Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. júní 2021
í máli nr. 18/2021:
Rafiðnaðarsamband Íslands og
Iðnfræðingafélag Íslands
gegn
Mýrdalshreppi

Lykilorð
Stöðvun samningsgerðar. Útboðsgögn. Ólögmætur skilmáli.

Útdráttur
Fallist var á kröfu kærenda um að útboð um hönnun leikskóla yrði stöðvað um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. maí 2021 kærðu Rafiðnaðarsamband Íslands og Iðnfræðingafélag Íslands útboð Mýrdalshrepps nr. 20213 auðkennt „Mánalind leikskóli“. Kærendur krefjast þess að hið kærða útboðsferli verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er þess aðalllega krafist að felldur verði niður skilmáli í grein 6.1 í útboðsgögnum þar sem „gerð er sú lágmarkskrafa að hönnuður á sviði raflagna skuli vera verk- eða tæknifræðimenntaður.“ Til vara er þess krafist að hið kærða útboð verði fellt úr gildi og „að lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa útboð á nýjan leik án hins ólögmæta skilyrðis til hönnuða á sviði raflagna.“ Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að sjálfkrafa stöðvun útboðs verði aflétt og að öllum kröfum kærenda verði hafnað eða vísað frá. Auk þess krefst hann þess að „kærandi greiði málskostnað sem rennur til ríkissjóðs.“ Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Í maí 2021 óskaði varnaraðili Mýrdalshreppur eftir tilboðum í fullnaðarhönnun á nýju leikskólahúsnæði í sveitarfélaginu. Í útboðsgögnum kom fram að markmið útboðsins væri að velja hönnunarteymi sem samanstæði meðal annars af ýmsum sérfræðingum sem skilgreindir voru sem lykilaðilar, þ.á m. hönnuðum á sviði raflagna og lýsingar. Í grein 6.1 í útboðsgögnum kom fram að bjóðandi skyldi í tilboð sínu veita upplýsingar um þá sérfræðinga sem mynduðu hönnunarteymi bjóðenda. Kom meðal annars fram að hönnuður á sviði raflagna skyldi fullnægja þeirri lágmarkskröfu að vera verk- eða tæknifræðimenntaður og hafa að lágmarki fimm ára starfsreynslu sem löggiltur raflagnahönnuður og vera skráður á lista Mannvirkjastofnunar sem hönnuður. Með tölvubréfi 19. maí 2021 gerðu kærendur athugasemdir við þá kröfu greinar 6.1 að hönnuður á sviði raflagna skyldi vera verk- eða tæknifræðimenntaður og fóru fram á að breyting yrði gerð á skilmálum útboðsins að þessu leyti. Með tölvubréfi varnaraðila daginn eftir var upplýst um að ekki yrði orðið við kröfum kærenda.

Kærendur byggja að meginstefnu á því að krafa greinar 6.1 í útboðsskilmálum um að hönnuðir raflagna skuli vera verk- eða tæknifræðimenntaðir sé ólögmæt og gangi lengra en nauðsynlegt er. Krafan hafi það í för með sér að rafiðnfræðingar, sem hafi menntun og löggildingu til að sinna hönnun raflagna samkvæmt lögum nr. 160/20210 um mannvirki, séu útilokaðir frá þátttöku í hinu kærða útboði þar sem þeir séu ekki verk- eða tæknifræðimenntaðir. Varnaraðil beri sönnunarbyrðina fyrir því að nauðsynlegt sé að gera umrædda kröfu sem gangi lengra en leiði af lögum.

Varnaraðili byggir meðal annars á því að rafiðnfærðingar séu ekki útilokaðir frá hönnun leikskólans, en þeir geti hins vegar ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar séu til lykilaðila þar sem krafa sé gerð um að þeir séu verk- eða tæknifræðimenntaðir. Það sé réttlætanlegt að gera ríkari kröfur til lykilmanna við hönnun leikskólans umfram það sem leiði af lögum, meðal annars þar sem hönnunartími sé skammur og deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt sem geri hönnun krefjandi. Auk þess sé ekki um einfalt og hefðbundið verk að ræða eins og kærendur haldi fram.

Niðurstaða:

Samkvæmt 69. gr., sbr. 72. gr., laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kaupendum heimilt að setja skilyrði um að fyrirtæki sem taki þátt í útboði fullnægi meðal annars kröfum um tæknilega og faglega getu. Samkvæmt 2. mgr. 69. gr. laganna er aðeins heimilt að setja slíkar kröfur að þær séu til þess fallnar að tryggja tæknilega og faglega getu bjóðenda til að efna skyldur samkvæmt fyrirhuguðum samningi. Slík skilyrði skulu tengjast samningi og vera í hæfilegu hlutfalli við efni hans. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur auk þess fram að gæta skuli jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis við opinber innkaup.

Í grein 6.1 í útboðsskilmálum hins kærða útboðs er gerð sú krafa að hönnuður á sviði raflagna sem tilgreindur er sem lykilaðili í hönnunarteymi, skuli, auk þess að búa yfir fimm ára starfsreynslu sem löggiltur raflagnahönnuður og vera skráður á lista Mannvirkjastofnunar, vera verk- eða tæknifræðimenntaður. Af gögnum málsins verður ráðið að ágreiningslaust sé með aðilum að rafiðnfræðingar, sem séu ekki verk- eða tæknifræðimenntaðir, uppfylli þó kröfur laga nr. 160/2010 um mannvirki til að geta fengið löggildingu sem hönnuðir raflagna, líkt og þeirra sem hið kærða útboð varðar. Því er ljóst að fyrrgreindur skilmáli útilokar rafiðnfræðinga frá þátttöku í hinu útboðna verki sem lykilaðili í hönnunarteymi á sviði raflagna, þótt þeir fullnægi kröfum laga til að geta tekið verkið að sér. Eins og mál þetta liggur fyrir nú, verður að mati kærunefndar útboðsmála ekki séð að hið útboðna verk hafi verið þess eðlis að það réttlæti að gerðar séu jafnríkar kröfur til menntunar lykilaðila við hönnun á sviði raflagna eins og raun ber vitni. Verður því að miða við að framangreindur skilmáli gangi lengra en heimilt er samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um opinber innkaup og að kærendur hafi því leitt verulegar líkur að broti gegn lögunum sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Er því fallist á kröfu kærenda um að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Ákvörðunarorð:

Útboð varnaraðila, Mýrdalshrepps nr. 20213 auðkennt „Mánalind leikskóli“ er stöðvað um stundarsakir.


Reykjavík, 8. júní 2021

Reimar Pétursson (sign)

Kristín Haraldsóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta