Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 198/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 198/2020

Mánudaginn 24. ágúst 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, móttekinni 22. apríl 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 vegna umgengni hennar við son sinn, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er á X aldursári og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir drengsins. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms F 26. maí 2014. Kynfaðir drengsins er E.

Drengurinn er í varanlegu fóstri og hefur verið í umsjá fósturforeldra sinna frá því að hann var mánaðargamall. Mál vegna drengsins hefur áður verið tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2018 í máli nr. 353/2018.

Samkvæmt gögnum máls átti kærandi enga umgengni við drenginn fyrstu ár ævi hans vegna vímuefnaneyslu og sóttist ekki eftir umgengni. Kærandi átti fyrst umgengni við drenginn í október 2016 þegar drengurinn var orðinn X ára gamall. Frá árinu 2016 hefur kærandi átt umgengni við drenginn sex sinnum þar sem fósturforeldrar hafa verið viðstödd umgengina og hefur umgengni gengið vel.

Kærandi óskaði eftir því að umgengni hennar við drenginn yrði aukin en ekki náðist samkomulag á milli Barnaverndar B, fósturforeldra og kæranda um umgengni. Málið var því tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi umgengni við móður sína, A, tvisvar sinnum á ári í allt að eina klukkustund í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B í mars og september ár hvert. Skilyrði er að móðir sé í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Fósturforeldrar verði viðstaddir umgengni ef þau kjósa það.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. apríl 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni með bréfi þann 26. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. maí 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við son sinn verði aukin þannig hún verði fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn. Þá krefst kærandi þess að langamma og langafi barnsins fái að vera viðstödd umgengni einu sinni á ári. Þá telji kærandi ekki þörf á því að fósturforeldrar séu viðstaddir umgengni. Til vara geri kærandi þá kröfu að umgengni hennar við son sinn verði aukin frá því sem nú sé og vari lengur hverju sinni.

Kærandi hafi verið svipt forsjá sonar síns með dómi Héraðsdóms F þann 26. maí 2014. Drengurinn hafi verið í umsjá fósturforeldra sinna frá því að hann hafi verið X gamall og verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá árinu X. Kærandi hafi fyrst átt umgengni við drenginn í október 2016 og þá óskað eftir frekari umgengni við hann. Barnaverndarnefnd B hafi úrskurðað þann 24. maí 2017 að kærandi ætti umgengni við drenginn tvisvar á ári, klukkustund í senn. Umgengni hafi gengið vel, enda sé líðan kæranda góð og hún í mun betra jafnvægi en á árum áður. Kærandi hafi verið edrú í rúmlega tvö og hálft ár, stundi nám við G og búi hjá afa sínum og ömmu á meðan hún bíði eftir að komast í eigin íbúð. Þá eigi kærandi von á barni og vonist til þess að börnin hennar muni fá að njóta umgengi við hvort annað svo að þau þekki systkini sín.

Kærandi telji þá umgengni, sem hún njóti samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, vera of sjaldan og í of skamman tíma í senn. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fái kærandi að hitta drenginn tvisvar á ári, í eina klukkustund í senn. Svo skammvinn umgengni gangi varla upp. Fósturforeldrar hafi verið viðstaddir umgengni en það verði til þess að talsverður tími umgengni fari í viðræður við þau. Umgengni við drenginn sé þá eiginlega engin, auk þess sem þetta fyrirkomulag leiði til þess að heildarumgengni kæranda við drenginn til 18 ára aldurs nái ekki einu sinni sólarhring. Það sé ekkert sem mæli gegn því að unnt sé að auka tíma umgengni hverju sinni og fjölda skipta. Þá telji kærandi að ekki sé þörf á að fósturforeldrar séu viðstaddir umgengni. Kærandi hafi aldrei skaðað börnin sín eða verið þeim hættuleg. Hún hafi verið edrú til langs tíma núna og umgengni hafi gengið vel frá því að hún hófst árið 2016.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu þeim nákomnir, sbr. 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi bendi á að réttur barns til að njóta umgengni við kynforeldra sína sé sérstaklega ríkur, enda komi fram í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum að „ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins“. Kærandi telji að ekkert sé fram komið sem sýni að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum drengsins. Þá telji kærandi að markmið fósturs standi ekki í vegi fyrir kröfum hennar þar sem krafa hennar feli í sér mjög hóflega aukningu á umgengni og sé ekki til þess fallin að raska markmiðum varanlegs fósturs heldur að kynna drenginn fyrir uppruna sínum og mynda tengsl við systkini sín.

Kærandi vísi sérstaklega til þess að umgengni hafi gengið vel frá árinu 2016. Um þetta geti starfsmenn barnaverndar vottað sem hafi haft eftirlit með umgengni kæranda við drenginn. Af umsögnum þeirra að dæma hafi umgengni gengið vel. Kærandi mótmæli því að ekkert sé fram komið í málinu sem bendi til þess að staðan hafi breyst frá því að málið hafi verið til skoðunar hjá barnaverndarnefnd árið 2018. Kærandi hafi verið edrú lengur og komið sér enn betur fyrir en árið 2018. Aðstæður kæranda og líðan hennar hafi þar af leiðandi verið góðar til lengri tíma og hún því betur í stakk búin til að mæta þörfum drengsins. Þá mótmæli kærandi því að aðstæður drengsins séu verri í dag en þær hafi verið þegar málið hafi verið síðast lagt fyrir barnaverndarnefnd. Erfið líðan drengsins og óöryggi sé ekki bundið við umgengni kæranda heldur megi ráða af gögnum máls að slík hegðun komi fram í ýmis konar aðstæðum, til dæmis í skóla. Nú þegar greining liggi fyrir megi leiða líkur að því að unnt verði að undirbúa drenginn betur til að takast á við þær aðstæður sem hafi reynst honum erfiðar. Nýleg greining drengsins geti því þvert á móti verið til hagsbóta fyrir bæði hann og aðstandendur hans. Hægt sé að nálgast umgengni kæranda með betri hætti og taka tillit til þarfa drengsins við undirbúning og framkvæmd umgengninnar.

Kærandi gerir athugasemd við það að afstöðu drengsins hafi ekki verið aflað áður en ákvörðun hafi verið tekin í því. Börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og taka skuli tillit til sjónarmiða þeirra eftir því sem aldur og þroski gefi tilefni til, sbr. 1. og 4. gr. bvl. Drengurinn sé á X aldursári og öll gögn beri það með sér að hann sé mjög skýr og klár. Þótt illa hafi gengið síðast þegar drengnum hafi verið skipaður talsmaður, hafi ekki verið sýnt fram á að ekki sé hægt að frá fram afstöðu hans með því að fá einhvern sem drengurinn treysti til að ræða umgengni við hann, til dæmis kennara, sálfræðing eða annan þar til bæran einstakling. Einnig þurfi að líta til þess að drengurinn sé nú einu og hálfu ári eldri en síðast þegar honum hafi verið skipaður talsmaður, auk þess sem nú sé unnt að taka tillit til nýlegrar greiningar á einhverfu þegar afstöðu drengsins sé aflað.

Kærandi byggi kröfu sína jafnframt á því að drengurinn hafi aldrei verið í hættu staddur í umgengni né hafi hann komist í uppnám í tengslum við umgengni við sig. Kærandi telji sig hafa fullkomna getu og hæfni til að sinna syni sínum í umgengni og að innsæi hennar í þarfir sonar síns sé dýpra en nokkurn tímann áður. Kærandi sé reglusöm og hafi verið edrú síðan í október 2017. Hún nýti sér ýmis stuðningsúrræði til að halda áfram að standa sig og bæta. Kærandi stundi nám í I og búi hjá afa sínum og ömmu. Hún bíði eftir félagslegu húsnæði. Kærandi elski börnin sín og sýni þeim ástúð og umhyggju. Það sé hennar einlægi vilji að fá að umgangast drenginn meira og vilji í þeim efnum vera í fullu samstarfi við barnavernd og fósturforeldra. Kærandi sé ólétt af þriðja barni sínu og vilji hún að börn sín njóti mikilla samvista við systkini sín svo að tengsl myndist á milli þeirra, en núgildandi fyrirkomulag bjóði ekki upp á slíka tengslamyndun.

Kærandi bendir einnig á að hún njóti rýmri umgengni við eldri dreng sinn, en umgengni við hann fari fram allt að sex sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni við eldri drenginn hafi gengið vel og starfsmenn barnaverndar geti vottað um það. Kærandi telji að með vísan til alls framangreinds sé ekkert því til fyrirstöðu að fallist verði á kröfur kæranda, enda um hóflega kröfu að ræða sem sé ekki til þess fallin að raska markmiðum varanlegs fósturs eða hagsmunum drengsins. Ekkert í málinu bendi til þess að umgengni hennar við drenginn raski hagsmunum hans, hvorki öryggi hans eða stöðugleika. Enn síður bendi nokkuð til þess að drengurinn geti borið skaða af umgengni við kæranda.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að kærandi hafi óskað eftir að umgengni hennar við drenginn yrði aukin en ekki hafi náðst samkomulag um umgengni. Málið hafi því verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B þann 17. mars 2020. Drengnum hafi ekki verið skipaður talsmaður við fyrirtöku málsins hjá nefndinni. Sú ákvörðun hafi verið rökstudd í greinargerð starfsmanna vegna málsins, dags. 26. febrúar 2020, þar sem fram komi að í kjölfar aðkomu talsmanns í september 2018 hafi hegðun og líðan drengsins tekið miklum neikvæðum breytingum. Í greinargerð starfsmanna komi meðal annars fram að drengurinn hefði orðið ofbeldisfullur í garð annarra barna, hann hefði sýnt sjálfskaðandi hegðun og orðið óöruggur gagnvart fósturforeldrum og ekki mátt af þeim sjá. Vísað hafi verið til meðfylgjandi upplýsinga frá leikskóla drengsins, dags. 18. mars 2019, og samtöl fósturforeldra drengsins sem meðal annars hafi greint frá því að drengurinn hefði óttast að þurfa fara heim með kæranda. Leikskóli og fósturforeldrar hafi tengt breytingar á hegðun drengsins við aðkomu talsmanns.

Upplýsingar í máli drengsins beri með sér að drengurinn eigi við vanda að stríða í tengslum við hegðun og líðan. Hann hafi farið í gegnum greiningarferli hjá H sálfræðingi árið 2018 og í endurmat hjá honum árið 2019 vegna gruns um einhverfu. Í samantekt sálfræðings í endurmati, dags. 20. ágúst 2019, segi að skimunarlistar bendi til einkenna á einhverfurófi og þá séu einkenni ofvirkni/hvatvísi eftir greiningarviðmiðum. Drengnum hafi í kjölfarið verið vísað í frekara greiningarferli hjá einhverfuráðgjafa sem hófst þann 17. febrúar 2020. Skólaganga drengsins hófst í ágúst X og í meðfylgjandi upplýsingum frá skóla, dags. 7. febrúar 2020, komi fram að hann sé með stuðning í skólanum sem hafi mikil áhrif á hegðun hans á jákvæðan hátt þrátt fyrir að langt sé í land. Fósturforeldrar drengsins segi óöryggi og erfiða hegðun enn vera til staðar hjá drengnum en almennt sé hegðun hans heima góð þótt ekki megi bregða mikið út af í rútínu til þess að hegðun hans versni til muna.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Með sama hætti eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Lagagreinin kveði á um rétt kynforeldra til umgengni við börn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni barns við foreldri og aðra nákomna, samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar.

Tillögur starfsmanna barnaverndar, sem hafi verið lagðar fram á fundi Barnaverndarnefndar B, byggi á þeirri grundvallarforsendu að stefnt sé að því að drengurinn alist upp á núverandi fósturheimili til 18 ára aldurs. Í varanlegu fóstri sé markmið fósturs að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn sé að ræða. Drengurinn hafi einungis verið tæplega X gamall þegar hann hafi farið í umsjá fósturforeldra en hann sé nú að verða X ára gamall. Kærandi hafi enga umgengni haft við hann frá því að hann hafi verið X gamall og ekki sóst eftir umgengni við hann fyrr en drengurinn hafi verið tæplega X ára gamall.

Afar jákvætt sé að kærandi hafi náð að gera breytingar á lífi sínu og það sé mikilvægt fyrir barnið að hún sé í ástandi til að sinna umgengni á tímabili fósturs. Við mat á umgengni í varanlegu fóstri breyti í sjálfu sér ekki þótt kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Markmið umgengni við kæranda í varanlegu fóstri sé ekki að byggja upp tengsl á milli kæranda og sonar hennar heldur fyrst og fremst að drengurinn þekki uppruna sinn. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að því markmiði verði náð með umgengni tvisvar á ári. Drengurinn búi nú við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra og þekki þau sem einu foreldra sína þó að honum sé kunnugt um að hann eigi aðra foreldra. Upplýsingar í máli drengsins beri með sér að hann eigi við vanda að stríða, tengdum hegðun og líðan.

Umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Sérstaklega þurfi að horfa til þess að tryggja þurfi að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn eins og gert sé með hinum kærða úrskurði sé stefnt að því að hann fái frið til að tilheyra fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda sé til þess fallin að valda honum. Markmiðið með því sé að tryggja hagsmuni drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika. Greiningar drengsins, líðan hans og stundum erfið hegðun beri með sér að hlúa þurfi sértaklega vel að drengnum og gæta þess að halda rútínu og festu í kringum hann. Haga beri ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Með vísan til þess er að framan greini, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. þyki umgengni kæranda við drenginn hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.

IV. Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni við kæranda við drenginn. Í símtali við starfsmann nefndarinnar 22. júní 2020 kom fram að afstaða fósturforeldra væri óbreytt frá úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020. Þar kemur fram að þeir séu samþykkir tillögum starfsmanna Barnaverndar B, þ.e. að umgengni fari fram tvisvar á ári í allt að klukkustund í senn.

V. Sjónarmið D

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var afstaða drengsins til breyttrar umgengni við kæranda ekki könnuð.

VI.  Niðurstaða

D er á X aldursári og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir drengsins.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn tvisvar á ári í allt að eina klukkustund í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B í mars og september ár hvert. Skilyrði sé að kærandi sé í jafnvægi og ekki sjáanlega undir áhrifum vímuefna. Fósturforeldrar verði viðstaddir umgengni ef þau kjósi það.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við son sinn verði aukin þannig hún verði fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn. Þá krefst kærandi þess að langamma og langafi barnsins fái að vera viðstödd umgengni einu sinni á ári. Þá telji kærandi ekki þörf á því að fósturforeldrar séu viðstaddir umgengni. Til vara geri kærandi þá kröfu að umgengni hennar við son sinn verði aukin frá því sem nú sé og vari lengur hverju sinni. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni í símtali við starfsmann úrskurðarnefndarinnar 22. júní 2020. Þar kemur fram að afstaða þeirra er óbreytt frá úrskurði Barnaverndarnefndar B 24. mars 2020 þar sem fósturforeldrar voru sammála tillögu starfsmanna Barnaverndar B um að umgengni fari fram tvisvar á ári í allt að klukkustund í senn.

Kærandi gerir athugasemd við málsmeðferð Barnaverndarnefndar B. Kærandi gerir athugasemd við það að afstöðu drengsins hafi ekki verið aflað áður en ákvörðun hafi verið tekin. Börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og taka skuli tillit til sjónarmiða þeirra eftir því sem aldur og þroski gefi tilefni til, sbr. 1. og 4. gr. bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirra stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni drengsins við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Í máli drengsins er því ljóst að ekki er stefnt að því að hann fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við drenginn þarf því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í varanlegt fóstur.

Varðandi kröfu kæranda til frekari umgengni við drenginn, verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir drengsins og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hans að njóta frekari umgengni við kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni drengsins við kæranda ákveðin tvisvar sinnum á ári, eina klukkustund í senn. Kærandi heldur því fram að krafa hennar um aukna umgengni sé ekki til þess fallin að raska markmiðum varanlegs fósturs eða hagsmuna drengsins. Hins vegar er það mat Barnaverndarnefndar B að með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn eins og gert sé með hinum kærða úrskurði sé stefnt að því að hann fái frið til að tilheyra fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda valdi honum.

Eins og vikið er að hér að framan ber við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar þjónar það ekki tilgangi að kanna vilja og afstöðu drengsins til umgengni þar sem hann hefur ekki forsendur til að meta hvað honum sé fyrir bestu. Hann hefur ekki myndað djúp tilfinningatengsl við móður frá bernsku og hann þekkir hana mjög lítið vegna takmarkaðra samskipta. Úrskurðarnefndin telur að drengurinn hafi ekki sjálfstæða þörf á umgengni við móður heldur þurfi hann frið og ró til að aðlagast fósturfjölskyldu, ekki síst vegna gruns um alvarlegar greiningar. Einnig ber að líta til þess að fósturforeldrar drengsins hafa skýrt frá því að drengurinn sé erfiður þegar hann kemur úr umgengni og sé nokkra daga að jafna sig.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hefur tekið sig á. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins krefjast þess að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi sem raskar ekki ró drengsins verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hann nái að þroskast og dafna sem best.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 varðandi umgengni D við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

                                                                                                                                                                                               Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta