Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 15/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. janúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 15/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15100013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 16. október 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. október 2015, um að synja henni um hæli á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns á Íslandi skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands í fylgd [...], [...], og barna [...]. Kærandi sótti um hæli þann 1. júní 2015 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Með ákvörðun, dags. 6. október s.á., synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli. Þá var henni einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 16. október 2015. Sama dag var einnig óskað eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar með vísan til 4. mgr. 32. gr. laga um útlendinga og féllst kærunefnd útlendingamála á beiðnina samdægurs. Með tölvupósti dags. 23. október 2015 óskaði kærunefndin eftir greinargerð frá kæranda og barst hún þann 4. nóvember s.á.

Þann 4. janúar kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru löglærður talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi byggt kröfu sína um hæli á því að henni hafi verið hótað lífláti í [...]og að lögreglan þar í landi muni ekki veita henni vernd vegna tengsla tengdafjölskyldu kæranda við [...]sem hafi liðið undir lok í upphafi 10. áratugs síðustu aldar.

Útlendingastofnun fjallar í ákvörðun sinni um spillingu í [...]. Spilling sé nokkur en stjórnvöld hafi unnið að því að uppræta spillingu og berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu sem sé einnig mikil. Þá kom fram að ástand lögreglumála fari sífellt batnandi í [...], mikið fjármagn hafi verið sett í lögreglumál og lögreglumenn hafi hlotið dóma fyrir brot í störfum sínum.

Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki tengt hótanir þær sem henni hafi borist við [...]þá taldi Útlendingastofnun ástæðu til að fjalla um [...]. Kom meðal annars fram í ákvörðun stofnunarinnar að yfirvöld í [...]séu meðvituð um þann vanda sem [...]í landinu hafi valdið. Yfirvöld hafi unnið að því að bæta þekkingu lögreglu og aðgerðir þeirra gegn [...]ásamt því að herða refsingar við slíkum brotum. Ennfremur hafi verið unnið að því að efla aðstoð við fórnarlömb [...].

Þá taldi Útlendingastofnun ástæðu til að minnast á misræmi á milli frásagna kæranda og [...]hjá stofnuninni. Kærandi hafði ekki minnst á skotárás sem [...]kvaðst hafa orðið fyrir. Einnig kvað kærandi þau hafa misst húsið vegna þess að aðili hefði eignast það með sviksamlegum hætti en [...]hafði ekki minnst á þá atburðarás hjá stofnuninni. Kærandi hafði ennfremur sótt um hæli í Belgíu þar sem hún byggði umsóknina að hluta til á öðrum ástæðum en hér á landi. Frásögn kæranda var þó metin í heild sinni trúverðug.

Kærandi var ekki talin eiga á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað yrði til ofsókna í heimalandi sínu skv. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Þá var hún ekki talin eiga á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í skilningi 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Ennfremur var ekki talið að endursending kæranda til heimalands bryti gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f taldi stofnunin kæranda ekki í þeirri aðstöðu í [...]að hún ætti á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, því þótti ekki ástæða til að veita kæranda dvalarleyfi með vísan til mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla hennar við Ísland.

Þá var kæranda vísað frá landinu á grundvelli 3. mgr. 90. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga sbr. IX. kafla reglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað að kæra myndi ekki fresta réttaráhrifum með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi óttast um líf sitt og frelsi og henni sé mismunað í [...]. Ástæðan sé að tengdafaðir kæranda hafi verið virkur í fyrrverandi [...]landsins. Fjölskyldan hafi misst heimili sitt þar sem [...]ólst upp. [...]kvað húsið hafa verið tekið ólöglegu eignarnámi af manni sem hafði áður skotið kæranda í mjöðm og fót. [...]kvaðst hafa kært bæði skotárásina sem og eignarnámið til lögreglu en ekki hafi verið brugðist við málinu með skilvirkum hætti. Kæranda, [...]og tengdamóður hafi einnig verið hótað lífláti af þessum sama manni. Kvað kærandi þennan mann vera mjög tengdan yfirvöldum í [...]og því væri ekki að vænta mikillar hjálpar frá þeim. Væri fjölskyldan í lífshættu vegna deilna við þennan mann og sú hætta liði ekki hjá þrátt fyrir að þau láti húsnæðismálið niður falla.

Auk þessa kom fram að fjölskyldan taldi sig hafa orðið fyrir mikilli og kerfisbundinni mismunun vegna tengsla tengdaföður kæranda við [...], t.d. hafi þau ekki fengið atvinnu og rafmagnið hafi verið tekið af húsinu þeirra. Þá kvað kærandi að [...]hefði opinberlega sagt að hengja skuli alla sem hafi tengsl við fyrrverandi [...]landsins. Það hafi þó ekki verið meint bókstaflega en með þessu hafi hann verið að hvetja til mismununar gegn þessum hópi fólks. Kvað kærandi ekki möguleika fyrir fjölskylduna að flytja sig um set innan [...]þar sem að fjölskyldunafnið [...]væri þekkt og því auðvelt að hafa uppi á þeim hvar sem er innan [...].

Í greinargerð kæranda kemur fram að ofsóknir og mismunun á grundvelli stjórnmálaskoðana í [...]séu ekki endilega á grundvelli raunverulegra stjórnmálaskoðana einstaklings heldur einnig vegna fjölskyldutengsla eða að einstaklingur er talinn hafa ákveðnar skoðanir. Þá séu ofsóknir af þessu tagi sjaldan augljósar.

Þá segir í greinargerð að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda í [...]til framfara á síðustu árum þá sé [...]fátækt land þar sem ríki mikil spilling sem fyrirfinnist í öllum þáttum hins opinbera geira. Spillingin sé það mikil að hún hamli starfsemi dómstólanna og grafi undan tiltrú almennings á réttlæti og lögum. Þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda til að draga úr spillingu þá telji mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins að hún dugi skammt. Ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að réttarkerfi [...]standi höllum fæti og spilling innan [...]lögreglunnar sé viðvarandi vandamál og mörg dæmi séu um að brotið sé á réttindum almennra borgara í samskiptum þeirra við lögreglu. Það sé því til lítils að ætlast til þess að kærandi geti leitað ásjár [...]yfirvalda og fái þar fullnægjandi vernd þar sem öll gögn bendi til þess að spilling, mútuþægni, skortur á gagnsæi og skipulögð glæpastarfsemi séu landlægt vandamál sem veikt réttar- og löggæslukerfi [...]sé á engan hátt í stakk búið til að takast á við.

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi aðeins verið fjallað almennt um aðstæður í [...]og dregin upp jákvæðari mynd af þeim en tilefni sé til. Sneytt hafi verið hjá mikilvægum staðreyndum er varði spillingu í gervöllu stjórnkerfi landsins, hefndarmenningu og háa glæpatíðni. Ekki hafi verið rannsökuð sérstaklega þau atvik sem fjölskyldan greinir frá og athugun gerð á þeim valdamikla manni sem [...]hræðist. Er gerð krafa um það að kærunefndin meti mögulega spillingu innan stjórnkerfis og löggæslu á því svæði sem kærandi kveðst vera frá og hversu líklegt sé að grunnmannréttindi kæranda og fjölskyldu hennar verði takmörkuð með óeðlilegum hætti verði þeim gert að snúa aftur heim. Ennfremur þyrfti að skoða hvort að sú umfjöllun sem mál fjölskyldunnar hér á landi og í fjölmiðlum í heimalandi hennar hafi haft áhrif á aðstæður fjölskyldunnar í heimalandi hennar. Útlendingastofnun er sögð hafa tekið ákvörðun í málinu eingöngu byggða á þjóðerni kæranda og ekki hafi farið fram einstaklingsbundið og sjálfstætt mat á aðstæðum kæranda í málinu. Það sé brot á 3. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna að mismuna flóttamönnum eftir ættlandi.

Varðandi varakröfu kæranda kemur fram í greinargerð að í athugasemdum frumvarps til laga nr. 115/2010, um breytingu á útlendingalögum, segi að með íþyngjandi félagslegum aðstæðum að öðru leyti sé átt við alvarlegar aðstæður í heimaríki, t.d. viðvarandi mannréttindabrot eða þá aðstöðu að stjórnvöld veita ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af þessu og því sem kærandi hefur greint frá sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 12. gr. f útlendingalaga, þar sem [...]stjórnvöld annað hvort vilja ekki eða geta ekki veitt þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum af því tagi sem um ræðir, og því beri að veita kæranda dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Í greinargerð kæranda er bent á að í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barna kærenda skorti alfarið rökstuðning fyrir því að hvaða marki tekið hafi verið tilliti til þeirrar verndar sem börn eiga rétt á samkvæmt ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, íslenskum lögum og öðrum reglum þjóðarréttar. Segir þar að rökstuðningur í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barna kæranda sé ófullnægjandi þar sem að ekki kemur fram að aðstæður barnanna hafi verið metnar sérstaklega í tengslum við endursendingu fjölskyldunnar til [...]og að ákvörðunin sé án nokkurs efnislegs rökstuðnings varðandi aðstæður barnanna sérstaklega. Í greinargerð er það metið svo að ákvörðunin fullnægi ekki þeim kröfum sem 22. gr. stjórnsýslulaga gerir til efnis rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar hvað þetta varðar og að Útlendingastofnun hafi við töku ákvörðunar sinnar virt að vettugi mikilvæg ákvæði laga og alþjóðasáttmála er kveða á um að hagsmunir barna skuli hafðir að leiðarljósi við töku ákvarðana í málum er þau varða.

Að lokum var sérstök athygli vakin á því að með kæranda og [...]hér á landi væru [...]börn þeirra og athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 115/2010 sem breytti ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga en þar segir að til greina komi að gera minni kröfur til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f. Við töku ákvörðunar í málinu væri því mikilvægt að líta til ákvæða 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa það sem barninu væri fyrir bestu að leiðarljósi.

VI. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Réttarstaða barns kæranda

Svo sem fram er komið komu börn kæranda með henni hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að þau börn sem hér um ræðir eru í fylgd beggja foreldra sinna.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hún framvísað [...]vegabréfi sínu. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé [...]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

[...]Kærunefnd útlendingamála hefur m.a. skoðað eftirfarandi skýrslur: [...]Í ofangreindum gögnum kemur fram að [...]stjórnvöld hafa tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að [...]hafi miðað áfram í málefnum er snerta réttarkerfið, frelsi og öryggi. Félagslega kerfið í [...]hefur einnig gengið í gegnum ýmsar breytingar á undanförnum árum og er því ætlað að tryggja einstaklingum sem á þurfa að halda fjárhagslega aðstoð frá ríki og/eða sveitarfélögum.

a. Aðalkrafa kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Krafa kæranda byggir á því hún og fjölskylda hennar fái ekki fullnægjandi vernd í heimalandi frá þeim sem ofsækja þau.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins, sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að góðar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum, sbr. Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

Krafa kæranda er sem fyrr segir byggð á því að hún og fjölskylda hennar verði fyrir mismunun og ofsóknum vegna tengsla [...]við fyrrverandi [...]. Stuttu eftir að kærandi [...], varð hann fyrir skotárás er hann staðhæfir að hafi átt sér stað vegna deilu um eignarhald á húsi fjölskyldunnar. Fyrir kærunefnd útskýrði kærandi þessa deilu nánar. Húseign sú sem [...]ólst upp í og telur sig eiga tilkall til tilheyrir nú eftir niðurstöðu dómstóls öðrum manni og fjölskyldu hans. Endanleg eignaskipti virðast hafa orðið árið 2013 þegar fjölskylda kæranda neyddist til að flytja úr húsinu. [...]er ekki sáttur við þessar málalyktir og telur þær hafa verið gerðar ólöglega og spilling háttsettra embættismanna og fordómar í garð hans og fjölskyldu hans hafi verið drifkrafturinn. Vegna þess að [...]hefur leitað allra leiða til þess að fá þessi eignaskipti leiðrétt hafi fjölskyldan fengið hótanir frá fjölskyldunni sem nú á húsið. Ennfremur hafi forsætisráðherra [...]hvatt til mismununar gagnvart öllum þeim sem tengist fyrrverandi [...]landsins og því verði fjölskyldan fyrir mikilli mismunun. Enginn önnur ofbeldisatvik hafa átt sér stað frá skotárásinni árið 1996. Þá bjó kærandi ásamt fjölskyldu sinni erlendis í um 10 ár, eða frá árinu 1998 til 2008. Kærandi fór ásamt börnum sínum og [...]aftur frá [...]árið 2011 og hún og börnin komu ekki til baka fyrr en í lok árs 2012.

Kærandi hefur staðhæft að enga aðstoð sé að fá frá lögreglu og yfirvöldum í [...]þar sem að mikil spilling ríki í öllu réttarkerfinu. Í fyrrnefndum skýrslum sem kærunefndin hefur farið yfir kemur fram að mikil spilling hafi verið ríkjandi í réttarkerfi [...], þ.e. innan lögreglu, ákæruvalds og dómstóla. Stjórnvöld hafi þó leitað ýmissa leiða til þess að uppræta þessa spillingu og hafi þó nokkuð áunnist í þeim málum meðal annars hafi laun lögreglumanna verið hækkuð og mikil endurnýjun hefur átt sér stað í lögregluliði landsins. Þá hefur ekki í neinum gögnum sem kærunefndin hefur yfirfarið komið fram að fordómar og mismunun á grundvelli stjórnmálaskoðana sé vandamál í [...].

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða áreiti af hendi [...]yfirvalda. Almennt ferðafrelsi gildir að [...]lögum og hafa stjórnvöld almennt virt þann rétt fólks. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna átt samstarf við [...]stjórnvöld að málefnum flóttamanna og einstaklinga sem snúa aftur til landsins [...]. Er það mat kærunefndar að þó svo fallist væri á að kærandi verði fyrir fordómum og mismunun í heimalandi sínu þá hafi hún raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda þar og að flytja sig til innanlands telji hún þess þörf. Styðja heimildir ekki þá staðhæfingu kæranda að [...]stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda fullnægjandi vernd óski hún eftir henni við þau. Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hennar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

b. Varakrafa kæranda

Til vara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærandi hefur borið því við að fjölskyldan verði fyrir miklum fordómum og mismunun í heimalandi sínu vegna tengsla [...]við fyrrverandi [...]. Þar á meðal hafi forsætisráðherra landsins hvatt opinberlega til mismununar einstaklinga á þeim grundvelli. Fjölskyldan hefur ekki búið í [...]nema í um fimm ár frá árinu 1998, börn kæranda eru fædd erlendis og hafa því aðeins búið í [...]lítinn hluta sinnar ævi. Þrátt fyrir að þau tali tungumálið þá hafa þau takmörkuð tengsl við landið og aðeins örfáir ættingjar þeirra búa þar enn. Fjölskyldan hefur ennfremur ekki öruggt húsnæði í [...]eftir að þau misstu hús fjölskyldunnar árið 2013.

Í skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 sem breyttu ákvæði 12. gr. f útlendingalaga, kemur fram það sjónarmið að almennt séð beri að taka sérstakt tillit til barna hvort sem þau eru fylgdarlaus eða ekki. Í [...]er til staðar félagslegt kerfi sem aðstoðar einstaklinga sem á þurfa að halda vegna fátæktar. Ekki er um að ræða sérstaka fjárhagsaðstoð til barna heldur til fjölskyldna þeirra og tekur aðstoðin mið af fjölskyldustærð og öðrum tekjum en þessi aðstoði er fremur lág.

Þegar aðstaða fjölskyldunnar í [...]er skoðuð er ljóst að á þeim langa tíma sem þau hafa búið í öðrum ríkjum en heimaríki hafa þau tapað raunverulegum tengslum við heimaríkið. Einnig hafa þau misst það örugga húsnæði sem þau áttu þar og hafa lítið bakland að hverfa að, m.a. til að aðstoða sig við að koma undir sig fótunum á ný og afla tekna til framfærslu fjölskyldunnar. Húsnæðið sem um ræðir hafði tilheyrt fjölskyldunni allt frá árinu 1955 og ólst [...]þar upp. Það olli því umróti fyrir fjölskylduna og skapaði óöryggi þegar þau misstu húsnæðið þegar því var ráðstafað til annars óviðkomandi aðila eftir [...]. Leiddi þetta til þess að fjölskyldan telur sig ekki eiga samastað í [...].

Fyrrnefndur skortur á tengslum við heimaríkið er sérstaklega þýðingarmikill í tilviki barna kæranda sem hafa alið nánast alla sína ævi í öðrum ríkjum og við gerólíkar aðstæður en vænta má að bíði þeirra í [...]. Fyrir kærunefnd kom fram af hálfu dóttur kæranda að hún upplifi sig sem útlending í [...]og kvaðst ekki geta hugsað sér að takast á við það verkefni að reyna að byggja upp framtíð þar í landi. Hefur það valdið henni [...]sem hún hefur þurft að leita sérfræðiaðstoðar við. Að mati kærunefndar hefur það verulega þýðingu í máli kæranda að börn hennar eigi ekki uppeldislegar rætur í [...]og dóttir hennar hefur lýst því fyrir kærunefnd að í þau skipti sem fjölskyldan hafi dvalið þar hafi hún fundið sterklega fyrir þeim menningarmun sem hún upplifði í því ríki og á þeim aðstæðum sem hún ólst upp við í Noregi og Bandaríkjunum þar sem hún á eiginlegar rætur.

Með tilliti til ofangreinds þá telur kærunefnd, að teknu tillit til ákvæða barnalaga, nr. 76/2003, ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að það sé börnum kæranda fyrir bestu að verða ekki send til baka til [...]í þær erfiðu félagslegu aðstæður sem bíða þeirra þar vegna sérstöðu þeirra. Því er það niðurstaða kærunefndar að fjölskyldan hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna og að rétt sé þar af leiðandi að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum sbr. 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. október 2015, staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli hér á landi. Hins vegar telur kærunefndin rétt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 12. gr. f útlendingalaga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed with regard to the application for asylum. The Directorate of Immigration shall issue the applicant a residence permit based on Article 12 f, paragraph 2, of the Act on Foreigners no. 96/2002.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta