Hoppa yfir valmynd

Nr. 173/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 173/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020019

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. febrúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Hollands.Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar í fyrsta lagi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og í öðru lagi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 18. september 2017. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun til Hollands var þann 20. september 2017 beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Hollandi, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 6. nóvember 2017 barst svar frá hollenskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 24. nóvember 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Hollands. Sú ákvörðun var birt fyrir kæranda þann 12. desember 2017 og kærði hann ákvörðunina þann 24. desember 2017 til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði kærunefndar nr. 23/2018, dags. 9. janúar 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Þann 17. janúar 2018 tók Útlendingastofnun á ný ákvörðun í máli kæranda þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 23. janúar 2018 og kærði hann þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 7. febrúar 2018. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 19. febrúar 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Hollands. Lagt var til grundvallar að Holland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Hollands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Hollands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji Dyflinnarreglugerðina ekki eiga við í máli hans. Kærandi hafi fengið vegabréfsáritun til Hollands með gildistíma frá 23. júlí til 6. september 2017 og hann hafi dvalið þar í landi í 13 daga til þess að sækja námskeið en hafi svo farið aftur heim til […]. Ljósrit af vegabréfi kæranda sýni að hann hafi lent á Schiphol flugvellinum í Amsterdam þann 1. ágúst 2017 og að hann hafi flogið frá sama flugvelli þann 12. ágúst sl. og komið til […] þann 14. ágúst sl. Kærandi hafi svo komið aftur inn á Schengen-svæðið þann 12. september 2017 með aðstoð smyglara landleiðis í gegnum Tyrkland. Aldrei hafi staðið til að óska eftir alþjóðlegri vernd í Hollandi og því vilji hann ekki fara þangað aftur. Kærandi bendi á að hann hafi ekki komið hingað til lands á grundvelli ofangreindrar vegabréfsáritunar en vegabréfsáritunin hafi verið runnin út þegar hann hafi komið aftur inn á Schengen-svæðið. Kærandi greinir frá því að framangreindar upplýsingar hafi komið fram í tveimur viðtölum við hann hjá Útlendingastofnun og þær ítrekaðar í tölvupósti talsmanns kæranda til stofnunarinnar en samt sem áður sé ekki einu orði vikið að þeim í hinni kærðu ákvörðun.

Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun virðist hafa haldið mikilvægum upplýsingum um dagsetningar flótta kæranda og ferðaleið hans hingað til lands frá hollenskum stjórnvöldum þegar endurviðtökubeiðni hafi verið send þarlendum yfirvöldum. Kærandi bendi á að eitt skilyrða 1. máls. 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sé ekki uppfyllt, þ.e. að vegabréfsáritun umsækjanda hafi gert honum kleift að koma inn á yfirráðasvæði aðildarríkis, en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt svo að ákvæðið eigi við í máli kæranda. Kærandi telji því ljóst að Dyflinnarreglugerðin mæli ekki fyrir um ábyrgð Hollands og undantekningarregla c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli þessu og því rétt að Útlendingastofnun taki mál hans til efnislegrar meðferðar.

Til stuðnings kröfu kæranda um efnislega meðferð umsóknar hans vísar hann m.a. til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til laga nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum, einkum greinargerðar með frumvarpi til laganna og nefndarálits meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar. Þá vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 550/2017 í stjórnsýslumáli nr. KNU17080037, frá 10. október 2017. Í úrskurðinum komi m.a. fram að viðkvæm staða umsækjenda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Kærandi bendi á að hann glími við streitu, mikinn kvíða og svefnvandamál. Þá hafi hans andlegu veikindi versnað í aðgerðarleysinu hér á landi og hann eyði miklum tíma í að hugsa um vandamál fjölskyldu sinnar í heimaríki. Kærandi telji að allt bendi til þess að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Jafnframt kemur fram í greinargerð kæranda að stefna hollenskra stjórnvalda í málefnum flóttamanna hafi legið undir umtalsverðri gagnrýni fyrir að vera óþarflega hörð og í andstöðu við alþjóðleg lágmarksskilyrði. Kærandi gerir m.a. grein fyrir aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi og að samtökin Amnesty International hafi m.a. gert alvarlegar athugasemdir við lokaðar móttökumiðstöðvar og notkun einangrunarklefa fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá hafi samtökin m.a. fordæmt slæman aðgang að aðstoð lögfræðinga. Þá sé erfitt fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að fá vinnu í Hollandi. Kærandi telur að heilsufar hans, samtvinnað við aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi, geri það að verkum að sérstakar ástæður leiði til þess að taka skuli máls hans til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, 2. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 6. tölul. 3. gr. sömu laga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að hollensk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Hollands er byggt á því að kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun þar í landi.

Kærandi byggir m.a. á því að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem vegabréfsáritun hans til Hollands hafi verið runnin út þegar hann hafi komið inn á Schengen-svæðið á leið sinni hingað til lands. Þar af leiðandi sé eitt skilyrða 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar ekki uppfyllt, þ.e. skilyrði um að vegabréfsáritun umsækjanda hafi gert honum kleift að koma inn á yfirráðasvæði aðildarríkis.

Í ákvæði 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir að skuldbindingarnar sem um getur í 1. mgr. 18. gr. skuli falla niður ef aðildarríkið sem ber ábyrgð getur sannað, þegar það er beðið um að taka í umsjá eða taka aftur við umsækjanda eða öðrum einstaklingi eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., að viðkomandi einstaklingur hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna um a.m.k. þriggja mánaða skeið, nema hann hafi undir höndum gilt dvalarskjal, gefið út af aðildarríkinu sem ber ábyrgð. Ofangreint ákvæði felur í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, möguleika fyrir aðildarríki til þess að sanna að ábyrgð þess á umsókn um alþjóðlega vernd sé fallin niður fyrir þær sakir að umsækjandi hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarsamningsins. Það hefur Holland ekki gert. Í dómi Dómstóls Evrópusambandsins í máli Mehrdad Ghezelbash gegn Staatssecretaris van Veiligheid en Justitie (mál nr. C-63/15 frá 7. júní 2016) var fjallað um málsmeðferð beiðna milli aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins um að umsækjandi um alþjóðlega vernd sé tekinn í umsjá annars ríkis (take charge request) þegar umsækjandinn heldur fram málsástæðum sem varða ranga beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar var m.a. vísað til þess að málsmeðferð slíkra beiðna skuli vera í samræmi við 4. og 5. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ákvæðin fjalla um að krafan til sönnunar á atvikum sem geta verið grundvöllur rangrar beitingar reglugerðarinnar skuli ekki vera meiri en nauðsynlegt er til að tryggja rétta beitingu reglugerðarinnar. Ef engin formleg sönnun er fyrir hendi skuli aðildarríkið, sem beiðni er beint til, viðurkenna ábyrgð sína, reynist sannanir, byggðar á líkum, vera samfelldar, sannreynanlegar og nægilega ítarlegar til að ákvarða hvar ábyrgðin liggur. Túlka verði því 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar í samræmi við 4. og. 5. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar þegar meta skuli hvort umsækjandi hafi náð að sanna að hann hafi ekki komið inn á yfirráðasvæði Schengen ríkjanna á grundvelli vegabréfsáritunarinnar þar sem hún hafi verið runnin út.

Í viðtali, dags. 23. nóvember 2017, kvaðst kærandi ekki hafa komið hingað til lands eða inn á Schengen-svæðið á grundvelli vegabréfsáritunar til Hollands. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram gögn sem hann telur sýna fram á að vegabréfsáritun hans til Hollands hafi verið runnin út þegar hann kom aftur inn á Schengen-svæðið á leið sinni hingað til lands. Kærandi lagði fram þann 4. desember sl. hjá Útlendingastofnun ljósrit af opnu í vegabréfi þar sem eru inn- og útstimplar frá […] og Hollandi, dags. frá 1. til 14. ágúst 2017, og vegabréfsáritun til Hollands með gildistíma frá 23. júlí til 6. september 2017. Þá lagði kærandi fram þann 17. janúar 2018 hjá Útlendingastofnun ódagsettar myndir af kæranda og fjölskyldu hans og ljósrit af flugmiða, stílaðan á kæranda, frá […] til Tyrklands með brottför dags. 10. september 2017 og heimkomu þann 25. september 2017 en greitt hafi verið fyrir flugmiðann þann 24. ágúst 2017.

Kærandi hefur hvorki lagt fram vegabréf sitt við meðferð málsins hjá kærunefnd né Útlendingastofnun. Þá fór kærunefnd þess á leit við talsmann kæranda með tölvubréfi, dags. 9. mars 2018, að hann legði fram frekari gögn í málinu sem væru til þess fallin að varpa ljósi á málsástæðu kæranda. Í tölvubréfi, þann sama dag, frá talsmanni kæranda vísaði hann til og ítrekaði þau gögn sem þegar lágu fyrir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun.

Kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem kærandi hefur lagt fram og er það mat kærunefndar að þær upplýsingar sem fram koma í gögnum kæranda gefi ekki heildstæða mynd af ferðum hans. Ljósrit af stimplum í vegabréfi kæranda gefa til kynna að kærandi hafi farið út fyrir Schengen-svæðið þann 14. ágúst 2017 og til heimaríkis síns. Hins vegar er það mat kærunefndar að gögnin sýni ekki fram á að vegabréfsáritun kæranda til Hollands hafi ekki gert honum kleift að komast aftur inn á Schengen-svæðið þar sem hún var gild til 6. september sl. Þá er sérstaklega horft til þess að kærandi hefur ekki lagt fram frumrit þeirra gagna sem hann telur sanna málsástæðu sína. Að mati kærunefndar hefur kæranda ekki tekist að sanna að vegabréfsáritun hans til Hollands hafi ekki gert honum kleift að koma til Íslands.

Í 21. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er kveðið á um málsmeðferðarreglur þegar beiðni um að einstaklingur sé tekinn í umsjá er lögð fram. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að beiðni um að annað aðildarríki taki yfir umsjá umsækjanda skuli lögð fram á stöðluðu eyðublaði ásamt sönnunum eða sönnunum byggðum á líkum eins og lýst er í 3. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar og/eða viðeigandi þáttum í yfirlýsingu umsækjanda. Þann 20. september 2017 var beiðni um að taka kæranda í umsjá beint til stjórnvalda í Hollandi og viðurkenndu hollensk stjórnvöld skyldu sína til þess að taka kæranda í umsjá með bréfi þess efnis, dags. 6. nóvember 2017. Í beiðninni var yfirlýsing kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun um dagsetningar og ferðaleið hans rakin. Engin gögn voru lögð fram með beiðninni þar sem kærandi hafði ekki lagt fram nein gögn í máli sínu. Hins vegar lagði kærandi fram þann 4. desember 2017 og 17. janúar 2018 gögn hjá Útlendingastofnun til stuðnings málsástæðu sinni. Í ljósi þess að kærunefnd telur framlögð gögn kæranda, eftir að beiðni um að taka kæranda í umsjá var beint til hollenskra stjórnvalda, ekki nægilega ítarleg og samfelld til að líklegt sé að ábyrgð Hollands teljist niður fallin metur nefndin það svo að ekki sé ástæða til að framsenda umrædd gögn hollenskum stjórnvöldum til skoðunar líkt og kærandi gerir kröfu um. Þá hafa hollensk stjórnvöld ekki óskað eftir endurskoðun á ábyrgð sinni á kæranda. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að framlögð beiðni til hollenskra stjórnvalda um að taka kæranda í umsjá hafi verið fullnægjandi.

Með vísan til framangreinds og í ljósi þess að Holland hefur samþykkt beiðni um viðtöku á umsækjanda er það niðurstaða kærunefndar að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar standi ekki í veg fyrir því að heimilt sé að krefja Holland um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur því skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi í málinu er karlmaður á fertugsaldri sem kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 23. nóvember 2017 vera stressaður, mjög kvíðinn og svefn hans færi versnandi. Kærandi kvaðst ekki hugsa mikið um þau vandamál sem hann glími við því hann hafi verið upptekinn að hugsa um fjölskylduna sína og vandamál sín í […] frekar en heilsu sína. Kærandi kvað að vandamál hans fari versnandi og þau séu verri nú en fyrst þegar hann hafi komið hingað til lands. Helsta vandamál hans sé að fjölskylda hans sé í hættu í […]. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er varða heilsu hans við meðferð málsins.

Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Hollandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Hollandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: The Netherlands (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 - Netherlands (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Freedom in the World 2017 - Netherlands (Freedom House, 1. september 2017),
  • World Report 2018 - European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018),
  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices - Netherlands (U.S. Department of State, 3. mars 2017,
  • Vefsíða hollenska öryggis- og dómsmálaráðuneytisins, https://www.government.nl/topics/asylum-policy (sótt 2. nóvember 2017);
  • Vefsíða COA (The Central Agency for the Reception of Asylum Seekers), https://www.coa.nl/en/asylum-seekers (sótt 2. nóvember 2017).

Holland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi má ráða að umsækjendur sem eru með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar eigi að hafa aðgang að búsetuúrræði, mataraðstoð og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd bjóðist gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð. Þá séu einnig frjáls félagasamtök staðsett í flestum móttökumiðstöðvum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sjái m.a. um lagalega aðstoð varðandi umsóknarferlið. Slík aðstoð sé bæði einstaklingsbundin sem og almenn. Við meðferð kærumála sé umsækjendum um alþjóðlega vernd einnig úthlutuð lögfræðiaðstoð þeim að kostnaðarlausu.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um móttökuskilyrði í Hollandi býðst þeim umsækjendum um alþjóðlega vernd sem sendir eru til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd þegar við komu til landsins. Þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem settir eru í varðhald við komu til Hollands eiga rétt á lögfræðiaðstoð án endurgjalds og eiga jafnframt rétt á því að skjóta ákvörðun um varðhaldsvist til dómstóla. Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Hollandi geta einnig lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá útlendingastofnun Hollands (h. Immigratie- en Naturalisatiedienst/IND). Fái umsækjandi synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd getur hann kært niðurstöðuna til svæðisdómstóls og þeim dómi er unnt að áfrýja til Ríkisráðsins (h. Afdeling Bestuursrechtspraak Raad van State). Jafnframt eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefnd fær ekki séð að heimildir bendi til þess að einstaklingar sem sendir séu til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi átt í erfiðleikum með að fá umsóknir sínar um alþjóðlega vernd teknar til skoðunar þar í landi.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Hollandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann glími við mikil og alvarleg veikindi, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum verður ekki annað ráðið en að að verði kærandi fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar geti hann leitað ásjár hollenskra yfirvalda vegna þess. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heilbrigðiskerfið í Hollandi er það mat nefndarinnar að ekki séu forsendur til annars en að leggja til grundvallar í málinu að kæranda bíði fullnægjandi og aðgengileg heilbrigðisþjónusta í Hollandi en umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem kærandi lagði fram með kæru sinni, svo og skýrslur og upplýsingar um aðstæður í Hollandi. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 23. nóvember 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 18. september 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar m.a. með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars. Þegar stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd kunni að vera af því alvarleikastigi að aðstæður hans geti talist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna ber þeim að bregðast sérstaklega við því með því að gera reka að því að upplýsingum um heilsufar verði bætt við málið, sbr. jafnframt 7. gr. stjórnsýslulaga. Þetta á til dæmis við ef stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að umsækjandi hafi leitað eftir læknismeðferð. Það er mat kærunefndar í ljósi framburðar kæranda og gagna málsins að ekki hafi verið tilefni fyrir Útlendingastofnun til að grípa til frekari ráðstafana til að upplýsa um heilsufar kæranda. Í því sambandi bendir kærunefnd á að í gögnum málsins kemur fram að kærandi var spurður út í andlega heilsu sína í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 23. nóvember 2017 og kvaðst kærandi þurfa að leita til sálfræðings og að starfsmaður Útlendingastofnunar myndi útvega tíma fyrir kæranda hjá sálfræðingi. Í lok viðtals var talsmanni kæranda þá gerð grein fyrir að hann hefði tvær vikur til þess að skila greinargerð eða gögnum vegna málsins, teldi hann ástæðu til. Engin frekari gögn bárust Útlendingastofnun frá kæranda varðandi andlega heilsu hans. Kærunefnd bendir á að kærandi naut aðstoðar talsmanns við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sem var leiðbeint af hálfu stjórnvalda um framlagningu heilsufarsgagna. Hefði kærandi eða talsmaður hans talið nauðsynlegt að leggja fram gögn varðandi heilsu hans var slíkt mögulegt við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá hafa gögn um heilsufar kæranda ekki verið lögð fram af hálfu kæranda við meðferð máls hans hjá kærunefnd en nefndin innti talsmann eftir læknisfræðilegum gögnum þann 9. mars sl. og staðfesti talsmaður þann sama dag að engin læknisfræðileg gögn væru tiltæk í máli kæranda. Er það því niðurstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun að þessu leyti þannig að fella beri ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun og kærunefnd bar hann fyrir sig að Dyflinnarreglugerðin ætti ekki við í máli hans þar sem hann hafi ekki komið inn á Schengen-svæðið á grundvelli vegabréfsáritunar til Hollands, sbr. það sem áður hefur verið rakið í úrskurði þessum. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd gerði hann athugasemd við að engin umfjöllun væri um framangreinda málsástæðu hans í ákvörðun Útlendingastofnunar þrátt fyrir að framangreindar upplýsingar komu fram í tveimur viðtölum við hann hjá stofnuninni og þær ítrekaðar í tölvupósti talsmanns hans til stofnunarinnar. Kærunefnd tekur undir með athugasemdum kæranda um að engin umfjöllun er um ofangreinda meginmálsástæðu kæranda, sem varðaði túlkun á c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Er það því mat kærunefndar að skort hafi á að Útlendingastofnun tæki afstöðu til framangreindrar málsástæðu og rökstyddi niðurstöðu sína, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá gerir kærunefnd einnig athugasemd við að ákvörðun Útlendingastofnunar sé dagsett þann 17. janúar 2018 en augljóst sé af gögnum málsins, m.a. greinargerð talsmanns kæranda, að unnið hafi verið í málinu í framhaldinu og ákveðin gagnaöflun hafi átt sér stað varðandi atriði sem skipt gætu máli varðandi efnislega niðurstöðu í málinu. Gerir kærunefnd því athugasemd við vinnubrögð Útlendingarstofnunar að þessu leyti.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda telur kærunefnd ljóst að framangreindir annmarkar á rökstuðningi ákvörðunarinnar hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Með hliðsjón af því telur kærunefnd að þessi ágalli sé ekki svo verulegur að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Samantekt

Í máli þessu hafa hollensk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Hollands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                           Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta