Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 68/2023-Beiðni um endurpptöku

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 68/2023

Miðvikudaginn 18. október 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með tölvupósti 29. september 2023 óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. ágúst 2022 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 656.874 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar kröfu með umsókn 21. júní 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. ágúst 2022, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað. Ákvörðunin var rökstudd með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. september 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2023. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 24. ágúst 2023. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram kærandi hafi kært vegna þess að starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins sem hafi verið að aðstoða hann hafi brugðist honum og stofnuninni hafi ekki fundist það skipta neinu máli. Kærandi hafi ekki verið að gera athugasemdir við neitt annað. Kærandi hafi fengið sendan úrskurð þar sem hvergi sé minnst á kjarna kærunnar, þ.e. að Tryggingastofnun hafi brugðist honum og beri ábyrgð.

Starfsmaður Tryggingastofnunar hafi verið beðinn um að fara yfir tekjuáætlunina og hafi ekki gert athugasemdir þó svo að hann hafi vitað allt um málið. Hefði starfsmaðurinn gert athugasemdir þá hefði þetta ekki gerst. Þetta snúist ekki um lagaskýringar heldur sanngirni og heiðarleika. Úrskurðarnefnd velferðarmála eigi að aðstoða fólk en ekki meta allt Tryggingastofnun í hag. Kæranda finnst lágmark að úrskurðarnefndin segi þá hreint út að vinnubrögð Tryggingastofnunar hafi verið rétt og eðlileg.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 24. ágúst 2023. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Byggði synjunin á því að ekki væri tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Í beiðni um endurupptöku segir að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið á kjarna kærunnar, þ.e. að Tryggingastofnun ríkisins hafi brugðist kæranda og beri ábyrgð.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Engin ný gögn liggja fyrir og engar nýjar upplýsingar koma fram í beiðni um endurupptöku.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 68/2023 synjað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 68/2023 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta