Mál nr. 98/2011
Miðvikudaginn 16. nóvember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 98/2011:
A
gegn
Íbúðalánasjóði
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 21. júlí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 8. júlí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi kærði ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 8. júlí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 15.700.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 17.500.000 kr. samkvæmt mati löggilts fasteignasala frá fasteignasölunni Fasteignahöllinni sem fram fór þann 15. júní 2011. Áhvílandi á íbúðinni voru 21.784.979 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi er eigandi bifreiðarinnar C metin á 921.888 kr. og hlutabréfaeignar að nafnverði 505.000 kr.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 4. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 22. ágúst 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25. júlí 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi kærir niðurstöðu útreikninga Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 21. júlí 2011, segir kærandi að hann sé afar ósáttur við niðurstöðu Íbúðalánasjóðs. Eru athugasemdir hans um að bifreið í hans eigu hafi komið til frádráttar niðurfærslu á lánum hans en einnig hlutabréf í fyrirtæki sem séu í hans eigu sem sé nú á barmi gjaldþrots. Þá segir kærandi að hann fari fram á endurskoðun á ákvörðun Íbúðalánasjóðs.
IV. Sjónarmið kærða
Í svörum Íbúðalánasjóðs er einungis vísað með almennum hætti til 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem fram kemur að Íbúðalánasjóði ber að reikna veðrými í aðfararhæfum eignum til lækkunar á niðurfærslum á veðkröfum og hjá kæranda séu það bifreið og hlutabréf, sbr. niðurstöðu útreikninga sem liggi fyrir í málinu.
V. Niðurstaða
Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Í máli þessu er ágreiningur um aðfararhæfar eignir í eigu kæranda sem komu til frádráttar niðurfærslu á lánum hans hjá Íbúðalánasjóði, en kærandi hefur ekki gert athugasemdir við verðmat fasteignar hans. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 og í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður. Auk fasteignar sinnar að B átti kærandi bifreið og hlutabréfaeign á þeim tíma er umsókn hans um niðurfærslu lána var afgreidd hjá Íbúðalánasjóði eins og rakið hefur verið.
Bifreið kæranda er metin á 921.888 kr. við ákvörðun kærða. Ekkert hefur komið fram um hvert sé raunverulegt mat bifreiðarinnar eða hvort mat Íbúðalánasjóðs hafi verið stutt annarri rannsókn en fyrrgreindu mati en kærandi hefur mótmælt því að bifreið hans sé svo mikils virði. Þá er upplýst að við meðferð umsóknar kæranda var dregið frá andvirði hlutabréfaeign hans að nafnverði 505.000 kr. Kærandi hefur fært fram þau rök að umrætt félag sé á barmi gjaldþrots og hlutabréfin því verðlaus. Íbúðalánasjóður hefur hins vegar á engu stigi málsins kynnt úrskurðarnefndinni rökstuðning sinn eða mat þess hvernig komist var að þeirri niðurstöðu að framangreint nafnverð hlutabréfa teljist aðfararhæf eign í skilningi laga nr. 90/1989.
Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fyrrgreind aðferð við mat þess hvort fyrir hendi sé aðfararhæf eign í skilningi fyrrgreindra reglna, uppfylli ekki þær kröfur sem gera verður til kærða um stjórnsýslulega meðferð umsóknar kæranda við mat þess hvort og að hvaða marki fyrrgreindar eignir teljist aðfararhæfar í skilningi 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, en kærandi hefur haldið því fram að hlutafjáreign hans sé einskis virði.
Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærða hafi verið rétt að kanna nánar raunvirði bifreiðarinnar og hlutabréfanna í tengslum við afgreiðslu umsóknar kærenda, en slíkt virðist hafa verið gert í þeim tilvikum þegar kærði hefur talið verðmæti eigna vera of lágt miðað við skráð verðmat þeirra í skattframtali, svo sem þegar umsækjandi er skráður eigandi annarrar fasteignar. Engin rök standa því til þess að kærði afgreiði umsóknir með öðrum hætti, telji umsækjandi að eign sín sé of hátt skráð í skattframtali. Þar sem Íbúðalánasjóður gætti ekki að framangreindu telst málið ekki hafa verið upplýst nægjanlega við meðferð umsóknar kæranda. Verður því að af þeim sökum að ógilda hina kærðu ákvörðun og vísa henni aftur til Íbúðalánasjóðs til löglegrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og málinu vísað aftur til Íbúðalánasjóðs til löglegrar meðferðar.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal