Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 145/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 145/2022

Miðvikudaginn 29. júní 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 10. febrúar 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 31. janúar 2022 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 12. nóvember 2019, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 13. desember 2019, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala þann X. Sjúkratryggingar Íslands töldu að um sjúklingatryggingaratvik hefði verið að ræða og samþykktu bótaskyldu með ákvörðun, dags. 31. janúar 2022, en töldu að skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu um lágmarksbótafjárhæð væru ekki uppfyllt. Því kæmi ekki til greiðslu bóta.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. mars 2022. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 21. mars 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi með umsókn, móttekinni 13. desember 2019, sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna ófullnægjandi læknismeðferðar sem hafi farið fram á Landspítalanum þann X.

Með ákvörðun, dags. 31. janúar 2022, hafi Sjúkratryggingar Íslands hafnað því að kærandi ætti bótarétt úr sjúklingatryggingu samkvæmt framangreindum lögum. Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands sé því haldið fram að ljóst sé að meðferð kæranda hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið á Landspítalanum þegar hann hafi leitað á bráðamóttöku þann X. Það hafi þó verið mat Sjúkratrygginga Íslands að kærandi hefði ekki orðið fyrir tjóni vegna þeirra vankanta sem hafi verið á meðferð hans þann dag. Það hafi verið álit Sjúkratrygginga Íslands að grunntjón kæranda hefði valdið honum varanlegum skaða en ekki sé orsakasamband á milli núverandi ástands kæranda og þeirrar staðreyndar að læknismeðferð hans hafi verið áfátt þegar hann hafi leitað á Landspítala þann X.

Málsatvik séu þau að þann X hafi kærandi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás og hafi leitað í framhaldi árásar á bráðadeild Landspítala. Þar hafi komið fram að kærandi væri kjálkabrotinn og hafi aðgerð verið framkvæmd að kvöldi X. Daginn eftir hafi kærandi leitað aftur á Landspítala þar sem kinnin hafi verið orðin mjög blá og marin og hafi hann jafnframt verið afar kvalinn. Hann hafi talað um að það væru smellir í kjálkanum og óskað eftir myndatöku, enda hafi hann fundið að kjálkinn væri farinn í sundur. Kæranda hafi verið hafnað um myndatöku og hann sendur heim og ráðlagt að taka verkjatöflur. Þann X hafi kærandi verið orðinn viðþolslaus af kvölum og hafi hann farið strax um morguninn á Landspítala. Hann hafi þá verið myndaður og komið í ljós að kjálkinn hafi enn verið brotinn líkt og kærandi hafði sagt. Kærandi hafi verið bókaður í aðgerð þann X en honum hafi verið sagt að ekki væri hægt að gera aðgerðina samdægurs. Á þessum tíma hafi kærandi verið orðinn afar máttfarinn af verkjum. Engu að síður hafi honum verið bent á að fara heim og taka inn verkjatöflur.

Um kvöldið X hafi X kæranda hringt á sjúkrabíl, enda farin að óttast um ástand kæranda. Systir kæranda hafi fengið þær upplýsingar að kærandi fengi sömu þjónustu á Landspítala hvort heldur hann kæmi á einkabíl eða sjúkrabíl, auk þess sem hann ætti pantaða aðgerð eftir helgina. Kærandi hafi farið á Landspítala, þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingur hefði beinlínis latt hann til þess í símanum. Þar hafi kærandi hitt tvo lækna sem hafi sagt honum að fara heim þó svo að þar hafi verið orðið dagljóst að kærandi hafi verið sárkvalinn.

Þann X hafi ástandið verið orðið slíkt að hringt hafi verið á sjúkrabíl sem hafi komið skömmu síðar og flutt kæranda á Landspítala. Kærandi hafi á þessum tímapunkti verið kominn með afar háan hita, hafði ekki kastað af sér vatni um hríð og verið í afar slæmu ástandi. Það hafi verið tappað af honum hið fyrsta og lungnabólga greind sem hafði verið litið fram hjá í öllum heimsóknum hans fram að því, þrátt fyrir að kærandi hefði nokkrum dögum fyrir líkamsárásina verið með lungnabólgu og verið í innlögn sökum þess á spítalanum. Með öðrum orðum sjúklingur með sögu um lungnabólgu sem hefði verið eðlilegt að líta til af hálfu lækna.

Hvað varði áverkann á andliti kæranda þá hafi verið framkvæmd önnur aðgerð á kæranda þar sem skorið hafi verið á kinnina utan frá og sett bót á kjálkann vegna þess hve stórt/gliðnað brotið hafi verið eftir þann tíma sem liðið hafði frá fyrstu aðgerðinni sem augljóslega hafði mislukkast. Kærandi hafi fljótlega kvartað undan tilfinningaleysi í kinninni í eftirliti. Kærandi búi enn þann dag í dag við dofa í andliti.

Óumdeilt sé í málinu að starfsmenn Landspítala hafi brotið með háttsemi sinni gegn ákvæði 1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000. Deilan í málinu snúist um það hvort hið varanlega tjón, þ.e. taugaskaðinn sem kærandi búi við, sé vegna frumtjónsins eða vegna hinnar dræmu læknisþjónustu sem kærandi hafi hlotið af hálfu starfsmanna Landspítala.

Þegar litið sé til gagna málsins megi sjá að í upphafi hafi kærandi kvartað undan verkjum frá brotinu og aðgerð framkvæmd. Það sé ekki talað um dofa eða taugaeinkenni fyrir fyrri aðgerðina. Í kjölfar fyrri aðgerðar á kjálka hafi kærandi lýst smellum í kjálka og verkjum en ekki nefnt taugaeinkenni. Kærandi hafi fyrst nefnt taugaeinkenni X og þá sem dofa í vör og hafi hann þá líka lýst áhyggjum af bið eftir aðgerð sem honum hafi verið kunngjört að gæti ekki farið fram fyrr en X. Kærandi hafi svo áfram verið mjög verkjaður heima fyrir en hafi svo komið með sjúkrabíl, þá kominn með bráðalungnabólgu og verið lagður inn. Í eftirliti eftir aðgerðina þann X hafi komið fram að kærandi hafi komið ágætlega undan aðgerðinni og allt hafi litið vel út. Þann X hafi kærandi lýst dofa sem hann hafi fundið fyrir áður, sbr. þegar hann hafi nefnt taugaeinkennin þann X, en nú væri dofinn kominn frá miðri kinn frá eyrnasnepli og niður á kjálka og yfir miðlínu á höku og aðeins í neðri vör. Með öðrum orðum talsvert verri taugaverkir.

Sú niðurstaða Sjúkratryggingar Íslands að telja frumáverka, þ.e. kjálkabrotið sjálft, valda umræddum taugaskaða sem kærandi búi við í dag sé í þversögn við gögn málsins, enda sjáist greinilega hvernig taugaverkja sé fyrst vart eftir fyrri aðgerðina. Því fáist ekki séð með hvaða röksemdum unnt sé að fella allan skaðann á frumorsökina en undanskilja með öllu áhrif rangrar læknismeðferðar og þeirrar biðar sem kærandi hafi þurft að sæta uns hann hafi farið í fullnægjandi aðgerð.

Þá sé því sérstaklega mótmælt að um sólarhringstöf hafi verið að ræða frá því að greining hafi orðið á tilfærslu brots og þar til kærandi hafi hlotið viðhlítandi meðferð. Hið rétta sé að kærandi hafi kvartað strax daginn eftir fyrri aðgerðina, eða þann X, um að ekki væri allt með felldu og óskað eftir myndatöku. Það hafi ekki verið orðið við þeirri beiðni og síðari aðgerðin þar sem tilfærsla brotsins hafi verið lagfærð hafi ekki farið fram fyrr en X. Það sé því umtalsvert lengri tími en einn sólarhringur sem kærandi sé ranglega greindur og í framhaldinu ranglega meðhöndlaður af starfsmönnum Landspítala.

Þá bendi kærandi á að um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögum nr. 111/2000 fari eftir skaðabótalögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. Samkvæmt skaðabótalögum sé ekki aðeins bætt tjón vegna varanlegrar örorku heldur einnig vegna varanlegs miska, þjáningabóta og tímabundins tekjutjóns, sbr. 2. gr. til 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í tilviki kæranda liggi fyrir og virðist óumdeilt að hann hafi orðið fyrir miska vegna hinnar röngu greiningar og sé komið inn á það í greinargerð meðferðaraðila, dags. 28. febrúar 2020. Þar segi orðrétt: „Vissulega er það slæmt að sjúklingur hafi þurft að gangast undir tvær skurðaðgerðir með tilheyrandi óþægindum í formi verkja og skyntruflunar á áverkasvæði en ekki verður séð af þeim gögnum sem liggja fyrir að nokkuð athugavert hafi átt sér stað við meðferð sjúklings á Landsspítalanum.“

Nú liggi fyrir ákvörðun um að meðferð kæranda á Landspítala hafi verið athugaverð, öfugt við álit meðferðaraðila. Þannig virðist áskilnaði 1. tl. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, sbr. 2. til 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vera fullnægt og hefði í öllu falli átt að meta kæranda miska, þjáningabætur og eftir atvikum tímabundið atvinnutjón.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar sem og gagna þeirra sem fylgi með kæru þessari telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 þannig að hann eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem hafi leitt af rangri greiningu og í kjölfarið rangri læknismeðferð vegna kjálkabrots. Leiða megi að því líkur að hefði verið staðið rétt að læknismeðferð hefði fyrr mátt grípa inn í og afstýra frekara taugatjóni en ljóst sé að taugatjón hafi ekki verið til staðar í kjölfar frumáverka. Sá áverki hafi ágerst eftir því sem tíminn hafi liðið og því augljóst orsakasamhengi á milli læknismeðferðar og þess ástands sem kærandi búi við í dag.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hans samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og telji að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hann eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hafi hlotist af rangri læknismeðferð þann 30. maí 2018.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 13. desember 2019. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítala þann X. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og hafi málið verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 31. janúar 2022, hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að atvikið ætti undir 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu en skilyrði um lágmarksbótafjárhæð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingu væri ekki uppfyllt. Sú ákvörðun sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í ákvörðun, dags. 31. janúar 2022. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 31. janúar 2022, segi svo um mat á afleiðingum:

„Að mati SÍ er ljóst að meðferð var ekki hagað eins vel og unnt hefði verið á LSH þegar hann leitaði á bráðamóttöku þann X, en meðferðin leiddi þó ekki til tjóns, hvorki varanlegs né tímabundins. Líkt og fram hefur komið leitaði umsækjandi á bráðamóttöku þann X þar sem hann kvartaði undan smellum í kjálkanum. Ritað er í bráðamóttökuskrá, þann dag, að teknar hafi verið myndir og að áætluð hafi verið skoðun C á umsækjanda vegna kvartana hans. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að umrædd myndataka hafi farið fram og heldur ekki skoðun C. Er það mat stofnunarinnar að rétt hefði verið að fylgja umsækjanda betur eftir, eftir komuna á bráðamótttöku þann X, með nánari skoðun C og eftir atvikum myndatöku og því hafi umsækjandi ekki notið bestu mögulegu meðferð á LSH þann X. Í þessu felst hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður, skv. 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Það er þó mat SÍ að umsækjandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna þeirra vankanta sem voru á meðferð hans á LSH þann X. Umsækjandi kom aftur á bráðamóttöku þann X, þar sem framkvæmd var fullnægjandi læknisskoðun ásamt því að teknar voru nýjar myndir sem sýndu los á skúrfum og tilfærslu á broti. Enduraðgerð var svo framkvæmd þann X sem góðum árangri. Er það mat SÍ að sú sólarhringstöf sem varð á greiningu á tilfærslu brotsins olli ekki tjóni þar sem það hafði ekki áhrif á endanlegt líkamstjón umsækjanda. Þá olli sú sólarhringstöf, sem varð á myndatöku, heldur ekki tjóni þar sem aðgerðinni sem fram fór X, hefði ekki verið flýtt þó myndataka hefði farið fram degi fyrr. Líkt og fram kom í bráðamóttökuskrá, dags. X, var tjónþoli dofinn vinstra megin í andliti, við komuna á bráðamóttöku. Er það því ljóst, að mati SÍ, að þau einkenni sem tjónþoli býr við í dag megi ekki rekja til þess að meðferð hafi ekki verið hagað með fullnægjandi hætti heldur til grunnástands hans, þ.e. slyssins þann X.

Sjúklingatryggingu er ekki ætlað að bæta tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms og er því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns umsækjanda og þeirrar meðferðar sem hann gekkst undir. Af gögnum málsins er ljóst að þetta orsakasamband er ekki til staðar í máli umsækjanda.

Með vísan til þessa er SÍ ekki heimilt að verða við umsókn umsækjanda um bætur úr sjúklingatryggingu, þar sem meðferð þarf að hafa leitt til tjóns til að skilyrði laganna um greiðslu bóta sé uppfyllt og tjónsupphæð að ná lágmarksfjárhæð skv. 2. mgr. 5. gr. laganna.“

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar mat á afleiðingum sjúklingatryggingaratviks sem kærandi varð fyrir við meðferð á Landspítala, dags. X, í kjölfar líkamsárásar sem kærandi varð fyrir X. Kærandi telur að afleiðingar sjúklingatryggingaratviksins hafi verið ranglega metnar. Telur hann að stóran hluta þeirra einkenna sem hann búi við, þ.e. dofa í andliti, megi rekja til tafar á fullnægjandi læknismeðferð og að honum hefði átt að vera metinn varanlegur miski, þjáningabætur og varanleg örorka vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu fer um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögunum eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó 2. mgr. 10. gr. laga um sjúklingatryggingu. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að bætur samkvæmt 1. mgr. greiðast ef virt tjón nemur 50 þús. kr. eða hærri fjárhæð. Hámark bótafjárhæðar fyrir einstakt tjónsatvik skal þó vera 5.000.000 kr. Fjárhæðir þessar breytast miðað við 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.

Í bráðamóttökuskrá D sérfræðilæknis, dags. X, segir:

„Skoðun:

Við komu er hiti 36,9° púls 75 blóðþrýstingur 118/56. Öndunartíðni 16.

Súrefnismettun 94% á fingri án tilfærðs súrefnis.

Hann kvartar hvergi nema í andlitinu vinstra megin. Hann mun ekki hafa rotast.

Hann er bólginn kvartar um verki staðbundið. Bólgan aukist frá því í gær og hann

er dofinn í andlitnu vinstra megin mest niður á hökuna.

Finnst ekki að bitið sé stakkt . Ekki hefur blætt úr eyra. Sjón er eðlileg.

Telur fingur rétt. Augnhreyfingar eru eðlilegar. Engin önnur áverkamerki.

Töluverð bólga í andliti og dofi sem gerir það að verkum að hér þarf að taka TS mynd.

Rannsóknir:

TS ANDLITSBEIN:

Það er lítillega tilfært brot aftast í corpus mandibularis vi. megin Proximal ( ramuscondyl fragment) er medialt tilfært um 4 mm. Ekki liðhlaup í kjálkaliðum en condylar standa nokkuð framanvert sem skýrist af því að sjúklingur er myndaður með opinn munn. Einnig er lítillega tilfært brot í dorsolateral vegg vi. sinus maxillaris og lítilsháttar loft í mjúkvefjum masticatori rýmisins þar aðlægt. Það má jafnframt sjá beinóreglu/brot í os zygomaticum vi. megin rétt lateralt við sinusinn. Þetta brot teygir sig inn í fremstu mörk arcus zygomaticus.

Niðurstaða:

Brot vi. megin í corpus mandibularis. Brot í afturvegg sinus maxillaris vi. megin.

Brot í corpus og ramus zygomaticum os zygomatice vi. megin.

[…]

Greiningar:

Kjálkabrot, ekki skráð, S02.6

Brot annarra kúpu- og andlitsbeina, ekki skráð, S02.8: os zygomaticus

Fracture of malar and maxillary bones, ekki skráð, S02.4

Álit og áætlun:

Samkvæmt lýsingu rtg. lækni sjá að ofan greiningarkóða.

Samkvæmt venju þessu vísað til C lækna sem ætla að skoða hann nú strax á eftir.“

Í greinargerð G, yfirlæknis háls-, nef- og eyrnalækninga Landspítalans, dags. X, kemur fram:

„A leitar á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 09:24 að morgni X eftir líkamsárás sem hann varð fyrir á E. Að eigin sögn veitti ungur maður honum hnefahögg vinstra megin í andlit án tilefnis.

Sneiðmynd af andlitsbeinum sýnir brot í corpus mandibularis vinstra megin proximalt. Einnig sést lítið, nánast ótilfært brot, í vinstri sinus maxillaris og os zygomaticus sem ekki er talið þurfa aðgerðar við en hins vegar þarf að laga kjálkabrotið. Hann er með prothesur í neðri góm en lélegur tannstatus er í efri góm.

Kallaður er til kjálkaskurðlæknir, F, sem gerir aðgerð þennan sama dag. Sjúklingur er svæfður og honum gefin sýklalyf og sterar í aðgerðinni, farið er inn á brotið transoralt og reponerað og fixerað með tveimur títan plötum. Við þetta fæst ágæt lega á brotið samkvæmt aðgerðarlýsingu.

Daginn eftir er sjúklingur útskrifaður og fær ráðgjöf næringarfræðings. Hann fær sýklalyf með sér, Augmentin 625 mg 1x3 í sjö daga og einnig Parkódín forte verkjalyf.

Hann leitar síðan aftur á bráðamóttökuna X og finnst honum þá vera smellir í kjálkanum. Hann er hitalaus við komuna þá, lífsmörk eðlileg og súrefnismettun 98% án súrefnis. Hann er svo útskrifaður þaðan heim.

Þann X kemur hann aftur vegna vaxandi verkja og þann sama dag er tekin ný yfirlitsmynd sem sýnir lausar skrúfur og tilfærslu í brotinu. Þennan sama dag er tekin ákvörðun um enduraðgerð og er hún skipulögð strax eftir helgina, þ.e.a.s. X.

Á meðan sjúklingur bíður eftir þeirri aðgerð fær hann 39 stiga hita og kemur þann X á bráðamóttökuna með slæma lungnabólgu. Hann hafði áður fengið lungnabólgu, bæði í X og X sama ár og lagðist þá inn brátt á lyflækningadeild. Hann fær sýklalyf og er súrefniskrefjandi. Hann er með sögu um krónískan obstructivan lungnasjúkdóm. Hins vegar stabiliserast hann af þeirri meðferð sem sett er inn og er tækur í aðgerð þann X. Í þeirri aðgerðarlýsingu kemur fram að eitthvað hafi komið fyrir, hvort hann hafi fengið nýtt högg eða annað er erfitt að fullyrða, en hins vegar losna þessar skrúfur ekki á þremur dögum án þess að einhver ný atburðarás hafi átt sér stað. Í aðgerðinni eru settar nýjar plötur og nú er skurðaðgerð gerð utan frá. Það er alveg ljóst að hann er með truflun í skyntaug eftir brot sem þetta og aðgerð og er það þekkt áhætta við kjálkabrot. Hins vegar er hann ekki með neinar lamanir í andliti eða neitt slíkt. Hann fær áfram sýklalyf í æð og einnig stera að ráði lungnalækna.

Hann liggur áfram inni og útskrifast í stabílu ástandi af lyflækningadeild þann X. Hann kemur síðan í endurkomu á göngudeild háls-, nef- og eyrnalækninga X og þá eru restar af saumum fjarlægðar og engin merki um sýkingu. Á þeim tímapunkti má hann fara að borða mjúka fæðu eftir getu.

Hann lýkur sýklalyfjameðferð og kemur síðan í lokaskoðun á göngudeildina X. Brotið er þá að fullu gróið og er hann aðeins með dofa í kinninni og neðri vör. Tannstatus er eins og áður, mjög lélegur og er hann með prothesur í neðri góm.

Ekki er getið til um fleiri komur á Landspítala vegna þessa máls eftir X.

Vissulega er það slæmt að sjúklingur hafi þurft að gangast undir tvær skurðaðgerðir með tilheyrandi óþægindum í formi verkja og skyntruflunar á áverkasvæði en ekki verður séð af þeim gögnum sem liggja fyrir að nokkuð athugavert hafi átt sér stað við meðferð sjúklings á Landspítalanum.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur lagt mat á fyrirliggjandi gögn í málinu og telur þau fullnægjandi. Kærandi varð fyrir líkamsárás X með þeim afleiðingum að hann hlaut kjálkabrot. Kærandi leitaði á bráðamóttöku X og gekkst undir aðgerð í svæfingu þar sem gert var að brotinu með tveimur titaníum plötum og fjórum skrúfum í hvorri plötu og fékkst þannig ágæt lega á brotið. Daginn eftir var hann útskrifaður en þann X leitaði hann aftur á bráðamóttökuna og kvartaði undan smellum í kjálka. Kærandi var hitalaus, með lífsmörk innan eðlilegra marka, fína mettun og opnaði og lokaði kjálka vandræðalítið og var því útskrifaður heim. Kærandi leitaði aftur á bráðamóttöku vegna verkja þann X þar sem hann var skoðaður og sendur í röntgenmyndatöku sem sýndi fram á los á skrúfum og tilfærslu á broti. Þann X var kærandi sendur á bráðamóttöku með sjúkrabíl vegna meðvitundarskerðingar. Kærandi var þá lagður inn vegna lungnabólgu. Kærandi gekkst undir aðra aðgerð X þar sem aftur var gert var að broti hans. 

Ljóst er að kærandi hlaut áverka á kjálka í líkamsárás. Sjúkratryggingar Íslands hafa komist að þeirri niðurstöðu að meðferð kæranda á Landspítala þann X hafi verið ábótavant. Taldi stofnunin að rétt hefði verið að fylgja kæranda betur eftir í kjölfar komu á bráðamóttöku þann X með nánari skoðun háls-, nef- og eyrnalæknis og eftir atvikum myndatöku. Því var það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki notið bestu mögulegu meðferðar á Landspítala þann X. Að mati Sjúkratrygginga Íslands varð kærandi þó ekki fyrir tjóni vegna vankanta á meðferð hans á Landspítala þann X þar sem kærandi hafi fengið fullnægjandi læknisskoðun þann X. Sjúkratryggingar Íslands telja að sú sólarhringstöf sem varð á greiningu á tilfærslu brotsins og myndatöku hafi ekki valdið kæranda tjóni þar sem aðgerðinni, sem átti að fara fram X, hefði ekki verið flýtt þótt myndataka hefði farið fram X.

Við skoðun á gögnum málsins fær úrskurðarnefndin hvorki ráðið að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna sjúklingatryggingaratburðarins né að einkenni kæranda hafi versnað vegna hans. Í bráðamóttökuskrá D sérfræðilæknis, dags. X, kemur fram að kærandi hafi verið dofinn vinstra megin í andliti við komuna á bráðamóttöku. Það sama kemur fram í aðgerðarlýsingu F háls-, nef- og eyrnalæknis, dags. X, en þar segir að kærandi hafi kvartað undan því að vera alveg dofinn í neðri vör vinstra megin og tannholdi framarlega í munni vinstra megin. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tjón kæranda megi rekja til líkamsárásarinnar sem hann varð fyrir X.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta