Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 4/2020, úrskurður 6. október 2021

Miðvikudaginn 6. október 2021 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 4/2020

Landsnet hf.

gegn

Valbæ ehf.

Valgerði Elínu Valdemarsdóttur

Baldvini Valdemarssyni

Hólmgeiri Valdemarssyni

Þorsteini Þorsteinssyni

Hólmgeiri Þorsteinssyni

og Valdísi Brá Þorsteinsdóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 20. október 2020 fór Landsnet hf., kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á eignarréttindum í landi fasteignanna Kotungsstaða, landnúmer 153296, Kotungsstaða 2, fastanúmer 216-1432, Kotungsstaða 3, fastanúmer 216-1435, Kotungsstaða 4, fastanúmer 216-1434 og Kotungsstaða 5, fastanúmer 216-1433, sem allar eru í Þingeyjarsveit, í þágu lagningar 220 kV háspennulínunnar Hólasandslínu 3 og á grundvelli ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 21. ágúst 2020.

Eignarnámsheimild er í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Eignarnámsþolar eru í fyrsta lagi Valbær ehf., kt. 610289-1429, þinglýstur eigandi jarðarinnar Kotungsstaða, fyrirsvarsmaður Valgerður Elín Valdemarsdóttir. Í öðru lagi Þorsteinn Þorsteinsson, kt. […], Hólmgeir Þorsteinsson, kt. […], og Valdís Brá Þorsteinsson, kt. […], þinglýstir eigendur Kotungsstaða 2 sem hvert um sig eiga þriðjungshlut í fasteigninni. Í þriðja lagi Baldvin Valdemarsson, kt. […], þinglýstur eigandi Kotungsstaða 3. Í fjórða lagi Valgerður Elín Valdemarsdóttir, kt. […], þinglýstur eigandi Kotungsstaða 4. Í fimmta lagi Hólmgeir Valdemarsson, kt. […], þinglýstur eigandi Kotungsstaða 3.

Matsandlagið samkvæmt matsbeiðni og ákvörðun um eignarnám er nánar tiltekið:

 

„Í þessu skyni mun eftirfarandi kvöð vera þinglýst á viðkomandi fasteignir:

1.         [Eignarnema] er heimilt að leggja um land jarðarinnar Kotungsstaðir, Þingeyjarsveit, landnr. 153296, 220 kV háspennulínu, svokallaða Hólasandslínu 3, ásamt því að reisa 4 möstur í landinu til að bera línurnar uppi, og nýta fyrirliggjandi vegslóða, sbr. 21. gr. [raforkulaga]. Skal [eignarnemi] jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi, að undanskildum slóðum og vegum, sbr. 3. tl., óskoruð eign [eignarnema] eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til.

2.         Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, sbr. og 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja o.fl., nr. 146/1996, bæði með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, helgunarsvæði, sem er að jafnaði um 50 metra breitt undir og við línurnar, auk þess sem landnot sem kunna að hafa áhrif á rekstraröryggi háspennulínunnar, s.s. skógrækt, eru óheimil innan helgunarsvæðisins.

3.         [Eignarnema] er heimilt en ekki skylt í þessu skyni, að leggja samtals 2.212 metra langa vegslóð að línunum og meðfram þeim og halda slóðinni við eftir því sem þörf krefur að mati [eignarnema], sbr. þó sérstök ákvæði í samningi aðila varðandi notkun vegar sem fyrir er. [Eignarnemi] eða þeir, sem [hann] felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að möstrum og rafmagnslínu í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. [Eignarnemi] gerir ekki athugasemdir við að landeigandi nýti slóðir og skrái þær sem sinn einkaveg að uppfylltum skilyrðum laga, enda sé [eignarnema] ávallt tryggður óheftur aðgangur og umferðarréttur. Ef vegslóð er lokað af landeigendum skal [eignarnema] tryggður framangreindur afnota- og umferðarréttur með afhendingu lykils að þeim lokunarbúnaði eða annars búnaðar til opnunar fyrir umferð ökutækja.

4.         Mannvirki þau sem eignarnám þetta tekur til skulu standa í landinu ótímabundið.

5.         Meðfylgjandi háspennulínunni er [eignarnema] heimilt að leggja ljósleiðara.“

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 23. nóvember 2020. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 11 tölusettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs. Fært var til bókar að matsnefnd hefði fallist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 23. gr. raforkulaga, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973. Þá var fært til bókar að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. sömu laga. Aðilar töldu að sérstök þörf væri á vettvangsathugun í málinu og vegna veðurfars og aðstæðna í samfélaginu af völdum kórónaveirunnar var bókað að stefnt væri að því að fara á vettvang í maí 20201. Loks var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

Þriðjudaginn 15. júní 2021 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar.

Sama dag var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 23. nóvember 2020 og vettvangsgöngu 15. júní 2021. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnámsþola ásamt átta tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnema voru lögð fram fimm tölusett skjöl og af hálfu eignarnámsþola var lagt fram málskostnaðaryfirlit. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmönnum bókað að þeir áskildu sér rétt til að koma frekari gögnum til nefndarinnar. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

Með tölvubréfi matsnefndar 6. september 2021 til aðila var þess farið á leit við þá að upplýst yrði um þrjú nánar tilgreind atriði. Stærð lands sem fari undir möstur í landi jarðarinnar Kotungsstaða, lengd háspennulínunnar sem fari um land jarðarinnar og áætlaða stærð jarðarinnar. Með tölvubréf eignarnema degi síðar til matsnefndar bárust svör við þessum atriðum og með tölvubréfi eignarnámsþola sama dag var þeirri skoðun lýst að upplýsingarnar væru nærri lægi.

Með tölvubréfi matsnefndar 15. september 2021 til aðila var þess á ný farið á leit við þá að upplýst yrði um átta nánar tilgreind atriði. Lutu þau að stærð lands sem fer undir möstur í landi jarðarinnar Kotungsstaða, flatarmáli svæðis á línuleið á milli mastra, flatarmáli nýrra vega innan línustæðis, innan 50 metra áhrifasvæðis en utan línustæðis, innan 400 metra beltis línunnar en utan 50 metra áhrifasvæðis og utan 400 metra beltisins, svo og flatarmáli svæðis á milli Kröfulínu 1 og Hólasandslínu 3 í landi jarðarinnar. Loks var spurt hvernig bótagreiðslum vegna eldri línunnar, Kröflulínu 1, hefði verið háttað (hver bótafjárhæð hefði verið og fyrir hvað hefðu komið bætur). Með tölvubréfi eignarnema 23. sama mánaðar til matsnefndar bárust svör við þessum spurningum, þ. á m. um að bætur vegna Kröfulínu 1 hefði einungis komið fyrir möstur sem staðið hefði í ræktuðu landi og því mætti leiða líkur að því að ekkert hefði verið greitt til eigenda Kotungsstaða. Með tölvubréfi eignarnámsþola sama dag til matsnefndar kom fram að þetta væru trúverðugir útreikningar hjá eignarnema og að engu væri við þá að bæta.

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi krefst þess aðallega að fullar eignarnámsbætur nemi samtals lægri fjárhæð en 10.212.000 krónum, en sú fjárhæð hafi verið greidd eignarnámsþolum á grundvelli samkomulags aðilanna 30. maí 2020. Til vara krefst eignarnemi þess að bætur verði ekki metnar hærri en samkomulag aðilann 30. maí 2020 kveði á um.

Eignarnemi bendir á að markmið með byggingu Hólasandslínu 3 sé að bæta raforkukerfi landsins, tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta, auka flutningsgetu, öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku, næstu 50 árin hið minnsta. Þá muni sveigjanleiki í kerfinu, með tilliti til staðsetningu orkuvinnslu og orkunotkunar, aukast verulega. Sveigjanleikinn muni auka hagkvæmni í kerfinu og bæta nýtingu orkuauðlinda. Verði loftlínuhluti Hólasandslínu 3 borinn uppi af stöguðum stálröramöstrum, svipuðum og reist hafi verið í Kröfulínu 4 og Þeystareykjalínu 1 og verið sé að reisa í Kröfulínu 3. Slíkar línur hafi meira þol gegn óveðri og seltu en gamla byggðalínan, sem byggð hafi verið að langmestu leyti úr tréstauramöstrum. Í Hólasandslínu 3 verði 184 möstur á línuleiðinii og þar af séu 165 þeirra innan Þingeyjarsveitar. Meðalhaflengd (meðalbil á milli mastra) sé 337 metrar og sé hæð mastra á bilinu 132 metrar og meðalhæðin 23,1 metri. Þverslár eða brýr í burðarmöstrum séu 20,5-21 metra langar. Í þverslá hvers masturs sé síðan festur upphengibúnaður fyrir leiðara, en upphengibúnaðurinn séu einangraskálar úr gleri sem tengdar séu saman og myndi keðju. Sé heildarlengd keðjunnar um 3 metrar. Neðan í keðjuna sé festur leiðari og sitji hann í svonefndri hengiklemmu sem festist neðst í einangrakeðjuna. Kveður eignarnemi að það sem ráði bili milli mastra og staðsetningu þeirra sé samspil styrks leiðara, styrks mastra, landslag og sjónræn áhrif. Við línuhönnun hafi verið tekið tillit til jarðmyndana og umhverfis eins og kostir var. Felist leiðir til að minnka bein áhrif á landslag og ásýnd fyrst og fremst í því að staðsetja möstur þannig að sem minnst beri á þeim í landi og halda raski við mastrastæði og slóðagerð í lágmarki. Það hafi verið gert með skilyrðum um tækjakost í útboðsgögnum og með því að tryggja að eftirlitsmenn framkvæmdaraðila verði á verkstað meðan framkvæmdir standi yfir.

Eignarnemi bendir á að vegslóð þurfi að vera að hverju mastri á línuleiðinni sem fær sé vörubílum og krana. Verði vegslóðir fyrir mestu álagi á framkvæmdatíma, vegna jarðvinnuframkvæmda, efnisflutninga og reisingar mastra. Slóðirnar þurfi þó að vera varanleg mannvirki sem nothæf séu til eftirlits og viðhalds á rekstrartíma raflínu. Kveður eignarnemi að þar sem Hólasandslína 3 fylgi Kröflulínu 1 sé að miklu leyti hægt að nýta núverandi línuveg. Heildarlengd vinnuslóða og akstursleiða sé alls 94,2 km innan Þingeyjarsveitar og þar af séu aðeins 26,8 km nýir malarbornir slóðar. Þá þarfnist styrkingar um 37,3 km af eldri slóðum. Þar sem land sé burðarhæft, svo sem á melum, sé fyrirfram markaðri leið fylgt án malarborinnar slóðar.

Eignarnemi vísar til þess að línuleið Hólasandslínu 3 liggi um rúnmlega 40 landareignir og sé heildarfjöldi landeigenda nálægt 100. Innan sveitarfélagamarka Þingeyjarsveitar fari Hólasandslína 3 um eignarland en einnig land í opinberri eigu, þ. á m. land innst í Fnjóskadal. Kveður eignarnemi að samningum sé lokið við alla landeigendur. Fari Hólasandslína 3 um land eignarnámsþola að Kotungsstöðum, þar sem línan fylgi Kröfulínu 1 og liggi ofan hennar þannig að fyrirliggjandi mannvirkjabelti sé nýtt til að draga úr áhrifum. Auk þess liggi nýja línan þannig að fjallshlíðin sé í bakgrunni og við þær kjöraðstæður séu sjónræn áhrif mannvirkjanna í lágmarki þar sem þau falli inn í hlíðina í stað þess að bera við himinn. Fjögur möstur verði í landi jarðarinnar. Annars vegar möstur nr. 154 og 155 þar sem línuleiðin komi úr landi Illugastaða. Hins vegar möstur nr. 156 og 157, við landamerki milli Kotungsstaða og Grjótárgerðis. Kveður eignarnemi að í samráði við eignarnámsþola hafi verið ákveðið að hafa ekki vegslóða milli annars vegar mastra nr. 155 og 156 í landi Kotungsstaða og hins vegar á milli mastra nr. 157 í landi Kotungsstaða og 158 í landi Grjótárgerðis. Sé þetta fyrirkomulag til þess fallið að minnka álag á jörðina Kotungsstaði, bæði á framkvæmdatíma og síðar meir í tengslum við eftirlit. Aðkoma að möstrum nr. 154 og 155 sé eins og áður greini frá landi Illugastaða og til aðkomu að möstrum nr. 156 og 157 sé nýttur slóði frá þjóðvegi í landi Kotungsstaða.

Eignarnemi vísar til þess að eignarnámsþolar hafi gert með sér samkomulag um að vegamannvirki sem liggi frá þjóðvegi að lóðarmörkum fasteignanna Kotungsstaða 2-5 skuli vera sameign eigenda Kotungsstaða í jöfnum hlutföllum, þannig að hver eigi 20% hlut. Þar sem samþykki allra eigenda þurfi fyrir verulegri aukningu umferðar um veginn, sem ekki sé að rekja til venjulegrar starfsemi og notkunar á eignum samningsaðila, sé eignarnámi beint að öllum fasteignum innan merkja jarðarinnar Kotungsstaða, það er vegna notkunar á slóðum að möstrum nr. 156 og 157. Línuleið um land jarðarinnar sé á hinn bóginn alfarið í landi jarðarinnar Kotungsstaða, landnúmer 153296 (ekki fasteignanna Kotungsstaða 2-5).

Eignarnemi vísar til þess að Hólasandslína 3 standi hátt í landi eignarnámsþola í 260-280 m.y.s.) og ofan Kröflulínu 1. Felist not landeigenda fyrst og fremst í útivist og berjatínslu og séu áhrif framkvæmdarinnar á þá þætti hverfandi ef nokkrir. Þá breytist ásýnd frá húsum lítið og möstur beri ekki við himinn. Minnsta fjarlægð frá sumarbústað að Hólasandslínu 3 í landi jarðarinnar sé 419 metrar og beri Kröfulína 1 þar á milli. Hvað framtíðarnot jarðarinnar varðar, þá sé í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 tiltekið varðandi frístundabyggð að í landi Kotungsstaða séu 4 frístundahús en deiliskipulag sé ekki til. Í aðalskipulaginu sé um 40 hektara svæði fyrir landi jarðarinnar skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð, fyrir alls 16 frístundahús. Þá kveður eignarnemi að við samningaviðræður hafi eignarnámsþolar kynnt drög að deiliskipulagi frá 2009 þar sem gert hafi verið ráð fyrir 12 nýjum frístundahúsum og sé fjarlægð þeirra lóða sem næstar séu háspennulínunum tveimur 370 metrar. Kveður eignarnemi að alls sé óvíst með frekari uppbyggingu frístundabyggðar í landi jarðarinnar og að Hólasandslína 3 hamli í engu uppbyggingaráformum eignarnámsþola.

Samandregið telur eignarnemi að áhrif af Hólasandslínu 3 á land eignarnámsþola séu lítil þar sem nýja línan fylgi mannvirkjabelti Kröfulínu 1 og gerð slóða sé haldið í lágmarki og rofið á milli þannig að ekki verði keyrt þvert eftir línuleiðinni í landinu. Sé svæðið sem línan liggi um í fjallshlíð og ekki skipulagt eða nýtt til sérstakra nota og sethjallar í hlíðinni hylji línuna að hluta. Séu áhrif framkvæmdarinnar á land eignarnámsþola sambærileg eða minni en áhrif á nærliggjandi jarðir og verði eignarnámsþolar því ekki fyrir sérstöku tjóni umfram aðra.

Eignarnemi vísar til þess að í samningaviðræðum hafi verið stuðst við fordæmi matsnefndar eignarnámsbóta, sbr. úrskurð nefndarinnar 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016 (Reykjahlíð) sem varðað hafi Kröfulínur 4 og 5 í landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, en einnig miðað við samningaviðræður um Kröfulínur 3, 4 og 5 og Þeystareykjalínu 1 á árunum 2014-2018 og upplýsingar um fasteignaverð í Þingeyjarsveit, þ. á m. frá Þjóðskrá Íslands. Hafi grunnverð á hektara verið ákveðið 380.000 krónur en síðar hækkað í 480.000 krónur á því svæði í Fnjóskadal þar sem land eignarnámsþola sé staðsett. Bendir eignarnemi á að víða í dalnum muni Hólasandslína 3 liggja lægra en í landi eignarnámsþola. Hafi eignarnemi boðið og greitt fullt grunnverð fyrir mastursstæði og slóðir, svo og 2/3 grunnverðs fyrir línuhafið (meginhluta helgunarsvæðis). Þá kveður eignarnemi að í samningum hafi flatarmál vegna mastra og slóða að jafnaði ekki verið dregið frá heildarflatarmáli helgunarsvæðis, né heldur hafi helgunarsvæði Kröfulínu 1 verið dregið frá við ákvörðun á fjárhæð bóta. Loks hafi eignarnemi í samræmi við úrskurð matsnefndar í máli nr. 1/2016, sbr. og úrskurði nefndarinnar 30. júlí 2015 í málum nr. 2-9/2014, boðið bætur sem nemi 10% af grunnverði fyrir landsvæði sem nái 200 metra út frá miðlínu háspennulínunnar, að frádregnu helgunarsvæði, vegna virðisrýrnunar af nálægð við háspennulínur.

Í samræmi við samning aðila 30. maí 2020 hafi eignarnemi greitt samtals 10.212.000 krónur í bætur til eignarnámsþola, þar af 2.256.999 krónur fyrir 7,05 hektara helgunarsvæði raflínu (með ræmu), 72.000 krónur fyrir helgunarsvæði fjögurra mastra, 585.600 krónur fyrir land undir 1,22 hektara af vegslóðum, 1.898.400 krónur fyrir 39,55 hektara land vegna sérstakrar verðrýrnunar þess, 3.000.000 krónur vegna tímabundins rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma (þar af 1.000.000 krónur vegna jarðarinnar Kotungsstaða og 500.000 krónur vegna sérhverrar fasteignar að Kotungsstöðum 2-5), 1.900.000 krónur vegna skógræktar (þar af 900.000 krónur vegna jarðarinnar Kotungsstaða og 100.000 krónur vegna sérhverrar fasteignar að Kotungsstöðum 2-5) og 500.000 krónur vegna kostnaðar við samningsgerð (það er 100.000 vegna jarðarinnar Kotungsstaða og sérhverrar fasteignar að Kotungsstöðum 2-5). Eignarnemi hafnar því að málefnaleg rök standi til kröfu eignarnámsþola fyrir matsnefnd eignarnámsbóta um hærri bótafjárhæð og bóta fyrir stærra landsvæði vegna Hólasandslínu 3 en miðað hafi verið við í samningi aðilanna 30. maí 2020. Raunar telur eignarnemi að matsverð sé lægra en það verð sem miðað hafi verið við og að hektaraverð á landsvæðinu og í þeirri hæð yfir sjávarmáli sem um sé að ræða sé lægra. Því telur eignarnemi að gera verði þá kröfu til eignarnámsþola að þeir færi sönnur fyrir kröfugerð sinni fyrir matsnefnd með hliðsjón af sönnunarreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varðandi lagasjónarmið er af hálfu eignarnema sé byggt á almennum eignarréttarreglum, fyrst og fremst þeim sjónarmiðum sem gilda um eignarnám. Vísar eignarnemi til laga nr. 11/1973 og ýmissa ákvæða um sjónarmið sem hafa beri í huga varðandi fjárhæð eignarnámsbóta, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 5. mgr. 23. gr. raforkulaga og til hliðsjónar 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Eignarnemi vísar til þess að við ákvörðun bóta vegna eignarnáms hafi einkum verið byggt á þremur sjónarmiðum, um söluverð, notagildi og enduröflunarkostnað vegna útvegunar á sambærilegri eign. Eigi síðastgreinda sjónarmiðið ekki við í málinu að áliti eignarnema. Bendir hann á að við bótaákvörðun sé það meginregla að eignarnámsþoli geti krafist þess verðs sem ætla megi að fengist fyrir eign við frjálsa sölu á markaði og í þeim tilvikum sem markaðsvirði endurspeglaði ekki þau not eða arð sem hafa mætti af viðkomandi eign eða eignin gengi hreinlega ekki kaupum eða sölu væri eignarnámsþoli talinn eiga rétt á bótum á grundvelli þeirra nota sem hafa mætti af eigninni.

Eignarnemi telur að markaðsverð lands eignarnámsþola sé mjög lágt og sé það ekki til staðar verði að telja notagildi landsins fyrir eignarnámsþola mjög lítið. Þannig telur eignarnemi að eignarnámsþolum beri mjög lágar bætur óháð því hvort stuðst yrði við mælikvarða um markaðsvirði eða not eignarnámsþola af eigninni. Hafi eignarnemi með greiðslum sínum til eignarnámsþola greitt þeim fullar bætur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og ríflega það.

Eignarnemi bendir á að raforkulög gildi um framkvæmdina sem eignarnámið varði, þ. á m. 1. gr. laganna og III. kafli þeirra, svo og að orkuflutningar teljist til mikilvægra innviða þjóðfélagsins og að baki framkvæmdinni hvíli ríkir almannahagsmunir. Þannig séu hagsmunir eignarnema og samfélagsins alls af landnotkun ríkir en not eignarnámsþola af landinu skerðist í raun mjög lítið ef eitthvað. Hér áréttar eignarnemi að í samkomulagi aðilanna 30. maí 2020 hafi verið við það miðað að eignarnemi fengi aðeins í sinn hlut ótímabundinn afnotarétt yfir landinu en ekki beinan eignarrétt yfir því. Eignarnámsþolar haldi þannig fullum umráðarétti yfir landinu þótt þeir verði að hlíta þeim kvöðum sem gildi vegna helgunarsvæðis háspennulínanna.

Eignarnemi kveður fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullar bætur vísa til réttarstöðu eignarnámsþola en ekki eignarnema og að meta þurfi fjárhagslegt og raunverulegt tjón eignarnámsþola út frá almennum skaðabótareglum og á hlutlægum grundvelli. Huglæg atriði á borð við miskabætur séu ekki andlag mats. Við verðmatið verði almennt að hafa til hliðsjónar þau not sem eignarnámsþolar hafi af eigninni og í íslenskum rétti hafi verið talið að bætur beri að miða við tjón eignarnámsþola en ekki þann hagnað sem eignarnemi kunni að öðlast. Þannig skuli bætur til eignarnámsþola miða við sannanlega og eðlilega notkun þeirra af eigninni nú. Eignarnemi ítrekar að með hliðsjón af atvikum öllum hafi hann þegar greitt fullar bætur til eignarnámsþola.

Eignarnemi vísar til þess að matsnefnd eignarnámsbóta hafi í nálega tvo áratugi fylgt þeirri reglu við ákvörðun eignarnámsbóta vegna háspennulínu að meta til fulls, miðað við metið hektaraverð viðkomandi áhrifasvæðis, það landsvæði sem fari undir möstur og slóða. Meginkvöðina kveður eignarnemi á hinn bóginn vera vegna byggingarbanns sem nái til svæðis undir þremur háspennuleiðurum á milli tveggja mastra sem beri þá uppi og ákveðna lengd til hliðar við línurnar; svonefnt helgunarsvæði. Eignarnemi telur rétt að fylgja eldri fordæmum um endurgjald fyrir afnotaréttindi og kvaðir vegna háspennulínu í flutningskerfi eignarnema, þó að teknu tilliti til minna umfangs Hólasandslínu 3. Eignarnemi bendir á að umfangi Hólasandslínu 3 hafi verið haldið í lágmarki þar sem mastursgerð séu svonefnd röramöstur og að þessi mastursgerð hafi reynst vel í Þeistareykjalínu 1 og Kröfulínum 3 og 4. Eignarnemi bendir á að eignarnámsþolum séu ekki meinuð öll afnot þess lands sem heyri undir byggingarbann og línuhaf á milli mastra, þótt afnot þeirra megi ekki fara í bága við þær kvaðir sem háspennulínum fylgi, og því hafi í samkomulagi aðilanna verið miðað við að bætur næmu 2/3 hlutum hektaraverðs fyrir land sem kvaðasett sé vegna byggingarbanns eða 320.000 krónur á hektara. Þá telur eignarnemi rétt að við mat á bótum vegna byggingarbanns verði tekið til skoðunar, sökum legu lands eignarnámsþola og lítilla landnota, hvort frekar ætti að miða við lægri hlutfallsreglu, helming hektaraverðs. Loks vísar eignarnemi til þess að hafnað sé kröfum af hálfu eignarnámsþola um frekari bætur en hér hafi verið lýst, og eignarnemi hafi að fullu bætt.

Varðandi sjónarmið um verðmæti hins eignarnumda lands tiltekur eignarnemi að hann hafi í samkomulagi aðila 30. maí 2020 lagt til grundvallar mun hærra grunnverð fyrir hektara en geti talist markaðsverð fyrir land í fjallshlíð í 260-280 m.y.s. Það sé eignarnámsþolum mjög til hagsbóta að þar hafi verið miðað við hektaraverð sem taki mið af besta landi á svæðinu, það er ræktuðu landi í botni Fnjóskadals. Eignarnemi bendir og á að hann hafi ekki beitt neinum frádrætti við útreikning bóta eins og venjan sé um sambærileg mál, því draga skuli flatarmál mastursstæða og slóða frá flatarmáli byggingarbanns, og að þetta hafi eignarnemi látið hjá líða að gera í samkomulaginu eignarnámsþolum til hagsbóta. Eignarnemi vekur athygli á að við mat á eignarnámsbótum beri að draga frá þá þætti sem kynnu að leiða til þess að eignarnámsþolar fái tvíbætt fyrir hið eignarnumda land. Þannig beri matsnefnd að draga frá sérstökum 10% bótum vegna verðrýrnunar flatarmál byggingarbanns Kröflulínu 1, sem fari um land eignarnámsþola, eða um 2,9 hektara lands.

Eignarnemi telur að land eignarnámsþola sé fremur verðlítið í ljósi núverandi landnýtingar og að eignarnemi hafi boðið bætur umfram raunverulegt verðmæti landsins. Ekki liggi fyrir sérstök afnot af landinu sem fyrirsjáanleg séu í náinni framtíð, að undanskildum náttúrulegum vexti gróðurs á svæðinu. Eignarnemi heldur því fram að Hólasandslína 3 raski í engu áformum eignarnámsþola um frekari nýtingu jarðarinnar um byggingu fleiri sumarhúsa. Eignarnemi bendir á að um kvaðasetningu á landinu sé að ræða vegna mikilvægs þáttar í öryggiskerfi og innviðum samfélagsins, flutningskerfi raforku. Landið verði í eigu og umráðum eignarnámsþola eftir að framkvæmdum eignarnema ljúki en kvöðin hvíli áfram á jörðinni.

Eignarnemi telur að það verð sem eignarnemi hafi greitt fyrir landið sé hærra en viðmið í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta á svæðinu í sambærilegum málum, sbr. t.d. úrskurði í málum nr. 1/2016 um Reykjahlíð í Skútustaðahreppi (350.000 krónur á hektara), nr. 1/2013 um Munkaþverá í Eyjafirði (385.500 krónur á hektara) og nr. 9/2006 um Silfrastaði í Skagafirði (300.000 krónur á hektara). Þá telur eignarnemi að hafa megi hliðsjón af fasteignaauglýsingum þótt ásett verð þar sé venjulega það verð sem seljandi telji sig að hámarki geta fengið fyrir eignina. Vísar eignarnemi til fasteignaauglýsinga og kaupsamnings um jörðina Vallholt í Þingeyjarsveit (192.593 krónur á hektara með húsakosti), kaupsamninga um Höskuldsstaði og Fellsenda í Þingeyjarsveit, Litluvelli í Bárðardal, svo og fasteignaauglýsinga um Finnastaði I í Grýtubakkahreppi og Steðja og Hallgilsstaði í Hörgársveit. Þessi dæmi telur eignarnemi vitna um að markaðsvirði lands eignarnámsþola sé lægra en það sem eignarnemi hafi greitt (480.000 krónur á hektara). Eignarnemi hafnar því að fasteignaverð á skipulögðum sumarhúsalóðum komi til álita því Hólasandslína 3 fari ekki um nein slík svæði, hvorki almennt né í landi Kotungsstaða.

 

Að síðustu ítrekar eignarnemi að hann hafi goldið eignarnámsþolum fullar bætur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar að teknu tilliti til þeirra áhrifa sem framkvæmdin hafi á land þeirra.

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar krefjast þess að eignarnema verði gert að greiða þeim fullar bætur, samtals að fjárhæð 43.677.375 krónur. Þar af nemi bótafjárhæð vegna jarðarinnar Kotungsstaða samtals 28.739.375 krónum vegna varanlegra nota og nýtingartakmarkana á landi (6.070.000 krónur), umferðarréttar um 1/5 hluta núverandi vegslóða (100.000 krónur), verðmætarýrnunar á 400 metra belti að frádregnu helgunarsvæði (4.449.375 krónur), verðmætarýrnunar vegna frístundasvæðis og jarðar (17.820.000 krónur) og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma (300.000 krónur). Vegna spildunnar Kotungsstaða 2 nemi bótafjárhæð samtals 3.805.600 krónum vegna umferðarréttar um 1/5 hluta núverandi vegslóða (100.000 krónur), verðmætarýrnunar vegna frístundahúss og lóðar (3.405.600 krónur) og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma (300.000 krónur). Vegna spildunnar Kotungsstaða 3 nemi bótafjárhæð samtals 3.154.000 krónum vegna umferðarréttar um 1/5 hluta núverandi vegslóða (100.000 krónur), verðmætarýrnunar vegna frístundahúss og lóðar (2.754.000 krónur) og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma (300.000 krónur). Vegna spildunnar Kotungsstaða 4 nemi bótafjárhæð samtals 3.813.520 krónum vegna umferðarréttar um 1/5 hluta núverandi vegslóða (100.000 krónur), verðmætarýrnunar vegna frístundahúss og lóðar (3.413.520 krónur) og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma (300.000 krónur). Vegna spildunnar Kotungsstaða 5 nemi bótafjárhæð samtals 4.164.880 krónum vegna umferðarréttar um 1/5 hluta núverandi vegslóða (100.000 krónur), verðmætarýrnunar vegna frístundahúss og lóðar (3.764.880 krónur) og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma (300.000 krónur). Loks er þess krafist að matsnefnd úrskurði um málskostnað og að eignarnema verði gert að greiða málskostnað eignarnámsþola samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Eignarnámsþolar vísa til 72. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sinn til fullra bóta úr hendi eignarnema vegna eignarnámsins og almennra meginreglna um fjárhæð eignarnámsbóta, þ. á m. um að bætur skuli að meginreglu taka mið af ætluðu gangvirði eignar, svo og sjónarmið um bætur fyrir rask og óhagræði á framkvæmdatíma, eins og nánar greinir í málatilbúnaði þeirra.

Eignarnámsþolar vísa til þess að tilboð eignarnema og greiðslur samkvæmt samkomulagi aðila 30. maí 2020 séu að forminu til í samræmi við aðferðafræði sem komið hafi fram í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta. Þeir halda því jafnframt fram að þessi aðferðafræði feli í sér að ekki séu með nokkrum hætti bætt þau áhrif sem framkvæmd eignarnema hafi til verðlækkunar á frístundahúsasvæði sem liggi rétt utan þess beltis sem bætur hafi komið fyrir. Álitaefni vegna fasteigna eignarnámsþola á Kotungsstöðum séu þannig einkum þau að aðferðafræði í úrskurðum matsnefndar tryggi ekki fullar bætur í ljósi aðstæðna. Þannig geti aðferðafræðin, varðandi ákvörðun bóta miðað við 400 metra belti um nýjar háspennulínur, verið ófullnægjandi við sérstakar aðstæður, þ. á m. frístundahúsasvæði Kotungsstaða sem liggi utan við 200 metra fjarlægð frá miðlínu fyrirhugaðrar lagnaleiðar. Vísa eignarnámsþolar til þess að verðgildi slíkra svæða sé sérstaklega háð nálægð við háspennulínur og hvers kyns iðnaðarmannvirki. Telja eignarnámsþolar að við bótaákvörðun verði annað hvort að tryggja ákvörðun um fullar bætur með sérstakri bótaákvörðun samhliða beitingu hinnar stöðluðu aðferðafræði eða að ákveða bætur vegna verðrýrnar á Kotungsstöðum í heild með sérstakri aðferð.

Í málatilbúnaði eignarnámsþola er annars vegar fjallað um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta vegna jarðarinnar Kotungsstaða, þar sem krafist er bóta vegna varanlegra nota og nýtingartakmarkana á landi, umferðarréttar um núverandi vegslóða/heimreið, verðrýrnunar lands, svo og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma. Hins vegar er fjallað um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta vegna fasteignanna Kotungsstaða 2-5, þar sem krafist er bóta vegna umferðarréttar, verðrýrnunar sumarhúss og lóðarréttinda, svo og fyrir rask og óhagræði á framkvæmdatíma. Eru kröfuliðir um bætur vegna umferðarréttar og rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma hliðstæðir í tilviki jarðarinnar annars vegar og fasteignanna fjögurra hins vegar og verður því fjallað um þessi sjónarmið eignarnámsþola í einu lagi hér á eftir.

Varðandi bætur vegna varanlegra nota og nýtingartakmarkana á landi jarðarinnar Kotungsstaða vísa eignarnámsþolar til þess að sá ágreiningur snúi að því hvað teljist eðlilegt grunnverð lands. Þeir geri ekki athugasemdir við afmörkun og tilgreiningu landsvæða sem tekin séu til beinna og varanlegra nota vegna framkvæmdarinnar, það er land undir háspennumöstur og stagfestingar, helgunarsvæði meðfram háspennulínu sem beinar nýtingartakmarkanir nái til og nýja vegslóða. Eru þeir samþykkir þeirri aðferðafræði að bæta skuli land sem falli undir nýtingartakmarkanir með bótum að fjárhæð 66,7% af grunnverði, en miða skuli við 100% grunnverðs þar sem land sé tekið undir mannvirki með beinum hætti. Eignarnámsþolar hafna því að eðlilegt grunnverð lands Kotungsstaða nemi 480.000 krónur á hektara, heldur telja þeir eðlilegt grunnverð á svæðinu 1.000.000 krónur á hektara. Nemi bótakrafa þeirra þannig 4.700.000 krónum fyrir helgunarsvæðið línu, 150.000 krónur fyrir land undir mastursstæði og 1.220.000 krónur fyrir land undir vegslóðir, eða samtals 6.070.000 krónur. Vísa þeir til þess að landsvæðið liggi á láglendi í Fnjóskadal, nærri frístundahúsasvæði og sé ákjósanlegt til útivistar og skógræktar. Samkvæmt greinargerð eignarnemi liggi háspennulínan í um 260 m.y.s. en dalbotn Fnjóskadals sé í 100 m.y.s. Svæðið allt sé nýtanlegt til skógræktar (og hafi viðmið um skógrækt á lögbýlum staðið til 400 m.y.s. samkvæmt 1. gr. laga nr. 95/2006 um skógrækt á lögbýlum sem nú séu fallin úr gildi). Séu skilyrði til skógræktar góð í Fnjóskadal eins og alþekkt sé. Benda eignarnámsþolar á að á nágrannajörðinni Fjósatungu sé í aðalskipulagi ráðgerð frístundabyggð í svipaðri hæð yfir sjávarmáli og háspennulínan liggi í landi Kotungsstaða og liggi frístundabyggð á Kotungsstöðum lítillega neðar í landinu. Vísa eignarnámsþolar til verðdæma af fasteignamarkaði um land og landspildur á svæðinu. Þeir hafna því að verðdæmi um jarðir eigi við þegar í hlut eigi úrlausn um grunnverð lands á smærri svæðum og halda því fram að aðstaða við sölu landspilda, hvort sem er frjálsa sölu eða eignarnám, sé sú að kaupandi/eignarnemi eignist tiltekna eign sem best samræmist þörfum hans.

Varðandi bætur vegna verðrýrnunar lands jarðarinnar Kotungsstaða er rakið ítarlega af hálfu eignarnámsþola hvernig þeir telja að bæta þurfi verðmætarýrnun sem verði á landi jarðarinnar og falli utan við varanleg landnot og helgunarsvæði háspennulínu. Telja þeir að annað hvort verði að miða við staðlaða aðferðafræði matsnefndar um bætur vegna 400 metra beltis miðað við 10% af grunnverði lands en samhliða að líta til verðrýrnunar á frístundahúsasvæði í landi Kotungsstaða, eða að miða verði við verðrýrnun á landi jarðarinnar í heild sem snúi þá að því að meta þá hluta jarðarinnar sem verði fyrir mestum áhrifum, það er belti meðfram háspennulínu og sérstakt frístundahúsasvæði í 300-700 metra fjarlægð frá henni. Gera eignarnámsþolar tillögu að útreikingi bóta eftir fyrrgreindu aðferðinni en leggja það í hendur matsnefndar að framkvæma útreikning eftir síðargreindu aðferðinni telji hún rétt að beita slíkum mælikvarða. Um staðlaða aðferðafræði matsnefndar eignarnámsbóta vísa eignarnámsþolar til úrskurða matsnefndar 27. febrúar 2006 í málum nr. 10/2005 og 11/2005 um Fljótsdalslínu, sbr. Hrd. 25. mars 2010 í máli nr. 404/2009, úrskurða matsnefndar 30. júlí 2015 í málum nr. 2-9/2014 um Suðurnesjalínu 2 og Hrd. 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 (Þjórsártún). Í engu þessara mála hafi verið fasteignir í námunda við frístundahúsnæði samkvæmt aðalskipulagi og mál Kotungsstaða sé því ólíkt þessum málum. Eignarnámsþolar benda á að Suðurnesjalína 2 og Hólasandslína 3 séu báðar ráðgerðar 220 kV háspennulínur og að í báðum tilvikum hafi línurnar verið ráðgerðar við hlið eldri 132 kV flutningslína raforku, sem kunni að hafa þá þýðingu að bætur vegna sjónrænna áhrifa hafi aðeins verið metnar til 10% landverðs en ekki 25% landsverðs, sbr. fordæmi Hrd. í máli nr. 349/2004. Á hinn bóginn benda eignarnámsþolar á að verðrýrnunaráhrif vegar og háspennulína séu ólík því háspennulínur séu há mannvirki og sýnileg en áhrif vegar stafi fremur af hljóðmengun, auk þess sem háspennulínur hafi sérstök áhrif á frístundabyggð. Þá sé Hólasandslína 3 stálmastralína og stærri en eldri lína sem reist hafi verið úr tréstaurum og sú sé í raun ásættanlegri hluti nærumhverfis. Þá kveða eignarnámsþolar þá staðreynd að eftirleiðis muni tvær háspennulínur af ólíkri gerð fara um land Kotungsstaða vera mjög til þess fallna að auka neikvæð áhrif á verðgildi lands, margfaldi raunar neikvæð áhrif þar á, og vísa í því samhengi til sjónarmiða úr málum varðandi umhverfisáhrif um samlegðaráhrif tveggja raflína og svonefnds línukraðaks. Eignarnámsþolar telja að mál þeirra geti falið í sér fordæmi um hagsmunamat varðandi framkvæmdakostnað háspennumannvirkja þar sem vegast á umhverfissjónarmið og hagsmunir fasteignareigenda. Hafi lagnaleið verið valin út frá umhverfissjónarmiðum og fjárhagslegir hagsmunir látnir ráða því að loftlína skyldi lögð en ekki jarðstrengur. Fari þessir hagsmunir ekki endilega saman við hagsmuni af því að velja leið sem valdi fasteignareigendum minnstu tjóni og sé til þess að líta að sjónræn áhrif loftlínu séu alltaf veruleg. Eignarnámsþolar æsktu þess við mat á umhverfisáhrifum að Hólasandslína skyldi liggja fjær byggð og frístundasvæði við Kotungsstaði. Eignarnámsþolar benda á að í nýjum matsaðferðum Þjóðskrár Íslands við fasteignamat sumarbústaða og sumarbústaðalóða hafi nálægð við háspennulínur áhrif á fasteignamat til lækkunar, sem reiknað sé á grundvelli sérstakrar nánar tiltekinnar jöfnu, og telja þeir rétt að styðjast við þau sjónarmið, þótt þar sé byggt á jafnaðaráhrifum og að ljóst sé að verðrýrnun á land þeirra vegna 220 kV línu séu meiri en jafnaðaráhrif. Jafnframt benda þeir á að almennt sé viðurkennt að matsaðferðir þjóðskrár í tengslum við jarðir séu löngu úreltar. Benda eignarnámsþolar á að í úrskurðum matsnefndar hafi verið miðað 10% verðrýrnun lands í allt að 200 metra fjarlægð frá háspennulínu, en þar hafi ekki verið um að ræða land í nálægð við frístundabyggð. Með vísan til línulegra áhrifa samkvæmt fyrrgreindri matsaðferð þjóðskrár telja eignarnámsþolar nær lagi að lækka frístundahúsalóðir í allt að 200 metra fjarlægð frá háspennulínu um 15-18%. Eignarnámsþolar vísa til hliðsjónar til Hrd. 10. júní 1999 í máli nr. 461/1998, þar sem reyndi á sjónarmið í nábýlisrétti sem svipar til atvika þessa máls. Eignarnámsþolar benda á að greiðslur eignarnema vegna sjónrænna áhrifa af völdum Hólasandslínu 3 hafi miðað við 10% af 480.000 grunnverði lands á hektara á 400 metra breiðu belti á línuleiðinni að frádregnu helgunarsvæði og ræmu og sé heildarstærð beltisins um 39,3 hektarar. Eignarnámsþolar mótmæla þessum útreikningi. Þeir benda á að samkvæmt aðalskipulagi séu frístundahúsasvæði í landi jarðarinnar í um 300-700 metra fjarlægð frá háspennulínunni og sé svæðið um 40 hektarar. Þar standi nú fjórir bústaðir en landeigendur hafi gert ráð fyrir að þar verði unnt að deiliskipuleggja frístundahúsasvæði með 12 sumarhúsalóðum til viðbótar og séu þær áætlanir augljóslega raunhæfar, sbr. dóma og úrskurðaframkvæmd. Verði háspennulínan augljós og sýnileg frá öllu þessu svæði. Til einföldunar taki útreikningar eignarnámsþola mið af meðaltalsfjarlægð frístundahúsa frá línunni, eða um 500 metrum. Þá telja þeir að frístundahúsaland jarðarinnar sé verðmætasti hluti hennar, sem þeir telja rétt að meta til 1.500.000 króna á hektara, en annað land jarðarinnar telja þeir sem fyrr greinir rétt að meta á 1.000.000 krónur á hektara. Kveða þeir frístundahúsasvæðið verða fyrir mestu tjóni vegna sjónrænna áhrifa línunnar og sé verðmæti sumarhúsalands og frístundahúsa mjög háð nálægð við stórar háspennulínur, sem geti einfaldlega verðfellt slíkt land svo því verði jafnað til almenns lands, því framboð sé á sumarhúsalóðum án nálægðar við slíkar línur. Verðmati sínu til stuðnings vísa eignarnámsþolar og til þess að ákveðnir innviðir frístundahúsasvæðis séu til staðar sem nýtist beint og óbeint við stækkun þess, t.d. girðingar, vegir, aðgengi að lögnum o.fl. Gera eignarnámsþolar kröfu um bætur vegna sérstakrar verðrýrnunar á 400 metra belti meðfram háspennulínu, þar sem 75% hluti beltisins (ofan Hólasandslínu 3 og í nágrenni eldri línu) skuli metinn til 10% af grunnverði (75% x 39,55 hektarar x 10% x 1.000 krónur á hektara = 2.966.250 krónur) og 25% hluti beltisins (neðsti hluti þess) skuli metinn til 15% af grunnverði (25% x 39,55 hektarar x 15% x 1.000.000 krónur á hektara = 1.483.125 krónur), til samtals bóta að fjárhæð 4.449.375 króna. Gera eignarnámsþolar einnig kröfu um bætur vegna sérstakrar verðrýrnunar á fyrirhuguðu frístundahúsasvæði, það er að undanskildum núverandi frístundahúsalóðum, á samtals um 36 hektara svæði. Telja eignarnámsþolar rétt að miða við að verðlækkun óbyggðu frístundahúsalóðanna nemi að lágmarki 25%, sem standi til bóta að fjárhæð 13.500.000 krónur (36 hektarar x 1.500.000 krónur á hektara x 25%), en vísa til samanburðar til þess að ef miðað yrði við að lækkun niður í grunnverð samkvæmt áliti eignarnema, að fjárhæð 480.000 krónur á hektara, myndu bætur eftir sömu reikningsaðferð nema 17.820.000 krónum og ef miðað yrði við verðmat eignarnámsþola á almennu landi, að fjárhæð 1.000.000 krónur á hektara, myndu bætur eftir sömu aðferð nema 36.720.000 krónum.

Varðandi bætur vegna verðrýrnunar sumarhúss og lóðarréttinda fasteignanna að Kotungsstöðum 2-5 gera eignarnámsþolar kröfur um bætur á svipuðum grunni og lýst var hér á undan varðandi bætur vegna verðrýrnunar lands jarðarinnar Kotungsstaða. Hafa eignarnámsþolar þar hliðsjón af aðferðafræði í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta, þar sem þeir telja að ekki hafi reynt á verðmætarýrnun einstakra sumarhúsa eða lóðarréttinda, sjónarmið eignarnámsþola í samningaviðræðum við eignarnema, aðferðafræði þjóðskrár við mat á áhrifum háspennulína á fasteignamat sumarhúsa og danska og norska réttarframkvæmd. Miði útreikningar eignarnámsþola, sem ítarlega er lýst í málatilbúnaði eignarnámsþola, við markaðsverð bústaðanna samkvæmt fyrirliggjandi verðmötum og að verðmætarýrnun nemi tvöfaldri verðskerðingu miðað við aðferð þjóðskrár, því verðrýrnun sé meiri en venjulega vegna staðhátta og annarra aðstæðna á borð við línukraðak og eðli háspennulína. Sé krafist 3.405.600 króna vegna Kotungsstaða 2, 2.754.000 króna vegna Kotungsstaða 3, 3.413.520 króna vegna Kotungsstaða 4 og 3.764.880 króna vegna Kotungsstaða 5.

Varðandi bætur vegna umferðarréttar um jörðina Kotungsstaði og landspildur að Kotungsstöðum 2-5 vísa eignarnámsþolar til þess að í eignarnámsákvörðun sé ráðgert að eignarnemi fái varanleg afnot af núverandi vegslóðum/heimreið að jörðinni Kotungsstöðum og fasteignunum að Kotungsstöðum 2-5 og falli þetta ekki undir land vegna nýrra vegslóða. Séu vegslóðarnir/heimreiðin sameiginleg eign jarðarinnar Kotungsstaða og fasteignanna (sumarhúsanna) að Kotungsstöðum 2-5 og feli varanleg afnot eignarnema í sér skerðingu á eignarréttindum eignarnámsþola til framtíðar. Verði umferðarrétturinn nýttur af eignarnemi í þágu eftirlits, viðhalds og annarrar nauðsynlegrar umferðar að háspennulínu eignarnema. Sé því nauðsynlegt að ákveða bætur fyrir þennan þátt, sem sé sameiginleg skerðing á eignarréttindum allra fimm fasteignanna, þannig að hlutdeild hverrar eignar skuli ákveðin fimmtungur heildarbótafjárhæðarinnar fyrir þennan lið. Benda eignarnámsþolar á að því fylgi mikið hagræði fyrir eignarnema að nýta vegslóða sem fyrir séu, bæði varðandi hönnun, umhverfisáhrif og beinan kostnað við gerð vegslóða. Byggir krafa eignarnámsþola um bætur fyrir þennan þátt á því að sérhverri fasteign beri bætur að fjárhæð 100.000 krónur og að umferðarréttur eignarnema um núverandi vegslóða sé þannig verðmetinn á samtals 500.000 krónur. Áréttað er að eignarskerðing vegna umferðar og endurbóta á vegslóðanum á framkvæmdatíma falli undir bótaliðinn rask og óhagræði á framkvæmdatíma í kröfugerð eignarnámsþola.

Varðandi bætur fyrir rask og óhagræði á framkvæmdatíma fyrir jörðina Kotungsstaði og fasteignirnar að Kotungsstöðum 2-5 vísa eignarnámsþolar til þess að á framkvæmdatíma verði umferð þungavéla á vegslóða og víða í nágrenni sumarhúsa á svæðinu og verði raskið á þeim tíma sem sumarhús séu í mestri nýtingu og eins hvers kyns nýting á landi Kotungsstaða. Muni raskið vegna framkvæmda véla og umferðar einmitt spilla þeim gæðum sem dvöl í sumarhúsum og nýting lands sé ætlað að tryggja eigendum. Hafa megi hliðsjón af því við ákvörðun um verðgildi rasks og óhagræðis að land Kotungsstaða og einstakra sumarhúsa þar teldust augljóslega ekki heppilegar eignir til útleigu á framkvæmdatíma. Byggir krafa eignarnámsþola um bætur fyrir tjón vegna rasks og óhagræðis á því að sérhverri fasteign beri bætur að fjárhæð 300.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til óþæginda sem leiða muni af aukinni umferð á vegum eignarnema eftir framkvæmdirnar og til framtíðar því tjón af þeim völdum falli undir aðra bótaliði.

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á eignarréttindum eignarnámsþola í landi fasteigna þeirra, það er jörðinni Kotungsstöðum og landspildunum að Kotungsstöðum 2, 3, 4 og 5, er til komið á grundvelli 23. gr. raforkulaga í þágu framkvæmdar við lagningu 220 kV háspennulínunnar Hólasandslínu 3. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til lagningar 220 kV háspennulínu, Hólasandslínu 3, sem liggja muni frá tengivirki á Hólasandi í Skútustaðahreppi að tengivirki á Rangárvöllum á Akureyri. Um loftlínu er að ræða að því undanskildu að hluti línuleiðar í Eyjafirði mun fara um jarðstreng. Mun loftlínuhluti Hólasandslínu 4 verða borinn uppi af stöguðum stálröramöstrum, svipuðum þeim sem reist hafi verið í Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 og verið sé að reisa í Kröflulínu 4, og verði 184 möstur á línuleiðinni allri, þar af 165 möstur innan Þingeyjarsveitar. Verði meðalhaflengd, það er meðalbil á milli mastra, 337 metrar, meðalhæð þeirra 23,1 metri og þverslá eða brú í burðarmöstrum 20,5-21 metra löng. Fari háspennulínan 1.165 metra um land jarðarinnar Kotungsstaða og verði fjögur mastranna staðsett í landi þeirrar jarðar, möstur nr. 154, 155, 156 og 157. Verði ekki vegslóðir á milli mastra 155 og 156 í landi jarðarinnar og á milli masturs 157 í landi hennar og masturs 158 í landi aðliggjandi jarðarinnar Grjótárgerðis. Eignarnámið beinist að ótímabundnum afnotum af landi jarðar eignarnámsþolans Valbæjar ehf., Kotungsstöðum, og af landspildum annarra eignarnámsþola að Kotungsstöðum 2-5 eins og nánar greinir hér á undan. Nánar tiltekið lúta kröfur eignarnema að því landi jarðarinnar Kotungsstaða þar sem reist verða fjögur möstur, ásamt rétti eignarnema til að nýta fyrirliggjandi vegslóðir fasteignanna fimm, kvaðar vegna helgunarsvæðis háspennulínunnar fyrir landi jarðarinnar, rétti eignarnema til að leggja vegslóða um land jarðarinnar að raflínunum og umferðarrétti hans að línumannvirkjunum fyrir landi jarðarinnar, rétti eignarnema til að láta línumannvirkin standa ótímabundið í landi jarðarinnar og rétti hans til að leggja ljósleiðara samhliða lagningu háspennulínunnar. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að styrkja raforkukerfi landsins til næstu 50 ára hið minnsta, með því að tryggja stöðugleika raforkukerfis á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta, aukinni flutningsgetu, öryggi raforkuafhendingar og gæðum raforku. Sé Kröfulína 1, sem reist hafi verið á árunum 1976-1977 og tengi Akureyri við Kröflu, hluti af hringtengdu línukerfi, svonefndri byggðalínu, sem rekið sé á 132 kV spennu. Samkvæmt kerfisgreiningu eignarnema sé flutningsgeta 143 kV byggðalínu ófullnægjandi fyrir næstu kynslóð byggðalínunnar þar sem kerfið sé þegar víða fulllestað og flutningstakmarkanir hafi hamlandi áhrif á þróun byggðar í landinu og skerði afhendingaröryggi víða á landinu. Framkvæmdir við lagningu línunnar hófust 2020 og er ráðgert að þeim ljúki í árslok 2021.

Hinn 30. maí 2020 gerðu eignarnemi og eignarnámsþolar með sér samning um heimild til framkvæmda vegna lagningar Hólasandslínu 3, 220 kV háspennulínu. Samningurinn er í átta greinum, þar sem í grein 1 er fjallað um aðild að samningnum, í grein 2 er fjallað um landnot eignarnema og þinglýsingu kvaðar af hans hálfu á land eignarnámsþola, í grein 3 er fjallað um fyrirkomulag framkvæmdar, framkvæmdatíma og frágang af hálfu eignarnema, í grein 4 er fjallað um fébætur fyrir landnot og greiðslustað, í grein 5 er fjallað um eignarnám og eignarnámsbætur, í grein 6 er fjallað um uppgjör bóta, kostnað o.fl., í grein 7 um ágreining og varnarþing og í grein 8 um gildistöku og undirritun samningsins.

Í grein 4, um fébætur fyrir landnot og greiðslustað, segir meðal annars:

„[Eignarnámsþolar] veita [eignarnema] nú þegar við undirritun þessa samnings leyfi til framkvæmda við háspennulínurnar, samkvæmt 2. og 3. gr. samnings þessa, gegn greiðslu að fjárhæð kr. 10.212.000,-, sem sundurliðast með eftirfarandi hætti: [...] Framangreind fjárhæð verður greidd til [eignarnámsþola] þegar og ef [eignarnemi] öðlast umráð allra nauðsynlegra landsréttinda vegna framkvæmdarinnar Hólasandslína 3, á línuleið hennar frá tengivirki á Hólasandi í Skútustaðahreppi að tengivirki á Rangárvöllum við Akureyri. Öðlist [eignarnemi] ekki öll nauðsynleg réttindi skv. framangreindu kemur ekki til greiðslna samkvæmt samningi þessum.

 

Jafnframt skal samningur þessi þá falla úr gildi. [Eignarnemi] greiðir hæfilegan lögmannskostnað [eignarnámsþola] af samningsgerð við undirritun samnings þessa samkvæmt reikningi sem [eignarnemi] samþykkir.“

Í grein 5, um eignarnáms og eignarnámsbætur, segir meðal annars:

„Ágreiningur er milli aðila um fjárhæð endanlegra bóta sem [eignarnema] ber að greiða [eignarnámsþolum] vegna framkvæmdanna, sbr. 2. og 3. gr., en þeir hafa ákveðið að fjalla skuli um þann ágreining í lögmæltu eignarnámsferli.

[...]

[Eignarnámsþolar] líta á fjárhæðina sem greidd er samkvæmt samningi þessum sem innborgun og áskilja sér rétt til þess að krefjast fyrir matsnefnd eignarnámsbóta hærri fjárhæðar í bætur. [Eignarnemi] áskilur sér rétt til þess að krefjast viðurkenningar á því að réttar eignarnámsbætur nemi lægri fjárhæð en þeirri sem greidd er samkvæmt samningnum. Um málskot til dómstóla gilda almennar reglur og hafa báðir aðilar samnings rétt til að skjóta ágreiningi um úrlausn matsnefndar eignarnámsbóta til dómstóla.“

Í grein 6, um uppgjör bóta, kotnað o.fl., segir meðal annars:

„Fjárhæð sú sem [eignarnemi] greiðir [eignarnámsþolum] við undirritun þessa samkomulags, sbr. 4. gr. samnings þessa, ber enga vexti og skal dregin frá þeirri bótafjárhæð sem ákveðin kann að verða af matsnefnd eignarnámsbóta eða eftir atvikum dómstólum, að því marki sem sú heildarfjárhæð kann að nema hærri fjárhæð en þeirri heildarfjárhæð sem greidd er samkvæmt samningi þessum, að frádreginni 500.000 kr. greiðslu vegna samninga.

Verði niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta eða eftir atvikum dómstóla, um fjárhæð bóta og kostnaðar, lægri en sem nemur þeirri heildarfjárhæð sem greidd er samkvæmt samningi þessum, verður eigi um endurgreiðslu að ræða af hálfu [eignarnámsþola]. [Eignarnemi] samþykkir að greiða [eignarnámsþolum] endurgjald vegna þess kostnaðar, sem [þeir hafa] af rekstri matsmálsins og hæfilegur verður talinn, sbr. 11. gr. l. nr. 11/1973.“

Kemur þá til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um bætur úr hendi eignarnema vegna eignarnáms á matsandlaginu, eignarréttindum eignarnámsþola í landi Kotungsstaða og Kotungsstaða 2, 3, 4 og 5.

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 15. júní 2021 ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþolum, þ. á m. fyrirsvarsmanni eignarnámsþolans Valbæjar ehf., og kynnti sér aðstæður. Sem fyrr greinir tekur eignarnámið til eignarréttinda í landi Kotungsstaða og á landspildum að Kotungsstöðum 2, 3, 4 og 5. Fasteignir þessar eru staðsettar sunnarlega í Fnjóskadal, vestan árinnar og liggja merki jarðarinnar til norðurs að merkjum Grjótárgerðis og til suðurs að merkjum Illugastaða. Vesturmerki jarðarinnar sýnast fylgja farvegi Grjótár en merki hennar til austurs liggja að landi Þórðarstaða. Frá neðsta punkti í austri liggur land jarðarinnar í um 140 metrum yfir sjávaramáli og nær land jarðarinnar um 570 metrum yfir sjávarmáli í hæsta punkti í vestri. Fasteignirnar fimm eru í eigu sömu fjölskyldunnar, eignarnámsþola, og upphaflega tilheyrðu þær allar jörðinni, en landspildunum fjórum að Kotungsstöðum 2-5 mun hafa verið skipt út úr landi jarðarinnar og eru þær eftirleiðis á hendi nánar tilgreindra eignarnámsþola, eins og greinir hér á undan. Rétt sunnan merkja Grjótárgerðis og Kotungsstaða liggur heimreið til vesturs frá þjóðvegi 482, upp í land Kotungsstaðajarðarinnar, þar sem fyrst er komið að Kotungsstöðum 2 og síðan Kotungsstöðum 3, en áður en komið er að þeim fasteignum greinist heimreiðin til suðurs þaðan sem hún liggur að Kotungsstöðum 4 og Kotungsstöðum 5. Þetta eru þeir vegslóðar sem eignarnemi áskilur sér umferðarrétt yfir. Samkvæmt málsgögnum er jörðin Kotungsstaðir talin vera 251,9 hektarar, að meðtöldum fasteignunum fjórum að Kotungsstöðum 2-5, en 248,5 hektarar að þeim frátöldum. Þá er stærð sumarbústaðalandanna sem sem tilheyra Kotungsstöðum 2-5, í þeirri röð, 3.698, 3.616, 12.156 og 14.400 fermetrar. Í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 segir um Kotungsstaði: „Í landi Kotungsstaða eru nú þegar 4 frístundahús. Deiliskipulag er ekki til. Í aðalskipulagi er um 40 ha stórt svæði skilgreint sem „svæði fyrir frístundabyggð“ - Gert er ráð fyrir að á svæðinu verði alls 16 frístundahús.“ Þá liggja fyrir í gögnum málsins drög að deiliskipulagi fyrir Kotungsstaði, dags. í júlí 2009, þar sem gert er ráð fyrir 12 nýjum frístundahúsum, það er þremur húsum vestan Kotungsstaða 2 og 3, tveimur húsum rétt norðan Kotungsstaða 4 og sjö húsum á milli Kotungsstaða 4 og 5. Samkvæmt gögnum málsins liggur línuleið Hólasandslínu 3 um land Kotungsstaða í fjallshlíð ofan Kröfulínu 1 frá suðaustri til norðausturs og verða raflínurnar samsíða. Vettvangsathugun á landi jarðar Kotungsstaða og fasteignanna Kotungsstaða 2-5 leiddi í ljós að austasti og neðsti hluti landsins, þ. á m. sumarhúsalönd Kotungsstaða 2-5 og það 40 hektara land jarðarinnar sem skilgreint er sem svæði fyrir frístundabyggð í aðalskipulagi, er gróið land, ræktað skógi að hluta. Vestari hluti landsins, þ. á m. þeir hlutar þess sem fara undir línumannvirki og helgunarsvæði háspennulínunnar, er melótt heiðarland og nokkuð vel gróið neðan núverandi línustæðis Kröfulínu 1.

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskilinni kröfu eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns af völdum eignarnámsins sökum verðrýrnunar á landi undir framtíðarfrístundabyggð fyrir landi jarðarinnar Kotungsstaða, kröfu eignarnema um að ákveðnar verði bætur fyrir þá kvöð að eignarnema verði heimilt að leggja ljósleiðara ásamt háspennulínu, svo og umferðarréttarkvöð sem eignarnemi áskilur sér. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu, sem útilokar þó ekki að markaðsverð verði fundið á grundvelli á meginreglunnar. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolanum Valbæ ehf. fyrir það land jarðarinnar Kotungsstaða sem háspennulínan verður lögð um og fer undir fjögur möstur til að halda línunni uppi, samtals 0,15 hektarar (4 möstur x 0,375 fermetrar), svo og það land sem fer undir nýja vegslóða sem eignarnemi hyggst leggja að línunni og meðfram henni, samtals 1,118 hektarar að frádregnum þeim hluta vegslóða sem er innan línustæðis (1,22-0,102). Telur matsnefndin að krafa eignarnámsþola, um 1.000 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins en það geri á hinn bóginn það verð sem tilboð eignarnema byggi á, 480 krónur á fermetra. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi þeirri fjárhæð, eða 480.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að ekki liggur enn fyrir deiliskipulag vegna landsvæðisins, sem um er að ræða, eða aðrar aðstæður sem heimila önnur en núverandi not þar, en jafnframt að landsvæðið er á norðausturhorni landsins í grennd við þéttbýliskjarna á Akureyri. Fyrir samtals 1,268 hektara (0,15+1,118) spildu í landi jarðarinnar Kotungsstaða þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 608.640 krónur (1,268x480.000) Matsnefndin telur einnig að ákveða þurfi fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolanum Valbæ ehf. vegna þess lands jarðarinnar Kotungsstaða sem fer undir 50 metra breitt helgunarsvæði háspennulínunnar, sem byggingarbann nær yfir, samtals 5,56 hektarar, sem að frádregnu landi undir möstur (0,15 hektarar) og vegslóða innan helgunarsvæðis en utan línustæðis (0,184 hektarar) ber samkvæmt fordæmum matsnefndar að meta til 2/3 hluta af verðmæti landsins, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016. og fyrir 4,442 hektara (5,56-0,15-0,184) helgunarsvæði þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 1.672.320 krónur (5,226 x(2/3)x480.000).

Í öðru lagi kemur til álita fyrir matsnefnd hvort eignarnámsþolum beri bætur fyrir umferðarrétt eignarnema um fyrirliggjandi vegslóða í landi jarðarinnar Kotungsstaða og landspildanna að Kotungsstöðum 2-5, sem liggja frá þjóðvegi að fjórum sumarhúsum sem staðsett eru á Kotungsstöðum 2, 3, 4 og 5. Er krafa eignarnema um umferðarrétt yfir vegslóðunum reist á 1. mgr. 21. gr. raforkulaga, þar sem segir að landeiganda og umráðamanni lands sé skylt að veita vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki og dreifiveitum óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem í hlut eigi ef nauðsyn krefji vegna undirbúnings að starfsemi samkvæmt lögum þessum. Ekki megi hefja virkjunarframkvæmdir, leggja raflínur eða reisa önnur mannvirki á grundvelli leyfa samkvæmt lögum þess fyrr en náðst hafi samkomulag um endurgjald fyrir landnot eða nýtingu auðlindar eða eignarnám hafi farið fram og umráðataka samkvæmt því. Samkvæmt gögnum málsins er hlutdeild fasteignanna fimm í þessum vegslóðum jöfn, þannig að hver fasteign á fimmtungs hlutdeild í þeim. Í málinu hefur eignarnemi ekki boðið sérstakar bætur fyrir þennan þátt, en krafa eignarnámsþola stendur um samtals 500.000 króna endurgjald fyrir þennan rétt, eða 100.000 krónur til eigenda hverrar hinna fimm fasteigna. Hér er að áliti matsnefndar ljóst að sú kvöð sem felst í umferðarrétti eignarnema yfir fyrirliggjandi vegslóðum eignarnámsþola muni ekki takmarka nýtingarmöguleika fasteigna þeirra, sbr. á hinn bóginn úrskurð matsnefndar 16. maí 2014 í máli nr. 1/2014. Það er því niðurstaða matsnefndar að eignarnámsþolar verði ekki fyrir tjóni af völdum umferðarkvaðarinnar og er kröfu eignarnámsþola um bætur vegna hennar hafnað.

Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþolanum Valbæ ehf. beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem lagning háspennulínu um land jarðarinnar Kotungsstaða hefur á hagsmuni hans.

Felast slík fjárhagsleg áhrif í því að eignarnema ber að greiða sérstaklega fyrir heimild til að leggja ljósleiðara um land jarðarinnar Kotungsstaða samhliða lagningu háspennulínu. Af eðli máls leiðir að ljósleiðari yrði lagður í jörðu. Það er álit matsnefndar að eignarnema beri að greiða eignarnámsþolanum Valbæ ehf. sérstaklega fyrir heimild til að leggja ljósleiðara um land jarðarinnar samhliða lagningu Hólasandslínu 3 og að bætur vegna þessa séu eins og atvikum er hér háttað hæfilega ákveðnar 250.000 krónur, sbr. til hliðsjónar úrskurð matsnefndar 26. október 2020 í máli nr. 3/2020.

Fjárhagsleg áhrif felast einnig í þeim áhrifum sem línulögnin hefur á það land jarðarinnar Kotungsstaða sem eignarnámsþolinn Valbær ehf. heldur eftir og staðsett er á milli eldri Kröflulínu 1 og hinnar nýju Hólasandslínu 3 en fellur utan þess lands sem fer undir raflínu, möstur og helgunarsvæði síðargreindu línunnar. Er landræma þessi samtals 1,49 hektarar að stærð. Það er álit matsnefndar að landræma þessi verði jörðinni Kotungsstöðum gagnlítil til nýtingar eftir eignarnámið og framkvæmdir eignarnema, með hliðstæðum hætti og helgunarsvæði Hólasandslínu 3, og verða hæfilegar bætur eignarnámsþolans Valbæjar ehf. vegna þessa ákveðnar 2/3 hlutar af verðmæti landsins, eða 476.800 krónur (1,49x(2/3)x480.000).

Þá felist fjárhagsleg áhrif í öðrum áhrifum sem stafi af háspennulínum, sbr. úrskurði matsnefndar 1. júlí 1999 í máli nr. 19/1997, 27. febrúar 2006 í málum nr. 10/2005 og 11/2005, 30. júlí 2015 í málum nr. 2-9/2014 og 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016, annars vegar vegna sjónrænna áhrifa af raflínunni, og það þótt í landinu sé önnur lína fyrir, en einnig sökum þess að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Það er álit matsnefndar að á svæði sem sé í allt að 200 metra fjarlægð frá miðju til hvorrar handar frá nýrri Hólasandslínu 3, eða á 400 metra bili, alls 39,55 hektarar, gæti áhrifa sem rýri verðmæti lands á þessu svæði. Samkvæmt málsgögnum fer línan 1.165 metra um land jarðarinnar Kotungsstaða. Til frádráttar áhrifasvæðinu komi 5,56 hektara breitt helgunarsvæði línunnar, 0,234 hektarar sem fara undir nýja vegslóða og 1,49 hektarar lands sem staðsett er á milli lína. Komi þannig bætur fyrir landsvæði sem er 32,266 hektarar að stærð (39,55-5,56-0,234-1,49), sbr. til hliðsjónar t.d. úrskurði matsnefndar 30. júlí 2015 í málum nr. 2-9/2014 og 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016. Upplýst er í málinu að eigendur jarðarinnar Kotungsstaða hafi að líkindum engar bætur fengið í sinn hlut vegna lagningar eldri línu í landi jarðarinnar, Kröflulínu 1. Matsnefndinni er á hinn bóginn aðeins falið að meta bætur vegna þess eignarnáms sem nú fer fram og er því óhjákvæmilegt að litið verði til þess að fyrir var áhrifasvæði vegna eldri línunnar. Bætur koma því fyrir áhrifasvæði sem nemur 29,156 hekturum að stærð (32,266-3,11). Telur nefndin að til komi verðrýrnun, á því landi sem bæta skal eftir þessum bótalið, sem nemi 10% af fullu verði eða 48.000 krónum á hektara, en landsvæðið er sem áður greinir melótt heiðarland og nokkuð vel gróið að hluta. Það er álit matsnefndar að bætur vegna þessa séu hæfilega ákveðnar 1.399.488 krónur (29,156x0,10x480.0000).

Matsnefndin hafnar á hinn bóginn kröfum eignarnámsþola um frekari bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif á það land sem þeir halda eftir, því ekki gætir að áliti matsnefndar áhrifa til verðlækkunar utan 400 metra beltisins sem bætur voru ákveðnar fyrir hér á undan. Er þess þá meðal annars að gæta að nýja línan, Hólasandslína 3 verður staðsett ofan og samsíða eldri línu, Kröfulínu 1.

Í fjórða lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma í garð eignarnámsþolans Valbæjar ehf., bæði vegnu línulagningar og slóðagerðar í landi jarðarinnar Kotungsstaða. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þess að rask og ónæði af framkvæmdinni er hér sýnilega minna en við á t.d. í tilviki vegalagningar.

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþolanum Valbæ ehf. vera 4.907.248 krónur (608.640+1.672.320+ 250.000+476.800+1.399.488+500.000). Til frádráttar bótafjárhæðinni skal dregin innborgun eignarnema samkvæmt samkomulagi aðila 30. maí 2020 að fjárhæð 9.712.000 krónur (10.212.000-500.000).

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 2.215.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði. Hefur þá verið tekið tillit til meðferðar málsins fyrir matsnefnd, þ. á m. vettvangsathugunar í málinu 15. júní 2021 og munnlegs flutnings þess þann sama dag. Lögmaður eignarnámsþola hefur gætt hagsmuna þeirra sameiginlega og er málskostnaðaryfirlit sem hann hefur lagt fram í málinu ósundurgreint að því er vinnu í þágu eignarnámsþola varðar. Verður málskostnaður þeim til handa ákveðinn í einu lagi.

Þá skal eignarnemi greiða 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Landsnet hf., skal greiða eignarnámsþolanum Valbæ ehf. 4.907.248 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu, að frádreginni innborgun eignarnema samkvæmt samkomulagi aðila 30. maí 2020 að fjárhæð 9.712.000 krónur.

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolunum Valbæ ehf., Valgerði Elínu Valdemarsdóttur, Baldvini Valdemarssyni, Hólmgeiri Valdemarssyni, Þorsteini Þorsteinssyni, Hólmgeiri Þorsteinssyni og Valdísi Brá Þorsteinsdóttur, samtals 2.215.000 krónur í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

Valgerður Sólnes

Gústaf Vífilsson                                                         Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta