Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 673/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 673/2020

Miðvikudaginn 17. mars 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. desember 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. september 2020 um að samþykkja umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. janúar 2020. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 27. ágúst 2020, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 1. janúar 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. september 2020, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. desember 2020. Með bréfi, dags. 29. desember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. janúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. janúar 2021. Athugasemdir umboðsmanns kæranda bárust með tölvubréfi 18. febrúar 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. febrúar 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að kæra lúti að ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 22. september 2020, um að kærandi eigi að greiða barnsmóður sinni meðlag frá 1. janúar 2020 vegna dóttur þeirra. Kærandi telji hina kærðu ákvörðun ólögmæta, enda fari hann með lögráð dótturinnar samkvæmt C ákvörðun.

Málavextir séu þeir að málsaðilar, sem bæði séu frá C, hafi í sambúð eignast dóttur [...]. Um rúmlega X árs aldur dótturinnar hafi barnsmóðir kæranda stungið af með dótturina af sameiginlegu heimili þeirra og hafi verið í burtu í um X vikur en þá hafi hún komið til baka og hafi skilið dótturina eftir hjá kæranda. Barnsmóðir kæranda hafi lengi átt við andlega erfiðleika að stríða og sinnt dóttur þeirra lítið á meðan þau bjuggu saman. Kærandi hafi verið aðalumönnunaraðili dóttur þeirra allan sambúðartímann.

Barnsmóðir kæranda hafi [...] flutt til Íslands og hafi verið hér á landi síðan, en hún hafi X eða X sínum komið til baka til C á þessu tímabili og fram í byrjun þessa árs en hafi sýnt lítinn áhuga á að hitta dóttur þeirra.

Dóttir kæranda hafi verið í C, skráð á skattframtal kæranda og samkvæmt C lögum teljist hann framfærandi hennar. Barnsmóðir kæranda hafi aldrei skilað skattframtölum í C og dóttirin sé ekki skráð þar á hennar framfæri. Samkvæmt C lögum sé forsjá dóttur þeirra sameiginleg en eftir að barnsmóðir hans hafi flutt til Íslands og sambúð aðila hafi lokið teljist dóttirin eiga lögheimili hjá kæranda og hann vera framfærandi hennar og aðalumönnunaraðili. Kærandi telji sig því hafa ígildi lögheimilis dótturinnar miðað við íslenskan barnarétt.

Í [...] hafi kærandi ákveðið að fara til Íslands til að tryggja að mæðgurnar gætu hist meira. Fljótlega í kjölfarið hafi þau þrjú, ásamt sameiginlegri vinkonu, farið á Þjóðskrá og verið skráð með sama lögheimili á D. Kærandi fullyrði að þau hafi ekki verið skráð í sambúð, enda hafi aldrei staðið til að breyta því að hann væri ígildi lögheimilisforeldris dótturinnar, einnig hér á landi.

Í X 2019 hafi barnsmóðir kæranda stolið dóttur þeirra með því að tilkynna til leikskóla hennar að sameiginlega vinkonan hefði beitt hana líkamlegu ofbeldi og að kærandi hefði beitt hana andlegu ofbeldi. Leikskólinn hafi tilkynnt þetta til E en málinu hafi strax verið lokað 6. júní 2019.

Þann sama dag hafi barnsmóðir kæranda kært kæranda fyrir ofbeldi gagnvart dóttur þeirra. Það hafi orðið til þess að lögreglan á F hafi sótt mæðgurnar til D og hafi farið með þær í Kvennaathvarfið í Reykjavík. Þar hafi þær búið í einhverjar vikur. Lögreglan hafi hafið rannsókn á málinu en með bréfi, dags. 8. október 2019, hafi það verið fellt niður.

Stuttu síðar hafi kærandi kært barnsmóður sína til lögreglunnar á F fyrir rangar sakargiftir og barnsrán. Af óskýrðum ástæðum hafi lögreglan lítið ef nokkuð aðhafst og hafi ekki svarað skilaboðum lögmanns kæranda um stöðu málsins.

Kærandi viti ekkert um afdrif dóttur sinnar annað en það að barnsmóður hans hafi með óskýrðum hætti tekist að flytja lögheimili sitt til G og þær séu nú báðar skráðar í G. Barnsmóðir kæranda hafi síðan tekist að fá ákvörðun Tryggingastofnunar um meðlag, þrátt fyrir að hún hafi engin skjöl sem staðfesti að hún hafi löglegt foreldravald yfir henni annað en skráningu á lögheimili á Íslandi. Sú skráning sé ekki breyting á skýrri foreldrastöðu kæranda miðað við löggjöf í C og geti ekki breytt þeirri stöðu að mati kæranda.

Í lok síðasta árs hafi kærandi gripið til þess ráðs að leggja inn beiðni um innsetningu eftir að hafa ítrekað leitað til opinberra yfirvalda og þannig freistað þess að fá dótturina tekna úr ólögmætri vörslu barnsmóður sinnar. Það mál hafi verið fellt niður þar sem engin sáttameðferð hafi farið fram, eðlilega, enda hafði embætti sýslumanns neitað að liðsinna kæranda sumarið og haustið 2019.

Staða mála sé nú sú að barnsmóðir kæranda hafi höfðað forsjármál sem hafi verið þingfest í Héraðsdómi G 18. desember 2020. Gripið verði til ítrustu varna í forsjármálinu, fyrir hönd kæranda, en kærandi hafi haft frest til að skila greinargerð fram í janúar 2021.

Þess sé krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar verði hnekkt um að kæranda beri að greiða meðlag með dótturinni frá þeim tíma sem stofnunin hafi ákveðið. Rökstuðningur fyrir kröfu kæranda sé sú að þar sem barnsmóðir kæranda hafi rænt dóttur þeirra sé óheimilt að úrskurða með henni meðlag. Barnsmóðir kæranda hafi engin lögleg gögn frá C um yfirráð sín yfir dóttur þeirra, vegabréf hennar sé í vörslu föður sem og öll önnur lögleg skilríki eins og sýnt hafi verið fram á í innsetningarmálinu sem kærandi hafi af lagatæknilegum ástæðum orðið að fella niður.

Óskiljanlegt sé hvernig barnsmóður kæranda hafi tekist að fá Þjóðskrá til að færa lögheimili þeirra til G [...] 2019 og telji kærandi þá ákvörðun vera lögleysu. Kærandi sé löglegur forráðamaður dótturinnar samkvæmt lögum og löglegum ákvörðunum teknum í C. Því geti rán barnsmóður hans á dótturinni ekki breytt. 

Eðlilegt sé að dómstólar skeri nú úr um þetta mál úr því að barnsmóðir kæranda hafi höfðað forsjármál.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 18. febrúar 2021 segi í fyrsta lagi að barnsmóðir kæranda hafi beitt blekkingum hjá sýslumanni þar sem hún hafi ekki upplýst að samkvæmt C lögum sé kærandi með umráðaréttinn og lögheimilið.

Í öðru lagi hafi barnsmóðir kæranda ekki upplýst um að hún hafi stolið dótturinni frá kæranda með röngum sakargiftum á hendur honum.

Í þriðja lagi hafi barnsmóðir kæranda ekki upplýst um að kærandi sé með lögmann sem hún hafi þó vitað.

Í fjórða lagi hafi embætti sýslumanns gert þau mistök að krefja barnsmóður kæranda ekki um skjöl frá C um að hún hafi einhver yfirráð yfir dótturinni og virðist ekki hafa áttað sig á því að dóttir þeirra hafi komið til Íslands með kæranda í X 2019 en ekki með barnsmóður hans sem hafi verið hér á landi síðan X.

Með blekkingum og mögulega saknæmri háttsemi sé barnsmóðir kæranda búin að koma málum þannig fyrir að hún sé að fá meðlag sem hún eigi ekki rétt á og sé skráð með lögheimili dóttur þeirra sem hún hafi aldrei átt rétt á.

Það sé útilokað annað en að úrskurðarnefndin þurfi að skoða þá hlið mála því að ekki sé hægt að skýla sér á bak við mistök embættis sýslumanns við meðferð þessa máls.

Vísar umboðsmaður kæranda í skjöl í tengslum við innsetningarmálið, þ.e. afritum af passa og borgaraskírteini dótturinnar. Hvoru tveggja hafi kærandi undir höndum og hafi sýnt dómara í dómnum. Hvorugt hafi barnsmóðir kæranda undir höndum, enda hafi verið gengið frá sambúðarslitum þeirra í C þannig að kærandi væri með ígildi lögheimilis dótturinnar. Þeirri ákvörðun hafi ekki verið breytt nema með ólöglegum aðferðum sem móðirin hafi líklega einnig beitt hjá Þjóðskrá og þeirri staðreynd að hún hafi aldrei verið beðin um lögleg skjöl frá C. Kannski af því að allir séu tilbúnir til að trúa að móðir hljóti að vera með lögleg yfirráð yfir barni og krefjast ekki formlegrar staðfestingar á því.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun um að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með dóttur þeirra frá 1. janúar 2020.

Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. september 2020, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður hans frá 1. janúar 2020 með dóttur þeirra. Tryggingastofnun hafi borist umsókn frá barnsmóður kæranda þann 27. ágúst 2020 um meðlagsgreiðslur aftur í tímann ásamt úrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 25. ágúst 2020, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með dóttur sinni frá 1. janúar 2020 til 18 ára aldurs.

Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. úrskurður Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 25. ágúst 2020, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsmóður hans. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um meðlag.

Með vísan til ofangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2020 eins og meðlagsákvörðun kveði á um og hún hafi óskað eftir og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar og að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Í því samhengi skipti ekki máli hvort barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði í málum nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019 og 59/2020.

Tryggingastofnun vilji benda á að úrskurð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hafi verið hægt að kæra til dómsmálaráðherra, eins og komi fram neðst í úrskurðinum, en hins vegar sé kærufrestur liðinn. Kæranda sé bent á að leita upplýsinga hjá sýslumanninum um hugsanlega endurupptöku málsins ef hann telji að forsendur úrskurðarins séu ekki réttar. Þá þurfi kærandi að snúa sér til Þjóðskrár telji hann skráningu á lögheimili dóttur sinnar ekki vera rétta.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. september 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2020.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Tryggingastofnun ríkisins ber samkvæmt framangreindu að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með dóttur þeirra með rafrænni umsókn þann 27. ágúst frá 1. janúar 2020. Tryggingastofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli úrskurðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um meðlag, dags. 25. ágúst 2020. Samkvæmt úrskurðinum ber kæranda að greiða barnsmóður sinni meðlag frá 1. janúar 2020 til 18 ára aldurs barnsins.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir.

Í kæru er vísað til þess að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi gert mistök þegar úrskurðað var um meðlagsskyldu föður þar sem barnsmóðir kæranda hafi ekki sagt satt og rétt frá hjá sýslumanni og hafi á óskiljanlegan hátt fengið skráð lögheimili dóttur þeirra hjá sér. Einnig er vísað til þess að barnsmóðir kæranda hafi rænt barninu frá kæranda sem hafi samkvæmt C rétti yfirráð yfir dóttur þeirra. Með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna vegna framangreindra málsástæðna þar sem fyrir liggur löggild meðlagsákvörðun sem kveður á um greiðsluskyldu meðlagsgreiðanda. Tryggingastofnun er ekki heimilt að líta fram hjá meðlagsúrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. september 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. janúar 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta