Mál nr. 7/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. apríl 2012
í máli nr. 7/2012:
Hafnarnes Ver ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 20. mars 2012, kærði Hafnarnes Ver ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 15178 „Netarall 2012“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„1. Að kærunefndin stöðvi þegar í stað innkaupaferli/gerð samnings á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr um kæru.
2. Að kærða verði gert skylt að rökstyðja hina kærðu ákvörðun í samræmi við 75. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 og afhenda öll gögn og upplýsingar er málið varðar.
3. Að kærunefndin felli úr gildi ákvörðun kærða vegna kaupanna og leggi fyrir hann að láta mat á tilboðum fara fram að nýju. Verði ekki fallist á að mat skuli fara fram að nýju er þess krafist að lagt verði fyrir kærða að auglýsa tilboðið á nýjan leik.
4. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda/kærða gagnvart kæranda.
5. Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með bréfi og gögnum, dags. 30. mars 2012, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
I.
Í janúar 2012 auglýsti kærði útboð nr. 15178 „Stofnmæling hrygningarþorsks – Netarall 2012“. Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og kærði tilkynnti um val tilboða hinn 6. mars 2012
Hinn 20. mars 2012 var bjóðendum tilkynnt að tilboð hefði verið endanlega samþykkt og samningur kominn á.
II.
Kærði hefur þegar gert endanlegan samning í kjölfar hins kærða útboðs, sbr. 76. gr. laga nr. 84/2007. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laganna verður samningurinn ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kærða um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að stöðva hið kærða innkaupaferli.
Ákvörðunarorð:
Kröfu kæranda, Hafnarness Vers ehf., um að útboð kærða, Ríkiskaupa, nr. 15178 „Stofnmæling hrygningarþorsks – Netarall 2012“ verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, er hafnað.
Reykjavík, 16. apríl 2012.
Auður Finnbogadóttir
Hálfdan Þórir Markússon
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, apríl 2012.