Hoppa yfir valmynd

Nr. 336/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 336/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030052

Kæra […]

og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. mars 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2019 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir A), og […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir B) um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. september 2018 ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Þar sem kærandi hafði fengið útgefin dvalarleyfi hjá maltneskum stjórnvöldum var þann 10. október 2018 send beiðni um viðtöku kæranda og barna hennar og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd til yfirvalda á Möltu, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá maltneskum yfirvöldum, dags. 23. október 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 11. mars 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu.

Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda þann 12. mars 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 24. mars 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 9. apríl 2019. Viðbótargögn og upplýsingar bárust frá kæranda á tímabilinu 17. apríl til 24. maí 2019. Þá bárust kærunefnd upplýsingar frá fjölskylduþjónustu Hafnafjarðar þann 29. maí sl. Með tölvupósti, dags. 24. júní sl., óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum frá kæranda. Þann sama dag óskaði kærunefnd símleiðis eftir frekari upplýsingum frá fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar og bárust þær degi síðar með tölvupósti. Viðbótargögn bárust frá kæranda dagana 29. júní og 1. og 8. júlí sl. Viðbótargögn bárust frá fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar þann 3. júlí sl.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að maltnesk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknir þeirra yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Möltu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærandi og börn hennar ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda og börnum hennar var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Möltu.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A og B kom m.a. fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, útlendingalaga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Möltu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda og barna hennar A og B er fjallað um aðstæður fjölskyldunnar í heimaríki, á Möltu og á Íslandi. Kemur m.a. fram að aðstæður kæranda í heimaríki hafi verið erfiðar og hún sætt […]. Barnið A hafi jafnframt sætt […]. Kærandi hafi síðar […].

Fjölskyldan hafi síðar flutt til Möltu og fengið þar dvalarleyfi en eiginmaður hennar hafi stundað þar atvinnu. Kærandi og eiginmaður hennar eigi saman barnið B. Núverandi eiginmaður kæranda hafi þó jafnframt […]. Þessar aðstæður hafi haft veruleg áhrif á þær mæðgur […]. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi m.a. til gagna um heilsufar sem liggja fyrir í málinu. Kærandi telji að hún og börn hennar séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Hvað varðar málsástæður og lagarök er í greinargerð kæranda einkum á því byggt að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli þeirra og því beri að taka umsóknir hennar og barna hennar til efnislegrar meðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Til viðbótar við framangreint byggir kærandi á því að aðstæður á Möltu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd séu óboðlegar, m.a. hvað varði móttökuúrræði, aðgang barna að menntakerfinu o.fl. Þá sé t.d. þjónusta fyrir einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu ekki alltaf aðgengileg.

Kærandi vísi þá til þess að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi jafnframt bent á að geðheilbrigðisþjónustu við umsækjendur sé ábótavant á Möltu. Kærandi og börn hennar þurfi á andlegum stuðningi að halda en ekki sé ljóst hvort slíkt sé aðgengilegt á Möltu. Fjölskyldan hafi þá einnig þurft að þola hótanir á Möltu og fundið fyrir fordómum. Þá vísar kærandi til meginreglunnar um að hagsmunir barnsins skuli hafðir að leiðarljósi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, sbr. m.a. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og formálsorð Dyflinnarreglugerðarinnar.

Að lokum byggir kærandi á því að ábyrgð Möltu á umsóknum hennar og barna hennar um alþjóðlega vernd verði ekki reist á ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. m.a. 11. gr. hennar. Fjölskyldan hafi til að mynda ferðast til […] eftir að hafa dvalið á Möltu. Þá hafi Útlendingastofnun ekki haft heimild til að senda beiðni til Möltu á grundvelli 23. gr. reglugerðarinnar þar sem skilyrði ákvæðisins hafi ekki verið uppfyllt. Íslensk stjórnvöld hafi ekki beitt ákvæðinu með réttum hætti.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barna kæranda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn í máli kæranda og barnanna A og B. Meðal annars er um að ræða læknisfræðileg gögn, endurrit af viðtölum við kæranda og barnið A hjá Útlendingastofnun og upplýsingar frá talsmanni kæranda og fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar sem kærunefnd barst við meðferð málsins. Barnið B er fætt […] og fór viðtal við það ekki fram hjá Útlendingastofnun.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins gefi að nokkru leyti til kynna að tengsl milli barnsins A við […] hafi að einhverju leyti rofnað upp á síðkastið og þá kunni þau jafnvel að hafa ólíkra hagsmuna að gæta. Gögn málsins benda aftur á móti ekki til annars en að tengsl A við móður sína og barnið B séu ágæt. Þá er það mat kærunefndar hvað varðar barnið B að með hliðsjón af gögnum málsins séu ekki forsendur til annars en að ætla að tengsl þess við báða foreldra sína séu ágæt.

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að hagsmunum barnsins A sé best borgið með því að tryggja rétt hennar til að vera saman með móður sinni og barninu B og verður réttarstaða þess ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Þá telur nefndin að hagsmunum barnsins B, sem er dóttir kæranda og eiginmanns hennar, sé best borgið með því að tryggja rétt hennar til að vera saman með fjölskyldu sinni og að réttarstaða B verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd því rétt að taka afstöðu til mála fjölskyldunnar í tveimur úrskurðum. Með þessum úrskurði er tekin afstaða til mála kæranda og barnanna A og B. Í öðrum úrskurði sem kveðinn er upp samhliða þessum er tekin afstaða til máls eiginmanns kæranda þar sem nefndin hefur m.a. leitast við að gæta að sjónarmiðum varðandi meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Möltu á umsóknum kæranda og barna hennar er byggð á 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi og börn hennar hafi fengið útgefin dvalarleyfi hjá maltneskum stjórnvöldum. Við meðferð málsins fyrir kærunefnd hafa kærandi og börn hennar borið brigður á ábyrgð Möltu á umsóknum þeirra, m.a. með vísan til 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en í því ákvæði er fjallað um fjölskyldumálsmeðferð. Kærunefnd telur að það ákvæði geti ekki átt við í máli kæranda og barna hennar, m.a. þar sem skilyrði ákvæðisins um aðskilnað fjölskyldumeðlima sé ekki uppfyllt. Þá hefur kærunefnd farið yfir aðrar málsástæður kæranda og barna hennar um að ábyrgð Möltu kunni að vera fallin niður, en þær eru settar fram með afar óljósum og óskýrum hætti í greinargerð. Kærunefnd telur að á grundvelli þeirra málsástæðna og eins og þær eru settar fram í greinargerð sé ekki hægt að draga þá ályktun að ábyrgð Möltu sé fallin niður.

Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja maltnesk stjórnvöld um að taka við kæranda og börnum hennar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi kona um […] sem kom hingað til lands ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum, A og B. Í gögnum málsins, m.a. um heilsufar kæranda, kemur m.a. fram að hún hafi greint frá því […]. Kemur fram að kærandi hafi m.a. sótt þjónustu til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.

Samkvæmt gögnum málsins gerði A, sem er […] ára gömul, […]. Var hún í kjölfarið lögð inn á […]. Kemur m.a. fram að A hafi greint frá […]. Þá hafi A greint frá […] sem hún hafi orðið fyrir. Lögreglu hafi verið tilkynnt um framangreint til rannsóknar og skýrslur verið teknar af A. Jafnframt sé fyrirhugað að skýrslutökur af A muni fara fram í […]. Þá sé beðið eftir að könnunarviðtal við B fari fram.

Hvað barnið B varðar, sem er […] ára gamalt, benda gögn málsins ekki til annars en að B sé við ágæta andlega og líkamlega heilsu. Í heilsufarsskoðun hjá hjúkrunarfræðingi hafi þó komið í ljós að […]. Hvað aðstæður fjölskyldunnar snertir þá gefa gögn málsins til kynna að […].

Samkvæmt gögnum málsins er m.a. ljóst að kærandi hefur sótt þjónustu fyrir […] hér á landi og þá hefur A m.a. þurft á […]. Þá liggur fyrir að kærandi er hér á landi með B, ungt barn. Auk þess hafa börnin A og B m.a. hlutverki að gegna við skýrslutökur hér á landi í þágu […]. Það er mat kærunefndar að gögn málsins beri með sér að kærandi og börn hennar hafi sérþarfir sem taka hefur þurft tillit til hér á landi. Því séu kærandi, A og B í heild sinni í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Möltu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Möltu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• Asylum Information Database, Country Report: Malta (European Council on Refugees and Exiles, 11. mars 2019);

• Malta 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);

• Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Malta (UN High Commissioner for Refugees (UNHCR), júlí 2018);

• Freedom in the World 2019 – Malta (Freedom House, 2019);

• Progress Report 2018: A Global Strategy to Support Governments to End the Detention of Asylum seekers & Refugees, 2014-2019 (UN High Commissioner for Refugees (UNCHR), febrúar 2019);

• ECRI Report on Malta (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);

• Amnesty International Report 2017/18 - Malta (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

• National Report on Hate Speech and Hate Crime in Malta 2016 (E-More Project, nóvember 2016);

• National Action Plan Against Racism and Xenophobia (Equality Research Consortium, 2010);

• Upplýsingar af vefsíðum maltneskra yfirvalda: https://integration.gov.mt/en/ResidenceAndVisas/Pages/Humanitarian-Other-Reasons.aspx og https://deputyprimeminister.gov.mt/en/cbhc/Pages/Entitlement/Health-Entitlement-to-RefugeesMigrants.aspx;

• Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna: http://www.unhcr.org.mt;

• Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu;

• Upplýsingar af vefsíðu félagasamtakanna Victim Support: victimsupport.org.mt;

• Upplýsingar af vefsíðum Report Racism Malta og Reporting Hate: www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu;

• Upplýsingar af vefsíðu maltneskra stjórnvalda: https://fsws.gov.mt/en/;

• National Children‘s Policy (Ministry for the family, children‘s rights and social solidarity, nóvember 2017).

Í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, kemur m.a. fram að tiltekin stofnun (e. Refugee Commissioner) á Möltu taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd. Á Möltu sé þrenns konar staða og vernd einkum í boði, þ.e. flóttamannavernd, viðbótarvernd og vernd af mannúðarástæðum. Refugee Commissioner taki ákvarðanir á fyrsta stigi í málum og séu þær kæranlegar innan tveggja vikna til áfrýjunarnefndar (e. Refugee Appeals Board). Úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé að vissum skilyrðum uppfylltum hægt að bera undir maltneska dómstóla. Gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð á vegum maltneska ríkisins sé ekki í boði á fyrsta stigi málsmeðferðar en hægt sé að leita til frjálsra félagasamtaka. Hljóti umsækjandi þó neikvæða ákvörðun á fyrsta stigi getur hann átt rétt á ókeypis lögfræðiþjónustu með sömu skilyrðum og eigi við um maltneska ríkisborgara.

Ennfremur kemur fram að umsækjendur hafi aðgang að maltneska vinnumarkaðnum, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Til dæmis geti börn undir 15 til 16 ára aldri sótt gjaldfrjálsa grunn- og framhaldsskólamenntun. Þá geti undir ungt fólk og fullorðnir einstaklingar t.d. sótt um undanþágu frá greiðslu skólagjalda við opinberar menntastofnanir, t.d. Háskólann á Möltu. Hvað heilbrigðiskerfið varðar þá er þess m.a. getið að samkvæmt þarlendum reglum skuli allir umsækjendur hafa aðgang að opinbera heilbrigðiskerfinu. Einstaklingar sem þurfi á geðheilbrigðisaðstoð að halda eða sambærilegri þjónustu geti þó reynst erfitt að fá aðstoð við hæfi, t.d. vegna skorts á greiningu og sérfræðingum. Þó sé reynt að koma til móts við þarfir sérstaklega viðkvæma einstaklinga og hópa, t.d. fjölskyldur með börn, og reynt að tryggja þeim þjónustu og aðbúnað við hæfi, t.d. hvað varðar húsnæði. Vegna skorts á fjármagni og nægilegra sterkra innviða hafi það þó t.d. gerst að sérstaklega viðkvæmir einstaklingar hafi aldrei fengið greiningu sem slíkir.

Hvað varðar stöðu og réttindi barna á Möltu þá er þess m.a. getið að árið 2018 hafi verið sett heildstæð barnaverndarlög þar í landi og þá sé ríkið t.d. aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í opinberum upplýsingum frá Möltu kemur fram að markmið þarlendra stjórnvalda sé að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu til viðkvæmra barna og unglinga undir 18 ára aldri sem hafa eða eiga á hættu að sæta vanrækslu eða misnotkun. Mál sem varði t.d. vanrækslu eða misnotkun barna heyri undir barnaverndarþjónustu Möltu (e. Child Protection Services). Sú stofnun sé m.a. í samskiptum við og taki við tilvísunum frá skólastofnunum, lögreglu, heilbrigðisyfirvöldum o.fl.

Í málum þar sem komið hafi fram ásakanir eða grunsemdir um misnotkun eða vanrækslu barna séu þau rannsökuð af þar til bærum starfsmönnum. Í málum þar sem slík vanræksla eða misnotkun hafi átt sér stað sé m.a. leitast við að tryggja fullnægjandi úrræði og eftirfylgni með viðkomandi börnum og fjölskyldum þeirra. Þá er þess einnig getið að til staðar sé sérstök deild í maltneska stjórnkerfinu sem hafi mál vegna heimilisofbeldis á sínum snærum (e. Domestic Violence Unit) en hún hafi verið starfrækt frá árinu 1994. Þjónustan standi m.a. saman af sérhæfðum félagsráðgjöfum sem veiti margs konar ráðgjöf og stuðning til þolenda heimilisofbeldis og barna þeirra.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda og barna hennar, einkum […] sem kærandi og A kveðast hafa sætt af hálfu […]. Sé andlegu heilsufari kæranda og A verulega áfátt vegna þessa, en kærandi hafi sótt þjónustu hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þá hafi A verið […]. Í gögnum málsins kemur fram að félagslegar aðstæður A séu afar erfiðar. Hvað aðstæður á Möltu varðar telur kærandi að fullnægjandi þjónusta henni og börnum hennar til handa kunni að vera af skornum skammti þar í landi, en t.d. sé geðheilbrigðisþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd ábótavant.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er áréttuð sú meginregla, sem kemur jafnframt m.a. fram í 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, að við mat á því hvort taka skuli mál barns til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skulu hagsmunir barns hafðir að leiðarljósi. Líkt og áður hefur komið fram bera gögn málsins með sér að kærandi og börn hennar hafi fengið margs konar stuðning og þjónustu frá heilbrigðis- og barnaverndaryfirvöldum hér á landi. Þá liggur jafnframt fyrir að skýrslutökur af A og B eru fyrirhugaðar í […] í tengslum við […].

Eins og að framan greinir njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd ýmissa réttinda á Möltu en þó hefur komið fram að greining og úrræði fyrir einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu kunni að vera ábótavant að einhverju leyti. Þá er ljóst af gögnum málsins að á Möltu er starfrækt aðgengilegt barnaverndarkerfi auk teymis sem haldi utan um mál varðandi heimilisofbeldi.

Þegar litið er til aðstæðna kæranda og barna hennar, einkum erfiðra félagslegra aðstæðna og þeirrar þjónustu sem þau hafa þurft á að halda hjá heilbrigðis- og félagamálayfirvöldum hér á landi sem og […] er það þó niðurstaða nefndarinnar, eins og hér stendur sérstaklega á, að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 1. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar hér á landi.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and her children‘s applications for international protection in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                             Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta