Hoppa yfir valmynd

Nr. 459/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 1. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 459/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070019

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. júlí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur 13. mars 1981 og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. maí 2016. Umsókn kæranda sætti meðferð á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 20. júní 2016 hafnaði Útlendingastofnun því að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi og var sú niðurstaða staðfest af kærunefnd útlendingamála þann 4. október 2016. Kærandi lét sig hverfa áður en hægt var að flytja hann til viðtökuríkis. Kærandi kom aftur hingað til lands þann 24. maí 2017 frá Hollandi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 15. mars 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 10. júlí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 24. júlí 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann treysti ekki yfirvöldum í [...] og að hann eigi á hættu að vera myrtur eða fangelsaður þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga.

Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Fram kemur í greinargerð kæranda að hann kveði að hann sé fæddur og uppalinn í [...] héraði í [...] og að þar hafi hann búið ásamt unnustu sinni og stundað viðskipti þangað til skömmu áður en hann hafi neyðst til að flýja landið árið 2008. Kærandi sé af þjóðarbroti [...] sem sé minnihlutahópur í [...] . Kærandi hafi haft atvinnu af rekstri sölubáss með ávexti og grænmeti ásamt frænda sínum og það hafi gengið vel þangað til þeir hafi orðið fyrir áreiti af hálfu lögreglumanna í borginni. Sá sem hafi staðið að baki áreitinu hafi verið yfirmaður lögreglu í héraðinu, sem heiti [...], en fleiri lögreglumenn hafi verið þátttakendur í því. Þeir hafi krafið hann reglulega um greiðslu peninga. Einnig hafi þeir beitt kæranda og frænda hans ofbeldi, m.a. þegar þeir hafi ekki getað staðið í skilum, auk þess sem þeir hafi tekið af þeim vog sem hafi leitt til þess að þeir hafi ekki getað starfað. Árið 2006 hafi frændi kæranda verið myrtur af þessum mönnum og sonur frændans settur í fangelsi en nokkrum mánuðum síðar hafi hann einnig verið drepinn. Kærandi hafi séð sig knúinn til að flýja borgina og verið um tíma í [...] áður en hann hafi yfirgefið [...]. Eftir að kærandi hafi flúið landið hafi þeir sem hafi ofsótt hann ítrekað komið heim til fjölskyldu hans og spurt um hann. Kærandi sé fullviss um að snúi hann aftur til [...] muni ofsóknirnar byrja aftur.

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um aðstæður í [...] og ástand mannréttindamála þar í landi og er vísað í alþjóðlegar skýrslur því til stuðnings. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2016 komi fram að meðal alvarlegustu mannréttindabrota í landinu séu brot á félaga- og fundafrelsi borgaranna, óhlutdrægni og skortur á sjálfstæði dómstóla landsins og verulegar skorður á frelsi fjölmiðla til að sinna störfum sínum. Meðal annarra mannréttindabrota sé óhófleg valdbeiting lögreglunnar sem m.a. hafi verið sökuð um pyndingar. Spilling stjórnvalda sé útbreitt vandamál í [...] sem birtist m.a. í takmörkuðu gagnsæi starfa ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir að gildandi lög í landinu banni spillingu þá sé enginn pólitískur vilji til að framfylgja lögunum. Refsileysi lögreglunnar og embættismanna sem starfi að öryggismálum sé vandamál.

Þá er fjallað um stöðu einstaklinga af þjóðarbroti [...] í [...]. Tungumál [...] hafi loks verið viðurkennt sem þjóðtunga í [...] eftir áralanga baráttu. Ljóst sé af heimildum að stjórnvöld í [...] hafi á undanförnum árum tekið einhver skref í átt að breytingum sem miði að auknum réttindum [...] í samfélagi þar sem þeir séu í algjörum minnihluta og stefna stjórnvalda lúti [...] venjum og viðmiðum. Þrátt fyrir framfarir séu [...] enn jaðarsettur hópur í [...] samfélagi og komið sé fram við þá sem slíka af yfirvöldum í landinu. Þá sé ekki í gildi löggjöf sem tryggi á skilvirkan hátt pólitísk, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi [...]. Þá greini heimildir að alvarleg mismunun fyrirfinnist í reynd gagnvart þjóðarbrotum, litið sé á [...] sem fullgilda borgara í landinu en [...] sem annars flokks borgara. Þá mæti þeim ýmsar hindranir á atvinnumarkaðnum, m.a. sé þrýst á vinnuveitendur þeirra að vísa þeim frá störfum og þeim sem stundi eigin atvinnurekstur sé gert erfitt fyrir af stjórnvöldum með ýmsum flækjustigum.

Þá er í greinargerð kæranda gerðar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að frásögn kæranda hafi verið fremur almenn og ónákvæm og kærandi hafi veitt takmarkaðar upplýsingar um þá aðila sem hann hafi kveðið að hafi beitt hann ofbeldi. Einnig hafi svör kæranda verið óskýr varðandi þá hættu sem hann telji steðja að sér enn í dag. Af hálfu kæranda er því hins vegar haldið fram að kærandi hafi verið skýr í frásögn sinni. Kærandi hafi t.a.m. nafngreint aðila sem hann óttist og lýst ítarlega einstökum atvikum á borð við líkamsárásir. Því sé mótmælt að ekki beri að leggja til grundvallar að kæranda stafi enn hætta af þeim sem hann óttist enda beri heimildir með sér að lögreglumenn beiti borgara ónrétti og komist upp með glæpi sína í skjóli spillingar og refsileysis. Forsaga kæranda ætti ekki að hafa áhrif á trúverðugleika hans. Kærandi hafi gengist við því að hafa gefið öðrum yfirvöldum en íslenskum rangt nafn en hafi jafnframt gefið skýringar á því hvers vegna hann hafi gert það. Þá sé mati Útlendingastofnunar á auðkenni kæranda mótmælt. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram vegabréf hafi hann lagt fram öll þau gögn sem hann hafi mögulega getað aflað til að sanna auðkenni sitt, þ.m.t. fæðingarvottorð og önnur skilríki.

Í greinargerð kæranda er gerð aðalkrafa um að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi greint frá því að hafa verið ofsóttur af lögreglumönnum, verið reglubundið kúgaður til að greiða þeim peninga og ítrekað beittur líkamlegu ofbeldi. Vegna þess megi telja raunhæfa ástæðu til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sbr. fyrri málsl. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði honum gert að snúa aftur til [...]. Frásögn kæranda fái stuðning í þeim heimildum sem vísað er til í greinargerð um ástand mannréttindamála í [...]. Ætla megi að sú staðreynd að kærandi sé af þjóðarbroti [...] geri hann líklegri til að verða fyrir áreiti og ólíklegri til að hljóta vernd yfirvalda.

Fyrir liggi að þeir aðilar sem hafi ofsótt kæranda séu lögreglumenn og handhafar opinbers valds. Þar með falli þeir undir skilgreiningu a-liðar 37. gr. laga um útlendinga. Refsileysi fyrir lögreglu og embættismenn sem starfi að öryggismálum sé vandamál í [...] og stjórnvöld gefi sjaldan upplýsingar um né aðhafist nokkuð þegar opinberir starfsmenn séu sakaðir um refsiverða háttsemi. Beri því að leggja til grundvallar að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd. Þegar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sé skoðuð, þau lögskýringargögn sem að baki henni standi, tilskipun nr. 2011/95/ESB og önnur þau gögn sem hér hafi verið reifuð, sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd þar sem hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Því sé áréttuð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og honum veitt alþjóðleg vernd á Íslandi skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð krafa um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ítrekað sætt meðferð sem talist geti ómannúðleg og vanvirðandi. Af hálfu kæranda er því haldið fram að líta beri svo á að kærandi hafi til langs tíma sætt mannréttindabrotum og ofbeldisbrotum sem yfirvöld veiti honum ekki vernd gegn. Með erfiðum félagslegum aðstæðum í frumvarpi að lögum um útlendinga sé vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Að teknu tilliti til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir lögreglu án þess að eiga möguleika á vernd auk þeirrar staðreyndar að hann tilheyri þjóðarbroti [...] verði að telja hann í verulegri hættu á að búa við erfiðar félagslegar aðstæður í [...]. Kærandi uppfylli því skilyrði til þess að vera veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eins og þeim sé lýst í frumvarpi að lögunum.

Í greinargerð kæranda er gerð þrautavarakrafa um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Eins og fram komi í hinni kærðu ákvörðun hafi kærandi sótt fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 6. maí 2016 og því ljóst að meira en 18 mánuðir séu liðnir síðan. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að það sé mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað á sér deili með fullnægjandi hætti enda hafi hann einungis lagt fram ljósrit skilríkja sinna. Hafi stofnunin talið rétt að geta þess að sérstaklega hafi verið brýnt fyrir kæranda að það væri honum til hagsbóta að leggja fram skilríki í málinu. Í ljósi þess hafi það verið mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé. Fram kemur í greinargerð að framangreint feli í sér ranga túlkun Útlendingastofnunar á því hvenær vafi geti leikið á því hver kærandi sé. Aðeins verði litið svo á að vafi leiki á hver umsækjandi sé ef upp hafi komið atvik sem gefi tilefni til að draga í efa að umsækjandi sé sá sem hann kveðist vera. Þannig geti skilríki og önnur gögn sem umsækjandi leggi fram aðeins orðið til að styðja það auðkenni sem hann haldi fram. Ekkert hafi komið fram við meðferð umsóknar kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum sem hafi vakið slíkan vafa. Ekki séu gerðar kröfur í lögum eða reglugerð um útlendinga að umsækjandi um alþjóðlega vernd leggi fram frumrit persónuskilríkja til þess að sanna á sér deili, sbr. 37. gr. reglugerðarinnar, nánar tiltekið b-liður 1. mgr. Afrit skilríkja séu því strangt til tekið nægileg staðfesting á auðkenni. Til stuðnings framangreindu er vísað til fyrirliggjandi ákvörðunar Útlendingastofnunar í öðru máli.

Að því er varði 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga segi í hinni kærðu ákvörðun að ljóst sé að kærandi hafi yfirgefið landið án leyfis þann 21. nóvember 2016 og að Útlendingastofnun hafi ekki verið kunnugt um dvalarstað hans frá þeim degi og þar til hann hafi komið aftur til landsins þann 24. maí 2017. Af þeim sökum geti 2. mgr. 74. gr. ekki átt við um kæranda. Í greinargerð er bent á að þegar kærandi hafi yfirgefið landið þá hafi legið fyrir ákvörðun um að honum bæri skylda til að yfirgefa landið og verði því ekki litið svo á að kærandi hafi yfirgefið landið án leyfis. Þá beri að líta til þess að kærandi hafði engin áform um að snúa aftur til Íslands fyrr en íslensk stjórnvöld hafi viðurkennt gagnvart hollenskum yfirvöldum að bera ábyrgð á umsókn hans. Þá sé vakin athygli á því að samanlagður málsmeðferðartími á máli kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum að frádregnum þeim tíma sem hann hafi dvalið utan landsins sé nú þegar meira en 18 mánuðir, þ.e. Dyflinnarmeðferð frá 6. maí 2016 til 4. október 2016 og efnismeðferð frá 24. maí 2017. Því sé talið ljóst að kærandi beri ekki sjálfur sök á því að að meðferð á máli hans hjá íslenskum stjórnvöldum hafi tafist umfram 18 mánuði. Beri jafnframt að líta til þess að samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi það verið mistök íslenskra stjórnvalda sem hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að þau skyldu bera ábyrgð á málinu og taka á móti kæranda. Víkja beri frá b-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á grundvelli 4. mgr. 74. gr. laganna. Kærandi teljist uppfylla skilyrði þess að vera veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi ekki lagt fram vegabréf en hann hafi lagt fram afrit af skilríki á [...]. Því hafi verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að á ferð sinni um Evrópu á síðastliðnum níu árum hafi kærandi gefið upp nokkur ólík nöfn og í það minnsta tvö ólík þjóðerni. Kæranda hafi verið gefið færi á að gefa skýringar á þessu atriði en þær skýringar hafi ekki verið til þess fallnar að sanna deili á kæranda. Útlendingastofnun hafi talið nokkurn vafa leika á þjóðerni kæranda en þrátt fyrir það hafi ekki verið annað unnt en að leggja til grundvallar að kærandi sé frá [...] enda hafi hann leitt að því ákveðnar líkur með frásögn sinni. Þá hafi ekki legið fyrir önnur gögn eða upplýsingar sem hafi getað leitt til annarrar niðurstöðu. Við úrlausn málsins lagði stofnunin því til grundvallar að kærandi væri [...] ríkisborgari.

Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því byggt á því í málinu að kærandi sé frá [...]. Vegna athugasemda í greinargerð tekur kærunefnd fram að sú almenna skylda hvílir á útlendingum að þeir hafi gilt vegabréf eða annað kennivottorð við komu til landsins, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur ekki undir að frásögn kæranda af auðkenni sínu og þau afrit af gögnum sem hann hefur lagt fram séu fullnægjandi til að sýna fram á auðkenni hans. Kæranda hefur ítrekað verið leiðbeint um þýðingu þess að leggja fram frumrit gagna sem sýna fram á auðkenni hans en hann hefur ekki orðið við þeim leiðbeiningum. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á auðkenni sitt.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...], m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Samkvæmt framangreindum gögnum er [...] fjölflokka lýðveldi með tæplega [...] íbúa. [...] lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi árið [...] og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum sama ár. Ríkið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið [...], mannréttindasáttmála [...] árið [...] og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið [...]. Árið [...] gerðist ríkið jafnframt aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Fyrrgreindar skýrslur gefa til kynna að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að takmörkunum á funda-, fjölmiðla- og félagafrelsi, skorti á sjálfstæði dómsvaldsins, óhóflegri valdbeitingu lögreglu, útbreiddri spillingu og refsileysi opinberra starfsmanna. Þá séu árásir hryðjuverkasamtaka vandamál í [...] en slíkar árásir beinist aðallega að lögreglunni, öryggissveitum landsins og hernum. Þá séu handahófskenndar handtökur refsiverðar samkvæmt lögum, en stjórnvöld noti m.a. löggjöf gegn hryðjuverkum til að þagga niður í einstaklingum sem gagnrýni opinberlega eða harðlega stjórnvöld landsins.

Fram kemur í skýrslu Freedom House frá [...] að forsetakosningar fari fram á [...].

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að flestir [...] séu af [...]. [...] og verði ekki fyrir mismunun í [...], en mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð samkvæmt stjórnarskrá landsins. Í skýrslu [...] kemur fram að ríkisstjórn landsins leitist við að stuðla að efnahagslegum-, félagslegum- og menningarlegum réttindum [...]. Sú viðleitni sést m.a. í því að árið 2016 [...].

Í skýrslu [...]. Sú starfsemi lúti einkum að viðskiptum með fíkniefni, vopn og stolin ökutæki, fjársvikum og fjárkúgun. Stjórnvöld berjist ötullega gegn uppgangi skipulagðra glæpahópa og hafi meðal annars verið sett lög til þess að verja uppljóstrara og sérfræðivitni gegn ofsóknum þessara hópa. Nokkuð hefur áunnist í þessari baráttu síðustu ár. Fram kemur í skýrslu Landinfo frá [...] að nokkuð sé um vopnahópa í [...], þ. á m. samtökin [...]. Markmið samtakanna sé að stofna [...] og hafi samtökin gerst sek um þó nokkrar árásir í [...] á undanförnum árum sem beinist flestar að hermönnum og lögreglumönnum. Öflugar varnir gegn hryðjuverkum og hernaðaraðgerðir hafi þó gert það að verkum að starfsemi vopnahópa sé að miklu leyti takmörkuð, sjá m.a. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins, [...]. Þá kemur fram í annarri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins, [...]. Þá hafi yfirvöld almennt séð stjórn yfir öryggissveitum landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi orðið fyrir áreiti og ofbeldi af hálfu einstaklinga innan lögreglunnar í heimaríki sem tengist kröfu þessara einstaklinga gagnvart kæranda og fjölskyldu hans um peningagreiðslur. Tveir frændur hans hafi verið myrtir. Aðspurður kvaðst kærandi ekki vita á hvaða grundvelli lögreglan hafi heimtað af honum peninga og beitt hann ofbeldi.

Kærandi kvaðst hafa lagt á flótta frá heimaríki sínu árið 2008 og er því langt um liðið síðan framangreindir atburðir eiga að hafa átt sér stað. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi orðið fyrir áreiti af hálfu lögreglunnar auk þess sem önnur gögn málsins benda ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til þess að íbúar í [...] eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda. Telur kærunefndin því ekki hægt að leggja til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu [...] yfirvalda eða annarra aðila þar í landi sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um eða á grundvelli sem talinn er upp í 1. mgr. 37. gr., sbr. 3. mgr. 38. gr. sömu laga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hafa ítrekað verið kúgaður til að greiða lögreglumönnum peninga og ítrekað verið beittur líkamlegu ofbeldi. Þar kemur jafnframt fram að ætla megi að sú staðreynd að kærandi sé af þjóðarbroti [...] geri hann líklegri til að verða fyrir áreiti og ólíklegri til að hljóta vernd yfirvalda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 15. mars 2018 greindi kærandi frá því að frændur hans hafi verið myrtir árið 2006 og í kjölfarið hafi hann lagst á flótta innan [...] en árið 2008 hafi kærandi yfirgefið heimaríki sitt og ekki komið þangað síðan.

Líkt og áður sagði þá er að mati kærunefndar ákveðnum vandkvæðum bundið að byggja á frásögn kæranda um ástæður flótta hans og aðstæður í heimaríki enda yfirgaf kærandi heimaríki sitt fyrir um 10 árum síðan og því langt um liðið síðan áðurnefndir atburðir eiga að hafa átt sér stað. Þar að auki fær frásögn kæranda ekki fyllilega stoð í nýjum skýrslum um aðstæður í heimaríki kæranda. Kærunefnd hefur þó ekki forsendur til að draga í efa að kærandi hafi orðið fyrir áreiti af hálfu tiltekins lögreglumanns eða manna á hans snærum enda má ráða af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að spilling sé viðvarandi vandamál í [...]. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að lögreglan sé almennt séð spillt og að borgarar geti ekki leitað til hennar. Að sögn kæranda bjó hann og starfaði í [...] í um tvö ár eftir að frændur hans voru myrtir. Af framburði kæranda má ráða að hvorki hann né fjölskylda hans hafi orðið fyrir beinum hótunum eða ofbeldi af hálfu aðila í heimaríki eftir að kærandi lagði á flótta.

Í skýrslu [...] kemur fram að kynþáttahatur og mismunun á grundvelli kynþáttar sé ekki algeng í [...] og sé auk þess refsiverð skv. þarlendum hegningarlögum. Þá vinna stjórnvöld að því að styrkja réttindi minnihlutahópa, þ. á m. að því að efla réttindi og menningu [...]. Ekkert í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér bendir til þess að [...] eigi sérstaklega á hættu að verða fyrir ofsóknum eða áreiti í heimaríki.

Með vísan til gagna málsins, framangreindra upplýsinga um heimaríki kæranda og þess langa tíma sem er liðinn frá flótta kæranda frá heimaríki, er það mat kærunefndar að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé í hættu á að búa við erfiðar félagslegar aðstæður í [...] þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir lögreglu í heimaríki auk þess sem hann tilheyri þjóðarbroti [...]. Líkt og áður hefur komið fram þá er mismunun á grundvelli kynþáttar ólögleg skv. [...] lögum og ekkert bendir til þess að yfirvöld í [...] fylgi þeim lögum ekki eftir í framkvæmd. Þá má ráða af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að borgarar geti að jafnaði leitað til lögreglunnar telji þeir á sér brotið. Auk þess er áréttað það sem áður kom fram að langt er um liðið síðan kærandi varð fyrir áreiti af hálfu einstaklinga innan lögreglunnar og ekkert í málinu bendir til þess að kærandi eigi enn á hættu að verða fyrir slíku áreiti.

Kærandi er einstæður karlmaður á miðjum aldri og af gögnum málsins verður ekki annað séð en að hann sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi.Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga segir að um sé að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum. Þá sé ekki gert að skilyrði að útlendingur hafi fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. laganna.

Málsmeðferð kæranda hjá stjórnvöldum hér á landi hefur þegar verið rakin en fyrir liggur að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. maí 2016. Mál hans var klárað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og lauk með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 4. október 2016, sem birtur var fyrir kæranda þann 17. október 2016. Niðurstaða málsins var að synja bæri kæranda um efnismeðferð á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og að hann skyldi sendur til Írlands en írsk stjórnvöld höfðu fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Áður en til flutnings kom lét kæranda sig hverfa og fór af landi brott. Líkt og áður hefur komið fram kom kærandi aftur til hingað til lands þann 24. maí 2017 frá Hollandi. Af gögnum málsins fæst ekki séð að kærandi hafi þá lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd heldur virðist af meðferð máls hans verið framhaldið hjá Útlendingastofnun án aðkomu hans. Að mati kærunefndar bera atvik málsins, einkum viðbrögð Útlendingastofnunar eftir að kærandi kom aftur til lands, ekki annað með sér en að meðferð þess hafi verið framhald af meðferð þess máls sem hófst með umsókn kæranda um alþjóðlega vernd 6. maí 2016.

Mál hans var í kjölfarið tekið til efnismeðferðar þar sem Útlendingastofnun láðist að svara beiðni frá hollenskum yfirvöldum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í tæka tíð. Málsmeðferð stjórnvalda vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hefur því samanlagt tekið um 30 mánuði. Því telst skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, um að kærandi hafi ekki fengið niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða frá því að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd, uppfyllt.

Er það jafnframt mat kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði a., c og d. liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Skilyrði b-liðar, um að ekki leiki á því hver umsækjandi sé, er að mati kærunefndar ekki uppfyllt enda hefur kæranda ekki tekist að sýna fram á auðkenni sitt, líkt og áður kom fram. Þá segir í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að ákvæði 2. mgr. gildi ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi eigi við um:

a. útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,

b. útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,

c. útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun,

d. útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Líkt og áður kom fram yfirgaf kærandi ekki landið til Írlands eins og mælt var fyrir um í ákvörðunum stjórnvalda. Hann var ekki í búsetúrræði sínu þegar til stóð að flytja hann til Írlands í nóvember 2016 og var íslenskum stjórnvöldum ókunnugt um dvalarstað kæranda þar til í maí 2017 þegar kærandi var fluttur hingað til lands frá Hollandi. Að mati kærunefndar verður að líta svo á að kærandi hafi yfirgefið landið án leyfis og dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur. Því er ljóst að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á ekki við um kæranda sbr. 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er að finna heimild til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Er það mat kærunefndar að aðstæður í máli kæranda séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá ákvæðum 3. mgr.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að synja beri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Eins og að framan greinir hefur umsókn kæranda um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Gögn málsins benda ekki til annars en að kærandi sé við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta