Hoppa yfir valmynd

Nr. 320/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 320/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. maí 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 5. desember 2016 en dró umsóknina til baka 18. júlí 2017. Þá sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 3. júlí 2017 og var dvalarleyfið útgefið þann 3. október s.á. með gildistíma til 3. október 2018. Framangreint dvalarleyfi var afturkallað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 3. maí 2017 þar sem kæranda og eiginkonu hans hafði verið veitt leyfi til lögskilnaðar. Kærandi lagði fram umsókn á ný um dvalaleyfi á grundvelli hjúskapar þann 24. maí 2018, en kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 16. maí sama ár. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, var þeirri umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 24. apríl sl. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 3. maí 2019 og barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 20. maí 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga en þar segi að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé, veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna með ákvæðinu. Sé það skilyrði fyrir synjun dvalarleyfis að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að um gerning til málamynda sé að ræða.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom m.a. fram að kærandi hafi verið í hjúskap með fyrrverandi eiginkonu sinni þegar hann hafi kynnst núverandi eiginkonu sinni. Kærandi og maki hans hafi því ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Þá hafi kærandi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara á meðan sú umsókn hafi verið til meðferðar. Kærandi hafi fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með fyrrverandi eiginkonu sinni en dvalarleyfið hafi verið afturkallað þar sem þau hafi skilið að lögum 21. febrúar 2018. Kærandi hafi kynnst núverandi eiginkonu sinni 2. desember 2017 og gengið í hjúskap með henni sex mánuðum síðar. Áður en dvalarleyfi kæranda hafi verið afturkallað hafi hann komið í afgreiðslu Útlendingastofnunar og spurt hvort hann gæti breytt grundvelli þágildandi dvalarleyfis síns. Kæranda hafi verið gert að yfrgefa landið en rúmri viku síðar hafi hann gengið í hjúskap með núverandi eiginkonu sinni og lagt inn umsókn um dvalarleyfi níu dögum síðar. Samkvæmt framangreindu var það mat Útlendingastofnunar að allt bendi til þess að kærandi hafi, frá því að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, ætlað sér að afla dvalarleyfis hér á landi og hafi hann leitað allra leiða til þess.

Að öllu framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri til staðar að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfi hér á landi og ekki hefði verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var umsókn kæranda því synjað, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi flutt til Íslands árið 2016 og sótt um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi dregið þá umsókn til baka þegar hann hafi gengið í hjónaband með fyrrverandi eiginkonu sinni. Þau hafi átt von á barni en misst fóstrið. Kærandi hafi fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar en hjónabandið hafi ekki gengið upp, m.a. vegna neysluvanda fyrrum eiginkonu hans og sambands kæranda við núverandi eiginkonu sína. Kærandi rekur einnig samskipti sín og eiginkonu sinnar við Útlendingastofnun sem hann telur vera afar ámælisverð af hálfu stofnunarinnar. Kærandi og eiginkona hans hafi gifst þann 16. maí 2018 og í kjölfarið sótt um dvalarleyfi á þeim grundvelli. Hafi umsókn kæranda verið til meðferðar í heilt ár. Kærandi og eiginkona hans hafi keypt sér flugmiða til að fagna brúðkaupi sínu með árs fyrirvara, n.t.t. dags. 30. júní 2019. Ennfremur eigi kærandi og eiginkona hans von á barni. Þá kveðst kærandi sjá eftir misgjörðum sínum gagnvart fyrri eiginkonu en sé hamingjusamur með núverandi eiginkonu sinni. Kærandi og eiginkona hans hyggist stofna líf saman en löng bið í máli hans hafi haft áhrif á framtíðaráætlanir þeirra, atvinnumöguleika hans og fjölskyldulíf þeirra. Kærandi og kona hans séu náin auk þess sem þau séu í nánu sambandi við fjölskyldu hennar. Vísar kærandi til framlagðra bréfa fjölda fjölskyldumeðlima máli sínu til stuðnings. Þá hafi kærandi og eiginkona hans búið saman frá giftingu. Einnig séu þau að safna sér fyrir eigin húsnæði sem reynist erfitt á meðan biðinni standi.

Kærandi telji Útlendingastofnun hafa brotið málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð máls hans. Ákvörðun stofnunarinnar hafi að mati kæranda verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Stofnunin hafi brotið gegn 10. gr. og 11. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins auk þess sem kærandi telji að brotið hafi verið gegn lögmætisreglunni og að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið niðurstöðunni í máli hans. Ennfremur telji kærandi að ákvörðunin hafi brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til friðhelgis einkalífs, heimilis og fjölskyldu, auk þess sem meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Kærandi rekur í greinargerð með ítarlegum hætti í hverju framangreind brot stofnunarinnar hafi falist. Það er mat kæranda að framangreint ætti að leiða til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Þá óskar kærandi þess að mál hans hljóti skjóta afgreiðslu með tilliti til þess hversu lengi hann hafi beðið niðurstöðu án þess að tafirnar megi rekja til hans. Ennfremur beri að taka tillit til þeirra fjármuna sem kærandi og eiginkona hans hafi eytt í lögmannskostnað og fyrirhugaða brúðkaupsferð. Mikilvægt sé að kærandi og eiginkona hans geti hafið að undirbúa framtíð sína og ófædds barns þeirra.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi til að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum sem fylgdu 70. gr. frumvarps þess er varð að lögum um útlendinga er fjallað um ýmis sjónarmið sem geta komið til skoðunar við mat á því hvort stofnað er til hjúskapar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Þar kemur m.a. fram að líta beri til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þeir tali tungumál hvor annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvor annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að niðurstaða stofnunarinnar um rökstuddan grun um að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis sé einkum byggð á fyrri umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi, bæði vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd og vegna fyrri hjúskapar hans. Kærunefnd útlendingamála tekur undir með Útlendingastofnun að hjúskaparsaga kæranda hér á landi veki grunsemdir um að tilgangur hjúskapar sé að afla dvalarleyfis. Í því sambandi er einkum vísað til þess að kærandi gekk fyrst í hjúskap með íslenskum ríkisborgara nokkrum mánuðum eftir komu til landsins, aflaði sér dvalarleyfi á þeim grundvelli en sleit samvistum við fyrrverandi maka skömmu eftir að hann hafði fengið dvalarleyfið gefið út. Þá benda gögn málsins til þess að kærandi hafi gengið í hjúskap með núverandi maka skömmu eftir að þau kynntust.

Aftur á móti er til þess að líta að kærandi hefur lagt fram margvísleg gögn við meðferð málsins hjá kærunefnd varðandi samband hans við maka sinn. Þar á meðal eru á sjötta tug mynda af kæranda og maka hans við ýmis tækifæri. Að mati kærunefndar benda myndirnar til þess að kærandi og maki hans hafi notið ríkulegra samvista við mörg tækifæri, bæði í einrúmi og með fjölskyldu maka kæranda. Athugun kærunefndar á síðum kæranda og maka hans á samfélagsmiðlum renna jafnframt stoðum undir að þau hafi notið slíkra samvista frá því þau gengu í hjúskap þann 16. maí 2018. Þegar litið er til þess að hjúskapur þeirra hefur nú staðið í rúmlega ár og þeirra samvista sem gögn málsins benda til að þau hafi notið á þeim tíma telur kærunefnd að sú staðreynd að kærandi og maki hans hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar þeirra geti ekki vegið þungt í mati á því hvort rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar þeirra hafi verið stofnað til málamynda. Þvert á móti er það mat kærunefndar að gögn um samband kæranda og maka hans eftir að þau gengu í hjúskap bendi ekki til þess að til hjúskapar þeirra hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla hér dvalarleyfi. Þá benda gögn sem lögð hafa verið fram af hálfu kæranda til þess að eiginkona hans sé barnshafandi.

Það er því mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur í málinu um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfi fyrir kæranda, sbr. 8. gr. 70. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the applicant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                      Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta