Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 204/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 204/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs vegna ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn kæranda, dags. 30. september 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 7,5 mánuði vegna barns síns sem fæddist X. október 2021. Kærandi hóf töku fæðingarorlofs í október 2021 í kjölfar fæðingarinnar og lauk fæðingarorlofi í júní 2022. Samhliða greiðslu fæðingarorlofs í júní 2022 fékk kærandi greiddar 575.736 kr. frá vinnuveitanda sínum.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. desember 2022, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum og óskaði frekari gagna og skýringa frá henni. Skýringar bárust frá kæranda, dags. 18. janúar og 7. febrúar 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. febrúar 2023, var kæranda tilkynnt með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), að hún hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri samkvæmt framangreindum lögum og bæri henni því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 203.852 kr., auk 15% álags, samtals 234.430 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. apríl 2023. Með bréfi, dags. 26. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 10. maí 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. maí 2023. Athugasemdir kæranda bárust 24. maí 2023 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóð, dags. 21. apríl 2023, um greiðsluáskorun vegna ofgreiðslu fæðingarorlofs.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs lúti að því að kærandi hafi fengið greitt fæðingarorlof tímabilið 1. til 30. júní 2022. Kærandi hafi veitt Fæðingarorlofssjóði umbeðnar skýringar. Kærandi telji að Fæðingarorlofssjóður hafi brugðist og vanrækt skyldur sínar og ekki fylgt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, einkum þeim skyldum sem mælt er fyrir um í 7. og 10. gr. laganna.

Á fyrrgreindu tímabili, 1. til 30. júní 2022, hafi kærandi verið ófær um að vera í fæðingarorlofi vegna veikinda. Kærandi hafi undirgengist aðgerð þann 2. júní 2022, þar sem upp hafi komið mistök, sem höfðu alvarlegar afleiðingar í för með sér. Kærandi hafi sökum þessa legið á gjörgæslu og sjúkrahúsi. Hún hafi þegið aðstoð félagsráðgjafa sem hafi gert vinnuveitanda viðvart um veikindin. Í andmælum kæranda til Fæðingarorlofssjóðs komi fram að hún hafi verið óvinnufær á umræddu tímabili. Kærandi telji að brotið hafi verið á rétti sínum með ákvörðun sjóðsins þar sem um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða sem hafi hamlað því að hún gæti sinnt barni sínu í fæðingarorlofi á tímabilinu. Óvinnufærni kæranda sökum veikinda hennar vari enn að stórum hluta.

Markmið fæðingarorlofs sé meðal annars að tryggja barni samvistir við foreldra, en á umræddu tímabili hafi kærandi verið ófær um að umgangast barn sitt. Mat kæranda sé að hún hafi verið ófær um töku fæðingarorlofs vegna óviðráðanlegra aðstæðna, með vísan til 20. gr. laga nr. 144/2020 um foreldra- og fæðingarorlof (ffl). Þá hafi skort leiðbeiningar frá Fæðingarorlofssjóði til þess að leiðrétta feril máls. Kærandi harmi jafnframt að stofnunin hafi ekki fylgt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til hins ítrasta. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs hafi enn fremur áhrif á félagslegar aðstæður kæranda og barns hennar.

Kærandi óski eftir því að umrædd ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og vísað í vinnslu að nýju svo unnt sé að leiðrétta stöðuna. Með því sé gætt að réttindum kæranda og hugað að hagmunum barns hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. maí 2023, kemur fram að hún hafi greint frá óviðráðanlegum aðstæðum sínum í svari við könnun máls hjá Fæðingarorlofssjóði þann 17. janúar 2023 og um það vísað til alvarlegra veikinda sinna í kjölfar fæðingar barns síns. Kærandi myndi útvega læknisvottorð ef Fæðingarorlofssjóður óskaði eftir því en hún hefði ekki verið með hæfni eða getu vegna veikinda til þess að greina Fæðingarorlofssjóði frá breyttum aðstæðum sínum. Þar sem félagsráðgjafi Landspítalans hafi séð um samskipti við vinnuveitanda og Fæðingarorlofssjóð á meðan kærandi hafi legið á spítalanum, hafi hún treyst því að það hefði verið gert með réttum hætti.

Leiðbeiningaskylda og rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið virtar þar sem kæranda hafi ekki verið boðin ráðgjöf við að leiðrétta stöðuna. Kærandi hafi bæði verið ófær um að vera í fæðingarorlofi vegna veikinda og einnig ófær um að sinna starfi sínu vegna veikinda.

Kærandi krefjist þess að Fæðingarorlofssjóður skilgreini þau tímamörk og annmarka sem stofnunin leyfi sér að setja varðandi tilkynningar um breyttar aðstæður samkvæmt 20. gr. ffl. Kærandi hafi ekki verið með getu til þess að vera í fæðingarorlofi. Hún telji að ef könnun máls hefði verið framkvæmd með mannsæmandi aðferðum hefði verið hægt að koma í veg fyrir aðstæður hennar nú. Tilhögun á fæðingarorlofi sem ætlað hafi verið í júní 2022 þurfi að færa í samráði við vinnuveitanda.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar - Fæðingaorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir júní 2022, þar sem kærandi hafi fengið of háar greiðslur frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X. október 2021.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 8. desember 2022, hafi athygli hennar verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir júní 2022. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda, ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Þá hafi bréf verið sent til kæranda 10. janúar 2023, þar sem beiðni um umbeðin gögn og útskýringar hafi verið ítrekuð.

Skýringar hafi borist frá kæranda, dags. 18. janúar 2023. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir launaseðli og tímaskýrslum vegna júní 2022, sem hafi borist þann 7. febrúar 2023. Skýringar frá vinnuveitanda hafi ekki borist. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 21. febrúar 2023, þar sem kærandi hafi verið krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðar fjárhæðar ásamt 15% álagi. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins, innsendum skýringum og launaseðlum hafi verið litið svo á að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) og 2. mgr. 41. gr. ffl. Þann 26. apríl 2023 hafi beiðni borist frá kæranda um niðurfellingu 15% álags með vísan til greinargerðar kæranda með kæru.

Samkvæmt 3. gr. ffl. sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 1. mgr. 25. gr. ffl. sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3. til 5. tölul. 4. gr. sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismuni greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr. skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn kæranda, dags. 30. september 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 7,5 mánuði vegna barns sem fæðst hafi X. október 2021. Tilkynning hafi borist frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og hafi hún verið afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við hana, dags. 26. nóvember 2021.

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hennar verið 833.159 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi töku fæðingarorlofs, sbr. 7. málsl. 1. mgr. 25. gr., hafi þau hækkað í 866.271 kr. sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, henni til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr.

Tímabilið 1. til 30. júní 2022 hafi kærandi fengið greiddar 540.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði. Því hafi henni verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismuni á 866.271 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 326.271 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir júní 2022 hafi kærandi þegið 575.736 kr. í laun. Í skýringum kæranda komi fram að kærandi hafi fengið greidd laun í veikindum í júní frá vinnuveitanda. Hún hafi því fengið 249.465 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en henni hafi verið heimilt og því beri henni að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðslan fyrir júní 2022 hafi því verið 203.852 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. ffl. sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að ef foreldri hafi fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli álagið niður samkvæmt þessari málsgrein ef foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með bréfi frá kæranda, dags. 26. apríl 2023, hafi hún óskað eftir því að 15% álagið yrði fellt niður. Samkvæmt skýringum kæranda sé um að ræða greiðslu launa fyrir júní 2022. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag.

Í kæru geri kærandi athugasemd við að Fæðingarorlofssjóður hafi brugðist og vanrækt skyldur sínar við að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993, þá sér í lagi með vísan í 7. gr. og 10. gr. Varðandi leiðbeiningaskyldu stjórnvalda telji Fæðingarorlofssjóður sig hafa gætt að leiðbeiningum til kæranda eins og hægt hafi verið. Í kæru sé vísað til skorts á leiðbeiningum vegna aðstæðna kæranda en í greiðsluáætlun til kæranda sé henni leiðbeint um að hafa samband við Fæðingarorlofssjóð skyldu atvik breytast þannig að haft gæti áhrif á skráningu upplýsinga. Það sé í samræmi við 3. mgr. 20. gr. ffl., þar sem fram komi að þegar foreldri geti ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma sem það hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um samkvæmt 2. mgr. vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna, beri foreldri að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingu á því formi sem stofnunin ákveði, svo sem rafrænu eða skriflegu. Af gögnum máls verði hvorki ráðið að kærandi hafi haft samband við Fæðingarorlofssjóð við þær breyttu aðstæður sem vísað sé til, né í kjölfar þeirra. Ekki sé mögulegt fyrir stjórnvald að leiðbeina aðila nema út frá þeim upplýsingum sem liggi fyrir hverju sinni. Eftir að málsmeðferð vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið hafin, hafi kærandi verið upplýst með bréfum frá Fæðingarorlofssjóði og leiðbeint um útskýringar og gögn til upplýsinga á málsatvikum.

Þá telji kærandi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga ekki hafa verið virta. Fæðingarorlofssjóður hafi óskað eftir upplýsingum frá kæranda um atvik máls áður en ákvörðun hafi verið tekin. Sú beiðni hafi verið ítrekuð þegar gögn hafi ekki borist. Eftir að skýringar hafi borist Fæðingarorlofssjóði hafi sjóðurinn óskað eftir gögnum til að skýra frekar atvik máls. Á launaseðli komi fram fyrir hvaða tímabil greidd laun eigi við, þ.e. júní 2022, sem sé sama tímabil og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eigi við. Það sé í samræmi við skýringar kæranda um greiðslu veikindaréttar í júní 2022. Mat Fæðingarorlofssjóðs sé því að málið teljist full rannsakað vegna ofgreiðslu úr sjóðnum í júní 2022.

Fyrir liggi að kærandi hafi fengið greitt frá vinnuveitanda fyrir sama tímabil og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eigi við um og hafi aðstæður kæranda ekki áhrif á þau atvik máls. Greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismuni greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., og skuli þær því koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 203.852 kr., að viðbættu 15% álagi, 30.578 kr. Alls sé því krafa gerð um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 234.430 kr., sbr. greiðsluáskorun til kæranda ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 21. febrúar 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dags. 21. febrúar 2023 um endurgreiðslu að fjárhæð 234.430 kr. með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).

Kærandi byggir á því að henni hafi ekki verið leiðbeint nægilega af hálfu Fæðingarorlofssjóðs þar sem henni hafi ekki verið boðin ráðgjöf til að leiðrétta stöðuna, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Ljóst er að Fæðingarorlofssjóður fékk fyrst vitneskju um að kærandi hefði fengið ofgreitt þegar sjóðnum bárust upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Í kjölfarið sendi Fæðingarorlofssjóður kæranda bréf vegna mögulegrar ofgreiðslu, dags. 8. desember 2022, þar sem óskað var frekari upplýsinga og gagna og tekið var fram að kærandi gæti haft samband við Vinnumálastofnun með ýmsum leiðum væri eitthvað óljóst áður en endanleg ákvörðun um endurgreiðslukröfu yrði tekin í máli hennar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála voru kæranda þannig veittar a fullnægjandi leiðbeiningar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir einnig á því að mál hennar hafi ekki verið nægilega rannsakað af hálfu Fæðingarorlofssjóðs , sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í kjölfar þess að Fæðingarorlofssjóður fékk vitneskju um hugsanlega ofgreiðslu kæranda úr sjóðnum úr staðgreiðsluskrá Skattsins, var kæranda sent bréf, dags. 8. desember 2022, þar sem henni var gefinn kostur á að gefa útskýringar og leggja fram gögn vegna greiðslna og atvika máls. Þar sem skýringar bárust ekki frá kæranda sendi Fæðingarorlofssjóður ítrekun á fyrrgreindu erindi með bréfi, dags. 10. janúar 2023. Í kjölfar skýringa kæranda var endanleg ákvörðun tekin í máli hennar með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. febrúar 2023. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er málið, með vísan til framangreinds, nægilega upplýst.

Í 20. gr. ffl. er mælt fyrir um umsókn til Vinnumálastofnunar varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Í 3. mgr. greinarinnar segir að þegar foreldri geti ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma sem það tilkynnti Vinnumálastofnun um samkvæmt 2. mgr. vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna beri foreldri að tilkynna Vinnumálastofnun um breytinguna á því formi sem stofnunin ákveður, svo sem rafrænu eða skriflegu. Vinnuveitandi foreldris skuli árita breytingu á tilhögun fæðingarorlofs foreldris. Jafnframt segir í 2. mgr. að umsókn skuli vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveði, svo sem rafrænu eða skriflegu, og henni skuli fylgja afrit af tilkynningu um fæðingarorlof samkvæmt 12. gr. sem foreldri hafi fengið áritaða hjá vinnuveitanda sínum þar sem fram komi fyrirhugaður upphafsdagur, lengd og tilhögun fæðingarorlofs.

Samkvæmt 25. gr. ffl. er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3. til 5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 41. gr. ffl. er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 7,5 mánuði vegna barns sem fæddist X. október 2021 með umsókn til sjóðsins, dagsettri 30. september 2021. Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. nóvember 2021, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili fæðingarorlofs hafi verið 833.159 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri 600.000 kr., sbr. og 1. mgr. 24. gr. ffl. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi fæðingarorlofs höfðu viðmiðunarlaun kæranda hækkað í 866.271 kr. og var miðað við þá fjárhæð við útreikning á ofgreiðslu kæranda. Greiðslutímabil var október 2021 til og með júní 2022. Á þeim tíma var henni einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hennar, eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur vinnuveitanda til hennar kæmu til frádráttar greiðslum úr fæðingarorlofssjóði, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl.

Í júní 2022 fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð 540.000 kr. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið hefði kæranda verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð 326.271 kr. án þess að það hefði áhrif á greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda að fjárhæð 575.736 kr. í júní 2022. Kærandi fékk því greiddar 249.465 kr. umfram þá fjárhæð sem henni var heimilt. Því bar henni að endurgreiða 203.852 kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta og annarra gjalda. Heildarkrafa um endurgreiðslu að viðbættu 15% álagi nemur því 234.430 kr., sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl.

Í málinu liggur þannig fyrir að kærandi fékk ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið júní 2022, þar sem hún fékk of háar greiðslur frá vinnuveitanda samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi vísar til þess að hún hafi ekki fengið nægt svigrúm til þess að láta Fæðingarorlofssjóð vita af breytingu á fæðingarorlofi, sbr. 3. mgr. 20. gr. ffl. Kærandi fékk greiðslu frá vinnuveitanda í júní 2022 en tilkynning um greiðsluna barst Fæðingarorlofssjóði um sex mánuðum síðar þegar sjóðurinn fékk vitneskju um greiðsluna úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Þar sem um sé að ræða laun frá vinnuveitanda hafi kæranda mátt vera ljóst þá þegar í júní 2022 að hún væri að þiggja greiðslu frá vinnuveitanda samhliða greiðslu fæðingarorlofs. Því verður ekki fallist á með kæranda að hún hafi ekki fengið nægt svigrúm til að láta Vinnumálastofnun vita af ófyrirsjáanlegum breytingum á formi fæðingarorlofs. 

Kærandi vísar jafnframt til þess að vegna veikinda hafi hún verið ófær um að vera í fæðingarorlofi á þessu tímabili, sem og að sinna starfi sínu, og því hafi hún fengið greitt veikindaleyfi frá vinnuveitanda. Í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. kemur skýrt fram að ef greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 1.-3. mgr. 23. gr., skuli þær koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Líkt og rakið hefur verið fékk kærandi greiddar hærri greiðslur frá vinnuveitanda en henni var heimilt að þiggja samhliða greiðslu Fæðingarorlofs í júní 2022 og þær greiðslur komu ekki til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvæði 41. gr. ffl. er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að endurgreiðslukrafan verði felld niður. Þá telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi ekki sýnt fram á með skriflegum gögnum að henni verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl. svo rétt þyki að fella niður 15% álag á höfuðstól endurgreiðslukröfunnar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir júní 2022 að fjárhæð 234.430 kr. því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. febrúar 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir júní 2022 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta