Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 17/2019, úrskurður 7. apríl 2022

Ár 2022 fimmtudaginn 7. apríl er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 17/2019

Vegagerðin

gegn

Lárusi Heiðarssyni

og

Sigríði Björnsdóttur 

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Allani Vagni Magnússyni, varaformanni ad hoc, ásamt Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með beiðni dagsettri 9. september 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 – 7, Reykjavík (hér eftir nefnd eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignanámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu og jarðefni úr landi jarðarinnar Arnheiðarstaða.

Eignarnámsheimild er í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Eignarnámsþolar eru Lárus Heiðarsson kt. […] (50%) Sigríður Björnsdóttir, kt. […] (50%), […], […], þinglýstir eigendur jarðarinnar Droplaugarstaða.

Matsandlagið eru 38.111 fermetrar lands undir veg úr landi Droplaugarstaða undir 24 metra breitt og tæplega 1600 metra langt vegsvæði Upphéraðsvegar um land jarðarinnar að frádregnum 18.983 fermetrum lands núverandi vegar sem tilheyrir eignarnema og 71 fermetra lands sem skilað er aftur til landeiganda. Heildarflatarmál lands sem meta ber bætur fyrir sé 19.057 fermetrar lands. Spildu undir vegsvæði, sem er alls 38.111 fermetrar verði hins vegar skipt út úr jörðinni í kjölfar eignarnámsins og þinglýst eign eignarnema.

Þá er um að ræða eignarnám á 3.200 rúmmetrum jarðefna úr námu C innan landamerkja Droplaugarstaða. Hið eignarnumda jarðefni er 2.600 rúmmetrar af fyllingarefni og 600 rúmmetrar af klæðningarefni

 

Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 28. janúar sl. var Allan Vagn Magnússon fyrrverandi dómstjóri settur varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta ad hoc til meðferðar máls þessa. Þá hafði nefndin undir stjórn þáverandi varaformanns nefndarinnar haft málið til meðferðar, farið á vettvang og hlýtt á flutning málsins en úrskurður varð ekki lagður á það. Nefndin hefur nú tekið málið til meðferðar að nýju og var málið tekið fyrir í húsakynnum Héraðsdóms Austurlands hinn 6. apríl sl. að lokinni vettvangsgöngu, lögð fram 42 skjöl og málið flutt og tekið til úrskurðar.

 

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola

vegna eignanáms á 38.111 fermetra landi undir veg úr landi Droplaugarstaða. Um sé að ræða 24 metra breitt og u.þ.b. 1600 metra langt vegsvæði Upphéraðsvegar um land jarðarinnar að frádregnum 18.983 fermetrum lands núverandi vegar sem tilheyri eignarnema.

Enn fremur vegna eignarnáms á 3.200 rúmmetrum jarðefna úr námu C innan landamerkja Droplaugarstaða, alls 2.600 rúmmetra af burðarlagsefni og 600 fermetrar af klæðningarefni

Þá krefst hann þess að ákveðinn verði hæfilegur málskostnaðar vegna hagsmunagæslu eignarnámsþola miðað við eðli og umfang málsins.

 

Almennt um mat á fjárhæð bóta

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar skuli fullt verð koma fyrir þegar eignarnám er framkvæmt. Meginreglan sé því sú, að matsbeiðanda er skylt að bæta matsþola allt það fjárhagslega tjón sem hann verður fyrir. Þannig eigi matsþoli einungis rétt á því að fá bætur fyrir endurgjald eignarnumins verðmætis auk bóta fyrir óhagræði sem eignarnám hefur í för með sér og leiðir til fjárhagstjóns. Skuli eignarnámsbætur miðaðar við tjón matsþola, en ekki ávinning matsbeiðanda.

Í íslenskum lögum sé ekki að finna almennar reglur um það, hvernig meta skuli verðmæti eignarnuminna eigna en vísað er til úrlausna dómstóla, úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta og skrifum fræðimanna þar um. Sjónarmið um mat á eignum miðist aðallega við söluverð, notagildi og enduröflunarverð.

Verðgildi fasteignar sé oft á tíðum bundið við nýtingu þeirra samkvæmt lögum. Opinber skráning á verði fasteigna geti einnig skipt máli við slíkt verðmat. Samkvæmt Fasteignaskrá Íslands sé fasteignarmat jarðarinnar Droplaugarstaða 401.000 krónur en 9,5 af ræktuðu landi séu metnir á 906.000 krónur. Ræktaða landið sé því metið á um 95.000 krónu hektarinn en annað land mun lægra. Vísað er til 27. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna er kveði á um hvernig fasteignamatsverð skuli fundið.

Við mat á bótum til landeigenda hafi eignarnemi í máli þessu auk framangreinds horft til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta og samninga sem gerðir hafi verið á svæðinu. Telur eignarnemi að sem almenna reglu beri að miða bætur fyrir land við ætlað söluverð þess hverju sinni að teknu tilliti til staðsetningar, landgæða, afskrifta, notkunarmöguleika o.s.frv.

Annað sjónarmið sem komi til greina við ákvörðun á verðmæti hins eignarnumda sé notagildi þess. Þegar eign sé bætt eftir notagildi, sé reynt að finna út hver sé höfuðstóll þess arðs, sem eignin gefi af sér. Þannig sé stefnt að því að bæta eiganda það tekjutap í framtíðinni, sem missir eignarinnar hafi í för með sér. Í flestum tilvikum leiði mat á notagildi eignar til svipaðrar niðurstöðu og mat á söluverði þar sem söluverð grundvallist oft á þeim arði sem eignin gefi eða geti gefið af sér.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón hans af eignarnáminu, sbr. m.a. þau sjónarmið sem fram komi í Hrd. 1997, bls. 52 (18/1995). Í þessu máli hafi vegur legið um land eignarnámsþola um áratugaskeið og því ekki um breytingu á stöðu jarðarinnar að því leyti þótt veglína sé lítillega löguð til og vegurinn lagaður að kröfum nútímans. Veghelgunarsvæði sé hið sama og áður, sbr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 og hafi hið eignarnumda því sætt lögbundnum takmörkunum áratugum saman. Viðbótarland sem þurfi undir lagfæringu vegarins sé innan veghelgunarsvæðis.

Á því er auk þess byggt að viðurkennt sjónarmið við mat á eignarnámsbótum sé að eigendur lands sem vegur liggur um, verði ávallt að gera ráð fyrir að með tíð og tíma verði vegir uppfærðir og lagaðir til auk þess sem umferð kann að aukast með árunum, eða minnka ef svo beri undir, auk þess að skipulag kunni að breytast. Eigi þessi sjónarmið að leiða til þess að meint tjón landeiganda af lagfæringu og endurbyggingu vegar eigi ekki að aukast frá því sem var. Áhrif á hagsmuni eignarnámsþola eru því minni en ef verið væri að leggja veg um land þar sem vegur hafi ekki legið áður um og því komi sjónarmið um önnur áhrif af vegarlagningu s.s. hugsanleg áhrif vegna skipulagskvaða o.s.frv. ekki til skoðunar. Eignarnemi telur að framkvæmdin breyti engu um framtíðarnotkun landsins utan hinnar eignarnumdu spildu. Öll aðstaða til núverandi notkunar jarðarinnar verði óbreytt og ekkert liggi fyrir um annars konar nýtingu jarðarinnar en nú er.

Þriðja sjónarmiðið um ákvörðun bóta byggist á kostnaði eignarnema við að afla sér sambærilegrar eignar í stað þeirrar sem tekin hafi verið eignarnámi. Þessum sjónarmiðum við ákvörðun verðs verði almennt ekki beitt nema söluverð eða notagildi verði af einhverjum ástæðum ekki metið. Þau sjónarmið eigi alls ekki við í þessu máli þar sem slíkar aðstæður séu ekki uppi.

Eignarnemi leggur áherslu á þá grundvallarreglu að bætur skulu miðast við að eignarnámsþoli verði eins settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Bætur miðist við sannað fjárhagslegt verðmæti hinnar eignarnumdu spildu á matsdegi miðað við staðgreiðslu og miðað við núverandi notkun þeirra. Til frádráttar komi allar hugsanlegar hagsbætur sem eignarnámsþoli hafi af framkvæmdunum, sbr. ákvæði 39. gr. vegalaga. Þá gildi að öðru leyti almennar reglur um framkvæmd eignarnáms og viðurkennd sjónarmið um ákvörðun eignarnámsbóta sem m.a. birtist í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta gegnum tíðina og fordæmum dómstóla.

 

Um ákvörðun bótafjárhæðar fyrir hið eignarnumda land.

Eignarnemi fer fram á að eignarnámsþola verði ákvarðaðar bætur í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru hér að framan og miðað við framlögð gögn málsins. Eignarnemi telur sig í sjálfu sér óbundinn af framlögðum tilboðum enda hafi þau verið liður í að ná samningum en lokatilboð eignarnema verði að telja sanngjarnar og hæfilegar bætur sem byggist á sjónarmiðum sem rakin hafi verið hér að framan og miðist við verðlagningu lands af þessu tagi á því svæði sem um ræðir. Eignarnemi hafnar því alfarið að einingaverð landspildu á þessu svæði sé hærra en 300.000 krónur á hektara fyrir land sem hér um ræði og að mestu eða öllu leyti innan núverandi veghelgunarsvæðis. Í samningaviðræðum hafi sjónarmið eignarnema um verðmat lands og framboðnar bætur verið nokkuð ítarlega rakin í bréfi eignarnema dagsettu 8. apríl 2019 og vísist til þess og sé á þeim sjónarmiðum byggt. Þótt í því máli sé land sem Landsvirkjun hafi tekið undir háspennulínur metið á 400-450.000 krónur verði að hafa í huga í hvaða umhverfi það hafi verið gert, á tímabili sem landverð hafi verið mjög hátt. Þannig hafi landverði risið mjög hátt á árunum fyrir Hrun en fallið líka mikið í kjölfarið.

Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 2/2011 (Hjarðarhagi) vegna eignarnáms á landi undir veg á Jökuldal hafi hæfilegt verið talið 220.000 krónur á hektara fyrir land undir veg. Af því sjáist að það verð sem hefði verið spennt upp fyrir Hrun hafði leitað jafnvægis að nýju. Matsnefnd hafi ekki talið landið líklegt til sumarhúsabyggðar vegna legu þess þétt að þjóðvegi. Sambærilegar aðstæður séu í þessu máli.

Meginatriðin sem fram hafi komið í bréfi eignarnema dagsettu 8. apríl 2019, og verði m.a. leidd af dómi Hæstaréttar í máli nr. 404/2009 sem eignarnámsþolar hefðu byggt á, séu að kröfur verði að byggjast á haldbærum gögnum og verði ekki annað séð en að núverandi not séu langlíklegustu not nema annað sé leitt í ljós. Þannig verði ekki lagt til grundvallar að land geti fallið í flokk frístundalands í nánustu framtíð ef engar áætlanir liggi fyrir um slíkt. Hið eignarnumda land geti ekki talist til flokks lands undir frístundabyggð, sbr. m.a. sjónarmið matsnefndar í máli nr. 2/2011.

Þá sé framboðið verð einnig í samræmi við úrskurð nefndarinnar í máli 10/2008 frá 30. mars 2009 (Ásgrímsstaðir og Móberg) en þar hafi verið tekið tillit til þess að um land í næsta nágrenni við veg hafi verið að ræða og það metið um 25% lægra en annað land. Í þessu máli sé einnig um að ræða land í næsta nágrenni við núverandi þjóðveg og að öllu verulegu innan núverandi veghelgunarsvæðis. Önnur nýting landsins en núverandi sé ekki fyrirséð eða líkleg. Verði að meta framboðið einingaverð lands í því ljósi.

Þar sem vegurinn hafi legið um landið um áratugaskeið takmarkist notkun og framtíðarnýting landsins af tilvist vegarins. Það land sem eignarnemi hafi á grundvelli eignarnáms tekið undir vegsvæði hafi áratugum saman sætt lögbundnum takmörkunum enda allt innan helgunarsvæðis vegalaga. Land í svo mikilli nálægð við veg hafi aldrei verið vel til ræktunar fallið, verði að telja það óumdeilt. Í því sambandi sé m.a. bent á öryggiskröfur vegalaga, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Framkvæmdin hafi þannig ekki áhrif á frekari nýtingu landsins enda hafi það þegar verið kvaðasett vegna ákvæða vegalaga.

Af þeim sökum beri að taka fullt tillit til þessa við ákvörðun bóta fyrir land. Þannig verði ekki fram hjá því litið að líklegt verðfall aðliggjandi lands, ef um það sé að ræða, hafi þegar komið fram. Eignarnemi geti ekki fallist á þau sjónarmið eignarnámsþola að við vegarlagninguna færist verðlækkunaráhrif samsvarandi utar vegna breikkunar vegsvæðis einfaldlega vegna þess að veglína sé hin sama og áður og hið eignarnumda svæði að mestu eða öllu leyti innan núverandi veghelgunarsvæðis. Engin frekari áhrif verði því af vegarlagningunni en nú séu þegar komin fram. Sjónarmið sem matsnefnd eignarnámsbóta hafi beitt m.a. í máli nr. 13/2019 eigi ekki við í þessu máli.

Þá telur eignarnemi engar forsendur til að ákvarða bætur til landeiganda fyrir skiptingu lands eða fyrir annað meint óhagræði af vegarlagningunni enda liggi vegur um jörðina nú og hinn nýi vegur hafi ekki önnur áhrif á nýtingu lands eða landkosta eftir því sem best verði séð. Hér vísar eignarnemi auk þess til rökstuðnings Matsnefndar eignarnámsbóta í máli 1/2006 (Helluvað) og telur að sömu sjónarmið eigi við. Eignarnemi hafi hins vegar boðið fram bætur að álitum vegna meints rasks og óhagræðis á framkvæmdatíma og sé reiðubúinn að standa við það boð. Það athugist þó að skoða verði þá fjárhæð í ljósi þess að um samningaviðræður hafi verið að ræða og eignarnemi hafi hækkað boð sitt í viðleitni til að ná samningum.

Eignarnemi bendir og á að taka verði tillit til 3. mgr. 39. gr. vegalaga um að líta verði til þeirra hagsbóta sem eignarnámsþola hlotnast við framkvæmdina. Lagfæringu vegarins og lagning bundins slitlags ætti að hafa jákvæð áhrif á verðmæti jarðarinnar í heild sinni og auka nýtingarmöguleika. Hið nýja mannvirki sé að mestu í núverandi vegstæði, lítilsháttar uppbyggt á köflum en ekki meira áberandi í landslagi en fyrri vegur. Allt séu þetta jákvæðir þættir sem beri að taka tillit til við ákvörðun bóta og styðja það að lokatilboð eignarnema hafi verið sanngjarnt og eðlilegt.

Ekki virðist vera mikið um viðskipti með samsvarandi eignir á svæðinu og því tæpast virkur markaður með eignir. Eignarnemi bendir á að árið 2014 hafi 20% hlutur í jörðinni Geitagerði verið seldur fyrir 5.600.000 krónur með öllum gögnum og gæðum eða sem svarar til 28.000.000 króna sem heildarverð fyrir jörðina alla, það land sé í næsta nágrennivið hið eignarnumda. Árið 2018 hafi jörðin Bakkagerði verið seld með öllum gögnum og gæðum, þ.m.t. húsakosti fyrir 31.500.000 króna. Árið 2012 hafi jörðin Freyshólar Fljótsdalshéraði verið seld fyrir 40.000.000 króna með öllum gögnum og gæðum. Jörðin virðist vera um 260 hektarar að stærð. Árið 2015 hafi jörðin enn skipt um eigendur og fyrir sama verð og árið 2012. Jarðaverð sé þannig almennt lágt/í neðri mörkum á svæðinu og beri að taka tillit til þess við verðmat hins eignarnumda lands.

Eignarnemi bendir á að einingaverð lands sem byggt hafi verið á í máli nr. 13/2019 eigi ekki við í þessu máli enda sé hér um land næst vegi að ræða. Í framangreindum úrskurði hafi og verið sérstaklega vísað til gæða landsins og náttúrufegurðar en þar hafi verið að brjóta nýtt land undir vegaframkvæmd. Taka þurfi fullt tillit til þessa og að aðstæður í þessu máli séu frábrugðnar. Þá er og bent á úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í máli 2/2011 (Hjarðarhagi á Jökuldal) þar sem verð fyrir gróið land hafi verið metið að meðaltali á 220.000 krónur fyrir hektara en lokaboð eignarnema í þessu máli miðist við um 50% hækkun frá því verði. Miðað við þann úrskurð og þróun landverðs á þessu svæði verði ekki séð að forsendur séu til að hækka verðmat umfram það sem eignarnemi hefur boðið.

Kaupsamningar sem eignarnámsþoli hafi lagt fram um kaup á eignarlóð í deiliskipulagðri byggð við Versali hafa ekki þýðingu og gefi ekki rétta mynd af verðmæti matsandlags enda um einkalóð að ræða inni í skipulagðri byggð nánast inni í þéttbýlinu við Egilsstaði. Samningar séu auk þess gerðir árið 2007 þegar verð hafi verið í hæstu hæðum. Andlagið sé og ekki sambærilegt.

Eignarnámsþoli hafi lagt fram kaupsamning um kaup á 12,8 hektara lóð úr landi Ketilstaða 1 og 2, nefnt Álfaás. Að mati eignarnema staðfesti sá samningur öðru fremur að verðmat eignarnema og framboðnar bætur séu eðlilegar og fullnægjandi miðað við matsandlagið. Hin selda spilda, nefnd Álfaás, sé mjög stórt land á skipulögðu svæði fyrir frístundabyggð/ferðaþjónustu. Í deiliskipulagi sem gert hafi verið fyrir Álfaás og kaupsamningur taki væntanlega mið af sé gert ráð fyrir tugum gistiþjónustueininga, tilteknu leyfilegu byggingarmagni, veitingasölu o.s.frv. Þá sé búið að leggja veg að svæðinu sem tengist beint inn á Hringveg og staðsetning í næsta nágrenni við þéttbýlið að Egilsstöðum. Einingaverð lands með þessa kosti hafi verið umsamið ein milljón króna fyrir hektara. Eignarnemi telur þannig að ræma meðfram núverandi vegi á stað sem liggi fjær þéttbýlinu Egilsstöðum og Fellabæ teljist fullbætt með 300.000 krónum fyrir hektara. Þá mótmælir eignarnemi því að svokölluð verðskrá LR ehf. (Landeigenda Reykjahlíðar), dagsett 1. janúar 2019, hafi nokkurt gildi við úrlausn þessa máls.

Eignarnemi leggi fram yfirlit um samninga sem gerðir hafi verið undanfarið á ýmsum stöðum á landinu. Almennt verð umsamið við landeigendur á hinum ýmsu stöðum undanfarin þrjú ár sé á bilinu 200.000 til 350.000 krónur fyrir hektara og algengast á bilinu 225.000 til 300.000 fyrir hektara. Vakin sé athygli á því að á árunum 2018-2020 hafi verið gengið frá samningum vegna lagningar Hringvegar um Berufjarðarbotn og umsamið verð þar 300.000 krónur fyrir hektara. Þá hafi verið samið við eiganda Geitagerðis á árinu 2020 vegna Upphéraðsvegar og sama verð þar og í Berufjarðarbotni. Þá hafi verið gerðir samningar við vegna Upphéraðsvegar fyrir kaflann Hof-Skeggjastaðir og umsamið verð 230.000 krónur fyrir hektara. Telur eignarnemi því að framboðnar bætur í þessu máli séu eðlilegar og tryggi eiganda fullar bætur fyrir nauðsynlegt land undir veg. Meginundantekningin sé land í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið en þar sé virkur markaður með land, eftirspurn mikil og byggðin þéttari og verðið þar af leiðandi mun hærra, of hátt að margra mati. Minni skikar gangi þannig kaupum og sölum á tiltölulega háu verði. Endurspeglist það m.a. í ákvörðun fasteignamats.

Því til viðbótar má um efstu mörk benda á til samanburðar að til sölu er jörðin Egilsstaðir land 87,7 hektarar að stærð og sé ásett verð 48.000.000 króna eða sem svarar 547.000 krónum á hektara að meðaltali. Ákveðinn stór hluti þess lands sé mögulegt byggingarland í næsta nágrenni við þéttbýlið á Egilsstöðum, sem séu kostir sem hið eignarnumda land hafi ekki, auk þess sem staðsetning sé önnur. Verði að ætla að meðalverð við sölu á þeim hlutum Egilsstaðalands sem sé sambærilegt við hið eignarnumda væri að öllum líkindum sambærilegt lokaboði eignarnema ef landið yrði hlutað sundur.

Þá hefur eignarnámsþoli lagt fram tölvuskeyti um greiðslur Landsnets fyrir lagningu jarðstrengs ásamt slóðagerð og varanlegri kvaðasetningu. Umsamdar bætur fyrir allt munu hafa numið 700.000 krónum á hektara. Eignarnemi bendir á að hér sé ekki um sambærilega aðstöðu að ræða. Landsnet sé að semja um varanleg afnot og kvaðasetningu vegna strenglagnar og allt innifalið í því verði. Í því máli sem hér um ræði séu fram boðnar bætur 356.240 krónur fyrir 0,5208 hektara lands á svæði sem þegar sé kvaðasett og lagt undir veg eða sem svarar 684.024 krónum á hektara ef sambærileg aðferðarfærði sé notuð og í dæmi Landsnets, en hér vegi hlutfall bóta fyrir rask og óhagræði meira en eigi að síður verði að horfa til þess. Það verð sem Landsnet hafi greitt verði væntanlega að skoða í ljósi þeirrar andstöðu sem fyrirtækið hafi mætt úr öllum áttum undanfarin ár við tilraunir til styrkingar flutningskerfis raforku í þágu samfélagsins og þess hve eignarnámsheimildir raforkulaga séu tafsamar og kostnaðarsamar. Í ljósi þessa verði að telja bótatilboð eignarnema í þessu máli eðlilegt og tryggja fullar bætur fyrir hið eignarnumda.

Að öllu virtu telur eignarnemi að hámarksverð fyrir land af þeirri gerð sem hér um ræði um 300.000 krónur fyrir almennt land. Eignarnemi telur engin rök standa til þess að ákvarða verð hins eignarnumda 800.000 krónur á hektara eins og farið sé fram. á.

Eignarnemi hafnar sjónarmiðum um að meta beri landið sem skógræktarland enda fari ekki fram nytjaskógrækt á þeirri spildu sem um ræðir. Ef landið væri nytjað til skógræktar og slík ræktun yrði fyrir tjóni, væri óhjákvæmilegt við mat á bótum að taka fullt tillit til þeirra styrkja sem landeigandi hefði notið til skógræktarinnar gegnum skógræktarverkefni, sbr. þinglýsta kvöð þar um, sem kæmi þá að fullu til frádráttar. Að öðru leyti verður ekki horft til framlagðra gagna um hugsanlega arðsemi af skógræktarlandi ef ræktun færi þar fram. Samkvæmt lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt sé stofnkostnaður að mestu fjármagnaður af ríkissjóði gegnum landshlutaverkefni í skógrækt. Hið sama hafi gilt í tíð eldri laga, sbr. t.d. 4. gr. laga um héraðsskóga, nr. 32/1991. Miðað við kvaðasetningu sé ljóst að ef tjón verði á nytjaskógrækt í skógræktarverkefni, verði ekki annað séð en meta verði bætur miðað við framlög á ræktunartíma skv. skógræktaráætlun.

 

Um ákvörðun bóta fyrir eignarnumin jarðefni.

Eignarnemi hefur boðið 25 krónur á rúmmetra fyrir burðarlagsefni og 100 krónur á rúmmetra fyrir klæðningarefni. Tilboðið telur eignarnemi vera sanngjarnt og telur þetta vera hámarksboð miðað við gæði efnis.

Eignarnemi bendir á að við efnisnám sem þetta beri eignarnemi allan kostnað af opnun námu, lokun og frágangi, vinnslu og flutningi. Af þeim sökum sé hafnað alfarið þeim verðkönnunum sem eignarnámsþoli hafi sett fram. Upplýsingar um verð úr námu sveitarfélagsins styðji þó sjónarmið eignarnema um lægra verð enda beri eigandi námunnar, sveitarfélagið allan kostnað af opnun, ofanafýtingu, umsýslu, lokun og frágangi sem sé umtalsverður kostnaður. Verði þannig ekki miðað við markaðsverð efnis úr opnum námum enda eigi þau sjónarmið ekki við þegar svona háttar til. Efnið sé ekki markaðsvara þar sem það er, heldur eingöngu numið vegna þessarar framkvæmdar.

Eignarnemi hefur tekið saman yfirlit úr samningum og úrskurðum um einingaverð nýlegra samninga vegna kaupa á landi undir veg og efni. Þar kemur fram að samningsverð fyrir fyllingarefni sé algengast 25-35 krónur á rúmmetra en hærra verðið sé að koma inn í nýjustu samningana. Algengt verð á burðarlagsefni sé 50 krónur á rúmmetra en styrktarlagsefni 50-100 krónur á rúmmetra. Hærri talan hafi verið algengari í nýjustu samningum gerðum á árinu 2020, að því gefnu að efnið uppfylli gæðakröfur.

Í úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta í málum vegna lagningar vegar um Hornafjarðarfljót sé að finna nýjustu tölur úr úrskurðarframkvæmd um efnisverð. Í máli nr. 2/2019 hafi verið miðað við 35 krónur á rúmmetra fyllingarefnis úr námu 5 en 100 krónur á rúmmetra fyrir burðarlagsefni úr námu 2 sem talið hafi verið gott neðra burðarlagsefni, sem sé ekki það sem um ræði í þessu máli. Það efni sem um ræði hér og er andlag eignarnáms sé ekki í svo háum gæðaflokki sem þarna hafi verið fjallað um og þegar til hafi komið hafi á köflum reynst erfitt að ná í gott efni á þeim stað sem efnistaka hafi verið áætluð og farið fram. Eignarnemi telur því tilboð um 25 krónur á rúmmetra fyrir fyllingarefni og 65 krónur á rúmmetra fyrir styrktarlagsefni vera hæfilegt gjald og tryggi eignarnámsþolum fullar bætur og sé í samræmi við það sem samið hafi verið um við framkvæmdir í Berufjarðarbotni og auk þess yfir viðmiðunum fyrir styrktarlagsefnið.

 

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar vísa til ákvæða 72. gr. stjórnarskrár um rétt til fullra bóta úr hendi eignarnema við eignarnám. Þá er vísað til almennra meginreglna um fjárhæð eignarnámsbóta.

 

Um bætur fyrir land.

Tillaga Vegagerðar um greiðslu fyrir land hafi upphaflega verið 230.000 krónur fyrir hektara vegna lands Droplaugarstaða sem liggi á láglendi og í um 20 km fjarlægð frá þéttbýli Egilsstaða. Síðari tillögur Vegagerðarinnar miði við 300.000 krónur fyrir hektara. Sú fjárhæð sé með öllu óraunhæf sé tekið mið af eðlilegu markaðsverði lands. Landið sé skógi vaxið m. a. ungskógi og í öllu falli allt mjög heppilegt land fyrir nytjaskógrækt sem sé í raun aðal starfsemi á jörðinni. Tekið skuli fram að eignarnemi hafi verið tilbúinn að meta verð hvers hektara gróins ræktarlands miðað við fjárhæðina 500.000 krónur. Einungis lítill hluti lands Droplaugarstaða sé felldur undir þann lið af hálfu eignarnema. Vegna þess sé tekið fram að það land sem fellur undir vegsvæði og veghelgunarasvæði sé í raun allt sambærilegt og hagkvæmt til nytjaskógræktar.

Matsnefnd eignarnámsbóta hafi lagt til grundvallar verð fyrir hektara á heiðum og hálendi, m.a. á árinu 2016 varðandi Kröflulínu 4 á um 350.000 krónur á hektara. Nýleg dæmi um verð á heiðarlandi vegna fyrirhugaðra línulagna Kröflulínu 3 séu á bilinu 350-400 þúsund krónur. Þá megi líta til nýlegra úrskurða matsnefndar úr sveitarfélaginu Hornafirði frá árinu 2019, en tekið fram að almennt fasteignaverð sé hærra á Fljótsdalshéraði og í nágrenni Egilsstaða. Í umræddum úrskurðum t.d. nr. 13/2019, hafi verið miðað við að verð fyrir hektara væri 600.000 krónur.

Þá megi einnig velta upp matsniðurstöðum sem verið hafi til umfjöllunar í Hæstaréttarmálinu nr. 404/2009, Hrd. 25. mars 2010 (404/2009) vegna láglendissvæða og skógræktarlands á Fljótsdalshéraði. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi metið verð fyrir hektara 400.000 krónur á árinu 2006. Dómkvaddir matsmenn hafi síðar metið verð fyrir hektara á svæðinu 450.000 krónur. (Þessar fjárhæðir uppreiknaðar með vísitölu neysluverðs frá ársbyrjun 2007 til mars 2020 væru 712-801.000 krónur).

Þá megi nefna önnur verðdæmi á Fljótsdalshéraði á landi sem aðgengileg séu. Tekið er fram að slík tilvik séu hvorki mjög aðgengileg, né mörg ef miðað sé við sölu á spildum innan við 15 hektara.

•          Lóðir úr jörðinni Uppsölum, um 5 km utan við Egilsstaði, t.d. samningur dagsettur 14. september 2007, um Lóð B. Stærð 3.200 fermetrar (0,32 hektarar) Verð lóðar 1.120.000krónur. Verð 350 krónur á fermetra = 3.500.000 krónur á hektara.

•          Lóð undir lóðina Álfaás, þar sem byggt hafi verið Hótelið 1001 nótt. Óræktað land á Völlum í um 7 km fjarlægð frá Egilsstöðum. Kaupsamningur dagsettur í júní 2017. Stærð 12,807 hektarar. Verð 12.000.000 krónur. Verð á hektara 930.670 krónur.

•          Greiðslur Landsnets v/Eskifjarðarlínu. 2019. (Sjá upplýsingar frá byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs) Grunnverð á hektara 700,000 krónur. Bent er á að verðið sé greitt þótt raunverulega muni landeigandi eiga svæðið áfram og hafa rétt til nytja sem ekki raska öryggi jarðstrengs

 

Kröfu sína um bætur vegna eignarnáms á landspildu sundurliðar eignarnámsþoli þannig að verð fyrir fermetra lands sem takið sé undir vegsvæði sé 80 krónur  og krafa vegna þessa 1.535.120 krónur. (19189 x 80). Þá sé 72 fermetrum lands skilað sem meta eigi 10 krónur á fermetra (10 x 72) sem dragist frá fyrrnefndri fjárhæð og krafa um bætur vegna lands nemi 1.534.400 krónum.

Nánar sé það um sjónarmið eignarnema að segja að hann hafi vísað til sjónarmiða um verðlagningu samkvæmt úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta um verðlækkun lands næst þjóðvegi. Sú tilvísun sé ekki rökrétt en setji málið í öllu falli í aðra stöðu varðandi kröfugerð landeigenda. Vegagerðin vísi t.d. til úrskurðar nr. 3/2008. Sá úrskurður hafi ekki varðað eignarnám lands vegna Vegagerðar heldur land vegna bygginga- og þjónustustarfsemi tengt tjaldsvæði. Matsmál nr. 10/2008 verði einnig að skoða út frá kröfugerð aðila í viðkomandi máli.

Meginsjónarmið matsþola varðandi verðgildi lands vegna nálægðar við veg og sjónarmið Vegagerðarinnar séu eftirfarandi:

•          Nálægð lands við eldri veg hafi ekki þýðingu þegar verðlagning lands tekur mið af ræktunarmöguleikum lands, t.d. við skógrækt. Nýtingarmöguleikar landsins séu þeir sömu hver sem fjarlægð frá vegi er. Ef eitthvað er þá sé nálægð við veg kostur. Sjónarmið Vegagerðar komi því ekki til álita.

•          Bent er á að nálægð lands við veg til lækkunar hafi einkum þýðingu ef verðflokkun landsins hefði tekið mið af stöðu sem sumarbústaðarland eða fyrir aðra notkun, þar sem umferð og rask af vegi er ókostur. Það eigi ekki við hér.

•          Ef sjónarmið Vegagerðarinnar um að nálægð við veg lækki verðgildi lands verði að meta eignaskerðingu gagnvart eignarnámsþola í heild vegna breikkunar og uppbyggingar vegar með tilliti til þess. Ef það sé rétt að land næst veginum hafi nú þegar lækkað í verðgildi um þriðjung, sé ljóst að breikkun og uppbygging vegarins, muni verðfella land fyrir utan nýja vegsvæðið enn frekar, þ.e. verðfellingin nái lengra frá veginum. Með öðrum orðum:

o Ef landræma sem nú er tekin undir vegsvæði sé verðfelld um þriðjung vegna nálægðar við veg og afsalað til Vegagerðarinnar,

o þá verði að leggja mat á það belti sem liggi sitt hvorum megin við veginn og lækki að verðgildi, enda ljóst að vegsvæði og vegur er breikkaður. Vegur byggður upp og hann gerður frekar áberandi.

Varðandi sjónarmið um verðlagningu umrædds lands hafi verið bent á þýðingu þess sem skógræktarlands. Til frekari stuðning sé lagðir fram útreikningar miðað við núvirði notkunar lands sem skógaræktarlands.

Útreikningarnir hvíli á vaxtarmælingum skógræktarreita á jörðum á Fljótsdalshéraði; Hjartarstaðir (HJA2000G) í Eiðaþinghá og Litla Steinsvað (LST2000G) í Hróarstungu, og séu reiknaðir út fyrir lerki. Við þessa útreikninga hafi verið notaðar vaxtarjöfnur fyrir lerki sem hafi verið birtar í ritrýndu vísindariti http://ias.is/wrj-content/uploads/lcelandic Agricultural Sciences 25 2012/Models-for-simulating-the- temporal-development.pdf. Til að hluta trén niður í mismunandi afurðarflokka hafi verið notaðar jöfnur sem líka hafi verið birtar í ritrýndu vísindariti http://ias.is/wp- content/uploads/lcelandic Agricultural Sciences 24 2011/Taner-functions-for-lodgepole-pine-Pinus- contorta.pdf . Þess skuli getið að lega Arnheiðarstaða á innanverðu Fljótsdalshéraði sé síst verri til skógræktar, sbr. t.d. núverandi skógrækt á svæðinu.

Helstu aðferðir útreikninganna séu að núvirði skógræktarlands, NPV (net present value), sé reiknað út miðað við 1-2 grisjanir.

Verð flettiefnis (Fletv 1) sé til varúðar lækkað úr 40.000 krónum niður í 20.000 krónur, verð á iðnvið (Iðnvi 2) úr 20.000 krónum niður í 7500 krónur og eldivið (Eldiv 3) úr 1000 krónum upp í 3000 krónur í hluta útreikninga.

Afurðir séu skilgreindar svo:

-flettiefni 13 cm í grennri enda og 3 metra langt

-Iðnviður 6 cm í grennri enda og 3 metra langt

-eldiviður 3 cm í grennri enda og 3 metra langt.

Útreikningar séu svo keyrðir út m.v. 2-3% ávöxtunarkröfu:

•          Tvær grisjanir og 49,4 ára ræktunarlota, 3%                586.769 krónur

•          Tvær grisjanir og 55,2 ára ræktunarlota, 2%             1.523.178 krónur

•          Ein grisjun og 47,6 ára ræktunarlota, 3%                     599.214 krónur

•          Ein grisjun og 55,2 ára ræktunarlota, 2%                  1.553.992 krónur

Þessi sjónarmið styðji enn frekar við kröfu eignarnámsþola um verðlagningu lands. Sérstaklega beri að hafa í huga að útreikningarnir varði verðgildi lands fyrir tiltekna ræktun. Hagsmunir og verðgildi sem felist í beinum eignarrétti að landinu komi til viðbótar og réttlæti hærra landverð en felist í raunhæfu nýtingarverðmæti landsins með skógrækt.

 

Um bætur fyrir töku efnis

Af hálfu eignarnámsþola er til þess vísað að efnisnám á svæðinu sé afar hagkvæmt fyrir Vegagerðina. Samkvæmt fyrirspurnum um efnisverð á Fljótsdalshéraði, sé sýnt að efni af þeim gæðum sem nýtist í burðarlags- og klæðningarefni sé verulega hærra en tilboð Vegagerðarinnar hafi miðað við. Kæmi efnistaka ekki til greina úr þessari námu þyrfti að kaupa efni á forsendum almenns markaðsverðs á Fljótsdalshéraði, með tilheyrandi flutningskostnaði.

Þá sé það rökrétt sjónarmið samkvæmt verðmats- og eignarnámsfræðum að tilfallandi efnistaka úr námum sem opnaðar séu vegna einstakra verka leiði til hærra verðs en þar sem eru námur í almennum rekstri. Opnun námu feli í sér jarðrask, gróðursár og varanleg ummerki sem haft geti áhrif á nýtingarmöguleika lands í næsta umhverfi námu til lengri tíma. Rekstraraðilar opinna náma sem eigendur lands, hafi metið þá hagsmuni og geri ráð fyrir að deila kostnaði af jarðraski á mikið magn malarefnis á rekstrartíma námu. Opnun tilfallandi náma verði til þess að slíkur fórnarkostnaður af breyttri landnotkun og raski falli á fáa rúmmetra malarefnis.

Þessi staða hafi m.a. komið fram í samningum um sölu á malarefni, t.d. við lagningu Kröflulínu 3, milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar 2019-2020. Þar hafi verið miðað við verð á malarefni um 300 krónur. Um það sé m.a. vísað til Verðskrár LR ehf. (Landeigenda Reykjahlíðar) og upplýsinga um sölu efnis Fljótsdalshéraðs úr landi jarðarinnar Sænautasels, sbr. upplýsingar frá byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs um sölu efnis Fljótsdalshéraðs úr landi jarðarinnar Sænautasels.

 

Kröfu sína um bætur vegna töku jarðefnis sundurliða eignarnámsþolar þannig að fyrir hvern rúmmetra burðarefnis er krafist 300 króna eða samtals 780.000 króna (2.600 x 300) en fyrir hvern rúmmetra klæðningarefnis er krafist 300 króna eða samtals 180.000 króna  (600 x 300). Samtals krefst eignanámsþoli 960.000 króna vegna efnistöku.

 

Önnur verðdæmi um sölu malarefnis á Fljótsdalshéraði.

Við skoðun málsins hafi verið reynt að kanna upplýsingar um verð á malarefni í námum á Fljótsdalshéraði. Hér er sett fram yfirlit yfir helstu námur og upplýsingar um verð: Verðupplýsingar geta verið um árs gamlar og hvíla á fyrirspurnum eftir símtöl.

•          Þórsnes - innan við Egilstaði. Jón Pétursson. Líklega um 300 krónur á rúmmetra.

•          Mýnes - Náma 150-200 krónur á rúmmetra.

•          Hvammur við Grímsá-Óvíst

•          Gömul náma í Mýnesi.

•          Efni úr Selhöfða. Verð um 300 krónur á rúmmetra

•          Efnisnám á Jökulsáreyrum. Hráefni í sand og steypuefni.

•          Sveitarfélagið með námu á Eyvindarárdal. Verð um 168 krónnur á rúmmetra. (Sjá upplýsingar frá byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs)

 

Fyrirhugaðar framkvæmdir hafi leitt til mikils rasks og óhagræðis á starfsemi á jörðinni, m.a. varðandi rof girðinga og þ.a.l. fyrirsjáanlegri vinnu við að halda svæðum hreinum af búfé og fyrirsjáanlegri vinnu við að halda skógræktarsvæðum hreinum af búfé. Þá er bent á að framkvæmdir við Hrafnsgerðisá og vegarlagningu séu mjög nærri íbúðarhúsi jarðarinnar og athafnasvæði fyrir starfsemi á jörðinni. Ljóst sé mikil röskun hafi verið vegna þungaumferðar á framkvæmdatíma.

Bent er á að sjónarmið um bætur vegna rasks og óhagræðis séu einnig studd almennum sjónarmiðum á neikvæð áhrif landverðs vegna uppbyggingar og breikkunar vegar.

Tekið er undir sjónarmið eignarnema varðandi þennan þátt, en sérstaklega er vísað til þess að tillögur um að bætur miðuðust við  200.000 krónur voru settar fram fyrir um ári síðan og þá m.t.t. að greiðsla færi fram þá. Því er lagt til að greiðslur vegna rasks og óhagræðis verði kr. 250.000,-Samkvæmt framansögðu er kröfugerð eignarnámsþola eftirfarandi:

Land undir vegsvæði

19189 ferm.

80 kr. pr. ferm.

1.535.120 kr.

Landi skilað

72 ferm.

10 kr. pr. ferm.

-720 kr.

Samtals

 

 

1.534.400 kr.

 

 

 

 

Burðarlagsefni

2.600 m3

300 kr. pr. m3.

780.000 kr.

Klæðningarefni

600 m3

300 kr. pr. m3.

180.000 kr.

 

 

 

960.000 kr.

 

 

 

 

Rask, óhagr. o.fl.

 

 

250.000 kr.

 

 

 

 

Samtals

 

 

2.744.400 kr.

 

 

 

 

 

 

 

Þá verði eignarnemi að fallast á að greiða hóflegan kostnað vegna starfa lögmanns vegna málsins.

 

 

 

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á spildu úr landi eignarnámsþola að Droplaugarstöðum er til komið á grundvelli 37 gr. vegalaga í þágu framkvæmda við endurbyggingu og styrkingu Upphéraðsvegar á vegakafla milli Teigabóls og Bolalækjar í Fljótsdalshreppi. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í því að auka umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur. Í framkvæmdinni hafi falist að laga bröttustu brekkurnar, auka vegsýn, setja ræsi í Hrafngerðisá með tvíbreiðum og betri vegi í stað einbreiðrar brúar.  Með yfirlýsingu dagsettri 12. apríl 2019 heimiluðu eignarnámsþolar eignarnema að hefja framkvæmdir og taka umráð umrædds svæðis og að taka malarefni til vegagerðar á nánar afmörkuðu svæði í landi jarðarinnar.

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 6. apríl sl. ásamt lögmönnum aðila og svæðisstjóra Vegagerðarinnar, Sveini Sveinsyni, og kynnti sér aðstæður. Matsandlagið eru 38.111 fermetrar lands undir veg úr landi Droplaugarstaða undir 24 metra breitt og tæplega 1600 metra langt vegsvæði Upphéraðsvegar um land jarðarinnar að frádregnum 18.983 fermetrum lands núverandi vegar sem tilheyrir eignarnema og 71 fermetra lands sem skilað er aftur til landeiganda. Heildarflatarmál lands sem meta ber bætur fyrir er 19.057 fermetrar lands. Eignarnámið tekur til spildunnar með öllum gögnum og gæðum í samræmi við úrskurðarframkvæmd matsnefndar eignarnámsbóta.

Þá er um að ræða eignarnám á 3200 rúmmetrum jarðefna úr námu C innan landamerkja Droplaugarstaða. Hið eignarnumda jarðefni er áætlað 2600 rúmmetrar af burðarlagsefni og 600 rúmmetrar af klæðningarefni.

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Enda þótt eignarnámsþolar beri fyrir sig tjón vegna skógræktar á jörðinni er ekki sýnt fram á að það komi til álita um þá spildu sem hér er tekin eignarnámi og sjónarmið um notagildi og enduröflunarverð eiga því ekki við hér.  Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að til staðar sé virkur markaður um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir. Eignarnemi hefur haft umráð hins eignarnumda frá 12. apríl 2019 en eins og hér stendur á um drátt á meðferð máls þessa telur nefndi rétt að miða við verðlag í dag.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir þá landspildu sem fer undir Upphéraðsveg. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Það geri ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggi á, 80 krónur á fermetra. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi 48 krónum á fermetra eða 480.000 krónum á hektara. Bætur ákvarðast því fyrir 19.057 fermetra lands. Þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 914.736 krónur (19.057 x 48).

 

Í öðru lagi kemur til álita fyrir matsnefndinni hverjar bætur eignarnámsþolum beri vegna töku jarðefna til framkvæmdanna þ. e. 2.600 rúmmetrar af burðarlagsefni og 600 fermetrar af klæðningarefni, samtals 3.200 rúmmetrar. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 85 krónur fyrir rúmmetra burðarlagsefnis og 100 krónur fyrir rúmmetra klæðningarefnis, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti efnisins. Það geri ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggi á, 300 krónur fyrir rúmmetra burðarlagsefnis og 300 krónur fyrir rúmmetra klæðningarefnis. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti burðarlagsefnis nemi 100 krónum á rúmmetra og verðmæti klæðningarefnis 150 krónum á rúmmetra. Fyrir 2.600 rúmmetra burðarlagsefnis þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 260.000 krónur ( 100 x  2.600) og fyrir 600 rúmmetra klæðningarefnis þykja hæfilegar eignanámsbætur vera 90.000 krónur (150 x 600) eða samtals 350.000 krónur.

 

Þá er það í þriðja lagi álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma og þykja bætur vegna þessa þáttar hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.

Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola vera 1.764.736 krónur.

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum 1.220.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

 

Þá skal eignarnemi greiða 2.400.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða eignarnámsþolum, Lárusi Heiðarssyni og Sigríði Björnsdóttur, 1.764.736  krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og 1.220.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða 2.400.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

Allan Vagn Magnússon

 

           Gústaf Vífilsson                                                                     Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta