Mál nr. 5/2010
Fimmtudaginn 28. október 2010 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 5/2010:
A
gegn
fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Í bréfi A, dags. 20. maí 2010, en mótteknu 9. ágúst 2010, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, kemur fram að kærður sé úrskurður fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar vegna synjunar um fjárhagsaðstoð til kæranda. Kærunni fylgdu tvö bréf, þ.e. bréf frá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, dags. 17. maí 2010, til kæranda og bréf frá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, dags. 23. júlí 2010, til kæranda. Verður fyrst fjallað um fyrra bréfið frá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, en þar er greint frá því að mál kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi fjölskyldu- og félagsmálaráðs þann 17. maí 2010 og honum synjað um fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi verið yfir með 66.662 kr. yfir kvarða á mánuði. Enn fremur var kæranda synjað um fjárhagsaðstoð sjö ár aftur í tímann með þeim rökum að fjárhagsaðstoð er aldrei veitt lengur en þrjá mánuði afturvirkt ef viðkomandi er undir kvarða, en kærandi var yfir kvarða allt árið 2009 sem nam 127.522 kr. á mánuði samkvæmt skattframtali.
Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, getur málsaðili skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skal það gert innan fjögurra vikna frá því viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun félagsmálanefndar. Bréf fjölskyldu- og félagsmálaráðs til kæranda, þar sem ákvörðunin er kynnt, er dags. 17. maí 2010, en kæran barst úrskurðarnefndinni 9. ágúst 2010 eða rúmum tveimur og hálfum mánuði eftir að gera má ráð fyrir að hann hafi fengið bréfið sent í pósti.
Þrátt fyrir að kærufrestur skv. 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni ákvað úrskurðarnefndin að kanna hvort skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, væru fyrir hendi til að víkja frá kærufresti svo unnt yrði að taka málið til meðferðar. Í 1. mgr. 28. gr. þeirra laga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:
- afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
- veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“
Af gögnum málsins verður ekki séð að framangreind skilyrði eigi við í máli kæranda. Nefndin kemst því að þeirri niðurstöðu að samkvæmt því beri að vísa máli kæranda varðandi ákvörðun fjölskyldu- og félagsmálaráðs frá 17. maí 2010 frá, þar sem það er of seint fram borið.
Í síðara bréfinu sem fylgdi kærunni, þ.e. bréfi Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, dags. 23. júlí 2010, kemur fram að beiðni kæranda um fjárhagsaðstoð frá 21. júlí 2010 hafi verið synjað á afgreiðslufundi sem haldinn hafi verið sama dag, þar sem tekjur hans væru umfram kvarða sveitarfélagsins. Í 1. mgr. liðar 4.5.8. í 4. kafla reglna Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð segir:
„Í umboði fjölskyldu- og félagsmálaráðs hefur afgreiðslufundur skipaður starfsmönnum stoðþjónustu FFR heimild til afgreiðslu einstakra umsókna skv. reglum þessum. Umsækjanda skal kynnt afgreiðsla á erindi hans tryggilega og um leið skal kynna honum rétt hans til að fara fram á að áfrýjunarnefnd fjölskyldu- og félagsmálaráðs fjalli um umsóknina. Umsækjandi hefur að öðru jöfnu fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til áfrýjunarnefndar frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Áfrýjunarnefnd skal afgreiða umsókn svo fljótt sem unnt er.“
Í umræddu bréfi Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, dags. 23. júlí 2010, kemur ekki fram að kæranda hafi verið kynntur réttur sinn til þess að fara fram á að áfrýjunarnefnd fjölskyldu- og félagsmálaráðs fjallaði um umsókn hans. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála beinir því til fjölskyldu- og félagsmálaráðs að gæta sérstaklega að því að umsækjendum um fjárhagsaðstoð sé leiðbeint í samræmi við tilvitnaða reglu sveitarfélagsins.
Samkvæmt 1. mgr. 63. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga getur málsaðili skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þar sem kærandi hefur ekki tæmt kæruleiðir hjá viðkomandi sveitarfélagi er kæru vegna ákvörðunar frá 21. júlí 2010 vísað frá nefndinni.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála bendir kæranda á að fara fram á að áfrýjunarnefnd fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar fjalli um umsókn hans um fjárhagsaðstoð sem synjað var á afgreiðslufundi þann 21. júlí 2010.
Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Úrskurðarorð
Kæru A á ákvörðun fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar frá 17. maí 2010 er vísað frá.
Kæru A á ákvörðun afgreiðslufundar hjá Reykjanesbæ þann 21. júlí 2010 er vísað frá.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal