Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 410/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 410/2017

Fimmtudaginn 14. desember 2017

A
gegn
Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 20. september 2017, um synjun á umsókn hans um sérstakan húsnæðisstuðning og umsókn um félagslegt leiguhúsnæði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérstakan húsnæðisstuðning hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 26. apríl 2017. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 4. maí 2017, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði 4. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. september 2017 og staðfesti synjunina. Kærandi sótti einnig um félagslega leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 26. apríl 2017. Með bréfum þjónustumiðstöðvar, dags. 14. september 2017, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði c- og d-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. september 2017 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 23. nóvember 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. nóvember 2017, var greinargerð Reykjavíkurborgar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að hinar kærðu ákvarðanir Reykjavíkurborgar verði felldar úr gildi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sé að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. þurfi staða umsækjanda að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum. Samkvæmt matsviðmiðunum hafi umsókn kæranda verið metin til þriggja stiga, tvö fyrir stöðu umsækjanda, þar sem kærandi sé ellilífeyrisþegi, og eitt stig vegna húsnæðisstöðu en húsnæðiskostnaður hans sé 27,5% af tekjum heimilisins. Félagslegar aðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til stiga þar sem aðstæður væru taldar betri en getið sé um í matsviðmiðunum og ljóst að kærandi hafi ekki fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar á undanförnum 12 mánuðum. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna þurfi samanlagðar tekjur umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, að vera undir efri tekjumörkum samkvæmt 5. gr. reglnanna. Tekjur kæranda séu 354.366 kr. á mánuði sem sé yfir efri tekjumörkum reglnanna. Kæranda hafi því verið synjað um sérstakan húsnæðisstuðning.

Reykjavíkurborg vísar til þess að í 4. gr. reglna sveitarfélagsins um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur séu sett fram tiltekin skilyrði sem uppfylla þurfi til að umsókn um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur taki gildi. Kærandi hafi verið yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglnanna, en þau séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé kveðið á um undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna. Kærandi hafi óskað eftir slíkri undanþágu en það hafi verið mat þjónustumiðstöðvar að skilyrði b-liðar 5. gr. reglnanna væru ekki uppfyllt þar sem kærandi væri ekki í miklum félagslegum erfiðleikum og því hafi þeirri beiðni verið synjað með bréfi, dags. 14. september 2017. Samkvæmt d-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar þurfi umsækjendur að fá að lágmarki fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna sinna, þ.e. tvö vegna húsnæðisstöðu og tvö vegna félagslegs vanda umsækjanda eða sérstakra aðstæðna barna, sbr. matsviðmið. Kærandi sé búsettur í öruggu húsnæði þar sem hann sé með þinglýstan leigusamning til maí 2018. Í ljósi þess nái umsókn hans ekki tveimur stigum vegna húsnæðisstöðu þar sem hann sé hvorki talinn í þörf fyrir húsnæði né að húsnæðisaðstæður séu verulega erfiðar. Þar að auki sé hann ekki metinn með mikinn félagslegan vanda. Því sé ljóst að skilyrði d-liðar 4. gr. reglnanna hafi ekki verið uppfyllt þar sem lágmarksstigafjölda vegna félagslegra aðstæðna hafi ekki verið náð.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun þjónustumiðstöðvar um sérstakan húsnæðisstuðning og synjun á umsókn um félagslegt leiguhúsnæði.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um annars vegar synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning og hins vegar umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 4. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væru ekki uppfyllt. Umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði var synjað á þeirri forsendu að skilyrði c- og d-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík væru ekki uppfyllt. Fyrst verður vikið að synjun Reykjavíkurborgar vegna umsóknar kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur og samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna um framkvæmd stuðnings samkvæmt 2. og 3. mgr. ásamt viðmiðunarfjárhæðum.

Í 6. gr. leiðbeinandi reglna ráðherra frá 30. desember 2016 kemur fram að mat á félagslegum aðstæðum umsækjenda fari að meginstefnu eftir sömu sjónarmiðum og þegar önnur aðstoð sé veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Æskilegt sé að fylgja skráðum matsviðmiðum sem kvarði tiltekin atriði í matinu með stigum. Til viðmiðunar megi setja að umsækjandi þurfi að fá sex stig að lágmarki til að fá sérstakan húsnæðisstuðning. Þá er að finna dæmi um matsviðmið í fylgiskjali 2 með leiðbeiningunum.

Í 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning kemur fram að sérstakur húsnæðisstuðningur sé ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 3. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1. til 6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 4. tölul. þarf staða umsækjanda að vera metin til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum.

Í fyrsta lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna stöðu umsækjanda; þar segir:

0 stig Staða umsækjanda er önnur en getið er hér að neðan

2 stig Örorkulífeyrisþegi með 75% örorkumat

2 stig Ellilífeyrisþegi

2 stig Framfærsla hjá þjónustumiðstöð vegna langvarandi atvinnuleysis eða óvinnufærni

Í öðrum lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna húsnæðisstöðu umsækjanda; þar segir:

0 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er minni en 20% af tekjum heimilisins

1 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 20% af tekjum heimilisins

2 stig Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er verulega íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 30% af tekjum heimilisins

2 stig Óöruggt húsnæði, þ.e. gistir hjá vinum og/eða ættingjum

4 stig Gistir í neyðarathvarfi eða á gistiheimili

4 stig Heilsuspillandi húsnæði samkvæmt mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða húsnæði er sannanlega óíbúðarhæft af öðrum ástæðum og veruleg vandkvæði eru bundin við að finna nýtt húsnæði

Í þriðja lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna félagslegra aðstæðna umsækjanda; þar segir:

0 stig Aðstæður umsækjanda eru betri en getið er hér að neðan

2 stig Umsækjandi glímir við félagslegan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum

4 stig Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu þjónustumiðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum.

4 stig Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði

4 stig Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa

Í gögnum málsins liggur fyrir mat á aðstæðum kæranda. Samkvæmt því var kærandi metinn til tveggja stiga vegna stöðu sinnar en hann er ellilífeyrisþegi. Húsnæðisstaða kæranda var metin til eins stigs þar sem húsnæðiskostnaður væri 27,5% af tekjum heimilisins. Þá var kærandi ekki metinn til stiga vegna félagslegra aðstæðna þar sem talið var að aðstæður hans væru betri en matsviðmiðin tilgreina. Samkvæmt framangreindu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við stigagjöf vegna stöðu og húsnæðisstöðu kæranda, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi ekki við um aðstæður hans. Hvað varðar félagslegar aðstæður kæranda er það mat úrskurðarnefndarinnar að gögn málsins bendi ekki til þess að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi við um aðstæður hans.

Í 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning er einnig gert að skilyrði að samanlagðar tekjur umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, séu undir efri tekjumörkum samkvæmt 5. gr. reglnanna. Samkvæmt gögnum málsins eru tekjur kæranda 354.366 kr. á mánuði og því yfir efri tekjumörkum 5. gr. reglnanna. Samkvæmt framangreindu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Í c-lið 4. gr. reglnanna er kveðið á um tekju- og eignamörk og eru tekjumörk fyrir einhleyping 3.680.475 kr. á ári og auk þess 919.925 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Samkvæmt gögnum málsins voru meðaltekjur kæranda síðastliðin þrjú ár yfir tekjumörkum c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglnanna, eða 3.857.960 kr.

Í d-lið 4. gr. framangreindra reglna Reykjavíkurborgar er gert að skilyrði að umsækjandi skori að lágmarki fjögur stig vegna félagslegra aðstæðna sinna, þ.e. tvö stig vegna húsnæðisstöðu og tvö stig vegna félagslegs vanda eða sérstakra aðstæðna barna, sbr. matsviðmið sem fylgir reglunum. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki metinn til neinna stiga vegna húsnæðisstöðu þar sem talið var að hann væri hvorki í þörf fyrir húsnæði né að húsnæðisaðstæður hans væru verulega erfiðar. Í lið 5 a í matsviðmiði sem fylgir reglunum kemur fram að veitt sé eitt stig ef umsækjandi þurfi á húsnæði að halda, tvö stig ef húsnæðisaðstæður séu verulega erfiðar og þrjú stig ef vart sé mögulegt að bíða eftir húsnæði. Fyrir liggur að kærandi er með húsaleigusamning fram í maí 2018 og hagstæða leigu. Verður því hvorki séð að húsnæðismissir sé yfirvofandi né að um óöruggt húsnæði sé að ræða. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við það að húsnæðisaðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til stiga, enda verður að telja ljóst að kærandi búi í öruggu leiguhúsnæði.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmið en ekki er kveðið á um undanþágu frá viðmiðum um stig vegna húsnæðisstöðu eða félagslegs vanda. Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði d-liðar 4. gr. reglnanna er það mat úrskurðarnefndarinnar að undanþáguákvæði 5. gr. komi ekki til skoðunar í málinu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 20. september 2017, um synjun á umsókn A, um sérstakan húsnæðisstuðning og umsókn um félagslega leiguíbúð eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta