Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 264/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 264/2021

Fimmtudaginn 2. september 2021

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 26. apríl 2021, um að synja umsókn hennar um stuðningsþjónustu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. mars 2021, sótti kærandi um áframhaldandi stuðningsþjónustu frá Hafnarfjarðarbæ, nánar tiltekið aðstoð við heimilisþrif. Með bréfi fjölskyldu- og barnamálasviðs, dags. 29. mars 2021, var umsókn kæranda synjað með vísan til 3. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði niðurstöðu fjölskyldu- og barnamálasviðs til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar. Fjölskylduráð tók mál kæranda fyrir á fundi þann 23. apríl 2021 og staðfesti synjunina. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. apríl 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. maí 2021. Með bréfi, dags. 31. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 14. júní 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. júní 2021 og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júlí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi veikst af Covid-19 þann 2. mars 2020 og hafi ekki getað stundað fulla vinnu síðan. Kærandi hafi farið á Reykjalund í endurhæfingu í lok árs 2020 en þar hafi verið ákveðið að sækja um stuðning við heimilisstörf sökum veikinda hennar, sem séu meðal annars Covid, Asthmi og Psoriais gigt, liðir í fingrum bólgnir og verkjaðir sem hindri ýmis störf. Einnig minnkuð starfsgeta vegna þreytu, mæði, minnkuð lungnastarfsemi og orkuleysi sem fylgikvilli Covid. Nú sé staðan þannig að kærandi sé á auknum asthmalyfjum vegna mæði og sé síst betri, móð við kennslu og tal. Kærandi sé í 40% veikindaleyfi, þ.e. vinni 60% sem verkefnastjóri, geti stýrt þeirri vinnu nokkuð sjálf og meðal annars unnið að hluta heima og dreift sínum tímum yfir daginn til að létta álagið. Kærandi geti ekki kennt nema verða mjög móð og þreytt á eftir sem þýðir að hún liggi fyrir það sem eftir sé dags og jafnvel næsta dag. Kærandi hafi einnig unnið sem B og rekið lítið kennslufyrirtæki en hafi ekki getað unnið við þau störf síðan hún hafi veikst. Kærandi telji gífurlega mikilvægt að fá stuðning við þrif svo að hún geti reynt að nota þá orku sem hún hafi í að stunda vinnu eftir fremsta megni. Því óski kærandi eftir áframhaldandi aðstoð við heimilisþrif.

Í svari við greinargerð Hafnarfjarðarbæjar gerir kærandi athugasemd við að ekki hafi verið framkvæmt RAI mat vegna seinni umsóknar hennar. Kæranda minni að í fyrra skiptið hafi viðkomandi sagt að hún skoraði ívið lægri stuðul en það væri í lagi og að hún fengi stuðning við þrif. Þá tekur kærandi fram að hún hafi verið að reyna að vinna 50% létta dagvinnu og aukið létta dagvinnu í 60% mánuði seinna, létt skrifstofustörf og hún geti ráðið vinnutíma sínum í samræmi við orku og starfsgetu (ekki sem B eins og fyrir veikindin). Kærandi telji að svona mat sé ekki að ná nægilega vel yfir þegar fólk er með allt vitrænt í lagi en sé með áunna gigt og langvinn Covid veikindi. Það sé það sem valdi því að heimilisþrif verði henni ofviða.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um félagslega heimaþjónustu hjá Hafnarfjarðarbæ þann 23. október 2020. Hún hafi þá verið í endurhæfingu á Reykjalundi, en hún hafi veikst af Covid-19 í mars sama ár og glímt við afleiðingar þess. Hjá Hafnarfjarðarbæ sé notast við sérstakt alþjóðlegt matskerfi þegar metið sé hvort umsækjendur séu í þörf fyrir heimaþjónustu, RAI Home Care, og þar séu rækilega metnir allir þættir sem geti skipt máli í þessu sambandi. Niðurstöður séu metnar á fimm stiga kvarða og verði umsækjendur almennt að ná þremur stigum af fimm til að verða metnir í þörf fyrir heimaþjónustu. Þörf kæranda hafi verið metin til eins stigs, en allt að einu hafi stuðnings- og stoðþjónustuteymi fjölskyldu- og barnamálasviðs samþykkt að veita henni tímabundið heimaþjónustu, eða í þrjá mánuði, þar sem hún stundaði endurhæfingu á því tímabili með það fyrir augum að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Að þremur mánuðum liðnum hafi kærandi lagt fram umsókn um áframhaldandi heimaþjónustu en þá hafi hún verið farin að vinna í 60% starfi. Ekki hafi farið fram annað RAI mat þar sem aðstæður kæranda hefðu ekki breyst nema að því leyti að hún væri farin að vinna utan heimilis. Umsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til 3. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu í Hafnarfirði. Rétt samkvæmt ákvæðinu eigi þeir einstaklingar sem eigi lögheimili í Hafnarfirði og búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar, fötlunar eða af öðrum ástæðum sem fjölskylduráð meti gildar. Eins og að framan greini sé sérstakt alþjóðlegt matskerfi notað til að meta hvort aðstæður umsækjenda um félagslega heimaþjónustu séu þess eðlis að þær falli undir þau skilyrði sem sett séu í reglunum og þörf fyrir heimaþjónstu sé fyrir hendi. Að öllu jöfnu þurfi umsóknir að vera metnar til þriggja stiga til að umsækjendur eigi rétt á félagslegri heimaþjónustu samkvæmt 3. gr. reglnanna. Svo hafi ekki verið í tilviki kæranda en með tilliti til þess að hún hafi lent í alvarlegum veikindum og stundað endurhæfingu í því augnamiði að verða vinnufær á ný hafi verið samþykkt að gera undanþágu frá reglunum og veita heimaþjónustu á meðan á endurhæfingu stæði. Það hafi komið skýrt fram í bókun stuðnings- og stoðþjónustuteymis, dags. 19. nóvember 2020, að um tímabundna samþykkt væri að ræða. Að þessu tímabili loknu hafi kærandi verið orðin vinnufær að hluta, komin í 60% vinnu og aðstæður hennar ekki taldar falla að skilyrðum 3. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu í Hafnarfirði. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda um heimaþjónustu verið synjað.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn kæranda um stuðningsþjónustu í formi aðstoðar við heimilisþrif.

Í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um stuðningsþjónustu. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Í 3. mgr. 26. gr. laganna kemur fram að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá segir að sveitarstjórn skuli setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur viðkomandi sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Gildandi reglur Hafnarfjarðarbæjar um framkvæmd stuðningsþjónustu eru reglur um félagslega heimaþjónustu frá 1. febrúar 2018. Samkvæmt 2. gr. reglnanna er hlutverk félagslegrar heimaþjónustu meðal annars að veita aðstoð við heimilishald eftir þörfum notanda. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að rétt til félagslegrar heimaþjónustu eigi þeir einstaklingar sem eigi lögheimili í Hafnarfirði og búi í heimahúsi og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar, fötlunar eða af öðrum ástæðum sem fjölskylduráð meti gildar. Með umsókn skuli fylgja vottorð frá fagaðila ef sótt sé um þjónustu þar sem geta sé skert vegna veikinda eða félagslegra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglnanna.

Í 5. gr. framangreindra reglna er kveðið á um mat á þjónustu og afgreiðslu umsókna. Þar segir í 1. mgr. að starfsmaður fjölskylduþjónustunnar skuli meta þjónustuþörf í samráði við notanda eins fljótt og auðið er eftir að umsókn berst. Þá segir í 3. mgr. að við mat á þjónustu sé stuðst við matstækni Rai Home Care. Sé þjónustuþörf umsækjanda metin á bilinu 1 eða 2 sé viðkomandi umsókn tekin fyrir á afgreiðslufundi stoðþjónustuteymis fjölskylduþjónustunnar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af þessu megi leiða að þjónustuþörf umsækjanda þurfi að öllu jöfnu að vera metin til að lágmarki þrigga stiga til þess að umsókn verði samþykkt.

Þann 18. nóvember 2020 var framkvæmt mat á þjónustuþörf kæranda og samkvæmt því var þjónustuþörf hennar metin til eins stigs á fimm stiga kvarða. Þrátt fyrir það var samþykkt að veita kæranda tímabundna stuðningsþjónustu, frá 1. desember 2020 til 1. mars 2021, á meðan á endurhæfingu stæði. Þegar kærandi sótti um áframhaldandi stuðningsþjónustu var ekki framkvæmt nýtt Rai HC mat en samkvæmt dagál vegna vitjunar á heimili hennar, dags. 17. mars 2021, hefði það mat komið út á sama hátt og fyrra mat þar sem aðstæður kæranda væru að mestu óbreyttar. Hafnarfjarðarbær hefur vísað til þess að þar sem kærandi hafi verið orðin vinnufær að hluta féllu aðstæður hennar ekki að skilyrðum 3. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu.

Af gögnum málsins og afstöðu Hafnarfjarðarbæjar verður ekki annað ráðið en að sveitarfélagið hafi lagt fullnægjandi mat á aðstæður kæranda. Líkt og að framan greinir gera reglur Hafnarfjarðarbæjar um félagslega heimaþjónustu ráð fyrir að þjónustuþörf umsækjanda þurfi almennt að vera metin til að lágmarki þriggja stiga til þess að umsókn verði samþykkt. Ljóst er að aðstæður kæranda höfðu ekki versnað frá því mati sem framkvæmt var og uppfyllti hún því ekki skilyrði reglna sveitarfélagsins um að geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 26. apríl 2021, um að synja umsókn A um stuðningsþjónustu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta