Nr. 347/2010 - Úrskurður
Miðvikudaginn 5. október 2011
347/2010
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.
Með kæru sem barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann xx 2010 kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá xx 2010 að skerða lífeyrisréttindi hans vegna búsetu erlendis.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi var metinn 75% öryrki og naut 75% örorkulífeyris. Með bréfi, dags. xx 2010, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að við endurskoðun á réttindum hans hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hafi ekki verið rétt skráð. Búsetuhlutfall hafi verið skráð 75% en í ljós hafi komið að rétt búsetuhlutfall eigi að vera 30.53%.
Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga mótmælir kærandi skerðingu á greiðslum vegna búsetu hans erlendis og segir að hann telji að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að lækka hlutfall greiðslna til hans án fyrirvara.
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. xx 2010, eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerðin er dagsett xx. Í henni segir svo:
„Heimild til greiðslu örorkulífeyris byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL). Þar segir í 1. og 4. mgr.:
Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:
- hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
- eru metni til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.
...
Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.
Í 1. mgr. 17. gr. segir:
Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.
Í ATL er í 58. og 68. gr. að finna ákvæði sem gera ráð fyrir að ákvæði milliríkjasamninga um almannatryggingar geti haft áhrif á útreikning bóta skv. lögunum.
Ísland er aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningum), sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Í VI. viðauka við samninginn er fjallað um félagslegt öryggi og þar kemur fram að ákvæði reglugerðar ESB nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja gilda hér á landi ef jafnframt búsetu hér landi hefur einnig verið um að ræða búsetutímabil í öðrum aðildarríkjum. Í reglugerðinni er að finna reglur sem kveða á um að ef um búsetu í fleiri en einu landi hefur verið að ræða eigi greiðslur í hverju landi að vera í hlutfalli við lengd búsetu- eða tryggingatímabila í viðkomandi landi.
Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá xx 2007 og eru greiðslur skertar vegna búsetutímabila í B og D E tímabilinu xx – xx.
Við afgreiðslu endurmats á örorku hans frá xx 2009 kom í ljós að búsetuhlutfallið hafði ekki verið rétt reiknað og var það því leiðrétt. Kæranda var tilkynnt um leiðréttingu búsetuhlutfallsins með bréfi dags. xx 2009.
Greiðsluhlutfall hennar reiknast nú hlutfallslega miðað við búsetutímabil hér á landi og í samræmi við ákvæði reglugerðar ESB 1408/71 um útreikning á greiðslum þegar um búsetu í fleiri en einu aðildarríki hefur verið að ræða.
Tryggingastofnun telur að greiðsluhlutfalli kæranda hafi réttilega verið leiðrétt þannig að hann fær ekki lengur greitt hér á landi vegna tímabils sem hann hefur verið búsett erlendis.
Varðandi það að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri í B og D og að hann óski eftir því að búsetuhlutfallinu yrði breytt aftur vegna þess þá skal tekið fram að ákvörðun um lífeyrisgreiðslur í öðrum löndum sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðinu byggist á þeim lögum og reglum sem gilda í viðkomandi löndum. Synjun á greiðslum í einu landi vegna þess að skilyrði teljast ekki uppfyllt skv. reglum þess landi hefur ekki í för með sér að heimilt sé að hækka greiðslur í öðru landi.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fékk kærandi greiðslur í D til xx 2007 en var synjað um endurmat með bréfi dags. xx 2007. Synjað var um greiðslur í B með bréfi dags. xx 2009. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að synjanir þessar hafi verið kærðar til viðeigandi aðila í þessum löndum.
Að lokum skal upplýst að kærandi sótti að nýju um lífeyrisgreiðslur erlendis með umsókn dags. xx 2010. Tryggingastofnun sendi umsókn til B og D þann xx 2010.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. xx 2010, og var honum jafnframt gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Þann xx 2011 barst úrskurðarnefndinni svofellt bréf frá E, félagsráðgjafa hjá Öryrkjabandalagi Íslands:
„Í greinargerð TR, dags. xx 2010, segir að við endurmat á örorku A frá xx 2009 hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hans hafi ekki verið rétt reiknað og því leiðrétt. Örorkumat A rann út xx 2009. Sótt var um endurnýjun þess með læknisvottorði dags. xx 2010. A var tilkynnt um „leiðréttinguna“ (búsetuhlutfallið var lækkað úr 75% í 30,53%) með bréfi dags. xx 2010 og að greiðslur hans yrðu endurreiknaðar frá xx 2009, eða um eitt ár aftur í tímann og greiðslur vegna 2009 verði gerðar upp í uppgjöri ársins. Í greinargerð TR kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt um leiðréttinguna með bréfi dags. xx 2009. Við eftirgrennslan hjá TR kom í ljós að dagsetning bréfsins í greinargerð TR var ekki rétt (sjá meðfylgjandi útprentun, fyrirspurn dags. xx 2010). Eitt ár leið frá því tímabili sem örorkan miðast við (xx 2009) þangað til ákvörðun um lækkun er tilkynnt ( xx 2009) þangað til ákvörðun um lækkun er tilkynnt (xx 2010).
Ákvörðun TR um réttindi A, sem honum er gert kunnugt um í bréfi dags. xx 2010, er ekki leiðrétting heldur afturköllun. Stjórnvaldsákvörðun verður ekki afturkölluð nema með stoð í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afturköllun fyrri ákvörðunar er ný stjórnvaldsákvörðun og um hana gilda þannig allar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. A var ekki tilkynnt um að til stæði að afturkalla fyrri ákvörðun fyrr en með bréfi dags. xx 2010 og því síður var honum gefinn kostur á að koma að andmælum. Málsmeðferðin eins og sér nægir þannig til þess að afturköllun TR er ólögmæt og ber að ógilda. Skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga eru auk þess ekki til staðar í þessu máli.
Bent skal á að jafnvel þótt hin nýja ákvörðun stofnunarinnar væri rétt þá er stofnuninni ekki heimilt að endurkrefja afturvirkt vegna eigin mistaka. Eins og fram kemur í bréfi TR, dags. xx 2010, er um mistök að ræða og er beðist velvirðingar á þeim í bréfinu.
Til þess að afturköllun sé heimil er ekki nægjanlegt að ákvörðun sé röng heldur þarf ákvörðunin að vera ógildanleg. TR hefur ekki gert grein fyrir því hvernig sjónarmið stjórnsýsluréttarins um ógildingu stjórnvaldsákvarðana leiða til þess að ákvörðun stofnunarinnar geti talist ógildanleg. Skilyrði ógildingar eru enda ekki til staðar. Til að byrja með er túlkun/ákvörðun Tryggingastofnunar röng en jafnvel þótt hún væri rétt þá eru ekki til staðar önnur skilyrði sem þurfa til að ógilda beri ákvörðunina. Vega þar þyngst réttmætar væntingar og góð trú kærenda. Eitt ár leið frá því tímabili sem örorkan miðaðist við (xx 2009) þangað til ákvörðunin var afturkölluð, með bréfi dags. xx 2010. Á þeim tíma hefur A öðlast réttmætar væntingar um að upphæð örorkugreiðslna frá TR væri reiknuð út á sama hátt og áður, þar sem aðrar tekjur hans höfðu ekki tekið neinum breytingum.
Það mælir almennt á móti ógildingu ákvörðunar ef eingöngu er um að kenna mistökum stjórnvalds eða langt er um liðið síðan ívilnandi ákvörðun var tekin. Má um þetta vísa til rits Páls Hreinssonar, Stjórnsýslulögin, bls. 248.
Að lokum vill undirrituð benda á að í greinargerð TR er reglugerð ESB nr. 1408/71 nefnd, en ekki er tilgreint hvaða ákvæði reglugerðarinnar er verið að vísa í.
Undirrituð, f.h. A, geir kröfu um að A fái greiddan örorkulífeyri miðað við 75% búsetuhlutfall fyrir mánuðina frá endurnýjun örorkumats (xx 2009) til og með xx 2010. Eðlilegt er að stofnunin gefi lífeyrisþegum 3ja mánaða frest frá tilkynningu ákvörðunar og þar til breyting tekur gildi. Með þessari kröfu er undirrituð, f.h. kæranda, ekki að samþykkja umrædda ákvörðun TR.
Undirrituð telur mikilvægt að tekið sé mið af ofangreindum athugasemdum við meðferð málsins.“
Bréf umboðsmanns kæranda var kynnt Tryggingastofnun ríkisins. Viðbótargreinargerð stofnunarinnar barst þann xx 2010. Í henni segir svo:
„Borist hafa viðbótargögn þar sem því er haldið fram að leiðrétting Tryggingastofnunar á greiðsluhlutfalli við afgreiðslu á endurmati hafi falið í sér óheimila afturköllun og endurkröfu. Einnig eru gerðar athugasemdir við það að í greinargerð Tryggingastofnunar voru rangar dagsetningar og að ekki hefði verið tilgreint í hvaða ákvæði reglugerðar ESB nr. 1408/71 væri verið að vísa í.
Í greinargerð Tryggingastofnunar dags. xx 2010 var að finna eftifarandi texta:
„Við afgreiðslu endurmats á örorku hans frá xx 2009 kom í ljós að búsetuhlutfallið hafði ekki verið rétt reiknað og var það því leiðrétt. Kæranda var tilkynnt um leiðréttingu búsetuhlutfallsins með bréfi dags. xx 2009.“
Í þessum texta greinargerðarinnar voru tvær rangfærslur. Annars vegar var ranglega tilgreint að um afgreiðslu endurmats á örorku frá xx 2009 hefði verið að ræða í stað xx 2009 og hins vegar var dags. bréfs um leiðréttingu búsetuhlutfallsins ranglega tilgreind sem xx 2009 en hefði átt að vera xx 2010. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum undirritaðrar við gerð greinargerðarinnar.
Bréfið var sent í framhaldi af því að við endurmat á örorku kæranda dags. xx 2010 hafði verið samþykkt 75% örorkumat fyrir tímabilið xx 2009 - xx 2011. Greiðsla örorkulífeyris fyrir tímabilið xx 2009 – xx 2010 átti sér stað í tengslum við bréfið.
Bréf dags. xx 2010 var þannig sent í tengslum við afgreiðslu á því örorkumati sem greiðslur fyrir umrætt tímabil tilheyrðu og greiðslurnar fóru fram á sama tíma. Tryggingastofnun telur því að hvorki hafi verið um að ræða afturköllun á stjórnsýsluákvörðun né endurkröfu afturvirkt.
Hér var eingöngu um það að ræða, að við afgreiðslu á endurmati var ljóst, að greiðslur fyrra örorkumats höfðu verið reiknaðar eftir röngu greiðsluhlutfalli og að það var leiðrétt með því, að greiðslur á grundvelli nýja örorkumatsins voru reiknaðar á grundvelli rétts greiðsluhlutfalls.
Í þessu sambandi skal á það bent að Tryggingastofnun hefur ekki farið fram á endurgreiðslu vegna of hárra örorkulífeyrisgreiðslna sem höfðu átt sér stað fyrir tímabilið xx 2007 – xx 2009
Varðandi það hvaða ákvæði reglugerðar ESB nr. 1408/71 verið væri að vísa í greinargerð Tryggingastofnunar þá er þar um að ræða 2. og 3. kafla, III. bálks reglugerðarinnar, einkum 2. mgr. 46 sem á skv. millitilvísunum í þessum köflum bæði við um útreikning á greiðsluhlutfalli ellilífeyris og örorkulífeyris þrátt fyrir að vera í 3. kaflanum sem fjallar um elli og andlát (lífeyri).“
Viðbótargreinargerðin var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. xx 2011. Athugasemdir bárust frá umboðsmanninum þann xx 2011. Þar segir m.a. svo:
„Í byrjun xx 2010 tók TR ákvörðun um endurmat örorku kæranda og samþykkti áframhaldandi 75% örorku. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda í bréfi dags. xx 2010 og var gildistími endurmatsins frá xx 2009 til xx 2011. Ákvörðun um búsetuhlutfall kæranda var hins vegar tekin á árinu 2007 og búið að greiða kæranda örorkulífeyri samkvæmt því (75% búsetuhlutfall) frá xx 2007. Kæranda var með bréfi dags. xx 2010 tilkynnt um nýtt búsetuhlutfall (30,53%) frá xx 2009 og að gera eigi upp greiðslur TR til hans frá xx 2009 til xx 2009 með uppgjör ársins 2009. Kærandi fær í byrjun xx 2010 greiddar örorkubætur skv. 30,53% búsetuhlutfalli frá xx 2010. Undirrituð ítrekar f.h. kæranda athugasemdir sínar úr fyrri greinargerð dags. xx 2011 um afturköllun, en skilyrði afturköllunar, sjá nánar í greinargerð, dags. xx 2011, verða að vera til staðar til að afturköllun geti verið réttmæt.
Ákvörðun TR um réttindi kæranda, sbr. bréf TR dags. xx 2010, er ekki aðeins afturköllun réttinda hans heldur er hún einnig gerð afturvirk frá xx 2009. Jafnvel þótt örorkumat sé afturvirkt er TR ekki heimilt að taka íþyngjandi ákvörðun um réttindi lífeyrisþega, sem hefur áhrif aftur í tímann, eins og hér er gert. Verði hins vegar fallist á að ákvörðun TR um 30,53% búsetuhlutfall sé réttmæt þá getur breytingin ekki tekið gildi fyrr en eftir að hún er birt kæranda í xx 2010.
Í 58. gr. laga um almannatryggingar segir: „Greiða skal bótaþegum búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórnin gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi.“ Í 2. mgr. sömu lagagrein kemur fram að ráðherra geti „með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi eigi rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.“ Ráðherra hefur ekki nýtt sér þessa heimild, engin reglugerð hefur verið sett sem kveður á um frádrátt vegna bóta sem lífeyrisþegi fær skv. erlendri löggjöf fyrir sama tímabil. Því er engin lagastoð fyrir ákvörðun TR. Að auki ber þess að geta að kærandi fær ekki og hefur frá því hann flutti lögheimili sitt til Íslands xx 2007 ekki fengið greiddar örorkubætur frá öðru ríki.
Ekki er hægt að sjá hvernig 2. mgr. 46. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 (3. kafli Elli og andlát (lífeyrir)) mælir fyrir um þá framkvæmd sem TR vill beita hvað varðar ákvörðun um búsetuhlutfall kæranda. TR vísar í greinargerð sinni ekki á neina skýra heimild í innlend eða erlend lagaákvæði til að veita ákvörðun sinni stoð. Því vaknar sú spurning hvort lagagrundvöllur fyrir ákvörðun stofnunarinnar sé til staðar.“
Athugasemdir umboðsmanns kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. xx 2010. Með bréfi, dags. xx 2011, barst úrskurðarnefnd svofelld viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins:
„Borist hafa að nýju viðbótargögn vegna leiðréttingar Tryggingastofnunar á greiðsluhlutfalli við afgreiðslu á endurmati. Einnig er því haldið fram að ekki sé lagastoð fyrir frádrætti af bótum vegna bóta sem greiddar séu samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi og að ekki verði séð hvernig 2. mgr. 46. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 mæli fyrir um þá framkvæmd sem TR vilji beita um ákvörðun um búsetuhlutfall kæranda..
A hafði ranglega fengið greiddan örorkulífeyrisgreiðslur miðað við of hátt búsetuhlutfall fram til xx 2009 þegar þágildandi örorkumat hans rann út. Við afgreiðslu á endurmati á örorkugreiðslum hans í xx 2010 hafði þetta komið í ljós og voru greiðslur til hans þá afgreiddar í samræmi við raunverulegan rétt hans. Hvorki var þannig um að ræða afturköllun á stjórnsýsluákvörðun né endurkröfu afturvirkt.
Varðandi lagastoð fyrir frádrætti af bótum þá er í þessu máli ekki um að ræða neinn frádrátt af bótum vegna bóta greiddra erlendis heldur einungis að ekki er um það að ræða að bætur séu greiddar hér á landi fyrir tímabil sem hann var búsettur erlendis.
Varðandi það að ekki sé hægt að sjá hvernig 2. mgr. 46. gr. reglugerðar ESB nr. 1408/71 mæli fyrir um þá framkvæmd sem TR vilji beita um ákvörðun um búsetuhlutfall kæranda þá er einmitt í því að ákvæði að finna fyrirmæli um útreikning á búsetuhlutfalli þegar um búsetu í fleiri en einu samningslandi hefur verið að ræða, eins og á við um A.
Að lokum skal á það bent að ef ekki hefði við ákvörðun og útreikning á örorkulífeyrisgreiðslum A verið byggt á reglum reglugerðar ESB nr. 1408/71 hefði ekki verið heimilt að byrja að greiða honum örorkulífeyrisgreiðslur hér á landi fyrr en skilyrði a.-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 um búsetu hér á landi a.m.k 3 síðust árin hefði verið fullnægt. Hann flutti hingað til lands frá D xx og greiðslur hefðu þannig ekki getað hafist fyrr en á árinu 2010.“
Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. xx 2011. Athugasemdir frá umboðsmanni kæranda bárust með bréfi, dags. xx 2011 og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. xx 2011. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun, dags. xx 2011. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar skerðingu á greiðslu örorkulífeyris til kæranda. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi dags. xx 2010 að örorkulífeyrisgreiðslur til hans lækkuðu úr 75% í 30,53% vegna búsetu hans erlendis. Í sama bréfi var tilkynnt að umrædd lækkun myndi gilda frá xx 2009 og var kærandi einnig ósáttur við slíka afturvirkni.
Kærandi er ósáttur við endurmat á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris vegna búsetu hans erlendis. Bendir umboðsmaður kæranda á að í byrjun xx 2010 hafi Tryggingastofnun tekið ákvörðun um áframhaldandi 75% örorku kæranda og hafi sú ákvörðun verið birt kæranda þann xx 2010. Hafi matið gilt til xx 2011. Með bréfi, dags. xx 2010 hafi stofnunin hins vegar kynnt kæranda nýtt búsetuhlutfall og hafi lífeyrir hans lækkað úr 75% í 30,53%. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að afturkalla réttindi kæranda og láta nýtt búsetuhlutfall gilda frá xx 2009.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að við endurmat á lífeyrisgreiðslum til kæranda hafi greiðsluhlutfall verið leiðrétt. Eingöngu hafi verið um það að ræða að við afgreiðslu á endurmati hafi verið ljóst að greiðslur fyrra örorkumats hafi verið reiknaðar eftir röngu greiðsluhlutfalli og að það hafi verið leiðrétt með því að greiðslur á grundvelli nýja örorkumatsins hafi verið reiknaðar á grundvelli rétts greiðsluhlutfalls. Stofnunin hafi hins vegar ekki farið fram á endurgreiðslu vegna of hárra örorkulífeyrisgreiðslna sem átt hefðu sér stað fyrir tímabilið xx 2007 til xx 2009.
Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Í 1. mgr. 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi og eru á aldrinum 16-67 ára og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Í 4. mgr. nefndrar 18. gr. segir að örorkulífeyri skuli greiðast eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Við ákvörðun á búsetutíma skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.
Um greiðslu ellilífeyris er fjallað í 17. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. segir m.a. svo:
„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [... ] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs ... Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann....“
Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita að um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár sé að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu uppfyllir kærandi búsetuskilyrðin ekki að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Nýtur kærandi því skertra lífeyrisréttinda. Kærandi hóf tóku lífeyris þann xx 2001. Samkvæmt gögnum málsins bjó kærandi í B og D frá xx til xx. Hann hefur verið búsettur hérlendis frá þeim tíma. Samanlagður búsetutími kæranda hér á landi frá 16 ára aldri þar til hann hóf töku lífeyris eru 4 ár, 5 mánuðir og 13 dagar. Búseta hans erlendis eftir 16 ára aldur eru 20,3 ár. Framreiknaður búsetutími kæranda hérlendis frá 16 ára til 67 ára aldurs eru 30,70 ár. Samkvæmt framangreindu ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar vinnur kærandi sér inn full réttindi á 40 árum og á hann því rétt á 76,76% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris.
Eins og fram kemur í greinargerð Tryggingstofnunar ríkisins kann kærandi jafnframt að eiga rétt til örorkulífeyrisgreiðslna frá D og B þar sem hann bjó áður. Tryggingastofnun ríkisins er milligönguaðili vegna umsókna um lífeyrisgreiðslur frá aðildarríkjum EES-samningsins og er kærandi hvattur til að sækja um slíka aðstoð með umsókn á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins eða nýta sér aðstoð þjónustumiðstöðvar stofnunarinnar eins og fram kemur í greinargerð stofnunarinnar.
Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að rétt hafi verið staðið að útreikningi örorkulífeyrisgreiðslna til kæranda sbr. 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Eins og að framan greinir fékk kærandi bréf dags. xx 2010 þar sem honum var tilkynnt um lækkun á greiðslum örorkulífeyris og átti lækkunin að taka gildi frá xx 2009. Úrskurðarnefnd almannatrygginga telur það verulega íþyngjandi fyrir kæranda að lækkun greiðslu örorkulífeyris skuli gilda aftur í tímann, þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin rétt að útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins þar sem búsetuhlutfall kæranda skerðir greiðsluhlutfall örorkulífeyris skuli gilda frá xx 2010 eða frá þeim tíma er kærandi fékk vitneskju um lækkun greiðslunnar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun greiðslna örorkulífeyris vegna búsetu erlendis úr 75% í 30,53% er staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um breytingar á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris til A, úr 75% í 30,53% er staðfest. Lækkun örorkulífeyrisgreiðslna skal gilda frá xx 2010.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson
formaður