Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 320/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 320/2017

Föstudaginn 8. desember 2017

Agegnumboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 15. ágúst 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. júlí 2017 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 5. september 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. september 2017. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi og tölvupósti 23. nóvember 2017 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 24. nóvember 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1943. Hún er einstæð og býr hjá dóttur sinni. Ráðstöfunartekjur kæranda nema að meðaltali 282.575 krónum á mánuði en þær eru frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum.

Eftir að íbúð kæranda var seld nauðungarsölu á uppboði X 2016 námu heildarskuldir hennar 10.736.621 krónu samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá júlí 2017. Þar af falla skuldir við LÍN að fjárhæð 7.866.088 krónur utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Innan greiðsluaðlögunar falla því skuldir að fjárhæð 2.870.533 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og veikinda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. júlí 2011 var kæranda fyrst veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru svo felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júní 2013. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 17. september 2015 (mál nr. 110/2013). Kærandi lagði í annað sinn fram umsókn um greiðsluaðlögun 13. maí 2016 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2016 var umsókn hennar hafnað. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi og sendi málið til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju með úrskurði 11. janúar 2017 (mál nr. 246/2016). Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júlí 2017 var umsókn kæranda hafnað á ný þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þeirri ákvörðun hefur kærandi nú skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og er sú kæra til meðferðar í máli þessu.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á endurupptöku á máli sínu hjá umboðsmanni skuldara. Skilja verður þetta svo að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa staðið við alla skilmála umboðsmanns skuldara í fyrra máli sínu. Hún hafi allan tímann verið látin halda að hún væri þarna inni og að verið væri að vinna í máli hennar. Svo hafi þó ekki verið þannig að öll hennar viðleitni og vinna hafi að engu orðið. Hefði kæranda grunað hvert stefndi hefði hún ekki farið þessa leið. Þá tekur kærandi fram að á sínum tíma hefði hún getað selt íbúð sína og einnig getað leigt út heimili sitt og þannig komist yfir greiðsluerfiðleikana.

Nú hafi íbúð kæranda hækkað í verði svo um muni og þeir hjá Íbúðalánasjóði sjái sér leik á borði. Þeir haldi því fram að hún hafi ekki verið í þessu ferli hjá umboðsmanni skuldara en samt sé hún þar á bæ í viðræðum. Einnig fái hún að kæra áfram. Á meðan á öllu þessu gangi hækki bæði lán og vextir sem kærandi hefði getað ráðið við hefði hún vitað betur. Þarna sé henni settur stóllinn fyrir dyrnar og hún fái ekki að verja sig eða tala við nokkurn mann hjá umboðsmanni skuldara allan þennan tíma en sé samt alltaf að fá pappíra þess efnis að kæra.

Margir hafi lokast þarna inni og eigi um sárt að binda eins og kærandi. Þeir hafi allir unnið sína vinnu sem sjá megi af gögnum frá umboðsmanni skuldara. Nú hafi kæranda verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fyrir að hafa ekki gert grein fyrir rúmlega 3.000.000 króna. Það geti þó ekki staðist þar sem hún hafi aðeins 50.000 krónur á mánuði til ráðstöfunar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun frá 13. maí 2016 verði að líta til þess að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, vegna samþykkis á fyrri umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi varað frá 31. desember 2010 til 17. september 2015 þegar úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi markað lok greiðsluskjólsins. Alls hafi greiðsluskjólið staðið yfir í 57 mánuði og á þeim tíma hafi kæranda borið að uppfylla skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge.

Á fundi kæranda með starfsmanni umboðsmanns skuldara 2. maí 2016 hafi kærandi greint frá því að hún hefði ekkert lagt til hliðar á fyrrgreindum 57 mánuðum í greiðsluskjóli. Í fyrirliggjandi umsókn komi fram að kærandi hafi ráðstafað öllu aukafé til dætra sinna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2016 hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun. Ákvörðunin hafi byggst á þeim forsendum að kæranda hefði borið að leggja til hliðar 3.638.540 krónur á tímabili greiðsluskjóls, sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í ljósi þess að hún hafi ekkert lagt fyrir á því tímabili hafi verið talið óhæfilegt að samþykkja umsókn hennar um greiðsluaðlögun en að mati umboðsmanns hefði kærandi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og henni hafi framast verið unnt, sbr. f- lið 2. mgr. 6. gr. lge., með því að sinna ekki lögboðinni skyldu sinni um að leggja fyrir í greiðsluskjólinu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi fellt ákvörðun umboðmanns skuldara úr gildi með úrskurði 11. janúar 2017. Í úrskurðinum komi fram að við meðferð málsins hafi kærandi fullyrt að hún hefði ekki lagt fyrir í samræmi við skyldur sínar í greiðsluskjóli. Þá hafi hún að eigin sögn ráðstafað fjármunum umfram framfærslukostnað til uppkominna dætra sinna. Úrskurðarnefndin hafi tekið fram að umboðsmaður skuldara byggði ákvörðun sína í málinu á þessum yfirlýsingum kæranda en að mati nefndarinnar hefði verið nauðsynlegt að afla frekari gagna um fjárhag kæranda á þeim tíma er hún sótti um greiðsluaðlögun. Þá hafi úrskurðarnefndin tekið sérstaklega fram að í málinu lægju ekki fyrir yfirlit yfir bankareikninga sem upplýst gætu um fjárhag kæranda. Ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi því verið felld úr gildi af þessum sökum og send til meðferðar hjá embættinu að nýju.

Umboðsmaður skuldara hafi tekið málið til vinnslu að nýju og aflað upplýsinga um bankainnstæður kæranda 17. september 2015, þegar greiðsluskjóli hafi lokið, og einnig 13. maí 2016, þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi borist. Bankainnstæður hafi verið eftirfarandi:

Dags. Landsbankinn Arion banki Íslandsbanki Samtals
17.9.2015 62.271 167 73.977 136.415
13.5.2016 82.654 168 0 82.822

Í bréfum umboðsmanns skuldara til kæranda 7. mars og 12. júní 2017 hafi framangreindar upplýsingar verið kynntar fyrir henni. Þá hafi komið fram í bréfinu að upplýsingarnar virtust staðfesta fullyrðingar kæranda um að hún hefði ekki lagt fyrir í fyrrnefndu greiðsluskjóli. Enn fremur hafi komið fram að samkvæmt þessu virtist ástæða til að synja umsókn hennar að nýju með vísan til sömu atvika og röksemda og fram hafi komið í ákvörðun embættisins 16. júní 2016.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. komi fram að skuldari megi ekki láta af hendi eða veðsetja eignir (þar á meðal fjármuni), sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla, á meðan frestun greiðslna standi yfir.

Greiðsluskjól kæranda vegna fyrra greiðsluaðlögunarmáls hafi staðið yfir í rúmlega 57 mánuði en sem fyrr segi sé miðað við tímabilið frá janúar 2011 til september 2015.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 155.332 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við framfærsluviðmið í maí 2016 fyrir fullorðinn einstakling eins og gert hafi verið í ákvörðuninni 16. júní 2016.

Samkvæmt gögnum málsins hafi ráðstöfunartekjur kæranda alls verið 12.492.464 krónur á umræddu tímabili að meðtöldum vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu. Upplýsingar um laun byggist eftir atvikum á staðgreiðsluskrá og skattframtölum en upplýsingar um aðrar tekjur á skattframtölum eða gögnum frá Tryggingastofnun og öðrum opinberum aðilum. Tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal vaxtabótum og greiðslum frá Tryggingastofnun. Þá sé lagt til grundvallar að mismunur meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar sé reiknaður út og sú fjárhæð nefnd greiðslugeta.

Alls sé áætlað að kærandi hefði átt að leggja fyrir 3.638.540 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 23. maí 2016 þar sem ofangreindar upplýsingar hafi verið kynntar fyrir henni og henni veittur 15 daga frestur til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Í svari kæranda hafi meðal annars komið fram að hún teldi bifreiða- og tannlæknakostnað sem og annan framfærslukostnað, auk veikinda sinna, hafa valdið því að hún hefði ekki lagt fé til hliðar. Þá hafi hún aðstoðað dætur sínar en ætti ekki kvittanir fyrir þeim kostnaði.

Kærandi hafi lagt fram ýmsar greiðslukvittanir en flestar séu þær frá árunum 2008 og 2009, þ.e. áður en kærandi fór í greiðsluskjól. Þær hafi því ekki haft þýðingu við skoðun á því hvernig tekjum í greiðsluskjóli hafi verið ráðstafað. Vegna þess tímabils sem hér sé til athugunar hafi kærandi lagt fram kvittanir og millifærslur vegna kostnaðar samtals að fjárhæð 144.554 krónur, auk kvittunar vegna tannviðgerða dóttur sinnar að fjárhæð 16.240 krónur. Einnig hafi kærandi lagt fram afrit af bílasamningi, læknisvottorð og fleira.

Eins og fram sé komið hafi verið sóttar upplýsingar um bankainnstæður kæranda 17. september 2015, þegar greiðsluskjóli hafi lokið og 13. maí 2016, þegar ný umsókn um greiðsluaðlögun hafi borist. Þessar upplýsingar hafi verið kynntar fyrir kæranda með bréfum 7. mars og 12. júní 2017.

Í svari kæranda 29. júní 2017 komi fram að hún hafi þegar lagt fram gögn vegna málsins. Þá fullyrði kærandi að hún hafi „....alfarið farið að lögum sem ég undirritaði í byrjun þessa ferils og þar með staðið við samning þann er ég undirritaði í byrjun alls þessa“. Kærandi hafi einnig greint frá því að hún hafi sett „...allar mínar eigur undir til ykkar og í öllu þessu ferli hlóðust upp svimandi háir vextir og skuldir.“ Hún taki fram að „jólin 2008 var ég með allt í skilum í góðri vinnu og set síðan allt traust mitt á Umboðsmann Skuldara...“ og að ef hún hefði vitað í hvað stefndi hefði hún getað sett fasteign sína á sölu. Hún hafi hins vegar verið „múlbundin og gat mig ekki hreyft í endalausri bið eftir svari og úrlausn hjá Umboðsmanni Skuldara, og á meðan hækkuðu öll lán og gat ég ekki borgað mátti það ekki verandi þarna innanbúðar!“ Varðandi ráðstöfun fjármuna í greiðsluskjóli segi kærandi „.. og eins og ég hef margítrekað og áréttað í öllu þessu ferli stóð ég að sjálfsögðu vaktina með börnum og barnabörnum þar sem þau misstu allt í hruninu sem og einnig núna í framhaldinu ná endar ekki saman hjá fátæku barnafólki á Íslandi því miður, svimandi há húsaleiga þar sem barnafólk hefur ekki annan kost á þessu landi og er ekki gert kleift að koma yfir sig þaki sorgleg staðreynd sem virðist ekki vera að taka enda, og mun ég standa vaktina áfram meðan ég stend í fæturnar sama hvað og ef það er einhver afgangur þá fá þau það áfram sem er ekki mikið en dugar þegar vantar bæði mat og bleyjur einnig húsaleigu svo þau verði ekki borin út á guð og gaddinn....“. Þá hafi fylgt yfirlýsing frá dóttur kæranda þar sem fram komi að „...á árunum eftir hrun þurftum við ég og dætur mínar að leita eftir aðstoð í neyð okkar vegna bágra kjara og leitaði ég þá til móður minnar A“.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar í fyrra máli hennar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Svo sem fram sé komið hafi hvílt á kæranda skylda til að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og ráðstafa ekki þeim eignum sem hefðu getað nýst kröfuhöfum sem greiðsla, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærandi átt að geta lagt fyrir 3.638.540 krónur á fyrrnefndu tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu virðist ljóst að verulega vanti upp á að kærandi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge., enda vanti 3.501.952 krónur upp á sparnað hennar.

Kærandi hafi haldið því fram að hún hafi ráðstafað meginhluta fjárhæðarinnar sem henni bar að leggja til hliðar til að aðstoða uppkomnar dætur sínar. Hún hafi þó aðeins lagt fram gögn sem sýni greiðslu slíks kostnaðar að fjárhæð 16.240 krónur eftir að greiðsluskjólið hófst. Það sé aðeins á færi kæranda að afla gagna til stuðnings þessum fullyrðingum hennar. Önnur gögn frá henni sýni ekki fram á markverð viðbótarútgjöld vegna framfærslu. Hún hafi auk þess lagt fram gögn frá Tryggingastofnun um þátttöku stofnunarinnar í kostnaði vegna tannviðgerða dóttur sinnar og gögn sem sýni samskipti sín við Tryggingastofnun. Tilgreind gögn sýni ekki með beinum hætti fram á að kærandi hafi greitt einhvern tiltekinn kostnað. Hún hafi nú til viðbótar lagt fram yfirlýsingu 28. júní 2017 frá dóttur sinni þess efnis að hún hafi leitað til kæranda og óskað eftir aðstoð hennar vegna bágra kjara.

Að mati umboðsmanns skuldara verði að telja að upplýsingarnar sem liggi fyrir um bankainnstæður kæranda staðfesti fullyrðingar hennar um að hún hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli. Þá styðji framangreind yfirlýsing 29. júní 2017 frásögn kæranda um að hún hafi ráðstafað fjármunum til dætra sinna. Til þess beri að líta að kæranda hafi lögum samkvæmt borið að halda 3.501.952 krónum til haga og henni hafi verið óheimilt að ráðstafa þessum fjármunum. Þá sé sérstaklega til þess að líta að fjárhæðin sem kærandi hafi ráðstafað sé verulega há. Telja verði að með því að standa ekki við skyldur sínar á meðan frestun greiðslna hafi staðið og með því að ráðstafa tilgreindum fjármunum til annars en greiðslu skulda hafi kærandi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og henni hafi framast verið unnt.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn þyki óhæfilegt að samþykkja hana þar sem skuldari hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og honum hafi framast verið unnt. Í athugasemdum við 2. mgr. 6. gr. lge. sem fylgt hafi frumvarpi til laganna komi fram að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Af orðalagi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði ráðið að gera megi þá kröfu til umsækjenda um greiðsluaðlögun að þeir hafi í aðdraganda umsóknar um greiðsluaðlögun gert það sem í þeirra valdi hafi staðið til þess að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Sem fyrr segi hafi kærandi notið greiðsluskjóls á tímabilinu 31. desember 2010 til 17. september 2015. Í því felist meðal annars að kröfuhöfum hafi verið óheimilt að innheimta kröfur sínar á hendur henni á tilgreindu tímabili og af þeirri ástæðu hafi skapast töluvert svigrúm fyrir kæranda til að leggja fyrir fjármuni. Fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að hún hafi haft tök á að leggja fyrir 3.638.540 krónur en hafi aðeins lagt fyrir 136.415 krónur. Almennt verði að ætla að skuldari sem leitast við að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og honum sé „framast unnt“ í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. muni nýta svigrúmið til að leggja fyrir fjármuni og nota þá síðan til greiðslu skulda þegar greiðsluskjóli ljúki.

Í þessu máli hafi kærandi nýtt allt það fjárhagslega svigrúm sem greiðsluskjólið hafi skapað henni til annars en greiðslu skulda. Hún hafi heldur ekki sýnt fram á að hún hafi nýtt fjármunina til greiðslu á nauðsynlegum framfærslukostnaði sínum. Af þessum sökum hafi hún aðeins átt 136.415 krónur í stað rúmlega 3.600.000 króna til að greiða af skuldum sínum þegar greiðsluskjóli hafi lokið. Þannig virðist útilokað að líta megi svo á að hún hafi reynt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og henni hafi framast verið unnt í aðdraganda þess að hún sótti um greiðsluaðlögun að nýju 13. maí 2016. Jafnframt verði að telja að samkvæmt þessu beri kærandi með háttsemi sinni sjálf töluverða ábyrgð á þeirri alvarlegu fjárhagsstöðu sem hún sé nú í.

Þess sé einnig að geta að ef skuldsettur einstaklingur sem ekki nyti greiðsluskjóls myndi um langt skeið nýta allar tekjur sínar umfram framfærslukostnað til annars en greiðslu skulda og sækja síðan um greiðsluaðlögun væru almennt miklar líkur á því að umsókn viðkomandi yrði synjað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Að mati embættisins verði að telja að sama eigi að gilda um einstakling sem sæki um greiðsluaðlögun í annað sinn eftir að hafa verið í greiðsluskjóli í fyrra máli. Annað myndi leiða til óeðlilegs ójafnræðis umsækjenda um greiðsluaðlögun.

Enn fremur þyki rétt að taka fram að væri ekki horft til þess hvernig einstaklingar í greiðsluskjóli nýti það fjárhagslega svigrúm sem greiðsluskjól skapi þeim, þegar metið sé hvort þeir hafi reynt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins þeim hafi verið „framast unnt“ í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., virtist slíkt geta leitt til þess að óheiðarlegir einstaklingar gætu notið greiðsluskjóls út í hið óendanlega. Viðkomandi gæti þannig brotið gegn tilgreindum skyldum sínum í greiðsluskjóli, sem myndi leiða til niðurfellingar máls, og sótt strax um greiðsluaðlögun að nýju. Ljóst sé að slíkt samræmist ekki tilgangi laga um greiðsluaðlögun og að óhæfilegt sé að samþykkja umsóknir um greiðsluaðlögun við þessar aðstæður. Telja verði að f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé ætlað að koma í veg fyrir að þessi staða komi upp.

Að öllu ofangreindu virtu telur umboðsmaður skuldara óhæfilegt að samþykkja umsókn kæranda og því hafi umsókninni verið synjað með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer þannig fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umboðsmaður skuldara telji óhæfilegt að samþykkja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og er henni synjað með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Kærandi sótti fyrst um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 29. desember 2010 og þann dag hófst tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lge., sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. lge. Umsókn kæranda var samþykkt 28. júlí 2011 og var henni skipaður umsjónarmaður. Kærandi féllst ekki á þá ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., að selja íbúð sína í greiðsluaðlögunarferli og voru greiðsluaðlögunarumleitanir hennar því felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. júní 2013. Þessa ákvörðun kærði kærandi til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Kærunefndin kvað upp úrskurð 17. september 2015 og staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þar með féll greiðsluskjól kæranda niður samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. lge. og lauk þá einnig heimild hennar til að ná samningi við kröfuhafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lge.

Kærandi sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 13. maí 2016 eða um átta mánuðum eftir að fyrra mál hennar var fellt niður. Umsókn kæranda var hafnað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2016. Þessa ákvörðun kærði hún til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi og sendi málið til meðferðar hjá embættinu að nýju. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júlí 2017 var umsókn kæranda hafnað á ný. Þeirri ákvörðun hefur kærandi nú skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og er sú kæra til meðferðar í máli þessu.

Við meðferð síðara málsins hjá umboðsmanni skuldara kvaðst kærandi ekki hafa lagt fyrir í samræmi við skyldur sínar á tímabili fyrra máls. Af stöðuyfirliti yfir bankareikning hennar má sjá að þegar greiðsluskjóli vegna fyrra málsins lauk 17. september 2015 átti hún alls 136.415 krónur inni á bankareikningum. Þegar kærandi sótti aftur um greiðsluaðlögun 13. maí 2016 námu innstæður á bankareikningum hennar 82.822 krónum. Þá hefur kærandi greint frá því að á meðan hún naut greiðsluskjóls á tímabili fyrra málsins hafi hún ráðstafað því fé sem hún átti aflögu umfram framfærslukostnað til uppkominna dætra sinna.

Á þeim tíma er kærandi sótti um greiðsluaðlögun í fyrra skiptið í lok árs 2010 var hún í vanskilum við Íbúðalánasjóð og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna skulda sem hvíldu á fasteign hennar. Þá var hún jafnframt í vanskilum við Íslandsbanka hf. vegna bílaláns og Landsbankann hf. vegna skuldabréfs og yfirdráttarlána. Þessi vanskil námu samtals 12.632.689 krónum og voru frá árinu 2010. Skuld kæranda hjá LÍN var í skilum en skuldir vegna námslána falla utan greiðsluaðlögunar samkvæmt 3. gr. lge.

Þegar fyrri umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var móttekin hjá Embætti umboðsmanns skuldara komst hún í svokallað greiðsluskjól sem hafði þær afleiðingar að kröfuhöfum þeirra krafna sem féllu undir greiðsluaðlögun var óheimilt að krefja kæranda um greiðslu og einnig að taka við greiðslu frá henni. Afborganir og vextir sem féllu í gjalddaga á tímabili greiðsluskjóls söfnuðust því upp en þá fjármuni sem kærandi hafði aflögu umfram framfærslukostnað í greiðsluskjólinu bar henni skylda til að leggja til hliðar til að geta greitt upp í skuldir þegar greiðsluskjóli lyki og að því kæmi að semja við kröfuhafa. Þá sendi Embætti umboðsmanns skuldara kæranda bréf, dagsett 27. nóvember 2012, þar sem áhrif greiðsluskjóls voru útskýrð og athygli vakin á því hverjar skyldur skuldara í greiðsluskjóli væru. Í því bréfi kom meðal annars fram að hvers kyns fjárhagsleg aðstoð við þriðja mann félli undir brot á þeim skyldum.

Svo sem fyrr greinir lauk greiðsluskjóli kæranda 17. september 2015 þegar staðfest var sú ákvörðun umboðsmanns skuldara að fella niður heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar þar sem hún vildi ekki fara að tilmælum umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum um að selja íbúð sína til að greiða niður skuldir. Tekjur hennar á tímabili greiðsluskjóls voru eftirfarandi:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.440.371
Mánaðartekjur alls að meðaltali 203.364
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.321.250
Mánaðartekjur alls að meðaltali 193.438
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.480.478
Mánaðartekjur alls að meðaltali 206.707
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.665.344
Mánaðartekjur alls að meðaltali 222.112
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. ágúst 2015: Átta mánuðir
Nettótekjur 1.782.074
Mánaðartekjur alls að meðaltali 222.759
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.689.517
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 208.741

Á tímabili greiðsluskjóls bar kæranda að leggja fyrir í samræmi við neðangreinda útreikninga:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2016: 56 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.689.517
Vaxtabætur 2011 497.482
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.186.999
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 217.625
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns 155.332
Greiðslugeta kæranda á mánuði 62.293
Alls sparnaður í 56 mánuði í greiðsluskjóli x 62.293 3.488.407

Samkvæmt þessu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 3.488.407 krónur á 56 mánaða tímabili greiðsluskjóls. Þessa fjármuni átti hún síðan að nota til að greiða kröfuhöfum upp í skuldir þegar kæmi að því að semja við þá.

Kærandi var í greiðsluskjóli í ríflega fjögur og hálft ár. Samkvæmt þeim ákvæðum lge. sem giltu í greiðsluskjólinu og rakin eru hér að framan, bar henni að leggja til hliðar þá fjármuni sem ekki fóru til framfærslu og nota þá til að greiða af skuldum að loknu greiðsluskjóli. Kærandi tók ákvörðun um að verja fé sínu með öðrum hætti og því voru flestar skuldir hennar í vanskilum þegar hún sótti um greiðsluaðlögun í annað skiptið, allt frá árinu 2010. Úrskurðarnefndin tekur því undir það með umboðsmanni skuldara að ekki sé unnt að líta svo á að hún hafi reynt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og henni hafi framast verið unnt í aðdraganda þess að hún sótti um greiðsluaðlögun að nýju 13. maí 2016. Við mat á því lítur úrskurðarnefndin þá sérstaklega til hins langa greiðsluskjóls og þeirrar fjárhæðar sem kærandi hefði átt að geta lagt fyrir.

Þegar kærandi sótti aftur um greiðsluaðlögun 13. maí 2016 átti hún 82.822 krónur inn á bankareikningi en vanskil höfðu aukist frá því að greiðsluskjóli hennar lauk. Skuldir við Íbúðalánasjóð voru enn í vanskilum frá 2010, skuldabréf hjá Landsbankanum hf. var sömuleiðis enn í vanskilum frá 2010 en yfirdráttarskuldir í vanskilum frá janúar 2016. Að auki hafði kærandi stofnað til skulda að fjárhæð 46.447 krónur á árinu 2012 sem enn voru ógreiddar. Vanskil kæranda námu þá alls 18.870.175 krónum. Skuld hennar við LÍN var hins vegar í skilum. Íbúð kæranda var seld nauðungarsölu á uppboði 30. maí 2016, eða rúmum tveimur vikum eftir að hún sótti um greiðsluaðlögun og var stærstur hluti skulda hennar við Íbúðalánasjóð greiddur af uppboðsandvirðinu.

Samkvæmt ofangreindu hafði kærandi því ekki greitt af öðrum skuldum en námslánum frá því að greiðsluskjóli lauk og þar til hún sótti aftur um greiðsluaðlögun, þrátt fyrir að hún hefði átt að geta greitt rúmlega 3.400.000 krónur inn á skuldir sínar eins og að framan er rakið. Kærandi var beðin um að skýra frá því hvernig hún hefði ráðstafað þessum fjármunum. Kvaðst hún hafa notað stærstan hluta þeirra til að aðstoða uppkomnar dætur sínar. Einnig lagði kærandi fram reikninga vegna þess kostnaðar sem hún sagðist hafa þurft að leggja út fyrir en aðeins einn þessara reikninga telst hluti af nauðsynlegum framfærslukostnaði kæranda á tímabili greiðsluskjóls. Það er reikningur vegna sjúkraþjálfunar að fjárhæð 5.786 krónur.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar sé óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli sérstaklega taka tillit til þess hvort atriði sem rakin eru í liðum a til g eigi við. Eins og þegar hefur verið rakið taldi umboðsmaður skuldara að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við um háttsemi kæranda. Ákvæðið varðar þá hegðun skuldara að standa ekki við skuldbindingar sínar með ámælisverðum hætti eftir því sem honum er unnt.

Skýra verður f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í samhengi við önnur ákvæði 6. gr. lge. svo og þann tilgang laganna að jafnvægi sé komið á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lögin gera ráð fyrir því að á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi í ljós hvort framganga skuldara áður en greiðsluaðlögunarumleitanir hófust hefur verið með þeim hætti að synja beri um greiðsluaðlögun. Á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana hvíla enn fremur ýmsar skyldur á skuldara og þær þarf hann að uppfylla. Geri hann það ekki eru greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður svo sem gerðist í fyrra máli kæranda.

Lögin leggja einnig ríka áherslu á að skuldari taki virkan þátt í greiðsluaðlögunarumleitunum, sýni heiðarleika og ábyrgð og leggi sig fram um að fara að þeim reglum sem um ferlið gilda. Hann má til dæmis ekki láta af hendi eignir og verðmæti sem gagnast geta kröfuhöfum sem greiðsla eða gera ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni lánardrottna. Þá ber honum að leggja til hliðar þá fjármuni sem eru umfram það sem hann þarf sér til framfærslu. Þessi skilyrði eru í 12. gr. lge.

Fari skuldari ekki að þeim skilyrðum sem honum eru sett við greiðsluaðlögunarumleitanir hefur hann sjálfur komið í veg fyrir að tilgangi greiðsluaðlögunar verði náð að því er hann varðar. Þannig verður að líta svo á að skuldari sem leggur sig fram um að ná greiðsluaðlögunarsamningi við kröfuhafa sína, geri það sem hann getur til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta