Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 32/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 32/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni.

Kærandi, A sótti rafrænt um atvinnuleysisbætur þann 3. ágúst 2009 í kjölfar þess að honum var sagt upp starfi hjá X sem er í eigu Y vegna samdráttar. Hann flutti af landi brott ásamt fjölskyldu sinni þann 6. ágúst 2009 og hafði þá ekki afhent Vinnumálastofnun umsókn um E-303 vottorð. Þann 22. ágúst barst Vinnumálastofnun formleg beiðni kæranda um útgáfu E-303 vottorðs. Stofnunin ákvað, með tilliti til fjölskylduaðstæðna kæranda, að gefa út E-303 vottorð honum til handa þó svo að hann væri þegar farinn til útlanda og var vottorðið gefið út þann 4. september 2009. Kærandi skráði sig fyrst sem umsækjanda um atvinnu hjá Vinnumiðlun í C-landi þann 29. september 2009 eða 38 virkum dögum eftir brottför frá Íslandi. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið frá 6. ágúst til 28. september 2009. Kærandi krefst þess að Vinnumálastofnun greiði honum atvinnuleysisbætur fyrir þetta tímabil. Hann krefst þess einnig að við greiðslu atvinnuleysisbóta, bæði vegna framangreinds tímabils og þess tíma sem hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, verði miðað við tekjur hans, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Kærandi bjó á B-stað ásamt sambýliskonu og tveimur börnum. Sambýliskonan var atvinnulaus en bauðst vinna í C-landi og var gert ráð fyrir að hún hæfi störf þann 17. ágúst 2009. Kæranda var sagt upp starfi sínu hjá X í eigu Y vegna samdráttar þann 31. júlí 2009. Hann sótti rafrænt um atvinnuleysisbætur þann 3. ágúst 2009. Við starfslok átti hann ótekið orlof í 2,6 daga og taldist hann því vera tryggður frá 9. ágúst 2009 skv. 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði símasamband þann 21. ágúst 2009 við Vinnumálastofnun til þess að staðfesta atvinnuleit sína frá C-landi. Honum var bent á að það gæti hann ekki gert, ekki væri hægt að vera erlendis og þiggja atvinnuleysisbætur á Íslandi. Í sama símtali var kæranda bent á að skv. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi greiða atvinnuleysisbætur til þess sem telst tryggður samkvæmt lögunum og sé í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum enda uppfylli hann tilgreind skilyrði. Eftir umrætt símtal sendi kærandi formlega beiðni um útgáfu E-303 vottorðs. Með tilliti til sérstakra aðstæðna kæranda tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun, þrátt fyrir að kærandi væri þegar farinn til útlanda, að gefa út E-303 vottorð honum til handa og var það gert þann 4. september 2009. Kærandi skráði sig fyrst atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun í C-landi þann 29. september 2009 og fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim tíma hjá C-lenskum yfirvöldum. Hann fékk ekki greiddar atvinnuleysistryggingar fyrir tímabilið frá 6. ágúst til 28. september 2009.

Kærandi fékk vinnu í C-landi þann 26. október 2009 og hefur unnið þar síðan. Kærandi gerir athugasemdir við það að hann hafi fengið takmarkaðar leiðbeiningar og upplýsingar hjá Vinnumálastofnun. Hann kveðst aldrei áður hafa þurft að sækja um atvinnuleysisbætur og því sé brýnt að veita greinargóðar upplýsingar í málum þar sem fyrirhugað er að taka íþyngjandi ákvörðun. Kærandi bendir á að hann hafi gert sitt besta til þess að upplýsa stöðu sína og tildrög málsins og hafi hann komið heiðarlega fram í upplýsingagjöf sinni til Vinnumálastofnunar og telur hann að það sé eðlilegt í máli þessu að líta til aðstæðna og eðli málsins við úrlausn þess.

Eftir að kæran barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða leitaði nefndin eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til málsins. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2010, kemur fram að það sé grundvallaratriði að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og hafi ákvæðin verið túlkuð á þann veg að ekki sé gert ráð fyrir því að þeim sem þiggi atvinnuleysisbætur sé heimilt að dvelja erlendis samhliða greiðslu bótanna. Undanþágu frá því skilyrði laganna að umsækjandi atvinnuleysisbóta skuli vera búsettur hérlendis og í virkri atvinnuleit á Íslandi sé í 1.–3. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur sé það gert að skilyrði fyrir þessari undanþágu að sótt sé sérstaklega um að nýta þennan rétt. Umsókn um E-303 vottorð sem geri umsækjendum atvinnuleysisbóta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, kleift að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta við atvinnuleit erlendis skuli að jafnaði vera lögð fram eigi síðar en þremur vikum fyrir brottför.

Samkvæmt 45. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi sérstaklega að sækja um heimild til að nýta sér rétt sinn skv. 42. gr. laganna til Vinnumálastofnunar og þurfi umsækjandi áður að hafa sótt um atvinnuleysisbætur. Umsókn um E-303 vottorð skuli að jafnaði vera lögð fram eigi síðar en þremur vikum fyrir brottför. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi farið til útlanda þann 6. ágúst 2009. Stofnuninni hafi þá ekki borist umsókn um E-303 vottorð enda hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði laganna í fjórar vikur fyrir brottfarardag.

Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrði b-liðar 1. mgr. 42. gr. laganna um að umsækjandi um E-303 vottorð þurfi að hafa uppfyllt skilyrði laganna í fjórar vikur áður en sótt sé um leyfið. Hafi kæranda verið veitt umrætt vottorð.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að ekki hafi mátt ráða af umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur að hann hafi sérstaklega verið að leitast eftir því að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta við atvinnuleit erlendis. Sé atvinnuleitendum eðlilega ekki gerð ítarleg skil á umsóknarferli E-303 vottorðs, sé ekki leitað eftir slíkum upplýsingum. Þegar kærandi hafi sótt um að fá útgefið E-303 vottorðið, eftir að hann hafi verið kominn út til Noregs, hafi honum verið leiðbeint um umsóknarferlið. Þá komi skýrt fram í 2. gr. á E-303 vottorðinu sjálfu sem kærandi hafi fengið sent 4. september 2009 að sá atvinnulausi eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá þeim tíma sem hann skrái sig í því landi þar sem hann sé að sækjast eftir vinnu. Stofnunin bendir einnig á að öllum sem fái útgefið E-303 vottorð sé afhentur bæklingur þar sem nánar sé útskýrt hvernig haga eigi atvinnuleit erlendis samkvæmt skilyrðum E-303 vottorðs. Enn fremur sé að finna greinargóðar upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar sem auðvelt sé að nálgast. Verði að gera þær lágmarkskröfur til umsækjenda að þeir kynni sér þau gögn sem varði mál þeirra.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. september 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða.

Meðal skilyrða sem uppfylla þarf til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 13. gr., og vera búsettur hér á landi, sbr. c-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessu skilyrði er hægt að veita undanþágu að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar meðal annars um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Kærandi fluttist til C-lands þann 6. ágúst 2009 og skráði sig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun í C-landi þann 29. september 2009. Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt til atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 6. ágúst til 28. september 2009. Um rétt þeirra er búa erlendis til atvinnuleysisbóta á Íslandi er fjallað í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 42. gr. er fjallað um skilyrði þess að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem er í atvinnuleit erlendis. Eitt af skilyrðunum er að hinn tryggði skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fer fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi. Vinnumálastofnun er þó heimilt að veita hinum tryggða lengri tíma til að skrá sig hjá hinni erlendu vinnumiðlun, en greiðslur atvinnuleysisbóta hefjast við skráningu erlendis.

Með hliðsjón af framansögðu átti kærandi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 6. ágúst til 29. september 2009. Synjun Vinnumálastofnunar um greiðslu bóta til hans fyrir þetta tímabil er því staðfest.

Kærandi telur sig hafa fengið takmarkaðar leiðbeiningar og upplýsingar hjá Vinnumálastofnun, en hafi ekki áður þurft að sækja um atvinnuleysisbætur og brýnt sé að upplýsingar séu greinargóðar. Vinnumálastofnun telur leiðbeiningum ekki hafa verið ábótavant í málinu. Ekki hafi mátt ráða af umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur að hann hafi verið að leitast eftir því að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta við atvinnuleit erlendis og því hafi honum ekki sérstaklega verið leiðbeint um slíka atvinnuleit. Þegar hann á hinn bóginn hafi sótt um útgáfu E-303 vottorðs hafi honum verið leiðbeint um umsóknarferlið og á vottorðinu sjálfu sem hann fékk sent komi fram að sá atvinnulausi eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá þeim tíma sem hann skrái sig í því landi þar sem hann sé að sækjast eftir vinnu. Þá segir Vinnumálastofnun að öllum sem fái útgefið E-303 vottorð sé afhentur bæklingur þar sem nánar sé útskýrt hvernig haga eigi atvinnuleit erlendis samkvæmt skilyrðum E-303 vottorðs. Að lokum segir að finna megi greinargóðar upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar sem auðvelt sé að nálgast og gera verði þær lágmarkskröfur til umsækjenda að þeir kynni sér þau gögn sem varði mál þeirra.

Með hliðsjón af þessum skýringum Vinnumálastofnunar verður ekki fallist á að leiðbeiningarskyldu hafi verið ábótavant í málinu.

Kærandi krefst þess einnig að við greiðslu atvinnuleysisbóta, bæði vegna þess tímabils sem hann hefur ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, eftir að hann var atvinnulaus og þess tíma sem hann fékk greiddar bætur fyrir í C-landi, verði miðað við tekjur hans, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði hjá Vinnumálastofnun hefur kærandi ekki fengið neinar atvinnuleysisbætur greiddar frá stofnuninni. Hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur í C-landi frá þarlendri Vinnumálastofnun fyrir tímabilið frá 29. september til 18. október 2009. Ekki verður því um tekjutengingu atvinnuleysisbóta að ræða.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 6. ágúst til 28. september 2009 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta