Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 287/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 287/2017

Fimmtudaginn 7. desember 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 22. júlí 2017 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B 14. júní 2017 vegna umgengni hennar við sonarson sinn, C.

I. Málsatvik og málsmeðferð

C er fædur X og er því X ára. Hann lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Hann er í varanlegu fóstri og hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá því að hann var settur í fóstur, þá ný orðinn X ára. Gert er ráð fyrir að fóstur standi til 18 ára aldurs drengsins. Kærandi er föðuramma drengsins.

Drengurinn var vistaður hjá kæranda X 2009, þá X, vegna fíkniefnaneyslu og annarra erfiðleika foreldra. Barnaverndarnefnd B gerði samning við kæranda á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002 (bvl.), um umsjá drengsins í allt að þrjá mánuði. Samningurinn var gerður með samþykki móður drengsins og síðar lýsti faðirinn sig einnig samþykkan ráðstöfuninni. Samningurinn var síðar framlengdur í samráði við foreldra drengsins. Sótt var um leyfi Barnaverndarstofu fyrir ráðstöfuninni og fékkst leyfi til X 2010. Frekara leyfi fékkst ekki og með bréfi 31. ágúst 2010 synjaði Barnaverndarstofa beiðni kæranda um fósturleyfi. Ákvörðun Barnaverndarstofu var kærð til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem vísaði málinu frá. Drengurinn dvaldi hjá kæranda með samþykki foreldra sinna á meðan unnið var að varanlegra úrræði fyrir hann, allt þar til barnaverndarnefnd ráðstafaði honum í fóstur X 2011. Foreldrarnir voru sviptir forsjá drengsins með dómi Héraðsdómi Norðurlands eystra X 2011.

Drengurinn á einn yngri albróður, D fæddan X, sem hefur verið í varanlegu fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því X. Foreldrar voru einnig svipt forsjá hans með dómi.

Barnaverndarnefnd B kvað fyrst upp úrskurð um umgengni drengsins við kæranda 25. maí 2011. Þar var ákveðið að umgengnin yrði fyrsta laugardag í mánuði í fjórar klukkustundir á heimili kæranda eða á hlutlausum stað sem nefndin ákvæði í hvert sinn nema samkomulag yrði um annað. Umgengnin fór fram á grundvelli tilvitnaðs úrskurðar á heimili kæranda, samfellt í fjóra tíma. Yfirleitt var eftirlit af hálfu barnaverndarnefndar við upphaf eða lok umgengninnar. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B 14. desember 2011 ákvað barnaverndarnefnd að stytta umgengni kæranda úr fjórum klukkustundum í tvær og einnig var ákveðið að umgengni færi fram í húsakynnum E að starfsmönnum barnaverndarnefndarinnar viðstöddum. Úrskurðurinn var kærður til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Með úrskurði X 2012 ákvað kærunefndin að umgengni yrði sem fyrr í fjórar klukkustundir en staðfesti umgengnisstað, þ.e. húsnæði E. Kemur meðal annars fram í niðurstöðu úrskurðarins að við ákvörðun um umgengni barns sem væri í fóstri bæri ávallt að horfa til þess hvort umgengni sem ákvörðuð væri gæti á einhvern hátt raskað andlegri líðan barnsins. Drengurinn hafi tengst kæranda sterkum tilfinningaböndum í frumbernsku, en sé nú kominn annað í varanlegt fóstur og verði því að þróa ný geðtengsl við fósturforeldra. Afar varhugavert sé að rjúfa þau sterku tengsl sem hann hafi við kæranda of hratt, og verði það talið þjóna hagsmunum hans best að minnka þau smám saman. Þannig nái drengurinn betur að aðlagast breyttum aðstæðum og mynda ný geðtengsl. Þessu aðlögunarferli drengsins yrði að gefa tíma svo að hann gæti unnið úr þeim miklu breytingum sem orðið hefðu á lífi hans. Þroska drengsins gæti verið hætta búin ef tengsl sem hann hefði myndað í frumbernsku yrðu rofin of snögglega.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B 22. febrúar 2012 var enn úrskurðað í málinu og ákveðið að umgengni yrði þrisvar sinnum árlega í eina og hálfa klukkustund í senn undir eftirliti í húsnæði E. Skyldi umgengni kæranda vera á sama tíma og umgengni kynföður við bræðurna. Í úrskurðinum kemur einnig fram að umgengni kynföður og föðurömmu (kæranda) gæti verið samfellt í allt að þrjá tíma. Forfallaðist annað þeirra eða nýtti ekki umgengistíma sinn væri hinu heimilt að nýta tíma hins, til viðbótar sínum eigin tíma. Sú breyting var gerð á umgengninni 28. ágúst 2013 að umgengnisstaður var fluttur á fósturheimili. Gilti þessi úrskurður um umgengni þar til 14. júní 2017 er hinn kærði úrskurður var kveðinn upp.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að málið hafi nú hafist að frumkvæði starfsmanna Barnaverndarnefndar B sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að umgengni kæranda við barnabarn sitt í varanlegu fóstri væri því ekki til hagsbóta. Vísað sé til 1. og 2. mgr. 74. gr. bvl. þar sem kveðið sé á um rétt þess sem telji sig nákominn fósturbarni til umgengni við það. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til laganna sé áréttað að réttur nákomins aðila til umgengni sé háður því að umgengni sé barninu til hagsbóta. Fram hafi komið umtalsverð vandamál í tengslum við umgengni kæranda og hafi því verið lýst hvernig andstaða kæranda við fóstur og meiðandi athugasemdir í garð fósturföður hafi skapað spennu og óheppilegt andrúmsloft. Þá hafi jafnvægi drengsins raskast í tengslum við umgengnina. Þetta eigi sér nokkuð langa sögu. Að mati barnaverndarnefndarinnar séu því ekki lengur fyrir hendi skilyrði fyrir því að kæranda verði úrskurðuð umgengni við drenginn. Á hinn bóginn sé ekki ástæða til þess að synja kæranda um að fylgja syni sínum, þ.e. kynföður drengsins, til umgengni við drenginn sé það vilji kynföður. Komi það meðal annars til af því að drengurinn hafi vanist því að hitta þau saman og kynfaðir hafi að jafnaði kosið að hafa móður sína með sér í heimsókn á fósturheimilið. Sé þessarar heimildar getið í úrskurði í máli kynföður.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi ekki lengur umgeng[n]i við sonarson sinn, fósturbarnið C, sem aðili nákominn honum“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að hún krefjist þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B 14. júní 2017 verði felldur úr gildi. Kærandi mótmælir úrskurði Barnaverndarnefndar B varðandi umgengni hennar við barnabarn sitt.

Kærandi vísar til þess að hún hafi haft umgengni við drenginn frá því að hann var settur í fóstur. Kærandi hafi verið ósátt en þó hvorki rætt það né látið í ljós við drenginn til að auka ekki vanlíðan hjá honum. Kærandi hafi ætíð og muni alltaf hafa hagsmuni drengsins í fyrirrúmi sem hafi þó reynst henni erfitt, sérstaklega í ljósi þess hver tengsl þeirra séu og hafi verið. Að mati kæranda hafi Barnaverndarnefnd B af fremsta megni reynt að slíta þau tengsl.

Kærandi hafi aldrei brotið gegn úrskurðum barnaverndarnefnda þrátt fyrir ófagleg og óvönduð vinnubrögð þeirra. Þá hafi hún ekki heldur farið og fylgst með drengnum til dæmis á æfingu, þó að slíkt sé ekki hægt að banna henni nema með dómsúrskurði, til að hafa sem minnst truflandi áhrif á líf hans.

Í skýrslu eftirlitsmanna sem viðstaddir hafi verið umgengni komi ekkert fram nema þessi svokallaða aðstæðubundna hegðun, en það sé að drengurinn nuddi saman höndum þegar hann sé spenntur. Ástæða þess að kærandi hafi spurt ítrekað hvort þetta hafi verið kannað sé sú að bæði einhverfa, tourette og athyglisbrestur hafi greinst í ætt hennar. Þó að drengurinn sé spenntur og sýni tilfinningar, hvort sem um sé að ræða handahreyfingar eða annað, telur kærandi það eðlilegt þar sem hann sé aðeins X ára. Þá dragi kærandi stórlega í efa að drengurinn sýni fyrrgreindar handahreyfingar einvörðungu þegar kærandi komi.

Það ætti að vera sjálfsagður réttur drengsins að á hann sé hlustað og að fagmaður ræddi við hann um hans langanir því oft og iðulega spyrji hann kæranda að því hvort hún vilji ekki koma í afmæli og hvort hann megi ekki koma í heimsókn. Kærandi hafi reynt að snúa sér út úr þessu með því að segja að hann gæti fengið að koma þegar hann yrði eldri og einnig að kærandi kæmi bara þegar afmælið væri búið. Þá bæti eftirlitsmenn með umgengni við skýrslu sína í viðauka að því fleiri sem heimsóknir hafi verið, því minna hafi borið á aðstæðubundinni hegðun. Það segi sig sjálft og greinilegt að það hafi alls ekki slæm áhrif á drenginn að umgangast sig.

Kærandi telur tengsl drengsins við sig sterkari en tengsl drengsins bæði við kynmóður og kynföður þar sem kærandi hafi fylgst með honum frá því að hann hafi verið í móðurkviði. Hún hafi einnig verið daglegur gestur á heimili barnsins í X ár, þ.e. eftir að hann fæddist og þar til hún hafi tekið hann í fóstur. Það sé að mati kæranda óásættanlegt að svipta drenginn þessum sjálfsagða rétti einvörðungu vegna ummæla aðila sem hafi lýst yfir eindregnum vilja til að útiloka ættmenni hans, og sérstaklega kæranda, þar sem tengslamyndun þeirra sé sterk.

Kærandi sé ekki að öllu leyti sammála því sem komi fram í skýrslu eftirlitsmanna með umgengni, þar á meðal því að D hafi ekki vitað hvaða kona hún væri. Sé það vegna þess að þau syngi alltaf lag sem heiti amma gamla.

Það sé gersamlega út úr kortinu að fá aðeins að hitta barnabörn sín þrisvar sinnum á ári. Það sé skammarlegt að ætla að svipta drengina þeim heimsóknarrétti einvörðungu þar sem þeir hlakki til.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem barst nefndinni 5. desember 2017, kveður kærandi rétt að hún haft afskipti af aðlögun C en það hafi ekki komið til af góðu. Þegar kærandi hafi mætt á fund með fósturforeldrum og starfsmanni barnaverndarnefndarinnar hafi komið fram að fósturforeldrarnir hefðu farið tvisvar sinnum í heimsókn í leikskólann en engin áætlun hafi legið fyrir um framhaldið. Þá hafi kærandi sagt stopp. Hún hafi farið fram á að koma sjálf með drenginn í heimsókn til fósturforeldranna. Einnig myndi hún koma aftur og skilja hann eftir svo að hann gæti snætt með fósturforeldrum og myndi að minnsta kosti þekkja til áður en hann yrði rifinn í burtu og hent á nýjan stað. Þótt kærandi væri mótfallin því að drengurinn yrði settur í fóstur vildi hún að honum yrði gert það eins auðvelt og hægt væri.

Á fyrsta mánuðinum eftir að drengurinn hafi farið í fóstur hafi kærandi farið þrisvar sinnum í heimsóknir á fósturheimilið og ekki verið nema tvo tíma í senn. Það hafi alltaf verið augljóst hjá fósturforeldrum að þau kærðu sig ekki um nein samskipti við ættingja drengsins.

Kærandi hafi aldrei breitt út sögur en aftur á móti hafi hún talað um staðreyndir. Barnavernd telji ekki sniðugt að einhver mótmæli henni, þrátt fyrir að geta bæði rökstutt og sannað hluti.

Fósturforeldrar hafi kvartað undan myndum sem kærandi hafi átt að hafa tekið inni á heimili þeirra. Kærandi hafi tekið eina mynd á meðan hin amman og afinn hafi tekið 100. Eins og von sé hafi starfsmaður barnaverndarnefndar gert mikið úr þessu en kærandi hafi aldrei sætt sig við að logið sé upp á sig. Þegar fósturfaðir drengsins hafi ætlað að smjaðra fyrir kæranda hafi hún sagt honum sína meiningu. Drengurinn hafi ekki verið nálægt því að kynfaðir hafi verið að kveðja hann. Fyrst í stað hafi stundum tekið um 10 til 15 mínútur að kveðja því að þegar litlar hendur hafi verið lagðar um hálsinn á kæranda og drengurinn hafi spurt hvort hann mætti koma heim þá rífi maður hann ekki í burtu. Maður setji upp svip og reyni að gera sitt besta til að sýnast glaður og tala um að við hittumst bráðum aftur og reynir að hafa barnið eins sátt og hægt sé.

Í tvö skipti hafi kærandi ekki nýtt umgengni. Að þurfa að sæta því að umgengni sé á heimili aðila sem logið hafi upp á þig setji þig í þá hættu að það gerist aftur en eins og reynslan hafi sýnt þá sé gjörsamlega ómögulegt að reyna að fá sanngjarna málsmeðferð.

Kærandi telji tiltekinn starfsmann barnaverndarnefndar lygara og hún sé nokkuð viss um að ef gerð væri rannsókn þá kæmi ýmislegt miður fallegt í ljós. Starfsmaðurinn sé veruleikafirrtur og byggi kærandi það á því að hann haldi að hann þurfi ekki að fara eftir lögum. Kærandi hafi kært starfsmanninn til Barnaverndarstofu fyrir óviðurkvæmilegt athæfi en Barnaverndarstofa haldi hlífiskyldi yfir sínum.

Kærandi telur ekki skipta máli hvorki hvað henni né fósturforeldrum finnst. Það sé réttur drengsins að umgangast fólkið sitt og eins og barnavernd viðurkenni hafi kærandi verið sú móðurmynd sem hann hafði.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 16. október 2017 er vísað til þess að mat af því tagi sem hér um ræði sé ekki einfalt og geti verið umdeilanlegt. Þannig sé það meðal annars háð þeim skilningi sem lagður sé í orðin „barninu til hagsbóta“ þegar fjallað sé um umgengni aðila sem ekki sé kynforeldri barns. Við túlkun viðeigandi ákvæða bvl. fari ekki á milli mála að beinlínis þurfi að sýna fram á að umgengi slíks aðila sé barninu holl og ánægjuleg og samræmist að öðru leyti þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun barns í fóstur. Ríki vafi á um það þurfi að gera breytingar á umgengninni. Staða fósturbarna sé almennt viðkvæmari en annarra barna og eigi þau því að njóta verndar í þessu efni.

Drengurinn hafði verið í umsjá kæranda um X mánaða skeið þegar hann hafi farið í núverandi fóstur í X 2011, þá rétt orðinn X ára. Kærandi hafi verið mjög andvíg fósturráðstöfun. Hún hafi meðal annars lýst yfir vilja til þess að aðstoða son sinn til að sjá um drenginn en einnig sótt um leyfi til Barnaverndarstofu til að taka barnið í fóstur en hafi verið synjað um slíkt leyfi.

Í upphafi fóstursins hafi kærandi haft nokkuð mikla umgengni við drenginn. Sjálf hafi hún fallist á að vinna með barnavernd og fósturforeldrum að aðlögun hans og hún hafi líka að nokkru leyti haft milligöngu um umgengni drengsins við kynforeldrana. Hafi þetta verið talið heppilegt til skamms tíma, meðal annars til að halda ákveðinni ró í því uppnámi sem gjarnan verði þegar barni sé ráðstafað í fóstur gegn vilja foreldra og annarra ættmenna. Eftir á að hyggja megi vera að þetta hafi verið óvarlegt, enda hafi svo farið að kærandi varð tíðari gestur á fósturheimilinu en æskilegt var. Ekki hafi tekist að ná samkomulagi við kæranda um umgengni sem samræmdist betur markmiðum með fóstrinu að mati barnaverndar og hafi því þurft að úrskurða um málið X eftir að drengurinn hafi farið í fóstur.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B 25. maí 2011 segi svo um afstöðu kæranda annars vegar og fósturforeldra drengsins hins vegar um umgengnina:

„Sjónarmið föðurömmu: Föðuramma barnsins hefur lagt fram óskir um umgengni við barnabarn sitt, a.m.k. eina helgi í mánuði, frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns. Einnig sé hún tilbúin að taka hann í gæslu yfir nótt, ef þörf krefur. Almennt kveðst hún óska eftir sem mestri umgengni; sterk tengsl hafi myndast milli hennar og barnsins og engin rök séu fyrir því að rjúfa þau. A kveðst vera tilbúin að ljá báðum foreldrum barnsins aðstöðu á sínu heimili til að umgangast barnið þar, ef barnaverndarnefnd kýs svo, en hún gerði kröfu um aðgreinda umgengni fyrir sig við barnið.

Sjónarmið fósturforeldra: Í greinargerð fósturforeldra barnsins [...], er bent á að það valdi róti á högum hins unga barns að færa það milli ólíkra heima þegar það er að aðlagast nýju heimili og geti slíkar breytingar gert barnið ringlað og óöruggt. Þau lýsa því að barnið hafi verið mjög þreytt eftir síðustu umgengni sem að hluta hafi farið fram á venjulegum svefntíma þess og að e.t.v. sé slík umgengni við mörg ættmenni í einu sem vari í heila sex tíma því of erfið. Afstaða þeirra er sú að umgengnin skuli takmarkast við eitt skipti á fjögurra vikna fresti meðan beðið er niðurstöðu dómstóla. Sú meginregla útiloki þó ekki óformlegar heimsóknir ömmu barnsins á heimili barnsins.“

Megi segja að allar götur síðan hafi ríkt mikill ágreiningur um umgengnina. Þótt því sé ekki haldið fram að umgengni barnsins við kæranda hafi alltaf gengið illa, hafi áhyggjur af því að umgengnin væri barninu stundum mjög erfið, verið áleitnar. Komi þar við sögu upplýsingar um óyndi, skapsveiflur, mikla þreytu og svefntruflanir drengsins í kjölfar umgengni. Slík áhyggjuefni hafi oftsinnis verið rædd við kæranda en ekki tekist að semja við hana um breytingar sem væru líklegar til þess að minnka álag á drenginn. Hafi þar meðal annars komið til sú trú kæranda að drengurinn þráði í raun meiri umgengni við hana og að þar væri lausnarinnar að leita. Umgengni kæranda hafi stundum verið í neikvæðu, jafnvel fjandsamlegu andrúmslofti sem valdi streitu og geti því ekki talist drengnum hagfellt.

Af hálfu barnaverndar hafi verið ákveðinn skilningur á afstöðu kæranda fyrst eftir að drengurinn hafi farið í fóstur, enda hafi á margan hátt mátt líkja stöðu hennar við stöðu foreldris sem misst hefði forsjá barns síns. Hafi kæranda verið boðin fagleg aðstoð til að glíma við þetta áfall sem hún hafi þó ekki þegið.

Um hríð hafi orðið hlé á umgengni kæranda við drenginn eftir X 2013 þar sem hún hafi ekki viljað koma á fósturheimilið. Seinna hafi sú afstaða hennar breyst og hún farið að mæta til umgengninnar á nýjan leik. Allt að einu hafi kærandi með margvíslegum hætti reynt að vinna gegn þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með fóstri drengsins. Það er mat barnaverndarnefndar að velferð barnsins sé betur tryggð í varanlegu fóstri án fastrar umgengni við kæranda, enda hafi kynforeldrar umgengni við drenginn, þótt takmörkuð sé.

Barnaverndarnefnd B gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 6. nóvember 2017 kemur fram að C hafi komið til þeirra í fóstur er hann var X ára en bróðir hans, D, X.

Frá upphafi hafi kynfaðir, kynmóðir og föðuramma haft umgengni við drengina. Barnaverndarnefnd B vilji nú breyta þessu fyrirkomulagi. Sé það byggt á áliti sérfræðinga [...] sem hafi komið í viðveru og umgengni.

Fósturforeldrar geri hvorki athugasemdir við málsmeðferð né niðurstöðu Barnaverndarnefndar B um skertan umgengnisrétt.

VI. Niðurstaða

Málið varðar kröfu kæranda um umgengni við sonarson sinn, C, en hann er X ára gamall og hefur verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum frá X ára aldri. Að mati kæranda er drengurinn tengdari henni en kynforeldrum sínum. Hún telur ásæðu þess að verið sé að svipta drenginn og yngri bróður hans heimsóknum hennar einvörðungu vera þá að þeir hlakki til. Mat Barnaverndarnefndar B er að velferð drengsins sé betur tryggð í varanlegu fóstri án fastrar umgengni við kæranda, enda hafi kynforeldrar umgengni við drenginn, þótt takmörkuð sé.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur komið með syni sínum, kynföður drengsins, í umgengni og þannig hitt bæði C og yngri bróður hans, D, á fósturheimilinu. Meðal gagna málsins er skýrsla eftirlitsmanna frá X 2017 um eftirlit með umgengni við drengina og samskipti eftirlitsaðila við kæranda á tímabilinu X 2015 tilX 2017. Skýrsla eftirlitsmanna er eitt af þeim gögnum sem barnaverndarnefnd studdist við þegar ákvörðun var tekin samkvæmt hinum kærða úrskurði og verður meðal annars byggt á henni við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni.

Eftirlitsmenn hafa verið tveir og er annar þeirra með BA próf í sálfræði en hinn þroskaþjálfi og áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Í skýrslu þeirra kemur fram að kærandi hafi komið ásamt kynföður drengsins til viðstals við eftirlitsmenn X 2015. Á fundinum hafi verið rætt um komandi heimsókn og hvernig hún skyldi vera, til dæmis varðandi gjafir. Best væri að gefa drengjunum gjafir eftir heimsókn svo heimsóknin myndi ekki snúast um gjafir heldur tengsl við drengina. Einnig hafi verið rætt um að gjafir yrðu afhentar eftirlitsmönnum sem myndu láta drengina fá þær eftir umgengni. Á fundinum hafi komið fram hjá kæranda að hún myndi fara að þessu. Kærandi og kynfaðir hafi bæði lýst yfir óánægju með að það yrðu eftirlitsmenn í heimsókninni. Í fyrstu umgengni X 2015 hafi kærandi og kynfaðir komið saman. Þau hafi komið með gjafir sem hafi verið geymdar úti í bíl. Kærandi hafi afhent drengjunum bæklinga úr leikfangabúð og beðið þá að velja sér jólagjafir. Kærandi hafi verið mjög virk í að leika við drengina. Hún hafi kallað yngri drenginn nokkrum sinnum F en ekki D. Borið hafi á aðstæðubundinni hegðun C sem sé lýst sem „handakippum“ en hann hafi sýnt þessa hegðum eftir um 20 mínútna umgengni en ekki hafi borið á henni eftir umgengni. C hafi verið mjög æstur meðan á heimsókninni stóð. Á fundi fyrir aðra umgengni í X 2016 hafi verið minnt á að koma ekki með gjafir í umgengni. Þau hafi þó komið með eina gjöf handa hvorum dreng. Kærandi hafi tekið mikið af myndum og myndböndum af drengjunum og einnig sýnt þeim myndir af frændsystkinum þeirra. Kærandi hafi rætt um greiningar og spurt hvort C væri einhverfur vegna mikilla handahreyfinga (aðstæðubundin hegðun) en mikið hafi borið á aðstæðubundinni hegðun C í umgengni. Kærandi hafi afþakkað fund fyrir þriðju umgengni í X 2016 en verið bent á það símleiðis að gjafir væru ekki í boði. Kærandi hafi tekið fram að hún ætlaði að koma með vatnsblöðrur og -byssur því hún væri búin að lofa drengjunum því. Hún hafi komið með blöðrurnar og sagt drengjunum að hún væri með stórar vatnsbyssur úti í bíl sem þeir fengju að lokinni heimsókn. Kærandi hafi leikið mikið við drengina. Ekki hafi borið jafn mikið á aðstæðubundinni hegðun C og áður. Fyrir fjórðu umgengni í X 2016 hafi enn verið minnt á að koma ekki með gjafir en kærandi hafi ekki farið að því. Kærandi hafi komið ein í fimmtu umgengni í X 2017 en kynfaðir drengjanna sat þá í fangelsi. Enn kom kærandi með gjafir. Í lok skýrslu sinnar kemur fram að því fleiri sem heimsóknirnar hafi verið þeim mun minna hafi borið á aðstæðubundinni hegðun C.

Að mati kæranda ætti það að vera sjálfsagður réttur drengsins að á hann sé hlustað og að fagmaður ræddi við hann um hans langanir. Í 2. mgr. 46. gr. bvl. segir að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Við úrlausn þessa máls verður að líta til þess að drengurinn er X ára. Úrskurðarnefndin álítur að hann hafi ekki nægan þroska til að mynda sér skoðun á því hvernig umgengni við kæranda skuli best háttað við þær aðstæður sem uppi eru í málinu og hver áhrif umgengnin við kæranda hefur á hann. Því verður að telja að það þjóni ekki hagsmunum hans að hann tjái sig sérstaklega um umgengni við kæranda en yfirvöldum ber að taka ákvörðun um það hvernig lögbundnir hagsmunir hans verði best tryggðir varðandi umgengnina, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við ráðstöfun barns í fóstur skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Ganga verður út frá því að drengurinn hafi tengst kæranda sterkum tilfinningaböndum í frumbernsku og í þeim skilningi verið nákominn henni á þeim tíma er hann dvaldi hjá henni og fyrstu mánuðina eftir það. Á sínum tíma var það talið þjóna hagsmunum drengsins best að minnka tengslin við kæranda smám saman til að hann næði betur að aðlagast breyttum aðstæðum en talið var að þroska drengsins gæti verið hætta búin ef tengsl sem hann myndaði í frumbernsku væru rofin of snögglega. Hann hefur nú verið í varanlegu fóstri í X ár og þróað ný geðtengsl við fósturforeldra.

Varðandi kröfur kæranda um umgengni við drenginn er óhjákvæmilegt að líta til þess hverjir hagsmunir drengsins eru og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hans að njóta umgengni við kæranda.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er hér afar mikilvægt að líta til þess að ágreiningur og erfiðleikar hafa verið í langan tíma í sambandi við umgengni kæranda við drenginn, svo sem gögn málsins bera með sér. Kærandi var andstæð ráðstöfun drengsins í fóstur og hefur framganga hennar í umgengni borið þess merki síðan þá. Framkoma hennar í umgengni hefur stundum raskað jafnvægi drengsins og verið öðrum aðilum málsins erfið. Úrskurðarnefndin telur það ekki vera til hagsbóta fyrir drenginn að umgengni fari fram við þær aðstæður að hún raski ró drengsins og sé þeim sem að henni koma erfið. Líta verður svo á að umgengni sé ekki til hagsbóta fyrir drenginn við þessar aðstæður.

Með hliðsjón af ofansögðu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umgengni drengsins við kæranda sé við núverandi aðstæður honum ekki til hagsbóta . Samkvæmt því og með vísan til þess sem að ofan greinir og til 4. mgr., sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl., ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 14. júní 2017 varðandi umgengni A við sonarson sinn, C, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta