Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 515/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 515/2019

Föstudaginn 21. febrúar 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. desember 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2019, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun 11. júlí 2018 og óskaði eftir 70% atvinnuleysisbótum þar sem hann nyti umönnunarbóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Með erindi, dags. 17. ágúst 2018, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi færði fram greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun. Í kjölfarið barst tekjuáætlun sem gaf til kynna að greiðslum umönnunarbóta til kæranda hefði lokið í júlí 2018. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar þann 6. september 2018 kom jafnframt fram að umönnunarbætur hefðu fallið niður í lok júlí og að hann hafi verið tekjulaus frá þeim tíma. Með ákvörðun, dags. 4. október 2018, var umsókn kæranda um 70% atvinnuleysisbætur samþykkt. Með bréfi til kæranda, dags. 30. október 2019, óskaði Vinnumálastofnun eftir greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun vegna áranna 2018 og 2019. Kærandi skilaði umbeðnum gögnum og var í kjölfarið tilkynnt með ákvörðun, dags. 18. nóvember 2019, að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. ágúst 2018 til 30. september 2019, samtals að fjárhæð 422.249 kr. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. desember 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 18. desember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. desember 2019 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. desember 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Vinnumálastofnun greiði honum réttmætar og umbeðnar atvinnuleysisbætur og að ákvörðun stofnunarinnar frá 15. nóvember 2019 um lækkun bóta og endurgreiðslukröfu verði ómerkt. Ákvörðun Vinnumálastofnunar sé að öllu leyti byggð á augljósum afbökunum fyrirliggjandi staðreynda. Undanfarin rúm 10 ár hafi kærandi unnið að nýsköpunarverkefni sem, eðli sínu samkvæmt, taki nokkurn tíma í þróun. Stundum hafi kærandi notið verkefnastyrkja samkeppnissjóða, einkum B. Styrkirnir fáist einungis til þriggja ára en sé ekki samfelldir. Laun kæranda komi frá þessum styrkjum og því sé hann launalaus á milli styrktímabila en niðurlagning verkefnisins myndi gera það óstyrkhæft. Verkefnið hafi greitt tilskilin tryggingagjöld og því eigi kærandi rétt á atvinnuleysisbótum þegar engar tekjur séu að hafa vegna skorts á styrkfé. Maki kæranda sé langveik, með varanlega fulla örorku og þurfi verulega aðstoð heima fyrir. Því hafi Tryggingastofnun ríkisins samþykkt að greiða honum makabætur sem bæði standi undir útlögðum kostnaði við umönnun hennar, svo sem ferðum, en einnig því vinnutapi sem hann verði fyrir, en hann hafi þurft að skerða starfshlutfall sitt við verkefnið um 30% vegna þessarar umönnunar. Tekjur kæranda frá verkefninu hafi einnig verið skertar um 30%, hafi farið úr 500.000 kr. niður í 300.000 kr., sem sé hámark tekna sem Tryggingastofnun leyfi hjá þeim sem njóti makabóta.

Kærandi tekur fram að um mitt ár 2018 hafi styrkir B fallið niður og þar með þau 70% tekna sem hann hafi notið frá verkefninu. Hann hafi því sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun fyrir 70% af fullum atvinnuleysisbótum þar sem hann geti ekki tekið fullt starf vegna umönnunar eiginkonunnar. Fram til október 2019 hafi Vinnumálastofnun réttilega greitt honum 70% af fullum atvinnuleysisbótum. Í lok október hafi kærandi fengið tilkynningu frá stofnuninni um ótilkynntar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það hafi reynst rangt og ef til vill byggt á því að þegar kærandi hafi fengið samþykktar atvinnuleysisbætur hafi legið fyrir greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun sem sýndi engar makabætur þar sem láðst hafi að skila til stofnunarinnar árlegri endurnýjunarbeiðni. Kærandi hafi hins vegar gert ítarlega grein fyrir makabótunum, bæði í upphaflegri umsókn sinni til Vinnumálastofnunar og í viðtali við fulltrúa stofnunarinnar í C, sbr. bókun frá 12. júlí 2018. Reyndar hafi einnig láðst að tilgreina lítilsháttar vaxtatekjur sem hann hafi af vörslufé. Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun að skerða bætur hans án þess að fyrir því sé nokkur lagaheimild, auk þess að krefja hann um greiðslu einhverra ímyndaðra ofgreiðslna og hefja sjálftöku þeirrar „skuldar“ af réttmætum bótum í algeru heimildarleysi og án þess að virða málskotsrétt hans. Þær aðfarir Vinnumálastofnunar séu með öllu löglausar og kærandi hafi mótmælt þeim kröftuglega og krafist ítarlegs rökstuðnings. Kæranda hafi borist rökstuðningur Vinnumálastofnunar með bréfi 18. nóvember 2019. Í honum standi ekki steinn yfir steini, rökleysan og brotaviljinn séu þar allsráðandi. Vinnumálastofnun vitni til reiknireglu 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kærandi sé sammála en mótmæli harðlega þeim útúrsnúningum stofnunarinnar á framkvæmd hennar. Stofnunin geri þau grundvallarmistök að draga makabætur hans tvisvar frá fullum atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi sótt um 70% atvinnuleysisbætur þar sem 30% aukatekjur vegna umönnunar maka hindri hann í að þiggja fullar bætur af stofnuninni. Af sömu ástæðu geti kærandi ekki tekið að sér nema 70% starf. Í því reikningsdæmi sem Vinnumálastofnun setji upp ætti fyrsta talan að vera óskertar bætur að fjárhæð 279.720 kr. en ekki 70% bætur að fjárhæð 195.804 kr. eins og þar sé tilgreint. Með þeirri uppsetningu gangi Vinnumálastofnun beinlínis á svig við orðalag 1. mgr. 36. gr. laganna. Augljóst sé að ef kærandi væri ekki í því aukastarfi að gæta maka síns myndi hann njóta fullra bóta Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi sjálfur tekið tillit til þessara aukatekna þegar hann hafi einungis sótt um 70% bætur en þá ætti hann líka rétt á að fá þau 70% greidd að fullu. Vinnumálastofnun sé fullkomlega óheimilt að draga makabæturnar af honum í tvígang eins og stofnunin geri með þessum fráleitu reikningskúnstum sínum. Rétt útfærð reikniregla laganna sé í hans tilfelli og á núvirði: 279.720 kr. (óskertar bætur) + 68.852 kr. (frítekjumark) – 156.263 kr. (makabætur Tryggingastofnunar) – 18.701 kr. (fjármagnstekjur) – 195.804 kr. (70% fengnar atvinnuleysisbætur) = -22.196 kr. Því megi skerða bætur kæranda um helming þess, eða 11.098 kr. Fráleitt sé að skerða um 53.056 kr., enda væri með því verið að draga sömu makabætur tvisvar frá í sama mánuði sem sé óheimilt lögum samkvæmt.

Í athugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að hann telji sig eiga skýlausan rétt á fullum (100%) atvinnuleysisbótum, að frádregnum þeim makabótum sem hann fái frá Tryggingastofnun ríkisins vegna umönnunar eiginkonu sinnar, að frádregnum lítilháttar fjármagnstekjum. Í því samhengi vísar kærandi til útreiknings í kæru sinni. Vinnumálastofnun fullyrði ranglega að hann eigi einungis rétt á 70% atvinnuleysisbótum, að frádregnum greiddum makabótum. Það fái engan veginn staðist þar sem með því væru atvinnuleysisbætur hans hverju sinni skertar tvívegis vegna sömu greiðslu, en slíkt sé óheimilt. Kærandi hafi einungis sótt um 70% bætur vegna þess að hann hafi átt von á makabótum og hafi gert Vinnumálastofnun grein fyrir því eins og fram komi í bókun stofnunarinnar við umsókn hans 12. júlí 2018. Kærandi hafi því verið fullkomlega einlægur í umsókn sinni og vísi því öllum aðdróttunum Vinnumálastofnun um annað á bug.

Kærandi tekur fram að Vinnumálastofnun hafi hvorki í upphaflegum „rökstuðningi“ sínum né athugasemdum gert grein fyrir því hvernig hann hefði átt að haga umsóknum sínum öðruvísi. Stofnuninni hafi verið að fullu kunnugt um þessar einu aukatekjur hans sem hér skipti máli, um það vitni bókun frá 12. júlí 2018. Hafi kærandi átt að haga sínum umsóknum öðruvísi hafi Vinnumálastofnun ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum. Hafi hann átt rétt á að sækja um 100% bætur, þrátt fyrir að eiga von á makabótum hafi stofnuninni borið að upplýsa hann um það en ekki þegja þunnu hljóði. Kærandi hafi þegar gert Vinnumálastofnun og úrskurðarnefnd grein fyrir ástæðum þess að greiðsluáætlun Tryggingastofnunar hafi ekki sýnt neinar greiðslur þaðan á þeim tíma er hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Það hafi verið vegna gleymsku hans við árlega endurnýjun makabóta hjá Tryggingastofnun og sjá megi að það hafi oftar hent hann. Það hafi ekki verið ásetningur, þrátt fyrir að Vinnumálastofnun vilji halda því fram, enda komi glögglega fram í bókun stofnunarinnar frá 12. júlí 2018 að hann gerði ráð fyrir að fá þær makabætur samhliða atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi á tímabilinu átt, og eigi enn, rétt til fullra atvinnuleysisbóta að frádregnum makabótum sem hann fái frá Tryggingastofnun vegna umönnunar langveiks maka og að frádregnum lítilsháttar fjármagnstekjum. Hið eina sem hindri kæranda í að vinna 100% starf sé umönnun langveiks maka en fyrir þá vinnuskerðingu njóti hann áðurnefndra makabóta. Kærandi eigi því fullan rétt á 100% atvinnuleysisbótum að þeim makabótum frádregnum. Verði ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest sé þar með verið að refsa honum sérstaklega fyrir það eitt að annast um langveikan og fatlaðan maka, án þess þó að stofnunin hafi slíkt refsivald. Verði það niðurstaðan sé augljóst að hann hljóti að leita réttar síns eftir öðrum leiðum, enda sé slíkt ekki ætlun löggjafans.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði skerðingu greiðslna atvinnuleysistrygginga vegna tekna sem kærandi hafi fengið greiddar frá Tryggingastofnun á meðan hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Tekjur þær sem um ræði séu maka- og umönnunarbætur sem greiddar séu til kæranda á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að taka ákvörðun um skerðingu á atvinnuleysistryggingum vegna tekna atvinnuleitenda. Í ákvæðinu sé skýrt tekið fram að elli- og örorkulífeyrisgreiðslur sem greiddar séu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli koma til frádráttar frá greiðslum atvinnuleysistrygginga. Í 2. mgr. ákvæðisins segi enn fremur að „umönnunargreiðslur sem ætlaðar eru til að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns, styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða og styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar skulu ekki koma til frádráttar greiðslum samkvæmt lögum þessum. Þegar um er að ræða aðrar áður ótaldar greiðslur sem ekki eru ætlaðar til framfærslu hins tryggða skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort þær skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.“ Í ákvæðinu sé sérstaklega gerð grein fyrir þeim greiðslum sem ekki skuli koma til frádráttar greiðslum atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt framangreindu beri Vinnumálastofnun að meta í hverju tilviki hvort greiðsla sem ekki sé sérstaklega talin upp í ákvæðinu og sé ekki ætluð til framfærslu hins tryggða, skuli koma til frádráttar samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis. Makabætur þær sem um ræði séu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð greiddar á grundvelli 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar og séu samkvæmt reglugerð um maka- og umönnunarbætur nr. 407/2002 ætlaðar til að mæta tekjutapi eða tekjuleysi umsækjanda. Umönnunarbætur þessar séu því greiddar samkvæmt lögum um almannatryggingar og ætlaðar til framfærslu maka elli- eða örorkulífeyrisþega. Samkvæmt framangreindu komi tekjur þessar því til skerðingar á atvinnuleysisbótum samkvæmt 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tekur fram að þar sem kærandi hafi einungis verið skráður 70% atvinnulaus hafi hann fengið greiddar 70% af fullum atvinnuleysisbótum eða 195.804 kr. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga sé 68.852 kr. Greiddar atvinnuleysisbætur til kæranda nemi sömu upphæð og réttur hans til atvinnuleysisbóta og mánaðarlegar greiðslur umönnunarbóta, auk fjármagnstekna hans nemi 174.964 kr. á mánuði. Samkvæmt framangreindri reiknireglu sé skerðing atvinnuleysisbótum sem hér segi:

 

eða

 

Staðið hafi verið að útreikningi á atvinnuleysisbótum kæranda með framangreindum hætti og mánaðarleg skerðing á atvinnuleysisbótum hans sé því 53.056 kr.

Af kæru til úrskurðarnefndar að dæma virðist kærandi ekki vefengja að umönnunargreiðslur skuli koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum en í kæru sinni gerir hann athugasemdir við reikniaðferð og niðurstöðu stofnunarinnar sem hann ætli til verstu áforma hennar og „brotavilja“. Við útreikning á skerðingu Vinnumálastofnunar sé horft til reiknireglu 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem Vinnumálastofnun sé gert að framfylgja við skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tekna. Ákvæðið feli í sér að þegar samanlagðar tekjur og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemi óskertum rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram séu. Reikniregla sú sem birtist í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi setja upp með eftirfarandi hætti:

Líkt og fram komi í kæru til nefndarinnar geri kærandi ekki athugasemdir við að skerðing á atvinnuleysisbótum taki mið af ofangreindri reikniaðferð. Deilur í málinu virðist að öllu leyti snúa að orðalaginu „óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta“ í 36. gr. laganna. Kærandi telji að Vinnumálastofnun skuli miða við fullar atvinnuleysisbætur, sbr. 33. gr. og núgildandi reglugerð um fjárhæð atvinnuleysisbóta nr. 1204/2018, við mat á skerðingu á atvinnuleysisbótum til hans. Það sé hins vegar afstaða Vinnumálastofnunar að stofnuninni beri að miða við þær atvinnuleysisbætur sem kærandi hafi áunnið sér og eigi rétt á. Kærandi þiggi 30% umönnunarbætur frá Tryggingastofnun og því hafi hann sótt um 70% atvinnuleysisbætur, enda einungis fær um að sinna virkri atvinnuleit og taka að sér störf í því hlutfalli. Tryggingarhlutfall atvinnuleitanda geti aldrei orðið hærra því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Óskertur réttur kæranda til atvinnuleysisbóta sé því 70% af fullum atvinnuleysisbótum.  Í athugasemdum með 36. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að helmingur þeirrar fjárhæðar sem fari fram yfir samanlagðar tekjur eða aðrar greiðslur hins tryggða og þeirra atvinnuleysisbóta sem hann eigi rétt á komi til frádráttar atvinnuleysisbótunum. Enn fremur segi að með orðalaginu sé átt við þann rétt sem hlutaðeigandi eigi rétt á samkvæmt III. eða IV. kafla frumvarpsins.

Líkt og áður segi geti tryggingarhlutfall atvinnuleitanda aldrei verið hærra en nemi því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig í. Skerðingarregla 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að taka mið af því, sbr. skýr fyrirmæli í ákvæðinu sjálfu og athugasemdir í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig myndi einstaklingur sem einungis væri 50% vinnufær ekki eiga tilkall til þess að útreikningur á skerðingu samkvæmt 36. gr. laganna tæki mið af fullum atvinnuleysisbótum, enda ætti hann aldrei rétt á fullum atvinnuleysisbótum. Að sama skapi geti sá sem einungis hafi áunnið sér 50% bótahlutfall ekki gert sama tilkall. Ólíkt atvinnuleitendum sem séu að fullu vinnufærir og tilbúnir að sinna 100% starfi á meðan þeir séu skráðir atvinnulausir hafi kærandi einungis lýst sig reiðubúinn til að taka að sér starf í 70% starfshlutfalli, enda séu greiðslur umönnunarbóta til hans háðar því að hann sé ekki að sinna fullu starfi. Tryggingarhlutfall hans geti því ekki numið hærra en því hlutfalli. Þær atvinnuleysisbætur sem kærandi eigi rétt á í skilningi 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nemi því 70% af fullum greiðslum. Vinnumálastofnun beri því að miða skerðingu á greiðslum atvinnuleysistrygginga við það tryggingarhlutfall. 

Í ljósi alls ofangreinds telji Vinnumálastofnun að rétt hafi verið staðið að útreikningi á skerðingu á atvinnuleysisbótum kæranda. Þá hafni Vinnumálastofnun þeim ásökunum sem birtist í kæru um heimildarlausa skerðingu og að málskotsréttur kæranda hafi á nokkurn hátt verið virtur að vettugi af stofnuninni. Kæranda beri í samræmi 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.  Vinnumálastofnun taki fram að kæranda hafi ekki verið gert að greiða álag í samræmi við framangreint ákvæði. Samtals hafi skuld kæranda numið 422.249 kr. en sé nú 395.714 kr. þar sem skuldinni hafi verið skuldajafnað við síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum til kæranda, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna makabóta sem hann nýtur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Markmið laganna er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Vinnumálastofnun skerti atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli framangreinds ákvæðis vegna makabóta sem hann fékk greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 er ekki sérstaklega kveðið á um að makabætur skerði atvinnuleysisbætur og kemur því til skoðunar hvort niðurlag 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. eigi við um slíkar greiðslur. Makabætur kæranda voru greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2007, sem greiðir einnig elli- og örorkulífeyri samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Að því virtu að kærandi fékk makabæturnar greiddar frá Tryggingastofnun er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins um að vera „aðrar greiðslur […] frá öðrum aðilum.“ Vinnumálastofnun var því óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur kæranda vegna þeirra.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda vegna makabóta frá Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006.  Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta til handa A er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta