Nr. 558/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 27. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 558/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19080037
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 21. ágúst 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. ágúst 2019, um að synja henni um dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms þann 3. júní 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. ágúst 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 6. ágúst sl. Kærandi beindi stjórnsýslukæru til Útlendingastofnunar þann 21. ágúst sl. sem áframsendi kæruna til kærunefndar útlendingamála þann 22. ágúst sl. Greinargerð kæranda barst Útlendingastofnun þann 27. ágúst sl. og áframsendi stofnunin greinargerðina á kærunefnd þann 28. ágúst sl.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til skilyrða fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli náms í 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi væri skráð í nám við Lýðháskólann á Flateyri og væru inntökuskilyrði námsins, sem lytu að undirbúningsmenntun, aðeins þau að umsækjandi hefði náð 18 ára aldri. Vísaði stofnunin til þess stúdentspróf væri almennt inntökuskilyrði í nám á háskólastigi og væri því ekki um að ræða sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi m.a. til tilgangs Lýðháskólans á Flateyri. Þrátt fyrir að skólinn gefi ekki út framhaldsgráðu í lok hvers skólaárs sé ávinningur námsins fyrir Ísland jákvæður. Hafi hún mikinn áhuga á því að upplifa íslenska menningu með dýpri hætti en sem ferðamaður og jafnframt sé ávinningur af því fyrir landið að leyfa erlendum nemum að sækja námið.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Er fullt nám skv. ákvæðinu samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sækir einstök námskeið telst ekki stunda fullt nám. Samkvæmt 5. mgr. 65. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi að uppfylltum 2. mgr. ákvæðisins vegna iðnnáms og viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi.
Samkvæmt vefsíðu Lýðháskólans á Flateyri eru inntökuskilyrði til að innritast við skólann þær að umsækjandi hafi náð 18 ára aldri við upphaf námsannar. Engin önnur formleg skilyrði eru gerð til umsækjanda. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 skulu nemendur, sem hefja nám í háskóla, hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að nám við Lýðháskólann á Flateyri geti talist fullt nám á háskólastigi eða annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Þá verður að mati kærunefndar því námi sem Lýðháskólinn býður upp á ekki jafnað við það nám sem tilgreint er í 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga enda námið ekki iðnnám eða viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 65. gr. laganna til útgáfu dvalarleyfis vegna náms. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Áslaug Magnúsdóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir