Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2007

Fimmtudaginn, 1. nóvember 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. júní 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 27. júní 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. mars 2007 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Um kröfur kæranda og  rökstuðning sagði í kæru:

„Fyrir hönd A(hér eftir nefnd kærandi) er hér með kærð ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur kærði) þann 28. mars 2007 um endurákvörðun greiðslna í fæðingarorlofi að fjárhæð X krónur í kjölfar breytinga á reglugerð nr. 1056/2004 í ljósi þess sem lokamálsliður 2. mgr. 2. gr. hafði ekki lagastoð.

Kröfur.

Þess er krafist að gerð verði grein fyrir þeim útreikningi og forsendum sem lágu að baki hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og endurskoðuð í samræmi við þau rök og sjónarmið sem rakin eru í kæru þessari.

Málavextir.

Kærandi eignaðist tvo syni þann 6. júlí 2005 og þann 17. nóvember 2006. Við ákvörðun greiðslna fæðingarorlofs vegna fæðingar yngri sonarins áleit Tryggingastofnun ríkisins að taka ætti mið af greiðslum úr fæðingarorlofi vegna fæðingar fyrri sonar þegar fundið væri út meðaltal heildarlauna samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (hér eftir ffl.), með vísan til þágildandi lokamálsliðar 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. í áliti Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4579/2005, líkt og nefndinni er vel kunnugt um, var komist að þeirri niðurstöðu að framangreindur lokamálsliður reglugerðarákvæðisins væri ekki í samræmi við fyrrnefnt lagaákvæði. Gætu greiðslur úr kærða því ekki fallið undir þær greiðslur sem hafa skuli til viðmiðunar þegar meðaltal launa væri fundið út samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl.

Í kjölfarið fór kærandi þess á leit við kærða, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir ssl.) að ákvörðun Tryggingastofnunar um greiðslur yrði endurupptekin og endurreiknuð, með vísan til þeirra sjónarmiða er fram komu í fyrrnefndu áliti Umboðsmanns Alþingis.

Niðurstaða kærða í bréfi dags. 28. mars s.l. var sú að leiðrétta bæri greiðslur til kæranda um X krónur.

Rök og sjónarmið kæranda.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að gerð verði grein fyrir þeim rökum og útreikningi sem lá að baki hinni kærðu ákvörðun en engar skýringar er að finna í bréfi kærða á þeim forsendum sem lágu að baki ákvörðuninni né hvaða aðferðum við útreikning var beitt.

Kærandi telur endurútreikning kærða eins og hann birtist í bréfi, dags. 28. mars 2007, tæplega geta verið á rökum reistan né þær forsendur sem kærði hefur gefið sér við þann útreikning.

Jafnframt gerir kærandi verulegar athugasemdir við orðalag bréfs kærða þar sem segir að útreikningurinn sé birtur með fyrirvara um hugsanlegar breytingar. Velta má fyrir sér hvernig mál geti talist nægjanlega rannsakað og upplýst sé ákvörðun tekin með fyrirvara um hugsanlegar breytingar. Telja verður að framangreint stappi nærri 10. gr. ssl um rannsóknarreglu stjórnvalds.

Í öðru lagi krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og endurreiknuð í samræmi við þau eftirfarandi sjónarmið sem beita skal við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skulu mánaðarlegar greiðslur kærða til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Í því máli sem hér um ræðir voru greiðslur þær er ágreiningur lýtur að, vegna barns fæddu 17. nóvember 2006. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins bar því að líta til tekjuáranna 2004 og 2005 við ákvörðun greiðslna til handa kæranda í fæðingarorlofi.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir ennfremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Hjálagðar eru útprentanir Skattstjórans í Reykjavík þar sem m.a koma fram heildarlaun, staðgreiðsla skatta og persónuafsláttur kæranda fyrir tekjuárin 2004 og 2005. Einnig kemur þar fram hver laun og staðgreiðsla skatta eru fyrir hvern mánuð, þar sem 01 stendur fyrir janúar, 02 fyrir febrúar o.s.frv.

Samkvæmt útprentun fyrir tekjuárið 2004 má glöggt merkja að heildarlaun kæranda voru X krónur og starfaði hún 7 mánuði það árið á innlendum vinnumarkaði, frá janúar til mars og frá september til desember.

Á útprentun fyrir tekjuárið 2005 sést að heildarlaun kæranda voru X krónur ef hvoru tveggja er litið til greiðslna úr kærða og frá B.

Miðað við 2. mgr. 13. gr. ffl. og með vísan til áðurnefnds álits Umboðsmanns Alþingis falla greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði ekki undir þær greiðslur sem hafa skal til viðmiðunar þegar fundið er út meðaltal launa. Samkvæmt framangreindri útprentun Skattstjórans í Reykjavík starfaði kærandi í B. í 6 mánuði árið 2005, frá 1. jan. til 1. júlí, auk þess að fá greidda desemberuppbót í nóvember það sama ár. Heildarlaun kæranda í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði á árinu 2005 námu því X krónur + X krónur eða X krónur

Samanlagðar tekjur fyrir bæði árin námu því X krónur. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 og 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 skal miða við meðaltal heildarlauna þá mánuði viðmiðunartímabils sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Af því leiðir að miða á við meðaltal launa kæranda í þá mánuði sem hún starfaði á árunum 2004 og 2005 en það voru samtals 13 mánuðir. Meðallaun kæranda námu því X krónur á mánuði þessi tvö tekjuár (X / 13). Greiðslur úr kærða áttu því að nema 80% af þessum meðallaunum eða um X krónur á mánuði en ekki um X krónur eins og upphaflega var gert við ákvörðun fæðingarorlofs til handa kæranda.

Eins og áður hefur komið fram hefur kærandi ekki upplýsingar um þau sjónarmið og rök sem lágu að baki hinni kærðu ákvörðun. Miðað við niðurstöðu endurútreiknings má þó sjá að varla er um verulegar breytingar að ræða á tekjuviðmiðun meðallauna sem útreikningur grundvallast á og telur kærandi því augljóst að hin kærða ákvörðun byggi á röngum forsendum.

Þess er farið á leit við úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði endurskoðuð í samræmi við framangreindan rökstuðning.“

 

Með bréfi, dagsettu 20. júlí 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 27. júlí 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með endurupptökubeiðni óskaði kærandi eftir að Fæðingarorlofssjóður endurskoðaði útreikning á greiðslum til sín vegna barns hennar sem fæddist 17. nóvember 2006, sbr. greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 1. desember 2006. Kærandi hafði áður verið í fæðingarorlofi vegna eldra barns að hluta til á árinu 2005.

Í málinu lágu fyrir upplýsingar frá ríkisskattstjóra auk eldri gagna frá umsækjanda vegna umsóknar hennar sem ákvörðuð var með framangreindri greiðsluáætlun, dags. 1. desember 2006.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 28. mars 2007, var henni tilkynnt að leiðrétting hafi verið gerð á greiðslum til hennar upp á X krónur. Miðað við þær forsendur sem voru til staðar þegar útreikningurinn fór fram átti að greiða henni X krónur þegar búið væri að draga af öll lögbundin gjöld svo sem staðgreiðslu ef skattkorti yrði ekki skilað inn fyrir útborgunardaginn sem var 30. mars 2007.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Barn kæranda er fætt þann 17. nóvember 2006 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar árin 2004 og 2005 fyrir þá mánuði sem hún var í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði, sbr. og úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 33/2005.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2004 og 2005 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi var utan vinnumarkaðar í apríl – ágúst 2004 og ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Við endurreikninginn sem kynntur var kæranda í bréfi, dags. 28. mars sl., hefur misfarist að undanskilja þessa mánuði við útreikning á meðaltalinu og er það leiðrétt hér og nú. Á árinu 2005 var kærandi í fæðingarorlofi og þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði fyrir júlí – desember 2005 og ber því einnig að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í nóvember 2005 þáði kærandi greiðslu frá B að upphæð X krónur sem er desemberuppbót. Í þeim mánuði var kærandi hins vegar í 100% fæðingarorlofi og ber því að undanskilja þá greiðslu svo og þann mánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna þar sem einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Samkvæmt greiðsluáætlun dags. 1. desember 2006 var kærandi með X krónur  í meðaltekjur á mánuði fyrir árin 2004 – 2005 og eru 80% af því X krónur á mánuði. Eftir leiðréttinguna sem gerð hefur verið núna, sbr. greiðsluáætlun dags. 25. júlí 2007, hækka meðaltekjur kæranda á mánuði í X krónur og eru 80% af því X krónur Meðfylgjandi er útreikningur á fyrri endurreikningi sem ákvarðaður var á kæranda með bréfi, dags. 28. mars sl., og útreikningur á nýrri endurákvörðun, dags. 25. júlí 2007, að upphæð X krónur miðað við þær forsendur sem voru til staðar þegar útreikningurinn fór fram. Þegar öll lögbundin gjöld hafa verið dregin frá verða kæranda greiddar X krónur þann 31. júlí nk.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að búið sé að leiðrétta greiðslur til kæranda og að bréf sem sent var til hennar, dags. 25. júlí 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. ágúst 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Með bréfi dagsettu 4. október 2007 var óskað eftir afstöðu kæranda þar sem Fæðingarorlofssjóður hafði tekið nýja ákvörðun um endurákvörðun greiðslna til kæranda og hin kærða ákvörðun með því úr gildi fallin. Kærandi kvaðst í tölvupósti 13. október 2007 ekki gera stórvægilegar athugasemdir við umsögn Fæðingarorlofssjóðs dags. 25. júlí 2007.  Síðan segir: „svo virðist sem tekið hafi verið til greina krafa sú er sett var fram í kæru, a.m.k. að einhverju leyti. Mun úrskurðarnefndin staðfesta þá niðurstöðu.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður hefur tekið nýja ákvörðun um endurútreikning greiðslna til kæranda sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 25. júlí 2007.  Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er hlutverk úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Þótt kærandi rökstyðji ekki að hvaða leyti sé enn ágreiningur um endurútreikning greiðslna  til hennar úr Fæðingarorlofssjóði verður að skilja afstöðu hennar svo að hún óski úrskurðar nefndarinnar. Miðast umfjöllun nefndarinnar því við að ágreiningur sé um hina nýju ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu félagsmálaráðuneytisins var fallist á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4579/2005 um að lokamálsliður 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 hefði ekki næga lagastoð og var ákvæðið fellt niður með reglugerð nr. 123/2007. Samkvæmt því var afnumin sú regla að greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar þ.m.t. greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrðu lagðar til grundvallar við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi. Jafnframt var tekin ákvörðun um að Fæðingarorlofssjóður tæki upp þau mál sem ákvörðuð höfðu verið á grundvelli ákvæðisins þegar foreldri hafði fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tveggja ára tímabili útreiknings meðaltals heildarlauna.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Barn kæranda er fætt 17. nóvember 2006. Með hliðsjón af því er  viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2004 og 2005, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Kærandi fékk upphaflega greitt í fæðingarorlofi úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli útreiknings samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. og þágildandi 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl. og þess sem að framan er rakið hefur það verið mat úrskurðarnefndarinnar að við endurútreikning meðaltals heildarlauna skuli ekki reiknaðar þær greiðslur sem foreldri fékk úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra fæðingarorlofs og ekki þeir mánuðir sem foreldri er ekki að störfum í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi verið á árinu 2004  að störfum á vinnumarkaði mánuðina janúar til og með mars og frá september til og með desember og á árinu 2005 frá janúar til og með júní eða samtals 13 mánuði á öllu viðmiðunartímabilinu. Er sú niðurstaða í samræmi við kröfur kæranda og   ákvörðun um endurútreikning sem tilkynnt var henni með bréfi dagsettu 25. júlí 2007. Ekki er því lengur ágreiningur um það atriði. Þá er ekki ágreiningur um að ekki skuli reikna með greiðslur sem kærandi fékk úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra fæðingarorlofs. 

Í kæru er á því byggt að við útreikning meðaltals heildarlauna skuli reikna með desemberuppbót X krónur sem kom til greiðslu í nóvember 2005. Við ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er hins vegar ekki reiknað með þeirri fjárhæð þar sem kærandi hafi ekki verið á vinnumarkaði í þeim mánuði.  Almennt er í kjarasamningum kveðið á um að starfsmaður skuli fá greidda persónuuppbót í desember ár hvert. Persónuuppbótin er jafnan föst krónutala en hafi starfsmaður aðeins unnið hluta úr ári skal hann fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma. Samkvæmt því má álykta að kærandi hafi fengið desemberuppbótina greidda vegna þeirra mánaða ársins 2005 sem hún var að störfum á vinnumarkaði. Við útreikning meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal því reikna með þeirri greiðslu. Ekki er ágreiningur um aðrar forsendur ákvörðunar um endurútreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til A skal reikna með greiðslu á desemberuppbót að fjárhæð X krónur

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta