Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 363/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 363/2015

Miðvikudaginn 25. maí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. desember 2015, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. nóvember 2015, um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins hefur annast milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda vegna barns hennar frá 1. nóvember 2008. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. nóvember 2015, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði móttekið upplýsingar um að barn hennar væri búsett hjá meðlagsgreiðanda. Því yrðu greiðslur til hennar stöðvaðar frá og með 1. desember 2015 í samræmi við 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðanda og annarra framfærsluframlaga. Af hálfu kæranda var þeirri ákvörðun mótmælt og stofnuninni veittar skýringar á aðstæðum hennar með bréfum, dags. 13. nóvember 2015 og 4. desember 2015. Með bréfum, dags. 25. nóvember 2015 og 11. desember 2015 var kæranda tilkynnt að framangreind ákvörðum um stöðvun meðlags stæði óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 18. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. janúar 2016, þar sem farið var fram á frávísun málsins hjá úrskurðarnefndinni á þeirri forsendu að stofnunin hygðist rannsaka málið nánar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. janúar 2016, var óskað eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar. Með bréfi kæranda, dags. 14. janúar 2016, var frávísunarkröfu Tryggingastofnunar mótmælt. Þann 3. febrúar 2016 barst efnisleg greinargerð Tryggingastofnunar þar sem frávísunarkrafa stofnunarinnar var dregin til baka. Var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2016. Viðbótargögn bárust frá kæranda 10. febrúar 2016 og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Þá bárust athugasemdir frá kæranda með bréfi, dags. 17. febrúar 2016, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. febrúar 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.    

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin felli ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins úr gildi þannig að meðlagsgreiðslur til hennar verði óbreyttar. Kærandi fer einnig fram á að úrskurðarnefndin kveði á um að lögmannskostnaður hennar verði greiddur af Tryggingastofnun.

Kærandi greinir frá því að hún stundi nám erlendis, tímabundið, og þurfi námsins vegna að dvelja erlendis í afmarkaðan tíma fá skipti á ári yfir vetrartímann. Hún hafi samið við barnsföður sinn um að breyta umgengni barnsins þannig að það myndi dvelja meira hjá honum á þeim tíma. Þau hafi hins vegar hvorki samið um breytingu á meðlagsgreiðslum né framfærslu barnsins. Barn hennar dvelji ekki síður áfram á lögheimili sínu, á lögheimili móður, ásamt eldri systkinum sínum, komi þangað daglega og gisti líkt og á heimili föður. Kærandi sé búsett með börnum sínum á lögheimili sínu fyrir utan þau stuttu tímabil sem hún sæki nám erlendis. Þannig hafi hún og barn hennar fasta bækistöð á lögheimili þeirra, þau dvelji þar að jafnaði í tómstundum og hafi þar heimilismuni sína og persónulegar eigur að mestum hluta til. Barnið sé enn á hennar framfæri, hún sjái um að kaupa helstu nauðsynjar fyrir barnið, sjái alfarið um fatakaup og borgi frístundir barnsins. Því eigi bæði heimili kæranda og barns hennar að vera áfram skráð á sama lögheimili og áður í samræmi við 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili.

Kærandi mótmælir þeirri afstöðu Tryggingastofnunar að ákvæði 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 sé uppfyllt í málinu. Engin gögn liggi fyrir sem stofnunin geti byggt á í því skyni að stöðva meðlagsgreiðslur til kæranda. Þá hafi stofnunin ekki upplýst um hvað sé lagt til grundvallar sem upplýsingar um að hún búi erlendis, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, og þar með þverbrotið reglur stjórnsýsluréttarins. Ekki síst þar sem kærandi hafi þverneitað að vera búsett erlendis og sé þar að auki bæði með aðsetur og lögheimili skráð hér á landi. Kærandi telur óásættanlegt að meðlagsgreiðslur séu felldar niður eingöngu vegna þess að umgengni barnsins við föður sé aukin tímabundið, fyrst frá október til desember 2015 og síðan frá janúar til maí 2016, enda liggi fyrir nýr meðlagsúrskurður sýslumanns sem gildi um greiðsluskyldu meðlagsgreiðanda.

Kærandi bendir á að í bréfi Tryggingastofnunar frá 25. nóvember 2015 sé fullyrt að stofnunin hafi upplýsingar um að barn hennar sé búsett hjá meðlagsgreiðanda án frekari skýringa. Þannig virðist ekki vera gert ráð fyrir að barnið njóti umgengni við föður, jafnvel helming tímans, þrátt fyrir að búseta í efni sínu eða lögheimili og þar með framfærsla barnsins sé óbreytt. Það sé ekki í neinu samræmi við meginreglur barnalaga þar sem gert sé ráð fyrir að barn geti búið jafnt hjá foreldrum sínum jafnvel þótt meðlagsgreiðsluskylda sé til staðar, enda sé lögheimilisforeldrinu ætlað að annast meginframfærslu barnsins. Á árinu 2015 hafi lögheimili barns kæranda verið hjá henni og líka dvalarstaður meirihluta ársins. Það sama muni eiga við um árið 2016. Barn kæranda sé því ekki búsett hjá meðlagsgreiðanda og því engar forsendur fyrir breyttum meðlagsgreiðslum. Þá gerir kærandi athugasemd við að Tryggingastofnun hafi ekki gætt andmælaréttar hennar áður en ákvörðun um stöðvun meðlagsgreiðslna hafi verið tekin.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hygðist taka mál kæranda til nýrrar meðferðar og því farið fram á frávísun málsins hjá úrskurðarnefndinni. Óskað hafi verið eftir staðfestum gögnum um hvernig námi kæranda væri háttað, þ.e. hvenær og hversu mikið hún þyrfti að dvelja erlendis til að stunda það, og hvar dvalarstaður dóttur hennar væri á meðan. Þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist hafi stofnunin dregið frávísunarkröfu sína til baka.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar komi fram að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Samkvæmt 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærslulaga falli meðlagsgreiðslur niður þegar barn flytji af heimili meðlagsmóttakanda. Þá komi fram í 5. tölul. 8. gr. reglugerðarinnar að meðlagsgreiðslur falli niður þegar meðlagsmóttakandi og/eða barn séu búsett erlendis.

Tekið er fram að Tryggingastofnun hafi haft milligöngu um meðlag með barni kæranda frá 1. nóvember 2008. Í október 2015 hafi stofnuninni borist upplýsingar um að kærandi væri farin í nám erlendis og barn hennar væri búsett hjá föður sínum. Því hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda að stofnunin myndi stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna frá 1. desember 2015. Ekki sé unnt að líta fram hjá skýrum ákvæðum reglugerðar nr. 945/2009 um að meðlagsgreiðslur skuli falla niður þegar barn búi ekki lengur hjá meðlagsmóttakanda og þegar meðlagsmóttakandi sé búsettur erlendis. Í gögnum málsins komi skýrt fram að kærandi stundi nám erlendis og að barn hennar dvelji nú hjá nágrönnum en hafi áður verið hjá föður sínum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að um tímabundið nám og tímabundna viðveru erlendis væri að ræða líkt og hún haldi fram, þrátt fyrir beiðni þar um, sbr. bréf Tryggingastofnunar frá 6. janúar 2016.

Með vísan til alls framangreinds telji Tryggingastofnun því að rétt hafi verið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá 1. desember 2015. Þá tekur stofnunin fram að ekki sé heimild til að greiða kæranda kostnað vegna kærumálsins.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2015, um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Í reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga er nánar kveðið á um framkvæmd Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslum. Samkvæmt 2. tölul. 8. gr. reglugerðarinnar skulu meðlagsgreiðslur falla niður ef barn flytur af heimili meðlagsmóttakanda eða er af öðrum ástæðum ekki lengur á framfæri meðlagsmóttakanda. Þá kemur fram í 5. tölul. 8. gr. reglugerðarinnar að greiðslur skuli falla niður ef meðlagsmóttakandi og/eða barn eru búsett erlendis.

Tryggingastofnun hefur annast milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda á grundvelli framangreindra laga- og reglugerðarákvæða frá 1. nóvember 2008. Greiðslur til kæranda voru stöðvaðar frá og með 1. desember 2015 á þeirri forsendu að barn hennar væri búsett hjá meðlagsgreiðanda. Samkvæmt gögnum málsins virðist ákvörðun Tryggingastofnunar hafa verið tekin í kjölfar ábendinga meðlagsgreiðanda um að barnið væri búsett hjá honum. Tryggingastofnun virðist ekki hafa rannsakað hvort ábendingar meðlagsgreiðanda ættu við rök að styðjast áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var kæranda ekki gefinn kostur á að tjá sig um efni máls áður en stofnunin tók ákvörðunina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Hvað varðar kröfu kæranda þess efnis að úrskurðarnefndin kveði á um að lögmannskostnaður hennar verði greiddur af Tryggingastofnun skal tekið fram að í lögum nr. 100/2007 er ekki að finna ákvæði sem heimilar Tryggingastofnun ríkisins að greiða málsaðilum kostnað sem tilkominn er vegna kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar. Að því virtu er þeirri kröfu kæranda hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til A, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Kröfu kæranda um lögmannskostnað er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta