Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2010

Þriðjudaginn 22. febrúar 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 8/2010:

A

gegn

félagsmálanefndar Borgarbyggðar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með tölvupósti sem barst úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þann 27. september 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarnefndar Borgarbyggðar frá 15. september 2010 um fjárhagsaðstoð vegna náms.

 

I. Málavextir.

Með bréfi sínu, dags. 24. ágúst 2010, sem kærandi sendi formanni velferðarnefndar, sveitarstjóra og félagsmálastjóra í Borgarbyggð, gerir hún grein fyrir aðstæðum sínum og leitar aðstoðar til þess að komast í B-nám í C, þar sem fyrstu tvær annir námsins séu ekki lánshæfar. Kærandi kveðst vera fráskilin móðir þriggja dætra á aldrinum 15–21 árs og sé ein þeirra fötluð. Kærandi kveðst hafa verið áfengissjúk en hafa farið í meðferð hjá SÁÁ og haldi sig nú frá áfengisneyslu.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi segir líf sitt hafa tekið miklum breytingum á þessu ári. Hún hafi verið einstæð móðir þriggja barna, drykkfelld og menntunarlaus. Hún hafi verið heimilislaus og fjárhagslegt öryggi hennar hafi ekki verið neitt. Hún hafi nú snúið við blaðinu, farið í meðferð og náð árangri, dætur hennar búi allar hjá henni og hún hyggist mennta sig og fara í nám. Þar sem hún sé félaus óski hún aðstoðar við að greiða fyrir fyrstu tvær annirnar í sjúkraliðanámi í C, þar sem þær eru ekki lánshæfar.

Kærandi vekur athygli á því að í fundargerð velferðarnefndar frá 15. september 2010 sé minnst á bókun nefndarmanns um að nefndin gæti ekki jafnræðis varðandi námsstyrki til umsækjenda. Af fundargerð megi sjá að átta umsóknir um fjárhagsaðstoð hafi verið afgreiddar, þar af þrjár um námsstuðning. Leiki kæranda forvitni á að vita hvernig þær hafi verið afgreiddar og þá hvort jafnræðis hafi verið gætt.

Í erindi kæranda kemur jafnframt fram að þótt börn hennar haldi lögheimili hjá föður þeirra, þá búi þau allt að einu hjá henni, en faðir þeirra hafi hafnað að samþykkja með formlegum hætti lögheimilisflutning barnanna. Hún telji jafnframt að félagsmálastjóri kærða hafi við afgreiðslu málsins látið stjórnast af persónulegu mati sínu á kæranda, í stað þess að vinna faglega úr umsókn kæranda um aðstoð.

 

III. Málsástæður kærða.

Fram kemur af hálfu velferðarnefndar Borgarbyggðar að sú aðstoð sem kærandi leiti eftir sé utan heimilda nefndarinnar.

Í erindi kærða, dags. 13. janúar 2010, kemur fram að um hafi verið að ræða einstakling sem hafi ekki haft börn á framfæri sínu og sem hefði tök á að nýta þær almennu leiðir sem fullorðnu fólki stendur til boða sem vill hefja nám. Hafi starfsfólk félagsþjónustunnar bent kæranda á þær leiðir sem henni stóðu til boða. Þeir sem hafi notið námsstuðnings hafi verið ungar einstæðar mæður með ung börn, og hafði aðstoðin verið veitt til þess að þær gætu haldið áfram námi sem þær hafi öðrum kosti þurft að hætta þrátt fyrir eðlilega námsframvindu. Í þeim tilvikum hafi að auki verið kallað eftir staðfestingu skóla á námsframvindu á námstímanum.

Upplýst er að við afgreiðslu málsins hafi einn fulltrúi setið hjá og lagt fram rökstuðning fyrir afstöðu sinni. Þar kemur meðal annars fram að þrátt fyrir ákvæði 7. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð, þar sem segir meðal annars að námsmenn eigi að öðru jöfnu ekki rétt á fjárhagsaðstoð, hafi aðrar umsóknir til stuðnings fólks til náms verið samþykktar á fundi nefndarinnar, þar á meðal umsóknir til fólks sem að sögn hafi búið í foreldrahúsum. Hafi ekki mátt merkja að aðstæður þeirra sem slíkan styrk hlutu hafi verið verri en kæranda. Af þeim sökum hafi verið erfitt að rökstyðja mismun afgreiðslnanna.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Borgarbyggð.

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort fallast beri á umsókn kæranda um námsstyrk í tvær annir, sem ekki veita rétt til námslána. Hefur kærandi meðal annars byggt á því að umsókn hennar hafi ekki fengið málefnalega afgreiðslu, meðal annars vísað til þess að ekki hafi verið gætt jafnræðis við afgreiðslu umsóknar hennar á fundi kærða. Í reglum félagsmálanefndar Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð sem staðfestar voru af sveitarstjórn Borgarbyggðar 12. október 2006 kemur fram í 7. gr. að einstaklingar í námi eigi að jafnaði ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Kærandi sótti um námsstyrk en fékk ekki en umsóknir annarra umsækjenda um námsstyrk voru samþykktar á fundi velferðarnefndar 15. september 2010.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Upplýsingar í málinu eru af afar skornum skammti. Þannig barst úrskurðarnefndinni ekki rökstuðningur kærða fyrir ákvörðun sinni fyrr en með bréfi nefndarinnar, dags. 13. janúar 2011, og sem byggður var á bókun kærða á fundi dagsettum 12. janúar 2011, en hin kærða ákvörðun var tekin þann 15. september 2010. Auk þess liggur fyrir úrskurðarnefndinni bókun eins fulltrúa velferðarnefndar Borgarbyggðar þar sem fullyrt er að erindi kæranda hafi ekki fengið sambærilega afgreiðslu og önnur erindi sem afgreidd voru á fyrrgreindum fundi þrátt fyrir að aðstæður hinna umsækjendanna sem hlutu slíkan styrk hafi ekki verið verri en kæranda að mati hennar. Þá hefur kærandi byggt á því að hún hafi verið látin gjalda þess að hafa ekki skilað umsókn í réttu formi til velferðarnefndarinnar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort svo sé í reynd eða hvað skýrir hina mismunandi niðurstöðu. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort velferðarnefnd Borgarbyggðar hafi gætt leiðbeiningarskyldu sinnar gagnvart kæranda við framlagningu umsóknar hennar.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fullt tilefni virðist til að rannsaka mál kæranda betur og er ekki talið unnt að bæta úr því á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Er því nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til velferðarnefndar Borgarbyggðar til löglegrar meðferðar.

Hin kærða ákvörðun félagsmálanefndar Borgarbyggðar er felld úr gildi og málinu vísað aftur heim til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 Hin kærða ákvörðun félagsmálanefndar Borgarbyggðar frá 15. september 2010, í máli A, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til félagsmálanefndar Borgarbyggðar til löglegrar meðferðar.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

  

Margrét Gunnlaugsdóttir                                                      Gunnar Eydal

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta