökstuðningur stofnunarinnar veittur.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 19. október 2015. Með bréfi, dags. 20. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 4. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að dánarbúið krefjist þess að Tryggingastofnun felli niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta að fjárhæð 1.789.335 kr.

Fram kemur í kæru að A hafi látist þann X. Þann 21. júlí 2015 hafi borist bréf frá Tryggingastofnun þar sem tilkynnt hafi verið um endurreikning greiðslna vegna ársins 2014 á grundvelli skattframtals ársins 2015. Endurreikningurinn byggi á upplýsingum um að hin látna hafi verið með tekjur frá lífeyrissjóði á árinu 2014 sem ekki hafi verið getið um í tekjuáætlun. Erfingjar hinnar látnu hafi ekki upplýsingar um tekjur hennar á árinu 2014, heldur aðeins upplýsingar um eignir hennar í árslok þess árs. Miðað við þær upplýsingar séu ekki merki um háar inngreiðslur á reikninga hinnar látnu í desember 2014, en upplýsingar skorti um það hvernig hafi verið staðið að þessum greiðslum, fjárhæð þeirra, hver hafi móttekið þær, hvenær o.s.frv.

Leyfi til einkaskipta hafi verið gefið út þann 12. október 2015 og umboð veitt til að afla upplýsinga frá umræddum lífeyrissjóði og öðrum sem hafi upplýsingar um hagi hinnar látnu. Einkaskiptaleyfi hafi borist erfingjum þann 16. október 2015 og þá fyrst hafi verið grundvöllur fyrir erfingja til að kynna sér málavöxtu. Kæran hafi verið send inn til þess að rjúfa kærufrest og fyrirbyggja réttarspjöll. Áskilinn sé réttur til að falla frá henni síðar ef ástæða þyki til, eða að koma að frekari rökstuðningi, eftir því sem ástæða þyki til, þegar frekari upplýsingar liggi fyrir.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2014.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi það hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og honum beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 2. mgr. 52. gr. sömu laga en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta framhjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Hin látna hafi notið endurhæfingarlífeyris og tengdra greiðslna frá 1. janúar 2014 til 31. maí 2014. Hún hafi svo notið örorkulífeyris og tengdra greiðslna frá 1. júní 2014 til 31. desember 2014. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 1.789.335 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Andmæli hafi borist við uppgjöri kæranda, dags. 29. júlí 2015, og þeim hafi verið svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 7. september 2015.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda hafi verið sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2015 vegna tekjuársins 2014 hafi farið fram, hafi komið í ljós að tekjur hinnar látnu hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

Hinni látnu hafi verið send tekjuáætlun vegna ársins 2014 með bréfi, dags. 24. janúar 2014, þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að hún hefði 42.000 kr. í fjármagnstekjur á árinu og engar aðrar tekjur. Þegar hún hafi byrjað að þiggja örorkulífeyri og tengdar greiðslur hafi henni verið send tekjuáætlun að nýju þann 12. júní 2014 þar sem fram hafi komið sömu upplýsingar. Hún hafi ekki gert athugasemdir við tillögu Tryggingastofnunar. Við bótauppgjör ársins 2014 hafi komið í ljós að hún hafi verið með lægri fjármagnstekjur en gert hafi verið ráð fyrir eða 34.282 kr. Einnig hafi komið í ljós að lífeyrissjóðstekjur hennar hafi verið 4.686.019 kr. en ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim í tekjuáætlun.

Tryggingastofnun sé lögum samkvæmt skylt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa framhjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, líkt og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig verið staðfest af dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2014 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt 2.652.567 kr. en hefði átt að fá greiddar 479.756 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 1.789.335 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með vísan til ofanritaðs telji Tryggingastofnun ekki vera forsendur til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni. Tryggingastofnun vekji að lokum athygli á því sem fram komi í bréfi stofnunarinnar þann 7. september 2015. Ef óskað sé eftir breytingum á framtölum hjá RSK og tekjur séu fluttar á þau ár sem þær tilheyri þá geri Tryggingastofnun ný uppgjör á viðkomandi ár. Þó geti það haft þau áhrif að kröfur myndist á þau ár.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum vegna ársins 2014.

Hin látna naut endurhæfingarlífeyris og tengdra greiðslna frá 1. janúar 2014 til 31. maí 2014. Hún naut svo örorkulífeyris og tengdra greiðslna frá 1. júní 2014 til 31. desember 2014. Umsækjanda og greiðsluþega er skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra, sbr. 2. mgr. 52. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eins og ákvæðið hljóðaði fyrir 1. febrúar 2014, sbr. núgildandi 39. gr. laganna. Þá kemur fram í framangreindum ákvæðum að umsækjanda og greiðsluþega sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Þá er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum o.fl., sbr. 2. mgr. 52. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eins og ákvæðið hljóðaði fyrir 1. febrúar 2014, sbr. núgildandi 40. gr. laganna. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Sá endurreikningur sem ágreiningur þessa máls snýst um leiddi í ljós að hin látna hefði fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð 1.789.335 kr. að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Tekjuáætlun hennar vegna ársins 2014 liggur fyrir í gögnum málsins en samkvæmt henni var aðeins gert ráð fyrir því að hin látna hefði 42.000 kr. í fjármagnstekjur. Hin látna gerði ekki athugasemdir við tekjuáætlun þessa. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali hennar vegna tekjuársins 2014 reyndust fjármagnstekjur vera lægri en gert hafði verið ráð fyrir eða 34.282 kr. Hins vegar kom í ljós að hún hafði fengið lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 4.686.019 kr. á árinu, en ekki hafði verið gert ráð fyrir þeim í tekjuáætlun.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tekjutengingu lífeyristrygginga. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Eins og áður hefur verið rakið reyndust lífeyrissjóðstekjur hinnar látnu á árinu 2014 töluverðar en tekjuáætlun hafði ekki gert ráð fyrir neinum lífeyrissjóðstekjum. Í 2. mgr. áðurnefndrar 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Það liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að tekjuáætlun hinnar látnu gerði ekki ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum en skattframtal vegna tekjuársins 2014 sýndi fram á töluverðar tekjur. Þá liggur einnig fyrir að um er að ræða tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt. Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. þágildandi 52. gr. laga um almannatryggingar og núgildandi 39. gr. laganna. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bótagreiðslur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnunin lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og eftir atvikum innheimta ofgreiddar bætur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja kæranda um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2014.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja dánarbú A, um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2014 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta