Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 267/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. júlí 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 267/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16020016

Beiðni [...] um endurupptöku á úrskurði

kærunefndar útlendingamála frá 15. desember 2015

I. Málsatvik

Þann 15. desember 2015 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 2. febrúar 2015 um að synja umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002. Þann 15. febrúar 2016 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 15. desember 2015, ásamt fylgiskjali. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd vegna máls hans þann 10. maí 2016, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Þann 18. maí 2016 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir við beiðni kæranda um endurupptöku máls hans. Þá bárust kærunefnd tölvupóstar frá talsmanni kæranda, dags. 13. og 14. júlí 2016, varðandi mál kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að eftir að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur fyrir kæranda hafi hann látið talsmanni sínum í té skjal sem kærandi hafi staðhæft að sé útbúið af [...] yfirvöldum og sé dagsett 16. september 2014. Að sögn kæranda sé skjalið staðfesting á því að rannsóknarlögreglumenn hafi gert leit á heimili hans í [...] þann 9. ágúst 2014 og gert upptækan harðan disk í hans eigu sem hafi innihaldið efni sem gangi gegn kenningum [...], feli í sér áróður til uppreisnar og hvetji til trúleysis. Við slíku athæfi liggi fangelsisrefsing samkvæmt landslögum [...]. Í skjalinu komi ennfremur fram að [...] yfirvöld leiti hans og að gefin hafi verið út handtökuskipun á hendur honum. Kærandi bendi á að í úrskurði kærunefndar sé tekið fram að aðstæður í [...] og málsmeðferð þarlendra stjórnvalda sé almennt til þess fallin að tryggja mannréttindi einstaklinga, að undanskildum tilteknum málum sem snúi að andstæðingum ríkisstjórnarinnar. Jafnframt komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans að kærandi hafi ekki aðhafst neitt sem sé til þess fallið að koma [...] yfirvöldum til að líta á hann neikvæðum augum. Af þeim gögnum sem [...] yfirvöld hafi gert upptæk á heimili kæranda megi ráða að hann falli í hóp þeirra sem stjórnvöld vilji ná og refsa. Geti hann því eðli máls samkvæmt ekki leitað til lögreglu vegna þeirrar hættu sem hann sé í gagnvart þeim fjölskyldum sem hafi hótað honum.

Kærandi hafi talið sig hafa lagt fram nægileg gögn um að hann sé í hættu gagnvart yfirvöldum í heimaríki sínu. Hann hafi einungis áttað sig á því eftir á að skjalið hafi ekki verið meðal gagna málsins þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli hans. Auk þess hafi hann verið í miklu andlegu ójafnvægi. Kærandi hafi afrit skjalsins en hann telji lögmann sinn hafa frumritið. Kærandi telji lögmann sinn hafa flúið [...] og sé í [...] og því telji kærandi ekki möguleika á því að leggja frumritið fram.

Þá hafi framburður kæranda í viðtali hjá kærunefnd verið ranglega hafður eftir honum í úrskurði kærunefndar. Í tölvubréfi formanns kærunefndar, dags. 10. febrúar sl., hafi komið fram að ákveðið misræmi væri á milli framburðar kæranda og texta úrskurðarins.

Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í beiðni kæranda sé hvorki mögulegt fyrir kæranda að leita sér aðstoðar [...] yfirvalda né að flytja sig um set innanlands. Verði kærandi sendur til [...] muni stjórnvöld vilja hafa hendur í hári hans vegna þeirra gagna sem hafi fundist á hörðum diski á heimili hans og beita hann meðferð og/eða refsingu sem gangi í berhögg við alþjóðlegar mannréttindareglur sem íslensk stjórnvöld séu bundin af.

Í viðbótarathugasemdum sem bárust kærunefnd þann 18. maí sl. kemur m.a. fram að ofangreint skjal sem kærandi hafi lagt fram með beiðni um endurupptöku sé handtökuskipun á hendur kæranda í kjölfar þess að gerð hafi verið húsleit á heimili hans og hald lagt á fyrrnefndan harðan tölvudisk. Andlegt ástand kæranda hafi verið slæmt frá því hann hafi komið til Íslands. Í athugasemdunum kemur fram að í kjölfar viðtals kæranda hjá kærunefnd þann 10. maí sl. hafi kærandi greint talsmanni sínum frá því að hann hafi fengið umrætt skjal sent til sín í kjölfar úrskurðar kærunefndar. Móðir kæranda hafi fengið skjalið á lögmannsstofu [...] og komið því til kæranda í gegnum snjallsímaforritið Viber, með aðstoð tölvuþjónustu þar í landi. Varðandi það hvort [...] lögmannsstofan gæti staðfest sannleiksgildi skjalsins fékk kærandi þau svör að það væri ekki hægt. Slíkt myndi koma stofunni í slæma stöðu gagnvart stjórnvöldum þar í landi ef upp kæmist að hún hafi veitt upplýsingar til aðila utan [...] um mál sem sé til meðferðar hjá yfirvöldum. Lögmaður hafi jafnframt talið nánast ómögulegt að afla frumritsins og benti kæranda á að leita til saksóknaraembættisins í [...] til frekari upplýsinga. Í viðbótarathugasemdum kæranda er í kjölfarið vísað til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi hvernig staðreyndir máls skuli leiddar í ljós. Kærandi hafi lagt fram afrit af handtökuskipun og að mati talsmanns kæranda hafi hann með trúverðugum hætti greint frá tilurð þess og hvernig honum barst skjalið og hvers vegna það sé nánast útilokað fyrir hann að nálgast frumrit þess.

Þá barst kærunefnd tölvupóstur frá talsmanni kæranda, dags. 13. júlí 2016, sem innihélt tölvupóstssamskipti kæranda og talsmanns hans. Í tölvupóstinum kemur fram að kærandi hafi m.a. minnst á skjal sem hann hafi ætlað að reyna að leggja fram um að hann hafi verið dæmdur in absentia til fangelsisrefsingar í [...]. Tilraunir hans til að nálgast skjal þar um hafi ekki borið árangur.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um 1. tölulið:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Með beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa skilaði hann inn afriti af skjali sem hann kveður vera staðfestingu á að [...] lögreglan hafi farið inn á heimili hans í [...], leitað þar og gert upptækan harðan disk í eigu kæranda. Diskurinn innihaldi efni sem gangi gegn kenningum [...], feli í sér áróður til uppreisnar og hvetji til trúleysis. Þá feli skjalið í sér handtökuskipun á hendur kæranda í kjölfar húsleitarinnar. Þá kveðst kærandi hafa vitneskju um að hann hafi verið dæmdur in absentia til fangelsisrefsingar í [...]. Kærandi hafi hins vegar ekki getað útvegað nein gögn þar um.

Ljóst er að ofangreind frásögn kæranda er í grundvallaratriðum frábrugðin þeim málsatvikum og málsástæðum sem kærandi hafði áður byggt mál sitt á. Í ljósi þess skjals sem kærandi lagði fram með beiðni hans um endurupptöku á máli hans, framburðar kæranda og staðhæfinga um að hann hafi verið dæmdur in absentia telur kærunefnd að tilefni sé til þess að skoða hvort fullnægjandi og réttar upplýsingar um málsatvik hafi legið fyrir þegar ákvörðun var tekin í máli kæranda hjá kærunefnd. Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Um umsókn kæranda um alþjóðlega vernd

Afmörkun úrlausnarefnis

Úrlausnarefni málsins er að skera úr um hvort að þær nýju upplýsingar sem borist hafa kærunefnd hafi þau áhrif að við heildstæða endurskoðun á máli kæranda verði það niðurstaðan að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um hæli sem flóttamaður og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að hluta eða heild og veita kæranda hæli eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi.

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Niðurstaða kærunefndar

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að framburður kæranda í viðtali hjá kærunefnd hafi verið ranglega hafður eftir honum í úrskurði kærunefndar frá 15. desember 2015. Eftir að hafa farið nánar yfir hljóðupptöku af viðtali kæranda er ljóst að ákveðið misræmi er á milli framburðar kæranda og texta úrskurðar kærunefndar. Á hljóðupptökunni virðist kærandi hafa greint frá nafni einnar fjölskyldu af þeim þremur sem kærandi kveður vera á eftir sér. Staðfesti formaður kærunefndar þetta misræmi í tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2016, til talsmanns kæranda. Það er mat kærunefndar að þetta misræmi af hálfu kærunefndar hafi engin áhrif á niðurstöðu í máli kæranda. Frásögn kæranda og upplýsingar um þær fjölskyldur sem hann kveðst hræðast í [...] hafi einungis verið hluti af þeim gögnum og sjónarmiðum sem til skoðunar komu við mat kærunefndar á trúverðugleika kæranda og máli hans. Það að kærandi hafi getað nefnt eina fjölskyldu af þeim þremur sem kærandi kveðst hræðast breytir ekki því mati nefndarinnar að vissrar ónákvæmni hafi gætt í frásögn kæranda um þann atburð sem hafi leitt til þess að hann ákvað að flýja [...].

Líkt og áður hefur komið fram lagði kærandi fram afrit af skjali með beiðni sinni um endurupptöku málsins sem hann kveður vera handtökuskipun á hendur sér. Auk þess hefur kærandi haldið því fram að hann hafi upplýsingar um að hann hafi verið dæmdur in absentia til fangelsisrefsingar í [...] á meðan hann hafi verið staddur hér á landi. Við meðferð endurupptökubeiðni kæranda óskaði kærunefnd eftir því við kæranda að hann aflaði rafrænnar útgáfu skjalsins sem hann kveður vera handtökuskipun á hendur sér. Jafnframt skoraði kærunefnd á kæranda að afla frekari gagna sem styddu þá frásögn hans um að þeir atburðir sem skjalið beri með sér hafi raunverulega gerst auk þess að afla sönnunar fyrir því að kærandi hafi verið dæmdur til fangelsisrefsingar í fjarveru hans, eins og kærandi kveður að hafi verið gert. Kærandi hefur hvorki lagt fram frekari gögn máli sínu til stuðnings né afhent kærunefnd rafræna útgáfu af ofangreindu skjali, sem hann kveður móður sína hafa sent sér með rafrænum hætti. Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd gildi og trúverðugleika þess skjals sem kærandi lagði fram vera afar óljóst.

Ljóst er að meginmarkmið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og áður hefur verið tekið fram er ljóst að málsástæður kæranda nú eru í grundvallaratriðum frábrugðnar þeim sem hann hefur áður byggt mál sitt á. Ekki er hægt að útiloka að frásögn kæranda og það skjal sem hann hefur lagt fram hefðu áhrif á niðurstöðu í hælismáli, yrði það talið trúverðugt og lagt til grundvallar. Það er mat kærunefndar að í ljósi sérstakra aðstæðna í þessu máli og ríkra hagsmuna kæranda af niðurstöðu í málinu sé rétt að kærandi fái úrlausn um þessar nýju málsástæður hjá lægra settu stjórnvaldi. Kærunefnd tekur þó skýrt fram að staðfesting kærunefndar á forsendum þeim sem Útlendingastofnun byggði fyrri niðurstöður sínar á í máli kæranda stendur óhögguð.

Með vísan til alls ofangreinds þá er það mat kærunefndar að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar og vísa máli kæranda til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni en þó aðeins í því augnamiði að kanna þær nýju málsástæður sem kærandi hefur haldið uppi eftir að kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar. Verði það mat Útlendingastofnunar að umrætt skjal teljist nægilega trúverðugt til að hægt sé að leggja það til grundvallar í máli kæranda skuli þá jafnframt meta hvort skjalið breyti fyrri niðurstöðu stofnunarinnar, sem kærunefnd hafði áður staðfest. Þá skal Útlendingastofnun kanna og meta hvort staðhæfingar um sakfellingu in absentia séu nægilega trúverðugar og ef svo er, hvort þær hafi áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar í máli kæranda. Sama á við ef kærandi leggur fram aðrar málsástæður sem ekki hafa verið skoðaðar áður af Útlendingastofnun og máli gætu skipt fyrir umsókn kæranda.

Í ljósi framangreinds er lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli á ný til meðferðar til samræmis við það sem hér hefur verið rakið.


Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The appellant‘s request for reexamination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to reexamine the case.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta