Mál nr. 337/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 337/2023
Miðvikudaginn 11. október 2023
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 11. júlí 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 15. febrúar 2023, um að synja beiðni hennar um aukningu á beingreiðslusamningi, næturþjónustu og afturvirkar greiðslur á beingreiðslusamningi.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er með þjónustu frá Reykjavíkurborg í formi beingreiðslusamnings sem nemur 248 klukkustundum á mánuði. Með erindi, dags. 2. september 2022, var óskað eftir aukningu á þeim samningi, eða upp í 340 klukkustundir á mánuði og 244 klukkustundum vegna næturþjónustu. Þá var óskað eftir afturvirkum greiðslum á beingreiðslusamningi frá 1. september 2015. Beiðni kæranda var synjað 28. nóvember 2022 og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 15. febrúar 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 12. apríl 2023.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júlí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júlí 2023, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 22. ágúst 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2023. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 4. september 2023 sem voru kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. september 2023. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 21. september 2023 og voru þær kynntar umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. september 2023.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar er þess krafist að úrskurðarnefnd felli úr gildi ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 12. apríl 2023 og að fallist verði á umsókn hennar um aukningu við beingreiðslusamning úr 248 klukkustunum á mánuði í 340 klukkustundir á mánuði, næturþjónustu í 244 klukkustundir í mánuði og afturvirkar beingreiðslur frá 1. september 2015.
Tekið er fram að kærandi sé fædd árið X og hafi allt frá fæðingu glímt við mjög mikla fötlun sem lýsi sér meðal annars í alvarlegri skerðingu á vitsmunalegum þroska og tjáningu. Þá sé líkamleg fötlun umtalsverð, hreyfigeta skert og hreyfingar mjög ósamþættar. Þess utan búi hún við umtalsverðan heilsuvanda vegna hjarta-, hornhimnu- og lungnasjúkdóms. Þá sé kærandi ekki fær um að nærast um munn vegna köfnunarhættu og sé því með sondu fyrir næringar- og lyfjagjafir. Kærandi fái súrefnis- og sondugjafir á næturnar, sem þarfnist stöðugrar aðgæslu. Aukinheldur glími kærandi við slæma stoðkerfisverki, svefnvandamál, þráhyggju, áráttu og einhverfu ásamt því að vera með beinþynningu og hryggskekkju. Verulegar stuðningsþarfir kæranda séu staðfestar í niðurstöðum nýlegs SIS-mats (Supports Intensity Scale), dags. 19. október 2022, þar sem hún hafi verið metin með stuðningsþörfina 17 á skalanum einn til 18. Kærandi sé samkvæmt framansögðu algerlega háð umönnun þeirra sem mjög þekkja til allan sólarhringinn og þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Batahorfur séu engar.
Kærandi búi í foreldrahúsum og sé mestur hluti sinnu og umönnunar hennar á höndum foreldra hennar. Kærandi hafi ekki dvalist utan heimilis eða sjúkrahúss frá árinu 2015. Það skýrist einkum af erfiðleikum við að finna traust þjónustuúrræði utan heimilis hennar þar sem vilji sé og geta til að mæta miklum og flóknum stuðningsþörfum hennar með fullnægjandi hætti. Af þeirri ástæðu hafi kærandi notið stuðnings frá Reykjavíkurborg í krafti beingreiðslusamninga frá 1. september 2013. Í þeim felist að Reykjavíkurborg greiði kæranda mánaðarlega fjárhæð sem nýtt sé á vegum hennar til að greiða fyrir stuðnings- og stoðþjónustu. Upphaflega hafi verið gerður samningur sem hafi falið í sér beingreiðslur fyrir liðveislu og frekari liðveislu í alls 36 klukkustundir á mánuði. Það fyrirkomulag hafi verið óbreytt til 1. október 2016 þegar samþykktur hafi verið beingreiðslusamningur fyrir liðveislu og frekari liðveislu í 80 stundir á mánuði. Í dag sé í gildi samningur frá 15. desember 2022 sem hljóði á um beingreiðslur til kæranda fyrir stuðnings- og stoðþjónustu í 248 stundir á mánuði.
Með umsókn, dags. 2. september 2022, til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi kærandi óskað eftir því að henni yrðu veittar beingreiðslur samkvæmt samningi fyrir þjónustu í 340 stundir á mánuði, auk beingreiðslna fyrir næturþjónustu í 244 stundir á mánuði sem og afturvirkar beingreiðslur frá 1. september 2015. Á fagfundi velferðarráðs þann 5. október 2022 hafi verið samþykkt aukning á beingreiðslum miðað við þjónustu í 248 tíma á mánuði. Fyrrnefndum umsóknum kæranda hafi aftur á móti verið synjað og henni hafi borist bréf þess efnis, dags. 28. nóvember 2022, frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi staðfest hina kærðu ákvörðun þann 15. febrúar 2023. Hinn 12. apríl 2023 hafi kæranda loks borist rökstuðningur áfrýjunarnefndar. Nefndin hafi reist ákvörðun sína um synjun á aukningu á beingreiðslum og næturþjónustu á því að sá tímafjöldi sem greitt væri fyrir samkvæmt gildandi samningi væri hámark þess sem mælt sé fyrir um í 1. og 2. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga („reglurnar" eða „reglur Reykjavíkurborgar"). Um synjun nefndarinnar á afturvirkum beingreiðslum hafi verið sagt að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglnanna skyldu beingreiðslur hefjast við gildistöku beingreiðslusamnings og greiða skyldi fyrir fram einn mánuð í senn.
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 40/1991 sé sveitarfélagi skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búi á eigin heimilum og þurfi aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Almennt viðmið sé í 5. mgr. um að aðstoð á grundvelli ákvæðisins geti numið allt að 15 stundum á viku. Sé stuðningsþörf vegna fötlunar hins vegar meiri en svo að henni verði mætt með þjónustu eða aðstoð samkvæmt nr. 40/1991 skuli stuðningur samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma til viðbótar og þjónustan samþætt í þágu notanda. Í 8. gr. laga nr. 38/2018 segi í 1. mgr. að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem sé nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess.
Kærandi sé með beingreiðslusamning við Reykjavíkurborg sem kveði á um 248 klukkustunda aðstoð á mánuði. Þannig sé óumdeilt að hún eigi vegna fötlunar sinnar rétt á þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar á grundvelli laga nr. 38/2018 og 40/1991. Kærandi reisi kröfur sínar aftur á móti á því að sú þjónusta sem Reykjavíkurborg veiti henni sé fjarri því að vera nægjanleg til þess að þjónustuþörfum hennar sé mætt. Kærandi byggi þannig á því að reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga, sem sveitarfélagið hafi sett til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 38/2018, séu ekki í samræmi við þá löggjöf og tryggi ekki að lágmarksréttindi samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingum séu til staðar.
Ekki sé ágreiningur um það að sá tímafjöldi sem Reykjavíkurborg greiði fyrir þjónustu við kæranda, þ.e. 248 tímar á mánuði, sé hámark þess sem mælt sé fyrir um í reglum Reykjavíkurborgar. Þetta valdi því að stuðningur við kæranda af hálfu Reykjavíkurborgar sé í reynd takmarkaður við átta klukkustundir á dag. Stuðningsþörf kæranda sé hins vegar ekki afmörkuð við átta stundir á dag. Kærandi sé mikið fötluð og sé það allar stundir, alla daga og nætur, eins og að framan sé rakið. Löggjafinn hafi ákveðið og mælt fyrir um það með setningu laga nr. 38/2018 að fötluðu fólki með langvarandi stuðningsþarfir skuli tryggð þjónusta sem sé nauðsynleg þátttöku þeirra í samfélaginu. Stuðningur við kæranda sem nemi þriðjungi úr sólarhring setji hana ekki til jafns við aðra, líkt og lögin kveði á um. Reglur Reykjavíkurborgar feli í sér umfangsmikla takmörkun á þeim stuðningi sem lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sé ætlað að tryggja og byggi kærandi á því að reglur Reykjavíkurborgar feli í sér ólögmæta skerðingu á þeim réttindum sem hún njóti samkvæmt framangreindum ákvæðum laga.
Kærandi vísi til þess að hvergi sé að finna ákvæði í lögum nr. 38/2018 sem setji rétti kæranda til þjónustu viðlíka takmörk og reglur Reykjavíkurborgar geri. Ekki verði því séð að lagaleg stoð sé til þess að Reykjavíkurborg geti sett einhliða reglur sem takmarki svo verulega lögbundinn rétt umsækjenda um beingreiðslur til að fá þjónustu í samræmi við metna þörf. Í 30. gr. laganna segi í 2. mgr. að þegar að ákvörðun um þjónustu sé tekin skuli hún byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sæki og skuli ákvörðun tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skuli jafnframt tryggja að veitt þjónusta sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda og á því formi sem hann óski, sé þess kostur. Framangreint ákvæði mæli fyrir um skyldubundið mat sveitarfélaga en það sé grundvallarregla stjórnsýsluréttar að í þeim tilvikum er löggjafinn hafi veitt stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun, sem best henti í hverju og einu tilviki með tilliti til allra aðstæðna, sé stjórnvöldum óheimilt að afnema matið eða takmarka það óhóflega. Gerð beingreiðslusamninga sé liður í framkvæmd Reykjavíkurborgar á grundvelli 10. gr. laga nr. 38/2018 sem um gildi skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar. Með hliðsjón af meginreglunni um skyldubundið mat og þeirra áherslna sem kveðið sé á um í 30. gr laga nr. 38/2018 sé það skylda Reykjavíkurborgar að afgreiða hvern beingreiðslusamning með hliðsjón af þörfum hvers umsækjanda. Umþrætt ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs hafi á hinn bóginn ekki byggt á þeim sjónarmiðum, heldur hafi umsóknum kæranda eingöngu verið synjað með vísan til óútskýrðs hámarks beingreiðslna í reglum Reykjavíkurborgar. Það verði að teljast augljós meinbugur á ákvörðun velferðarráðs.
Afar íþyngjandi sé fyrir fatlaða einstaklinga og aðstandendur þeirra að sveitarfélög takmarki rétt þeirra til lögbundinnar þjónustu með vísan til óskilgreinds hámarks í reglum sem eigi sér ekki skýra lagalega stoð eða heimildir í lögum. Í því sambandi verði að líta til þess að hér sé um að ræða útfærslu á réttindum sem fötluðum einstaklingum sé áskilinn í 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1., 5. og 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 1. gr. laga nr. 38/2018. Þannig hvíli stjórnarfarsleg skylda á Reykjavíkurborg til að tryggja fötluðum aðstoð vegna fötlunar sinnar og mannréttindi til fulls og jafns við aðra og án tillits til efnahags. Lykilforsenda þess sé að þeim sé tryggð þjónusta er mæti þörfum þeirra með viðeigandi hætti. Reglur sem sveitarfélög setji á grundvelli laga nr. 38/2018 verði að taka mið af framansögðu. Kærandi byggi á því að hið óeðlilega lága þak sem sett sé á beingreiðslur í reglum Reykjavíkurborgar feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum kæranda og réttindum hennar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Kærandi fari fram á að beingreiðslur til hennar verði gerðar afturvirkar frá 1. september 2015. Umönnun kæranda hafi að verulegu leyti verið á höndum foreldra hennar frá þeim tíma og sanngirnissjónarmið liggi því til grundvallar að stuðningur við kæranda nái einnig til þess tímabils, þar sem beingreiðslur hafi verið ófullnægjandi og önnur raunhæf og viðeigandi úrræði ekki staðið til boða.
Af framangreindum ástæðum verði að fella úr gildi ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og fallast á umsókn kæranda um aukningu við beingreiðslusamning úr 248 klukkustunum á mánuði í 340 klukkustundir á mánuði, næturþjónustu í 244 klukkustundir í mánuði og afturvirkar beingreiðslur frá 1. september 2015.
Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að ekkert hafi komið fram í málinu sem breyti því sem segi í kæru hennar frá 11. júlí 2023 og allar þær málsástæður sem þar koma fram séu ítrekaðar. Kærandi telji þó rétt að andmæla sérstaklega ákveðnum atriðum sem fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar.
Kærandi telji að greinargerð Reykjavíkurborgar veiti engin haldbær svör við ágreiningsefninu. Óumdeilt sé að þjónusta við kæranda sé hámark þess sem mælt sé fyrir um í reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Kærandi ítreki hins vegar það sem fram hafi komið í röksemdum með kærunni að ekki sé viðhlítandi lagastoð fyrir þeim umfangsmiklu takmörkunum sem þjónustu við hana séu þar settar.
Kærandi hafni þeirri málsástæðu Reykjavíkurborgar að sveitarfélaginu sé heimilt að takmarka þjónustu við hana með svo verulegum hætti á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 40/1991 og 78. gr. stjórnarskrárinnar. Í því sambandi beri að líta til þess að það sé lögbundið markmið laga nr. 38/2018 að fatlað fólk „fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.“ Sambærilegt markmið liggi að baki skyldum sveitarfélaga í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 42. gr. laganna. Þannig sé ljóst að þrátt fyrir það svigrúm sem sveitarfélögum sé játað við setningu reglna á grundvelli laganna, verði þær reglur ávallt að fullnægja lögum og miða að því að tryggja fötluðum full mannréttindi og frelsi á við aðra. Það geri umþrættar reglur Reykjavíkurborgar ekki. Þvert á móti þrengi þær um of að rétti kæranda samkvæmt lögunum og gangi beinlínis gegn markmiði þeirra.
Í þessu sambandi beri að nefna að hvað sem svigrúmi sveitarfélaga til þess að setja sér reglur í þessum efnum líði, verði Reykjavíkurborg jafnframt að taka mið af kröfu 2. mgr. 30. gr. laga nr. 38/2018 um einstaklingsbundið og heildstætt mat. Að mati kæranda leiði af kröfunni og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat sveitarfélaga að Reykjavíkurborg sé óheimilt að afnema tilskilið mat jafn óhóflega og raun beri vitni. Um þetta vísi kærandi til þess að einstaklingsbundið og heildstætt mat á þjónustuþörfum kæranda virðist að engu leyti liggja til grundvallar ákvörðun sveitarfélagsins, heldur aðeins hið óskilgreinda hámark í reglum þess. Þessi tilhögun útiloki að kærandi fái þjónustu í samræmi þarfir sínar.
Þá árétti kærandi að skyldur Reykjavíkurborgar í þessum efnum séu liður í viðleitni löggjafans til að tryggja þau grundvallarréttindi sem leiði af stjórnarskrá og fjölþjóðlegum mannréttindareglum. Sjálfstjórn sveitarfélaga geti ekki haggað þessum kröfum.
Kærandi telji, með vísan til alls framangreinds og þess sem fram komi í kæru hennar frá 11. júlí síðastliðnum að í málinu liggi skýrlega fyrir að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum hennar hafi verið ólögmæt.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X árs gömul, einhleyp og barnlaus kona. Hún sé með mikla andlega og líkamlega fötlun, svo sem þroskaskerðingu og umtalsverðar hreyfiskerðingar. Kærandi sé með beinþynningu og hryggskekkju og hafi því lítið jafnvægi og detti auðveldlega. Hún þjáist af svefnvanda, lungnavandamálum, stoðkerfisverkjum, þráhyggju og áráttu. Hún þarfnist aðstoðar við allar athafnir daglegs lífs og tjáskipti séu erfið. Hún noti súrefni allar nætur sem og yfir daginn. Kærandi nærist í gegnum sondu vegna kyngingarvanda og fái einnig lyfjagjafir í gegnum sondu. Næringar og lyfjagjafir séu um það bil 34 yfir daginn. Hún þjáist af húðvandamáli svo sem í kringum sondu sem þarfnist umhirðu. Hún glími við tíðar sýkingar, svo sem augnsýkingar en kærandi sé með hornhimnusjúkdóm og bera þurfi smyrsl í augu hennar átta til tíu sinnum á dag. Kærandi sé metin samkvæmt SIS mati (Supports Intensity Scale) í flokk 17, en hæsti stuðningsflokkurinn sé 18. Kærandi stundi vinnu og virkni í C frá klukkan 9 til kl. 15:30 alla virka daga. Þá mæti kærandi annan hvern laugardag í skammtímadvöl að D en laugardagana á móti komi starfsmaður frá D heim til hennar í fjóra tíma í senn. Umrætt fyrirkomulag sé í skoðun. Kærandi búi hjá foreldrum sínum þar sem hún sé með sérherbergi. Aðgengi að húsinu sem og aðstaða innanhús sé góð og öll aðstaða sé til staðar til að veita kæranda góða umönnun. Móðir kæranda sé í 50% vinnu en hafi verið í veikindaleyfi undanfarið vegna gigtarsjúkdóms. Faðir kæranda vinni fulla vinnu en missi oft úr vinnu vegna umönnun kæranda. Foreldrar og eldri systir kæranda, sem sé flutt að heiman, séu aðal umönnunaraðilar hennar. Þjónusta í formi NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) við kæranda hafi komið til umræðu á fundi með félagsráðgjafa. Þá eigi kærandi umsókn um búsetuúrræði, dags. 3. október 2011. Kæranda hafi verið boðin búseta að Austurbrún sem foreldrar kæranda hafi afþakkað fyrir hennar hönd, þann 17. desember 2017.
Kærandi hafi verið með beingreiðslusamning síðan 1. september 2013 sem hafi verið 20 klukkustundir í liðveislu og 16 tímar í frekari liðveislu, samtals 36 tímar á mánuði. Þann 13. apríl 2016 hafi verið gerður beingreiðslusamningur við kæranda sem hafi verið samtals 80 klukkustundir á mánuði, 30 klukkustundir í liðveislu og 50 klukkustundir í frekari liðveislu. Þann 10. nóvember 2022 hafi verið gerður beingreiðslusamningur við kæranda sem miði við 248 klukkustundir á mánuði og hafi sá tímafjöldi haldist óbreyttur frá þeim tíma. Með bréfi foreldra kæranda, dags. 2. september 2022, hafi verið óskað eftir viðbótarframlagi vegna beingreiðslusamnings. Í framangreindu bréfi hafi foreldrar kæranda óskað eftir umframtímum úr 248 klukkustundum í 340 klukkustundir á mánuði, 224 klukkustundir vegna næturþjónustu og afturvirkum greiðslum á beingreiðslusamning kæranda frá 1. september 2015. Beingreiðslusamningar við kæranda hafi verið endurnýjaðir reglulega en meðfylgjandi séu einungis þeir samningar sem varði aukningu sem og nýjasti beingreiðslusamningur kæranda.
Með bréfi frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, dags. 28. nóvember 2022, hafi umsókn kæranda um aukningu við beingreiðslusamning verið synjað þar sem stuðningsþarfir væru umfram hámarkstímafjölda, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Með bréfi hafi persónulegur talsmaður kæranda, fyrir hennar hönd, skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi þann 15. febrúar 2023 þar sem eftirfarandi hafi komið fram:
„Á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs í dag var tekin fyrir umsókn þín um umframtíma úr 248 klukkustundum í 340 klukkustundir, skv. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.
Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Austurmiðstöð um aukningu á beingreiðslusamning, úr 248 klukkustundum í 340 klukkustundir, skv. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.
Einnig var tekin fyrir umsókn þín um 224 klukkustundir vegna næturþjónustu, skv. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.
Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Austurmiðstöð um næturþjónustu samtals 224 klukkustundir, skv. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.
Á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs í dag var tekin fyrir beiðni þín um skoðun á afturvirkum greiðslum á beingreiðslusamningi frá 1. september 2015.
Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafnaði beiðni um afturvirkar greiðslur á beingreiðslusamning frá 1. september 2015.“
Með bréfi þann 6. mars 2023 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi á ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og hafi rökstuðningur verið sendur kæranda með bréfi, dags. 12. apríl 2023. Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 6. október 2021 og á fundi borgarráðs þann 14. október 2021. Reglurnar séu settar með stoð í 28. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og 10. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita. Reglurnar hafi tekið gildi þann 1. febrúar 2022.
Markmið beingreiðslusamninga sé að auka val einstaklinga á formi og fyrirkomulagi aðstoðar að undangengnu faglegu mati, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna komi fram að stuðningsþörf umsækjanda sé metin á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Í 1. og 2. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga segi:
„Unnt er að gera beingreiðslusamning um eftirfarandi þjónustuþætti:
a) Stuðningsþjónustu, sbr. 25.- 27. gr. og XI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 60 klst. á mánuði.
b) Stoðþjónustu, sbr. 1.-3. tl. og 5. tl. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, að hámarki 188 klst. á mánuði.
Samanlagður fjöldi klukkustunda metins stuðnings sem veittur er sem stuðningsþjónusta annars vegar og stoðþjónusta hins vegar getur numið að hámarki 248 klst. á mánuði.“
Þá sé í 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga vikið að skilyrðum fyrir gerð beingreiðslusamnings en til þess að umsækjandi eigi rétt á stuðningi í formi beingreiðslusamnings verði hann að uppfylla öll skilyrði 8. gr. reglnanna. Eftirfarandi skilyrði sé tilgreint í 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglnanna:
„Umsækjandi sem á rétt á stuðningi samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu skal þurfa daglega aðstoð sem nemur að lágmarki 40 klst. og að hámarki 60 klst. á mánuði, sbr. faglegt mat á stuðningsþörf umsækjanda samkvæmt 3. gr. í reglum þessum. Umsækjandi sem á rétt á aukinni þjónustu samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skal þurfa daglegan stuðning að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 248 klst. á mánuði, sbr. faglegt mat á stuðningsþörf umsækjanda samkvæmt 3. gr. í reglum þessum. Ekki er um að ræða næturþjónustu.“
Kærandi í máli þessu hafi verið með beingreiðslusamning frá 1. september 2013, beingreiðslusamningur hafi verið undirritaður 21. október 2013. Beingreiðslusamningur kæranda hafi í fyrstu verið miðaður við 36 klukkustundir á mánuði. Þann 13. apríl 2016 hafi verið gerður beingreiðslusamningur við kæranda fyrir 80 klukkustundir á mánuði. Þann 10. nóvember 2022 hafi verið gerður beingreiðslusamningur við kæranda fyrir 248 klukkustundir á mánuði og hafi sá tímafjöldi haldist óbreyttur frá þeim tíma. Á þeim tíma sem beingreiðslusamningur við kæranda hafi upphaflega verið samþykktur hafi ekki verið í gildi reglur um beingreiðslusamninga heldur hafi verið unnið eftir tilteknu verklagi þar að lútandi. Reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga hafi tekið gildi þann 29. desember 2015.
Eins og rakið hafi verið hér að framan hafi núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga tekið gildi þann 1. febrúar 2022. Líkt og fram komi í 2. mgr. 4. gr. reglnanna geti fjöldi klukkustunda metins stuðnings sem veittur sé sem stuðningsþjónusta annars vegar og stoðþjónusta hins vegar samtals numið að hámarki 248 klukkustundum á mánuði. Einnig komi fram í 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. framangreindra reglna að hámark dagslegs stuðnings séu 248 klukkustundir á mánuði. Í framangreindu ákvæði komi einnig fram að ekki sé um næturþjónustu að ræða.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga hefjist greiðslur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar til umsækjanda við gildistöku beingreiðslusamnings og greitt skuli fyrir fram fyrir einn mánuð í senn. Ekki sé heimilt samkvæmt framangreindum reglum að greiða stuðning í formi beingreiðslusamnings aftur í tímann. Hér beri að nefna úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 186/2023 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni um afturvirka aukningu á beingreiðslusamningi hafi verið staðfest.
Sveitarstjórn skuli setja sér reglur um framkvæmd beingreiðslusamninga líkt og fram komi í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 40/1991. Lögin veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við framangreint, auk ákvæðis stjórnarskrár um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Við framkvæmd reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga skuli framfylgja þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hafi undirgengist og þá sérstaklega samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 1. mgr. framangreindra reglna.
Fram komi í greinargerð ráðgjafa til áfrýjunarnefndar velferðarráðs að nýlega hafi farið fram endurmat á stuðningsþörfum (SIS mat) kæranda og hafi hún verið metin í SIS flokki 17 (14 í hegðun og 9 í heilsu) en hæsti stuðningsflokkur sé 18 í SIS mati og því sé ljóst að þjónustuþarfir kæranda séu þungar. Þá sé tekið fram í læknabréfi sem hafi fylgt með gögnum til áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 17. janúar 2023, að kærandi þurfi sólahrings umönnun og hjálp við allar athafnir dagslegs lífs. Kærandi sé að mati læknisins sem hafi ritað vottorðið í þörf fyrir sólarhrings hjúkrun. Beingreiðslusamningar sé þjónusta sem sveitarfélögum sé skylt að veita á grundvelli 28. gr. laga nr. 40/1991 og 10. gr. laga nr. 38/2018 þar sem kveðið sé á um notendasamninga fyrir einstaklinga sem hafi þörf fyrir stuðnings- og stoðþjónustu en ekki hjúkrunarþjónustu. Hjúkrunarþjónusta fari eftir lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og sé á forræði ríkisins.
Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að synja bæri umsókn kæranda um aukningu á beingreiðslusamningi úr 248 klukkustundum í 340 klukkustundir á mánuði, 244 klukkustundir í næturþjónustu og afturvirkar greiðslur á beingreiðslusamning frá 1. september 2015 samkvæmt 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga, sbr. einnig 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. og 10. gr. reglnanna.
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga, lögum nr. 38/2018, lögum nr. 40/1991. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 né samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er ítrekað að sveitastjórn hafi heimild til að setja sér reglur um framkvæmd beingreiðslusamninga samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. einnig 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá veiti lögin sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau veiti. Í samræmi við framangreint, auk ákvæðis 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Í reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga sé kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita, sbr. 28. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga 10. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Framangreindar reglur séu einnig í samræmi við markmið framangreindra laga nr. 38/2018 um að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt sé að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þann 10. nóvember 2022 hafi verið gerður beingreiðslusamningur við kæranda miðað við 248 klukkustundir að undangengnu faglegu mati, sem sé hámarks stoð- og stuðningsþjónusta sem kveðið sé á um samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Sá tímafjöldi hafi haldist óbreyttur frá þeim tíma.
Þá sé því hafnað að ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda. Fram komi í 1. mgr. 2. gr. reglna um beingreiðslusamninga að markmið beingreiðslusamninga sé að auka val einstaklinga á formi og fyrirkomulagi aðstoðar að undangengnu faglegu mati. Þá sé einnig fjallað um mat á stuðningsþörf í 3. gr. framangreindra reglna og þar sé tekið fram að heildarfjöldi klukkustunda stuðnings sé ákvarðaður á grundvelli faglegs mats á stuðningsþörf. Þá komi fram í 6. gr. framangreindra reglna varðandi afgreiðslu umsókna að ákvörðun um að veita þjónustu í formi beingreiðslusamnings skuli taka á grundvelli faglegs mats á stuðningsþörf ásamt því sem öll skilyrði III. kafla reglnanna verði að vera uppfyllt. Í því samhengi beri að ítreka það sem fram kom í greinargerð velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 22. ágúst 2023, að nýlega hafi farið fram endurmat á stuðningsþörfum (SIS mat) kæranda og hún hafi verið metin í SIS flokki 17 (14 í hegðun og 9 í heilsu) en hæsti stuðningsflokkur sé 18 í SIS mati. Því sé ljóst að þjónustuþarfir kæranda séu þungar. Þá hafi einnig í læknabréfi, dags. 17. janúar 2023, verið vísað til þess að kærandi þyrfti sólahrings umönnun og hjálp við allar athafnir dagslegs lífs. Kærandi sé að mati læknisins, sem hafi ritað læknabréfið, í þörf fyrir sólarhrings hjúkrun. Beingreiðslusamningar sé þjónusta sem sveitarfélögum sé skylt að veita á grundvelli 28. gr. laga nr. 40/1991 og 10. gr. laga nr. 38/2018, þar sem kveðið sé á um notendasamninga fyrir einstaklinga sem hafi þörf fyrir stuðnings- og stoðþjónustu en ekki hjúkrunarþjónustu. Hjúkrunarþjónusta fari eftir lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og sé á forræði ríkisins.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni kæranda um aukningu á beingreiðslusamningi, næturþjónustu og afturvirkar greiðslur á beingreiðslusamningi.
Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.
Í 8. gr. laga nr. 38/2018 er fjallað um stoðþjónustu en þar segir í 1. mgr. að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustu skuli veita í hverju sveitarfélagi með þeim hætti sem best henti á hverjum stað og hún skuli miðast við eftirtaldar þarfir:
- Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku.
- Þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
- Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
- Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.
- Þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.
Í 10. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er kveðið á um notendasamninga. Í 2. gr. laganna eru notendasamningar skilgreindir á eftirfarandi hátt:
„Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.“
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. er einstaklingi heimilt að sækja um samning við sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. er markmið notendasamninga að auka val einstaklinga um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar, að undangengnu faglegu mati. Þá segir í 3. mgr. að einstaklingar eða barnafjölskyldur sem hafi verið metnar í þörf fyrir aðstoð eða stoðþjónustu geti sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað sé um framkvæmd stoðþjónustunnar. Heimilt sé að samþætta þjónustu sem einstaklingur eigi rétt á samkvæmt öðrum lögum í slíkum samningi. Hlutaðeigandi sveitarfélag geri slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setji. Við gerð notendasamninga skulu uppfyllt skilyrði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna, meðal annars hvað varðar aðbúnað þeirra á vinnustað, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag geti rift notendasamningi verði misbrestur þar á.
Í athugasemdum við ákvæði 10. gr. í frumvarpi til laga nr. 38/2018 segir svo:
„Ákvæðið fjallar um heimild sveitarfélags eða sveitarfélaga sem standa saman að þjónustusvæði til að gera notendasamninga um form og fyrirkomulag stuðnings og aðstoðar. Hugtakið er skilgreint í 2. gr. en gert er ráð fyrir að notendasamningar geti verið margs konar. Það sem er sammerkt með þeim öllum er að með þeim er hinum fatlaða fengin meiri stjórn yfir þeirri þjónustu sem hann fær.
Samkvæmt 2. mgr. er nauðsynlegt að notendur þjónustunnar hafi undirgengist faglegt mat áður en gerðir eru við þá notendasamningar. Tilgangur þess er að tryggja að ljóst sé frá upphafi samningsgerðar hverjar stuðningsþarfirnar eru og að þjónustan nái markmiði sínu.“
Í 30. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um almennar reglur um málsmeðferð. Þar segir í 1. mgr. að farið skuli að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögunum nema ríkari kröfur séu gerðar í þeim. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ákvörðun um þjónustu byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og ákvörðun skal tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur.
Í 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga kemur fram að stuðningsþörf umsækjanda sé metin á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar. Umsækjandi stýri fyrirkomulagi stuðnings og hvenær tíma dagsins hann fari fram í samræmi við undangengið mat á stuðningsþörf. Umsækjandi skuli gæta að lágmarksréttindum aðstoðarfólks í starfi þeirra. Í 3. gr. reglnanna segir að heildarfjöldi klukkustunda stuðnings sé ákvarðaður á grundvelli mats á stuðningsþörf. Fjárhæð sem greidd sé vegna beingreiðslusamninga sé reiknuð samkvæmt þeim kostnaðarforsendum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem liggi að baki þjónustu sem annars væri veitt af hálfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Í 1. mgr. 4. gr. framangreindra reglna kemur fram að unnt sé að gera beingreiðslusamning um eftirfarandi þjónustuþætti:
- Stuðningsþjónustu, sbr. 25.- 27. gr. og XI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 60 klst. á mánuði.
- Stoðþjónustu, sbr. 1.-3. tl. og 5. tl. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, að hámarki 188 klst. á mánuði.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglnanna getur samanlagður fjöldi klukkustunda metins stuðnings sem veittur er sem stuðningsþjónusta annars vegar og stoðþjónusta hins vegar numið að hámarki 248 klst. á mánuði. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. reglnanna að eigi sé heimilt að gera beingreiðslusamninga vegna meðal annars næturþjónustu, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglna Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur kærandi verið með beingreiðslusamning frá september 2013, í fyrstu fyrir 36 klukkustundir á mánuði, 80 klukkustundir á mánuði frá apríl 2016 og síðar, eða frá nóvember 2022, fyrir 248 klukkustundir á mánuði. Sá tímafjöldi hafi haldist óbreyttur frá þeim tíma. Það virðist óumdeilt að sá tímafjöldi fullnægir ekki þjónustuþörf kæranda.
Líkt og að framan greinir gera sveitarfélög notendasamninga við notendur á grundvelli reglna sem þau setja, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2018. Sveitarfélögum er þannig falið að útfæra nánar framkvæmd vegna þess þjónustuforms. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Reykjavíkurborg hefur ákveðið í sínum reglum að hámark veitts stuðnings í formi beingreiðslusamnings séu 248 klukkustundir á mánuði. Því verður að líta svo á að sé þjónustuþörf einstaklings meiri en sem því nemur geti henni ekki verið fullnægt með því þjónustuformi. Að mati úrskurðarnefndarinnar er framangreind útfærsla Reykjavíkurborgar ekki í andstöðu við lög nr. 38/2018, stjórnarskrá eða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en við það mat lítur nefndin til þess að einstaklingar hafa val um annað þjónustuform sé þjónustuþörf umfram það hámark sem sveitarfélagið hefur sett. Einnig að lög nr. 38/2018 gera ráð fyrir því að þjónusta sé veitt á því formi sem umsækjandi óskar, sé þess kostur, sbr. ákvæði 2. mgr. 30. gr. laganna. Fyrir liggur að beingreiðslusamningur kæranda er samkvæmt hámarkstímafjölda, eða 248 klukkustundir á mánuði. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja kæranda um aukningu á beingreiðslusamningu og næturþjónustu.
Kemur þá til skoðunar sá þáttur málsins er varðar beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur frá 1. september 2015. Í 10. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga er kveðið á um greiðslur vegna beingreiðslusamninga. Þar segir í 1. mgr. að greiðslur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar til umsækjanda hefjist við gildistöku beingreiðslusamnings. Greiðslur skuli greiða fyrir fram fyrir einn mánuð í senn. Samkvæmt ákvæðinu er því ekki heimilt að greiða stuðning í formi beingreiðslusamnings aftur í tímann. Með vísan til þess er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja þeirri beiðni kæranda einnig staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 15. febrúar 2023, um að synja beiðni A, um aukningu á beingreiðslusamningi, næturþjónustu og afturvirkar greiðslur á beingreiðslusamningi er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir