Mál nr. 360/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 360/2015
Miðvikudaginn 25. maí 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. desember 2015 um upphafstíma greiðslu barnalífeyris.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 2. nóvember 2015, sótti kærandi um barnalífeyri með dóttur sinni frá fæðingu hennar X. Með bréfi, dags. 1. desember 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að umsókn hans um barnalífeyri hefði verið samþykkt frá 1. desember 2013 til 31. desember 2015.
Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 15. desember 2015. Með bréfi, dags. 16. desember 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 23. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að fá greiddan barnalífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár eða allt frá fæðingardegi barns síns sem fæðst hafi X.
Kærandi kveðst hafa sótt um barnalífeyri vegna dóttur sinnar og hann hafi fengið tafarlaust greiddar bætur tvö ár aftur í tímann. Hann velti þó fyrir sér af hverju hann fái ekki greitt frá fæðingu dóttur sinnar. Kærandi kveðst ekki hafa haft vitneskju um að hann ætti rétt á þessum bótum. Tryggingastofnun hafi ekki sent kæranda tilkynningu þess efnis að hann ætti rétt á þessum greiðslum og sé hann nú tveimur árum of seinn að sækja um þessar greiðslur samkvæmt Tryggingastofnun.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé upphafstími greiðslna barnalífeyris.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. desember 2015, hafi verið samþykkt að greiða barnalífeyri með dóttur kæranda frá 1. desember 2013 til 31. desember 2015. Kærandi hafi óskað eftir greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en átján ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram.
Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé það skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur.
Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í 2. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist.
Kærandi hafi verið með gilt örorkumat vegna slyss síðan X. Hann hafi sótt um barnalífeyri með dóttur sinni með umsókn, dags. 2. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 1. desember 2015, hafi umsókn kæranda verið samþykkt tvö ár aftur í tímann eða frá 1. desember 2013 til 31. desember 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. desember 2015, hafi síðan verið samþykktur áframhaldandi barnalífeyrir með dóttur kæranda frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2019, eða þangað til örorkumat kæranda renni út.
Kærandi telji að hann eigi rétt til greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann þar sem upplýsingaskylda Tryggingastofnunar um rétt kæranda til barnalífeyris hafi verið vanrækt. Réttindi og skilyrði greiðslna barnalífeyris séu bundin í lögum og lagatúlkun. Í 1. mgr. 52. gr. og 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga komi fram að það þurfi að sækja um bætur skriflega og ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum.
Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga skuli bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, aldrei úrskurðaðir lengra aftur í tímann en tvö ár frá því umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu barnalífeyris hafi Tryggingastofnun komið eins langt til móts við kröfur hans og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við kröfum kæranda sem settar séu fram í kæru hans um greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann en greitt hafi verið.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2015, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri var samþykkt frá 1. desember 2013. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða barnalífeyri lengra aftur í tímann.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en átján ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Kærandi, sem er örorkulífeyrisþegi, á rétt á greiðslu barnalífeyris, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar.
Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir svo:
„Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum.“
Samkvæmt framangreindu er barnalífeyrir vegna framfærslu barna ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur með umsókn.
Um upphafstíma greiðslna almannatrygginga er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Þágildandi 2. mgr. 53. gr. laganna, sbr. nú 4. mgr. 53. gr., hljóðaði svo:
„Bætur, aðrar en slysalífeyrir, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.“
Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni. Kærandi sótti um greiðslur barnalífeyris með umsókn, dags. 2. nóvember 2015, og voru honum reiknaðar bætur frá 1. desember 2013. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann, þ.e. miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að bótaréttur var fyrir hendi, samkvæmt þágildandi 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Engar heimildir eru til þess að greiða bætur lengra aftur í tímann.
Kærandi byggir á því að upplýsingaskylda Tryggingastofnunar um rétt kæranda til barnalífeyris hafi verið vanrækt. Engin gögn liggja fyrir um það. Þá virðist kærandi hafa sótt um barnalífeyri vegna eldri barna sinna. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því ekki á að til álita komi að breyta hinni kærðu ákvörðun á þeim grundvelli að Tryggingastofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningaskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna barnalífeyris staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, frá 1. desember 2015, um upphafstíma greiðslna barnalífeyris til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir