Mál nr. 273/2022-Úrskurður
.
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 273/2022
Miðvikudaginn 7. september 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 23. maí 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. maí 2022, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. febrúar 2022 og var umsóknin samþykkt 6. apríl 2022. Þann 28. apríl 2022 var ferilskrá kæranda send til C vegna starfs hjá fyrirtækinu. Þann 9. maí 2022 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði ekki mætt í boðað viðtal hjá C. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2022, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá umræddu fyrirtæki. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. maí 2022, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 30. maí 2022. Með erindi, dags. 3. júní 2022, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að fyrri ákvörðun um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði væri afturkölluð með vísan til 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en að honum væri gert að sæta tveggja mánaða biðtíma vegna höfnunar á starfi með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. maí 2022. Með bréfi, dags. 2. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 23. júní 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 24. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2022. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda 4. júlí 2022 og voru þær sendar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júlí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. ágúst 2022, var óskað eftir tilteknum upplýsingum frá Cvegna málsins. Svar barst frá fyrirtækinu 29. ágúst 2022 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. ágúst 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að Vinnumálastofnun hafi þann 12. maí 2022 óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á meintri ástæðu höfnunar á atvinnuviðtali hjá C þann 9. maí 2022. Kærandi kannist ekki við að hafa verið boðaður í atvinnuviðtal hjá því félagi og Vinnumálastofnun hafi ekki fært sönnur á að það hafi verið gert með sannanlegum hætti, líkt og áskilið sé samkvæmt orðalagi 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Vísað hafi verið til álits umboðsmanns Alþingis nr. 7240/2012, þar sem segi orðrétt:
„Umboðsmaður tók fram að af gögnum málsins og skýringum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða yrði ekki séð að stjórnvöld hefðu aflað annarra gagna eða upplýsinga um samskipti A við leikskólann X en fram komu í tölvubréfi leikskólastjóra X til Vinnumálastofnunar. Væru þær upplýsingar hvorki ítarlegar né ótvíræðar um hvort A hefði verið boðið starf eða viðtal. Þá hefði A andmælt því að henni hefði boðist starf eða hún boðuð í atvinnuviðtal. Taldi umboðsmaður að stjórnvöldum hefði borið að afla ítarlegri upplýsinga um samskipti A við leikskólann áður en ákvörðun var tekin í málinu. Var það því niðurstaða umboðsmanns að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Umboðsmaður áréttaði að mál þar sem reyndi á hvort skilyrði væru til að skerða atvinnuleysisbætur vörðuðu mikilvæg réttindi borgaranna. Því væri mikilvægt að stjórnvöld gættu að því við meðferð slíkra mála að tryggja sönnun um samskipti sín við borgarana og önnur samskipti sem þýðingu hefðu að lögum auk þess að skýrlega lægi fyrir á hverju niðurstaða máls grundvallaðist.“
Með vísan til alls framangreinds sé því hafnað að kærandi hafi hafnað því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum hafi boðist með sannanlegum hætti í skilningi ákvæðis 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð og sé því ógildanleg í skilningi meginreglna stjórnsýsluréttarins. Þess sé krafist að úrskurður Vinnumálastofnunar verði ógiltur.
Í athugasemdum lögmanns kæranda segir að ekki sé deilt um málavexti líkt og þeim sé lýst í greinargerð Vinnumálastofnunar. Þó sé sérstök athygli nefndarinnar vakin á því að Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun í máli kæranda 23. maí 2022 en það hafi ekki verið fyrr en 31. maí, eða eftir að kærandi hafi kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem að Vinnumálastofnun hafi lagst í þá vinnu sem sé lögbundin í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að rannsaka málið og forsendur ákvörðunarinnar.
Í málinu liggi fyrir tölvupóstur frá atvinnurekanda frá 31. maí 2022 þar sem fullyrt sé að kærandi hafi átt að mæta í atvinnuviðtal „að [hann; atvinnurekandann] minnir 3. maí“.
Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli atvinnuleitandi sæta viðurlögum ef hann „hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Samkvæmt framangreindu liggi fyrir að Vinnumálastofnun hafi tekið íþyngjandi ákvörðun í máli kæranda án þess að hafa rannsaka málið til hlítar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og án þess að geta með sannanlegum hætti sýnt fram á að kærandi hafi hafnað því að fara í atvinnuviðtal sem haldið sé fram að hann hafi verið boðaður í. Sú svokallaða sönnun sem sé lögð fram í málinu, tölvupóstur frá atvinnurekanda út í bæ sem sé dagsettur meira en viku eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin, uppfylli ekki á neinn hátt skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um „sannanlegan“ hátt. Augljóst sé að um svokallaðar eftiráskýringar sé að ræða. Kærandi hafni því með öllu að hafa verið boðaður í viðtal hjá C með símtali, líkt og haldið sé fram í málinu, og sönnunarbyrðin á hinu gagnstæða liggi hjá Vinnumálastofnun. Þá hafi kærandi ekki fengið nein skilaboð, tölvupóst eða upplýsingar í samskiptakerfi Vinnumálastofnunar um umrætt viðtal.
Rétt sé að vekja athygli nefndarinnar á því að kærandi hafi þann 30. maí 2022 óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með vísan til 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, auk gagna málsins á grundvelli 15. gr. sömu laga. Þrátt fyrir þann 14 daga lögbundna frest sem sé kveðið á um í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga hafi Vinnumálastofnun ekki enn orðið við þeirri kröfu.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. maí 2022, sé haldin svo miklum ágalla að ekki sé annað tækt en að fella hana úr gildi og gera stofnuninni að taka málið til nýrrar meðferðar. Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 461/2021 og nr. 214/2020 því til stuðnings, en málavextir þeirra mála séu keimlíkir þessu máli.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 24. febrúar 2022. Með erindi, dags. 6. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið samþykkt og bótaréttur hans væri 100%. Kærandi hafi áður verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun og þann 28. júlí 2020 hafi honum verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þann 28. apríl 2022 hafi ferilskrá kæranda verið send á atvinnurekanda, C. Yfirskrift starfsins hafi verið verkamaður í byggingariðnaði. Atvinnurekandi hafi svarað tillögu að starfsmanni þann 9. maí 2022 þar sem fram komi að kærandi hefði ekki mætt í boðað viðtal. Með erindi, dags. 12. maí 2022, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á starfi hjá C. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að höfnun á atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti valdið biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða missi bótaréttar með vísan til 57. og 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Veittur hafi verið sjö daga frestur til að skila umbeðnum gögnum.
Skýringar kæranda hafi borist samdægurs. Kærandi hafi ekki kannast við að hafa verið boðaður til atvinnuviðtals hjá viðkomandi atvinnurekanda með formlegum hætti. Kærandi hafi vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 7240/2012 þar sem umboðsmaður hafi metið það sem svo að Vinnumálastofnun hefði borið að afla ítarlegra upplýsinga um samskipti atvinnuleitanda og atvinnurekanda áður en ákvörðun í málinu hafi verði tekin. Það hafi verið niðurstaða umboðsmanns að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess hafi kærandi hafnað því að hafa hafnað atvinnuviðtali vegna starfs sem honum hafi staðið til boða með sannanlegum hætti í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun hafi fjallað um mál kæranda 23. maí 2022. Skýringar kæranda hafi legið fyrir. Kærandi hafi verið upplýstur um að þar sem hann hafi hafnað atvinnuviðtali hjá C væru greiðslur atvinnuleysisbóta til hans felldar niður í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í kæru til úrskurðarnefndar ítreki kærandi að Vinnumálastofnun hafi ekki fært sönnur fyrir því að hann hefði verið boðaður í atvinnuviðtal hjá C líkt og áskilið sé samkvæmt orðalagi 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafni því með öllu að hann hafi hafnað því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum hafi boðist með sannanlegum hætti. Þess sé krafist að úrskurður Vinnumálastofnunar verði ógildur.
Þann 30. maí 2022 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar ásamt því að óskað hafi verið eftir gögnum málsins. Með erindi þann 3. júní 2022 hafi kæranda verið tilkynnt að ákvörðun, dags. 23. maí 2022, væri afturkölluð með vísan til 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga þar sem kæranda hafi verið gert að sæta þriggja mánaða viðurlögum vegna höfnunar á starfi hjá C. Í staðinn hafi kæranda verið gert að sæta tveggja mánaða viðurlögum vegna höfnunar á starfi með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Leiðrétting þessi hafi verið gerð fyrir mistök en ljóst sé að kærandi hafi áður þurft að sæta viðurlögum á sama bótatímabili. Honum hafi því réttilega verið gert að sæta biðtíma í þrjá mánuði þegar síðara tilvik hafi komið upp. Þar sem leiðrétt ákvörðun hafi þegar verið birt kæranda hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að aðhafast ekki frekar í málinu og að tveggja mánaða biðtími skyldi standa þrátt fyrir framangreint.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda vegna höfnunar á starfi. Nánar tiltekið að sinna ekki boðun í atvinnuviðtal. Afstaða kæranda hafi legið fyrir en skýringar hafi ekki verið metnar gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.
Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segi í 4. mgr. sömu greinar orðrétt:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.
Kærandi hafi gefið skýringar til Vinnumálastofnunar og í kæru til nefndarinnar. Skýringar lúti einkum að því að honum hafi ekki verið boðið í atvinnuviðtal hjá atvinnurekanda og því hefði hann ekki hafnað starfinu.
Fyrir liggi að kæranda hafi verið boðið atvinnuviðtal hjá C. Atvinnurekandi hafi greint frá því í svari til stofnunarinnar að kærandi hefði með símtali verið boðaður í atvinnuviðtal þriðjudaginn 3. maí klukkan 15:00. Kærandi hafi ekki mætt og ekki haft frekara samband við atvinnurekanda. Samkvæmt þeim skýringum sem kærandi haldi sig við hafi honum ekki verið boðið atvinnuviðtal og því hefði hann ekki hafnað starfinu.
Vinnumálastofnun telji skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þá samræmist slíkar skýringar ekki skilyrðum 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit atvinnuleitanda.
Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að kærandi hafi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli laganna.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Eftir að kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála var ákvörðun um þriggja mánaða viðurlög afturkölluð og kæranda í staðinn gert að sæta tveggja mánaða viðurlögum.
Í upphafi telur úrskurðarnefndin ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð Vinnumálastofnunar vegna beiðni kæranda um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 30. maí 2022 en samkvæmt gögnum málsins var því erindi svarað 3. júní 2022 og þá með birtingu nýrrar ákvörðunar um tveggja mánaða viðurlög í stað þriggja eftir að Vinnumálastofnun hafði rannsakað mál hans. Í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er lögfest sú regla að beiðni um rökstuðning skuli svarað innan 14 daga frá því að hún barst. Að mati úrskurðarnefndarinnar kemur það ekki í stað rökstuðnings að birta nýja ákvörðun. Beinir úrskurðarnefndin því til Vinnumálastofnunar að haga málsmeðferð sinni framvegis í samræmi við framangreinda lagaskyldu.
Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:
„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“
Samkvæmt gögnum málsins var ferilskrá kæranda send til C þann 28. apríl 2022. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 9. maí 2022 að kærandi hefði ekki mætt í boðað viðtal. Í skýringum kæranda frá 12. maí 2022 kemur fram að hann kannist ekki við að hafa verið boðaður til atvinnuviðtals hjá C með formlegum hætti. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði. Eftir að kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun ákvað Vinnumálastofnun að rannsaka málið betur og óskaði eftir frekari skýringum frá fyrirtækinu, þ.e. staðfestingu á því með hvaða hætti kærandi hafi verið boðaður í atvinnuviðtal og hvort hann hefði hafnað að mæta í viðtal. Í svari fyrirtækisins kom fram að kærandi hefði verið boðaður í viðtal með símtali. Hann hafi átt að mæta á þriðjudegi, að fyrirtækinu minnti 3. maí 2022, klukkan 15:00. Kærandi hafi ekki mætt í viðtalið og hafi ekki haft samband aftur.
Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi hafnað því með öllu að hafa verið boðaður í viðtal hjá C með símtali. Þá hafi hann ekki fengið nein skilaboð, tölvupóst né upplýsingar í samskiptakerfi Vinnumálastofnunar um umrætt viðtal.
Til þess að upplýsa málið betur, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum frá C sem staðfestu að kærandi hefði verið boðaður í viðtal með símtali, svo sem afriti af símtalaskrá. Fyrirtækið lagði fram umbeðin gögn sem sýna tvö símtöl til kæranda, það fyrra 29. apríl og seinna 2. maí 2022. Fyrirtækið veitti einnig þær upplýsingar að símtölin væru stutt og því hefði kærandi líklega hringt til baka úr öðru númeri. Þá var tekið fram að munað væri eftir símtali við kæranda þar sem hann hafi verið sá eini sem hefði fengið möguleika á að mæta á þriðjudeginum. Viðtöl við aðra hafi verið boðuð og tekin á mánudeginum. Í svari kæranda við framkomnum gögnum og skýringum fyrirtækisins er vísað til þess að lengd símtalanna dugi ekki til að boða viðmælandann í atvinnuviðtal og því sé ljóst að kærandi hafi ekki verið boðaður í viðtal með símtali.
Þegar litið er heildstætt til gagna málsins og skýringa kæranda, og þá sérstaklega þeirra sem kærandi veitti Vinnumálastofnun 12. maí 2022, er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi verið boðaður í umrætt atvinnuviðtal hjá C. Þar sem kærandi mætti ekki í atvinnuviðtalið kom réttilega til viðurlaga á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir