Hoppa yfir valmynd

Nr. 121/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 121/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010029

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. janúar 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, um að synja honum um dvalarleyfi.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. september 2016 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 18. október 2017 ásamt því að vera synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 8. febrúar 2018, en felldur úr gildi sá þáttur ákvörðunar stofnunarinnar er varðaði brottvísun og endurkomubann. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 6. júní 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 24. janúar 2019 og kæru fylgdi greinargerð kæranda. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 30. janúar sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Þann 30. og 31. janúar sl. bárust viðbótargögn frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við vinnslu umsóknarinnar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi. Hafi stofnunin því sent kæranda bréf í tölvupósti þann 21. september 2018 þar sem óskað hefði verið eftir sakavottorði og þýðingu á því, sjúkratryggingu, umsókn um atvinnuleyfi og ráðningarsamningi. Hafi stofnunin veitt kæranda 15 daga frest til að leggja fram umbeðin gögn. Hafi kærandi ekki lagt fram þau gögn sem stofnunin óskaði eftir og því hafi stofnunin sent honum ítrekun í tölvupósti þann 16. nóvember 2018. Hafi kærandi svarað tölvupóstinum þann 24. nóvember sl. og sent í viðhengi sakavottorð frá [...]. Þann 26. nóvember sl. hafi kærandi komið í afgreiðslu stofnunarinnar með sakarvottorð frá [...] en starfsmaður stofnunarinnar hafi þá bent honum á að það vantaði þýðingu á vottorðið. Hafi kærandi sett sig í samband við Útlendingastofnun þann 27. nóvember 2018 og óskað eftir endursendingarbréfinu sem honum hefði verið sent í tölvupósti. Hefði hann óskað eftir því að bréfið yrði sent á tilgreint heimilisfang á [...]. Hafi stofnunin sent bréfið þann 28. nóvember 2018 á það heimilisfang sem kærandi hefði gefið upp. Hafi tilkynning um bréfið verið skilin eftir hjá kæranda þann 4. desember 2018 og bréfið verið á pósthúsi á [...] til 3. janúar 2019 þegar það hafi verið endursent til Útlendingastofnunar. Þá hefðu engin frekari gögn borist frá kæranda.

Vísaði Útlendingastofnun til þess að í 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga kæmi fram að með umsókn um dvalarleyfi skyldu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gerðu kröfu um til staðfestingar á því að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Þá væri ráðherra heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að setja reglugerð með nánari fyrirmælum um hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til slíkra gagna og hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn, en ráðherra hefði sett slík fyrirmæli í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Tók stofnunin fram að þau gögn sem hún hefði óskað eftir frá kæranda hefðu ekki enn borist. Væru fylgigögn umsóknar því enn ófullnægjandi og væri ákvörðunin byggð á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Miðað við þau gögn sem kærandi hefði lagt fram og þau gögn sem ekki hefðu borist stofnuninni, þrátt fyrir beiðni þar um, væri ljóst að kærandi uppfyllti skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn. Hefði kærandi því ekki sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði 62. gr. um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi ráðið sig í vinnu hjá [...] sem [...] og fengið ráðningarsamning þess efnis í hendur. Þá sé hann með gilda sjúkratryggingu og útfyllta umsókn um atvinnuleyfi þar sem vinnuveitandi og stéttarfélag hafi skrifað undir. Þá hafi kærandi fengið sakavottorð sitt þýtt yfir á ensku. Tekur kærandi fram að hann hafi ekki fengið mikla aðstoð við að afla þeirra gagna sem beðið hafi verið um en þau liggi fyrir núna. Þannig uppfylli hann skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 55. gr. Framfærsla hans og sjúkratrygging sé örugg og því ekkert því til fyrirstöðu að hann fái að dvelja á Íslandi og starfa hér.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með gilt dvalarleyfi á Ítalíu þegar hann sótti um dvalarleyfi hér á landi þann 6. júní 2018. Hann kom svo hingað til lands þann 1. júlí 2018 og bera gögnin ekki annað með sér en að hann sé enn hér á landi. Þótt ekki komi fram í rökstuðningi Útlendingastofnunar ástæða þess að stofnunin tók umsókn kæranda til efnislegrar skoðunar þrátt fyrir að hann væri hér á landi verður ráðið af atvikum málsins að það hafi verið á þeim grundvelli að kærandi sé undanþegin áritunarskyldu hér á landi þar sem hann hefur dvalarleyfi á Ítalíu, sbr. 2. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Verður því af hálfu kærunefndar ekki litið svo á að 1. og 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga standi því í vegi að umsókn hans verði tekin til efnislegrar skoðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.

Við meðferð umsóknar kæranda hjá Útlendingastofnun óskaði stofnunin eftir tilgreindum gögnum frá kæranda þar sem fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi, s.s. með bréfum stofnunarinnar dags. 21. september 2018 og 28. nóvember 2018. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi varð ekki við beiðnum Útlendingastofnunar þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stofnunarinnar um að tilgreind gögn vantaði. Að mati kærunefndar gafst kæranda nægt ráðrúm til að verða við gagnabeiðnum Útlendingastofnunar en frá fyrsta bréfi stofnunarinnar til kæranda þess efnis að fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi, dags. 21. september 2018, liðu tæplega 4 mánuðir fram að ákvörðun stofnunarinnar án þess að kærandi fullnægði sinni skyldu um að með umsókn hans væru nauðsynleg fylgigögn.

Fyrir kærunefnd lagði kærandi fram frekari gögn, þ.e ráðningarsamning, sakarvottorð frá [...] með þýðingu, sjúkrakostnaðartryggingu hér á landi og umsókn um atvinnuleyfi, dags. 29. janúar 2019. Að mati kærunefndar er það til hagsbóta fyrir kæranda að Útlendingastofnun taki afstöðu til hinna nýju gagna í málinu. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað eftir endurskoðun á því mati hjá kærunefnd. Þykir því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s application.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                       Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta