Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2010

Fimmtudaginn 13. janúar 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 15/2010:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

  

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, ódagsettu en mótteknu 15. nóvember 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2010, um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr.

 

I. Málavextir.

Hinn 16. ágúst 2010 sótti kærandi um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr. Honum var synjað um styrkinn með bréfi þjónustumiðstöðvar B, dags. 14. október 2010, á þeim forsendum að umsókn hans samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi skaut ákvörðuninni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem staðfesti hana á fundi sínum 19. október 2010.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi er 75% öryrki og hann er greindur með þunglyndi og geðklofa. Hann var í óreglu en hefur haldið sig frá henni í nokkra mánuði að eigin sögn. Kærandi hefur nýverið hafið nám í C og býr í leiguíbúð á D. Hann bjó þar ásamt kærustu sinni. Hún hefur nú flutt út og mun hún eiga innbúið í íbúðinni. Þar áður leigði kærandi litlar íbúðir eða bílskúra og fylgdi þeim þá oftast nauðsynlegustu húsmunir. Kærandi er ekki í fullu námi vegna veikinda sinna og á því ekki rétt á námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi kveðst vera í sinni fyrstu „alvöru“ búsetu. Á þeim stöðum þar sem hann hafi búið áður hafi verið fyrir húsgögn og því hafi hann ekki þurft á húsgögnum að halda. Kærandi kveðst vera búinn að kljást við mikla félagslega erfiðleika og að hann sárvanti húsgögn, en hann hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að kaupa þau. Meðal gagna málsins er bréf frá E, náms- og starfsráðgjafa hjá C, dags. 31. ágúst 2010. Þar kemur meðal annars fram að kærandi leigi þriggja herbergja íbúð á D. Hann vanti öll húsgögn í íbúðina og er með bréfinu hvatt til þess að honum verði veittur viðeigandi styrkur til kaupa á þeim.

 

III. Sjónarmið velferðarráðs.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sem tóku gildi 1. janúar 2004 með síðari breytingum.

Í 20. gr. framangreindra reglna er fjallað um styrki vegna húsbúnaðar. Velferðarsviðið vísar til 20. gr. reglnanna og er tekið fram að það sé ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 20. gr. hvað varði greiðslu styrks til kaupa á húsbúnaði.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi uppfylli hvorki a- né b-lið 20. gr. um að hann hafi lægri tekjur en sem nemi grunnfjárhæð. Grunnfjárhæð reglnanna sé skv. 11. gr. þeirra 125.540 kr., en tekjur kæranda séu 157.733 kr. auk þess sem hann fái 28.589 kr. á mánuði frá lífeyrissjóði. Kærandi hafi að auki ekki verið búsettur á stofnun undanfarin tvö ár og ekki sé unnt að líta svo á að hann hafi átt í miklum félagslegum erfiðleikum. Þá eigi c- og d-liðir reglnanna ekki við tilvik kæranda. Velferðarráð hafi af framangreindum ástæðum ekki talið koma til álita að veita umbeðinn styrk og því staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr. á grundvelli 20. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Samkvæmt 20. gr. reglnanna er heimilt að veita fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði í eftirfarandi tilvikum:

a)      Til einstaklings, sem hefur lægri tekjur en sem nema grunnfjárhæð, er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun.

b)      Til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust, með tekjur við eða undir grunnfjárhæð, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn.

c)      Þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum.

d)     Þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Skilyrði er að tekjur þeirra hafi verið við eða undir grunnfjárhæð til framfærslu samkvæmt reglum þessum síðastliðna þrjá mánuði.

Fram hefur komið að grunnfjárhæð tekna samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð einstaklings eru 125.540 kr. eins og fram kemur í 11. gr. þeirra. Mánaðarlegar tekjur kæranda eru nokkuð umfram það viðmið. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 20. gr. reglnanna til þess að hljóta umbeðinn styrk þar sem tekjur hans eru umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk. Ekki verður talið að tekjur kæranda sé við eða undir grunnfjárhæð til framfærslu samkvæmt framangreindum reglum.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu fellst á að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð og að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt. Úrskurðurinn er því staðfestur.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2010, í máli A, varðandi synjun um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr. er staðfest. 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

  

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta