Hoppa yfir valmynd

Nr. 364/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 30. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 364/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050063

 

Kæra […]

og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. maí 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Mongólíu (hér eftir nefnd kærandi) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2018, um að synja kæranda og börnum hennar, […] , fd. […] , og […] , fd. […], ríkisborgurum Mongólíu, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og kæranda og börnum hennar verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kæranda og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og kæranda og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.          Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi og börn hennar sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 8. mars 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 9. maí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 30. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 18. júní 2018 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 19. júlí 2018 ásamt talsmanni sínum.

III.       Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna og ofbeldis af hálfu ákveðins aðila. Þá byggi kærandi á því að hún sé í hættu vegna hótana stjórnmálamanns vegna umfjöllunar kæranda í fjölmiðlum um hann. 

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, kom fram að kærandi hafi verið upplýst um að börn hennar ættu rétt á sjálfstæðu viðtali en að hún hafi ekki talið þörf á því. Í ljósi þess var ekki talið tilefni til að taka sjálfstæð viðtöl við börnin. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði móður þeirra og henni hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis.

Kæranda og börnum hennar var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti þeim jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi flúið heimaríki sitt vegna þess að hún og fjölskylda hennar séu í lífshættu. Kærandi hafi greint frá því að eiginmaður hennar hafi verið myrtur árið 2002 og að maður að nafni […] hafi verið fundinn sekur um morðið og dæmdur til 11 ára fangelsisvistar í kjölfarið. Enn fremur hafi kærandi greint frá því að hún hafi unnið sem blaðamaður í Mongólíu. Hún hafi í apríl 2017 skrifað grein um stjórnmálamann sem heiti […] . Í greininni hafi komið fram að hann hafi misnotað diplómatískt vegabréf sitt og smyglað sígarettum inni í landið. Málið hafi vakið mikla athygli í Mongólíu og kærandi hafi verið þvinguð til að „leiðrétta“ umfjöllunina í kjölfarið. Umræddur stjórnmálamaður hafi síðan kært kæranda fyrir rógburð og fyrir að eyðileggja mannorð hans. Kærandi hafi greint frá því að fjölmiðlafólk í Mongólíu sé almennt í erfiðri stöðu og margir blaðamenn hafi verið fangelsaðir og jafnvel drepnir vegna sambærilegra mála. Þá hafi lög verið í gildi þegar umfjöllunin hafi birst sem skilgreini brot gegn mannorði og rógburð sem hegningarlagabrot og að hennar mál myndi líklega leiða til sakfellingar.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi tvívegis orðið fyrir líkamsárás af hendi […] á árinu 2017. Fyrri líkamsárásin hafi átt sér stað þegar kærandi hafi verið að yfirgefa vinnustað sinn. Hann hafi ásakað kæranda um að hafa eyðilagt líf sitt og tekið hana hálstaki. Kærandi hafi ekki kært málið til lögreglunnar þar sem einungis sé hægt að kæra á svæði þar sem viðkomandi gerandi hafi lögheimili. Þá hafi kærandi orðið fyrir sálrænu áfalli og óttast að hann myndi ráðast aftur á hana. Í annað skipti hafi […] beðið fyrir utan vinnustað kæranda, gripið í hana og hótað henni með hníf. Í kjölfarið hafi hann flutt hana nauðuga á hótel í grennd, þar sem hann hafi haldið henni frelsissviptri, beitt hana ofbeldi, neytt hana til að drekka áfengi, nauðgað henni og reynt að myrða hana með því að þrengja að öndunarvegi hennar með púða og teppi. Kærandi hafi þurft að hlýða árásarmanninum í einu og öllu til að komast lifandi út úr hótelherberginu. Hann hafi haldið henni yfir nótt en loks sleppt henni lausri þegar hún hafi grátbeðið um að fá að fara til vinnu. Árásarmaðurinn hafi öskrað á kæranda að hún og eiginmaðurinn hennar heitinn hafi eyðilagt líf hans. Þá hafi hann sagt að hún væri í þann mund að eyðileggja líf umrædds stjórnmálamanns. 

Í greinargerðinni kemur fram að kærandi telji sig ekki geta kært málið til lögreglunnar eða notið verndar yfirvalda. Lögregluyfirvöld séu spillt og dómstólar þjóni ekki hagsmunum fórnarlamba í sakamálum. Þá sé árásarmaðurinn vel stæður og með pólitísk tengsl. Ennfremur hafi kærandi greint frá því að réttarúrræði fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis séu ekki til staðar og að því fylgi mikil skömm að kæra nauðgun til lögreglu. Þá yrði hún mögulega sökuð um þátttöku í einhvers konar helgiathöfn (e. ritual) í stað þess að málið verði meðhöndlað sem nauðgunarmál.

Kærandi hafi greint frá því að skrif hennar um stjórnmálamanninn hafa haft mikil og afar neikvæð áhrif á ímynd hans og orðspor. Hún hafi reitt hann til reiði og hann vilji hefnd. Kærandi hafi greint frá því að hún óttist stjórnmálamanninn og […] og sé í hættu í heimaríkinu. Verði henni gert að snúa aftur verði hún atvinnulaus og telji hún að […] muni halda áfram að ofsækja hana. Þá muni hún þurfa að greiða háa sekt verði hún fundin sek í rógburðarmálinu sem stjórnmálamaðurinn hafi höfðað gegn henni.

Í greinargerðinni kemur fram að alvarlegustu mannréttindabrotin í Mongólíu séu misnotkun lögreglu á föngum og einstaklingum í varðhaldi, slæmar aðstæður í varðhaldsmiðstöðvum og fangelsum, ofbeldi í garð LGBTI einstaklinga, afar erfið vinnuskilyrði fyrir erlenda verkamenn og brot á réttindum þeirra. Þá sé sjálfstæði og hlutleysi dómstóla ekki tryggt í landinu, hvorki í sakamálum né einkamálum. Enn fremur verndi stjórnvöld ekki þá sem berjist fyrir auknum mannréttindum eða opinni umræðu í landinu gegn líkamsárásum eða áreiti. Þann 1. júlí 2017 hafi tekið gildi ný lög sem heimili stjórnvöldum að beita hærri sektum, m.a. fyrir birtingu á röngum upplýsingum sem teljist ærumeiðandi fyrir einstaklinga eða fyrirtæki. Lögin hafi verið gagnrýnd fyrir að vera óljós og of víðtæk, og til þess fallin að vera notuð aðallega í þeim tilgangi að bæla niður tjáningarfrelsið. Jafnframt sé umhverfi fjölmiðla afar pólitískt og fjölmargir einstaklingar sem starfi á vettvangi þeirra hafi verið lögsóttir fyrir umfjallanir sem teljist ærumeiðandi, og dæmdir til hárra sektargreiðslna og jafnvel fangelsisrefsingar. Þá sé spilling víðtæk innan stjórnsýslunnar. Meðlimir þjóðþingsins séu friðhelgir meðan þeir sitji á þingi en séu á sama tíma útsettir fyrir spillingu vegna óeðlilegra tengsla við hagsmunaaðila, skorti á gegnsæi, skorts á upplýsingum um störf hins opinbera, vangetu embættismanna sem og skorts á stjórn lykilstofnana þjóðfélagsins.

Í greinargerðinni kemur fram að mismunun gegn konum sé útbreitt vandamál í Mongólíu og þá sé kynbundið ofbeldi jafnframt alvarlegt vandamál í landinu. Í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum bendi nefndin á að nýlegar lagabreytingar í landinu séu til batnaðar en að verulega skorti á innleiðingu þeirra. Einnig hafi nefndin lýst yfir áhyggjum af hárri tíðni ofbeldis gagnvart konum, sérstaklega heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis og athugasemdir séu gerðar við skort á skrásetningu þessa brotaflokks. Þá komi fram í skýrslunni að verulega vanti upp á úrræði fyrir brotaþola kynbundins ofbeldis og sérstaklega nefnt að aðeins eitt ríkisrekið skýli sé starfrækt fyrir brotaþola. Enn fremur sé greint frá óviðunandi aðstæðum einstæðra mæðra í Mongólíu. Skortur á stuðningi, bæði fjárhagslegum og félagslegum, geri þann hóp sérstaklega berskjaldaðan gagnvart fátækt, mismunun og ofbeldi.

Aðalkrafa kæranda og barna hennar er reist á því að ástæðu flótta þeirra megi rekja til ofsókna sem kærandi hafi orðið fyrir í heimalandi sínu og yfirgnæfandi líkur standi til að hún verði fyrir af hálfu stjórnvalda í landinu, vegna stjórnmálaskoðana. Kærandi hafi afhjúpað spillingu sem þrífist hjá stjórnvöldum með skrifum sínum í mongólskum fjölmiðlum um fyrrgreindan stjórnmálamann. Kærandi telji sig og börn sín vera í lífshættu í heimaríkinu.

Í greinargerð kemur fram að ljóst sé að greinarskrif kæranda um spillta stjórnarhætti stjórnmálamannsins hafi falið í sér gagnrýni á stefnu og aðgerðir stjórnvalda. Þá hafi kærandi þurft að sæta frelsissviptingu og ofbeldi, þ.m.t. kynferðisofbeldi vegna gagnrýni sinnar á stjórnvöld. Auk þess hafi henni verið gert að breyta umfjöllun sinni um stjórnmálamanninn og í kjölfarið kærð fyrir ærumeiðingarbrot. Ljóst sé að gagnrýni kæranda á stjórnvöld og þar með skoðanir sem látnar hafi verið í ljós með greinarskrifum séu yfirvöldum kunnar en ekki þóknanlegar.

Enn fremur sé ljóst að tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla eigi undir högg að sækja. Sönnunarbyrði á sannleiksgildi frétta hvíli alfarið á fjölmiðlafólki og því nýti opinberir aðilar lögsóknir gegn þeim til að komast hjá slæmri umfjöllun um stjórnvöld. Spilling stjórnvalda aukist og ljóst sé að þó landslög mæli fyrir um refsingu fyrir spillingu sé lögunum sjaldan framfylgt og því viðgangist víðtæk spilling embættismanna innan stjórnsýslunnar í skjóli refsileysis. Ljóst sé að meginástæða flótta kæranda frá heimalandinu sé hætta á áframhaldandi ofsóknum af hendi stjórnvalda vegna fjölmiðlaumfjöllunar hennar og gagnrýni á stjórnvöld. Með vísan til þessa sé ljóst að stjórnvöld hafi hvorki vilja né getu til að veita kærendum vernd í heimalandinu. Kærandi telji að með því að senda hana og börn hennar til heimaríkis sé brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Þar að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (SBSR) og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Beri því að veita kærendum alþjóðlega vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings varakröfu um að kæranda og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er bent á að kærandi hafi lýst kynferðisofbeldi og líflátshótunum af hendi manns sem hafi setið í fangelsi fyrir að myrða eiginmann hennar og leiti nú hefndar þar sem kærandi hafi stuðlað að því að hann yrði sóttur til saka fyrir morðið. Sá maður hafi sterk tengsl við stjórnvöld, þ. á m. við stjórnmálamanninn sem hafi kært kæranda fyrir ærumeiðandi umfjöllun og rógburð. Þá hafi kærandi ekki getað kært málið til lögreglu eða notið verndar yfirvalda í heimaríki. Með vísan til umfjöllunar að ofan um stöðu mannréttindamála í landinu og stöðu kæranda sé ljóst að hún og börn hennar uppfylli öll skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, þar sem þau séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki.

Sú krafa er gerð til þrautavara að kæranda og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna kærenda. Til stuðnings þeirri kröfu er bent á að kærandi sé einstæð móðir þriggja barna. Hún hafi sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu morðingja eiginmanns síns, sé sérstaklega viðkvæm og geti ekki fengið aðstoð frá lögregluyfirvöldum. Með vísan til aðstæðna kæranda sé ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er fjallað um hagsmuni barna hennar og þess krafist að kærunefnd útlendingamála taki tillit til þeirrar verndar sem þau eigi rétt á samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu skuldbundin af samkvæmt þjóðarétti. Heimildir beri með sér að í Mongólíu tíðkist enn að börn þurfi að vinna hættuleg störf og jafnframt séu börn hneppt í kynlífsþrælkun. Þá þekkist að börn séu seld mansali innan landsins og þau neydd í vændi og beitt kynferðisofbeldi á baðhúsum, börum, hótelum, karókí klúbbum og nuddstofum í landinu. Í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé gert að sérstöku umtalsefni sú ólöglega mismunun sem börn frá efnaminni fjölskyldum, börn farandfólks, óskráð börn, börn frá afskekktari byggðum, fötluð börn, börn sem komi frá minnihlutahópum eða hópum frumbyggja verði fyrir í landinu. Það sé ljóst að börnum kæranda sé ekki fyrir bestu að verða send ásamt móður sinni til heimaríkis.

Að lokum er bent á að flutningur innanlands sé hvorki raunhæft né sanngjarnt úrræði fyrir kæranda og börn hennar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað mongólskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar séu mongólskir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kæranda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með móður sinni og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Mongólíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • The World Factbook, Mongolia (CIA, sótt 20. júní 2018);
  • Mongolia 2017 Human Rights Reports (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Mongolia 2017/2018 Annual Report (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Concluding observations on the sixth periodic report of Mongolia (Human Rights Committee, 22. ágúst 2017);
  • Freedom in the World 2016 - Mongolia (Freedom House, 29. ágúst 2016);
  • Freedom in the World 2017 - Mongolia (Freedom House, 1. september 2017);
  • Concluding observations on the combined eight and ninth periodic reports of Mongolia (United Nations Committee on the Elimination of Discrimination against Women, sótt 19. júní 2018);
  • 2016 Findings on the Worst Forms of Child Labor - Mongolia (U.S. Department of Labor, 30. september 2017);
  • Mongolia Human Development Report 2016: Building a Better Tomorrow: Including Youth in the Development of Mongolia (United Nations Development Programme of the Government of Mongolia, 2016);
  • Mongolia: Report to the Government: Assessment of the social security legislation for the ratification of the Social Security (Minimum Standards) Convention, 1952 (No. 102) (International Labour Office, 2016);
  • Who owns the Media in Mongolia? (Reporters Without Borders, 8. desember 2016) og
  • Country Programme Document: Mongolia (UN Economic and Social Council (ECOSOC), 5. ágúst 2016).

Mongólía er lýðræðisríki með rúmar þrjár milljónir íbúa. Mongólar eru u.þ.b. 96% íbúa landsins og aðhyllist meirihluti landsmanna Búddatrú. Mongólía lýsti yfir sjálfstæði frá Kína árið 1921 og komst undir stjórn Sovétríkjanna stuttu seinna. Árið 1924 var alþýðulýðveldið Mongólía stofnað. Friðsamleg lýðræðisleg bylting átti sér stað í landinu árið 1990 og ný stjórnarskrá tók gildi árið 1992. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 18. nóvember 1974 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. janúar 2002. 

Af ofangreindum gögnum má sjá að spilling sé vandamál í landinu og í mars 2017 hafi yfirvöld þróað þriggja ára aðgerðaáætlun til að vinna bug á spillingu. Helstu mannréttindabrot í landinu séu slæmur aðbúnaður fanga og frelsissviptra, takmarkanir á fjölmiðlafrelsi, mansal og ofbeldi sem beinist að samkynhneigðum. Þá sé heimilisofbeldi útbreitt vandamál. Viðurlög við nauðgun geti verið allt að lífstíðarfangelsi en þolendur kynferðisofbeldis séu tregir að leggja fram kæru af ótta við viðbrögð samfélagsins. Almenningur hafi takmarkaðan skilning á því hvað felist í kynferðislegri áreitni og dæmi séu um að lögreglan reyni að fá fórnarlömb kynferðisofbeldis til að leggja ekki fram kæru til að sleppa við pappírsvinnu. Þá sé heimilisofbeldi refsivert samkvæmt nýjum hegningarlögum. Vitundarvakning og fræðsla hjá lögregluyfirvöldum og almenningi hafi skilað árangri, m.a. með fjölgun tilkynninga og bættum verkferlum. Þá hafi athvörfum og neyðarskýlum fyrir þolendur heimilisofbeldis fjölgað á seinustu árum og séu þau nú 17 talsins víðs vegar um landið. Einnig séu starfrækt frjáls félagasamtök sem veiti konum og börnum þeirra margvíslegan stuðning. Í gögnunum kemur einnig fram að telji einstaklingar sig ekki geta fengið fullnægjandi vernd frá lögreglu geti þeir leitað frekari lagalegra úrræða s.s. með því að skjóta máli sínu til æðra stjórnvalds eða dómstóla.

Í gögnunum komi fram að tjáningarfrelsi sé almennt virt í Mongólíu en þó séu dæmi um að stjórnvöld hafi afskipti af störfum fjölmiðla og dæmi séu um að embættismenn hafi áreitt blaðamenn fyrir að birta fréttir sem sýni stjórnvöld í neikvæðu ljósi. Er í ofangreindum gögnum vísað til þess að dæmi séu um að fjölmiðlar stundi sjálfsritskoðun í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slík afskipti stjórnvalda. Fjölmiðlar séu þó oft í eigu eða tengdir stjórnmálaflokkum. Ný hegningarlög tóku gildi 1. júlí 2017 og með þeim séu ærumeiðingar, meiðyrði og rógburður ekki lengur talin brot sem fangelsisrefsing liggi við heldur væru þau talin minniháttar brot þar sem viðurlögin séu sektir. Almennt sé talið að þessar breytingar hafi haft jákvæð áhrif á tjáningarfrelsi í landinu þó sektirnar séu háar.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að dómskerfið í landinu sé skilvirkt. Lög í landinu kveða á um opin og sanngjörn réttarhöld og að réttlát málsmeðferð sakborninga skuli tryggð. Með nýju hegningarlögunum var dauðarefsing afnumin. Þá var mismunun á grundvelli kynhneigðar, kyns, þjóðernis, þjóðfélagshóps, kynþáttar, félagslegrar stöðu, trúarbragða, menntunar, útlits og aldurs bönnuð. Þrátt fyrir ákvæði sem kveði á um jafnrétti kynjanna, upplifi konur mismunun, sérstaklega á vinnumarkaði. Í gögnunum kemur fram að aðstæður einstæðra mæðra séu erfiðar og þær séu berskjaldaðar gagnvart fátækt, mismunun og ofbeldi. Þá kemur fram að að stjórnvöld hafi sett á fót átak í jafnréttismálum fyrir árin 2017-2021 sem eigi að stuðla að bættri efnahagslegri stöðu kvenna og aukinni þátttöku þeirra og stjórnmálum og á opinberum vettvangi. Í gögnunum kemur fram að stjórnvöld veiti barnafjölskyldum fjárhagslegan stuðning til átján ára aldurs. Slíkur stuðningur sé jafnframt í boði til 25 ára aldurs ef einstaklingar hafa misst foreldri fyrir átján ára aldur. Í gögnunum kemur fram að Mongólía hafi náð miklum framförum á sviði heilbrigðis- og menntamála á undanförum árum. Níu ára skyldunám sé algilt og alls hafi 92% þegna í landinu hlotið menntun. Stjórnvöld veiti ungu fólki mánaðarlegan peningastyrk á meðan þau eru í grunnnámi. Þá veiti stjórnvöld rúmlega helmingi hærri styrk fari viðkomandi í háskólanám.

Í gögnunum kemur fram að þrátt fyrir bættan efnahag og framfarir í Mongólíu sé atvinnuleysi nokkuð hátt eða tæplega 10%. Almannatryggingarkerfið komi til móts við þá sem hafa misst vinnu og atvinnuleysisbætur nemi 45% af fyrri launum. Greiðsluhlutfallið aukist í samræmi við starfsaldur, t.a.m. eigi bótaþegi rétt á 50% eftir 5-10 ár í starfi, 60% eftir 10-15 ár o.s.frv. Í gögnunum kemur fram að stjórnvöld hafi sett á fót stefnu í þróunar- og lýðheilsumálum fyrir árin 2008-2021 sem byggi á Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og beini m.a. sjónum að menntun, heilsu, atvinnu, tækni og vísindum og málefnum fjölskyldna.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að kærandi hafi sætt áreiti, ofbeldi og hótunum vegna umfjöllunar hennar í fjölmiðlum um stjórnmálamann að nafni […]. Hún hafi verið þvinguð til að breyta umfjölluninni og málshöfðun vegna málsins hafi verið lögð fram til að ógna henni. Þá hafi umræddur stjórnmálamaður tengsl við mann sem varð eiginmanni hennar að bana. Síðarnefndi einstaklingurinn hafi hótað kæranda og beitt hana ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi. Kærandi og börn hennar séu í hættu í heimaríki sínu vegna þessa. Þá telji kærandi að þau geti ekki fengið aðstoð yfirvalda.

Í endurriti af viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 8. mars 2018 kemur fram að hún tilheyri ekki stjórnmálaflokki en að fjölmiðill sem hún hafi starfað hjá sé í eigu stjórnmálaflokks. Í viðtali hjá kærunefnd þann 19. júlí sl. kvað kærandi þennan flokk vera „Mongolian People‘s Party“ sem sé í meirihluta í ríkisstjórn landsins. Þá greindi kærandi frá því að hún telji tengsl vera milli umrædds stjórnmálamanns og þess manns sem hafi beitt hana ofbeldi, þar sem að ofbeldismaðurinn hafi greint henni frá því. Þá kvað kærandi að hún gæti ekki leitað til lögreglu vegna þess að þessir menn séu báðir valdamiklir í heimaríki hennar.

Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga í efa að kærandi hafi lent í ágreiningi og málshöfðun kæranda vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðli sem hún starfaði fyrir af hálfu einstaklings sem hafi orðið fyrir umfjölluninni. Þá er ekki hægt að útiloka að kærandi hafi sætt áreiti og ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi af hálfu manns sem sakfelldur hafi verið fyrir að verða eiginmanni hennar að bana. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að kerfisbundnar ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana eða ætlaðra stjórnmálaskoðana viðgangist almennt ekki í heimaríki kæranda í skjóli refsileysis. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn eða sýnt fram á að tengsl séu á milli umrædds stjórnmálamanns og þess manns sem hafi beitt hana ofbeldi eða að stjórnmálamaðurinn tengist því ofbeldi sem kærandi hefur lýst. Ennfremur hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á hvaða stöðu eða flokki ofangreindur stjórnmálamaður tilheyri í Mongólíu. Kærunefnd framkvæmdi sjálfstæða rannsókn í leit að upplýsingum um ofangreinda menn og tengsl þeirra við stjórnmálaflokka og yfirvöld í heimaríki kæranda án árangurs. Þá hefur kærandi ekki sýnt á annan hátt fram á að staða ofangreindra manna sé með þeim hætti að henni sé ekki unnt að leita aðstoðar lögreglu í heimaríki sínu vegna hótana og ofbeldis. Verður því frásögn kæranda af fyrrnefndum tengslum, völdum og áhrifum ofangreindra manna ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu verður ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sætt eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu mongólskra yfirvalda eða annarra aðila í Mongólíu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Samkvæmt frásögn kæranda hefur hún ekki leitað til yfirvalda vegna áreitis og ofbeldis sem hún kveðst hafa orðið fyrir af hálfu einstaklingsins sem varð eiginmanni hennar að bana. Í þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað kemur fram að í heimaríki kæranda sé í gildi löggjöf sem kveði á um refsinæmi líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis. Í ljósi gagna um heimaríki kæranda er það mat kærunefndar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita aðstoðar stjórnvalda í heimaríki telji hún þörf á því. Telji kærandi að lögreglan veiti ekki fullnægjandi aðstoð benda gögn til þess að kerfi sé til staðar í Mongólíu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu.

Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á það að stjórnvöld í heimaríki skorti vilja eða getu til að veita kæranda viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kærenda, öryggi þeirra, velferðar og félagslegs þroska. Kærunefnd telur að það samrýmist hagsmunum barnanna að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis þeirra.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi og börn hennar hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og uppfylli því ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum við með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir einnig í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Kærandi kveðst óttast hótanir og ofbeldi við endurkomu til heimaríkis m.a. af hendi einstaklingsins sem hafi beitt hana kynferðisofbeldi. Líkt og fram hefur komið benda gögn til þess að kærandi geti leitað aðstoðar lögreglu í heimaríki sínu telji hún þörf á því. Að mati kærunefndar benda gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kæranda ekki til þess að hún eigi á hættu útskúfun vegna aðstæðna sinna eða að hún njóti ekki verndar heimaríkis gegn því ofbeldi sem hún kann að verða fyrir vegna þeirra.

Þá hafi kærandi greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum en hún hafi misst vinnuna og sé skuldug. Einnig óttist hún að vera sakfelld í meiðyrðamáli sem höfðað hafi verið gegn henni. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Þá hefur ekki komið annað fram í gögnum málsins en að kærandi og börn hennar séu almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. Í heimaríki kæranda er til staðar kerfi félagslegrar aðstoðar sem kærandi og börn hennar hafa aðgang að. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún og börn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barna hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hennar þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 18. ágúst 2017 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag ásamt börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar og barna hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda og börnum hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi og börn hennar eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru staðfestar. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og börnum hennar er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are affirmed. The appellant and her children are requested to leave the country. The appellant and her children have 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta