Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 375/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 375/2015

Miðvikudaginn 8. júní 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 19. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. október 2015 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 5. júní 2015. Með örorkumati, dags. 9. október 2015, var umsókn kæranda synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 31. október 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 30. desember 2015. Með bréfi, dags. 4. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 19. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda, dags. 29. janúar 2016, bárust úrskurðarnefnd velferðarmála og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 4. febrúar 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn hennar um örorkulífeyri samþykkt.

Kærandi kveðst vera mjög ósátt með niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins. Hún sé metin 75% öryrki hjá lífeyrissjóði og hafi farið í starfsmat á vegum VIRK eftir langa endurhæfingu og þar hafi hún einnig verið metin með aðeins 25% starfsgetu. Læknisvottorð segi hana óvinnufæra og ekki sé búist við að færni hennar aukist.

Kærandi segist vera mjög ósátt með mat Tryggingastofnunar þar sem öllum spurningum hafi þurft að svara með annað hvort játandi eða neitandi svari. Það þurfi að vera eitthvert svigrúm til frekari svara fyrir þá sem geti stundum gert hluti sem séu samt eiginlega of erfiðir fyrir þá.

Hún taki sem dæmi úr matinu hjá sér spurninguna hvort hún geti setið lengi. Hennar svar hafi verið að hún eigi mjög erfitt með langar setur og allar langar kyrrstöður því hún fái svo svakalega illt í bakið við það. Þá hafi skoðunarlæknir sagt að ekki sé spurt að því hvort það sé vont að sitja heldur hvort hún geti setið. Í framhaldinu hafi skoðunarlæknir spurt hana hvort hún geti farið í bíó. Kærandi kveðst hafa svarað því að hún fari einstöku sinnum í bíó en hún sé oft að drepast eftir það. Skoðunarlæknir hafi þá sagt að hún geti það alveg. Kærandi kveðst sjálf myndi hafa hakað við svarmöguleikann „nei“ þarna þar sem hún sé að drepast í bakinu við að sitja svona bein og hún fái krampa í hnén þar sem hún geti ekki rétt alveg úr fótunum.
Kæranda finnist læknirinn sem hún hafi farið í skoðun til vera rosalega hvöss og henni hafi ekki liðið vel þegar hún hafi gengið út frá henni. Kvíðinn hennar hafi aukist í kjölfarið. Hún óski eftir mati hjá öðrum lækni. Einnig bendir kærandi á að það sé misræmi í mati Tryggingastofnunar og mati lífeyrissjóðsins hennar.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að samkvæmt gögnum og mati lækna VIRK og lífeyrissjóðs hafi hún verið metin 100% óvinnufær. Því sé úrskurður Tryggingastofnunar í hróplegu ósamræmi við hærra mat hinna fyrrnefndu.

Þá nefni kærandi fyrra bréf sitt þar sem vikið hafi verið að slæmri líðan og framkomu skoðunarlæknis í hennar garð. Í svarbréfi Tryggingastofnunar hafi komið fram að það sé ekki hlutverk skoðunarlæknis að láta umsækjanda um örorkulífeyri líða vel. Kærandi bendi á að um erfið skref hafi verið að ræða af hennar hálfu að sækja um rétt sinn til Tryggingastofnunar og hegðun starfsfólks geti seint falist í leiðindum og hroka. Umsækjandi eigi varla að ganga út frá Tryggingastofnun ríkisins niðurbrotinn og niðurlægður eftir skoðun. Kærandi bendi einnig á að svarmöguleikar við spurningum bjóði aðeins upp á kalt mat sem felist annað hvort í já eða nei eða þröngum möguleikum sem ályktanir séu dregnar út frá. Við það að fara í kvikmyndahús sé sem dæmi dregin sú ályktun að kærandi geti setið í tvær klukkustundir sem sé ekki rétt. Endurhæfingarferli kæranda hafi staðið yfir þriggja ára tímabil samhliða endurhæfingarlífeyri. Á tímabilinu hafi ekki orðið breyting til batnaðar hvað líðan varði, verki eða kvíða nema síður sé.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Við mat á örorku styðjist stofnunin við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í andlega hlutanum. Þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga sé greiddur þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við mat á örorku hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. X, umsókn kæranda, dags. 5. júní 2015, svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 5. júní 2015, starfsgetumat frá VIRK, dags. X og skýrsla skoðunarlæknis Tryggingastofnunar, dags. 10. september 2015.

Kærandi hafi hlotið þrjú stig á líkamlega þættinum og tvö stig á andlega þættinum. Þetta nægi ekki til þess að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli en kærandi hafi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks og hafi hann því verið veittur.

Kærandi hafi lýst óánægju sinni með örorkumatið og hún hafi tilgreint sem dæmi að skoðunarlæknir ofmeti hversu lengi hún geti setið. Skoðunarlæknir telji að hún geti setið í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp, en það gefi engin stig. Í læknisvottorði B sé ekkert sem gefi tilefni til þess að tryggingalæknir breyti mati skoðunarlæknis og sama eigi við ef litið sé til starfsgetumats VIRK, dags. X. Að auki bendi stofnunin á að þótt skoðunarlæknir hefði metið kæranda á þann veg að hún gæti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp, sem gefi þrjú stig, hefði það ekki breytt heildarniðurstöðu matsins.

Hvað varði það að skoðunarlæknir hafi verið hvöss og kæranda hafi ekki liðið vel þegar hún hafi gengið út frá henni, þá verði ekki séð að það sé hlutverk skoðunarlæknis að láta umsækjanda um örorkumat líða vel.

Varðandi misræmi á milli mats Tryggingastofnunar og lífeyrissjóðs þá gildi aðrar reglur um örorkumat hjá lífeyrissjóðum heldur en hjá Tryggingastofnun ríkisins og því sé engan veginn gefið að samræmi sé á milli örorkumats hjá þessum aðilum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. október 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 31. október 2018. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. X, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Bakverkur

Kvíði“

Í læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

„Verið með bakverki mjög lengi eða frá X ára aldri eftir að hún datt af hestbaki. Hún hefur einnig átt við kvíðavandamál að stríða sem hefur farið vaxandi með árunum, er einnig haldin verkkvíða. Hún er í sambúð og á einn dreng sem er X ára.

[…]

Var á hestbaki X ára þegar hún dettur af baki. Lennti með höfuð og háls í jörðinni. Hefur uppfrá því verið með mikla verki í brjósthrygg og hálsi, vöðvabólgu sem leiðir uppí höfuð og nýlega verið að fá verki neðar í baki. Gera henni erfitt með vinnu. Verið í endurhæfingu hjá VIRK og Samvinnu, var í starfsþjálfun á [...], X x í viku, X tímar í senn og gat hún illa unnið það vegna bakvandræða. Verkir koma aðallega fram við kyrrsetu, því lengri, því verri. Var að vinna í [...] árið X, hætti þá vegna bakverkja, segir kyrrstaðan og endurteknar hreyfingar hafi verið aðal ástæða fyrir því að hún hætti.

Kvíði einnig verið vandamál. Byrjaði á svipuðum tíma og bakverkir en hefur verið að versna síðustu X ár. Einnig með talsverðan verkkvíða og því erfitt með að koma hlutum í verk.

Verið í endurhæfingu hjá VIRK en er henni lokið núna, án mikils bata. Talið af læknum þar að frekari endurhæfing hafi ekki mikið að segja. Endurhæfingar lífeyrir búinn.“

Um skoðun á kæranda þann X segir svo í vottorðinu:

 „Ekki þreyfiaum yfir paraspinal vöðvum í brjósthrygg eða hálsi. Talsverð vöðvabólga í öxlum. Verkir í paraspinalvöðvum í lendhreygg. Góð rotation í hrygg í báðar áttir. Getur gert extension og flexion án tiltalandi verkja.“

Í vottorði B kemur einnig fram:

„Hefur lokið endurhæfingu hjá VIRK án teljandi bætingar á vinnufærni. Fær mikla verki í bak sem hamla því að hún geti unnið. Ólíklegt að batni úr þessu.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. X, segir svo:

„A er í sambúð og á X ára son. Eiginmaður er öryrki en er í skóla. Hefur mest unnið í [...] og lauk X einingum til stúdentsprófs. Hún byrjaði í þjónustu VIRK X. Er á endurhæfingarlífeyri en er að detta út af honum um næstu mánaðamót. Ekki unnið frá X.

A er með sögu um bakverki eftir slys X ára, vefjagigt og kvíða. Einnig PCOS. Hún fór á vegum VIRK í úræði hjá Samvinnu, undirbúningshóp, námslínu, sumarlínu, atvinnulínu og starfsþjálfun á vinnustað á [...] .Gekk vel en slæm af bakverkjum sem hindruðu hana í því starfi. Fór í Heilsustoð og heilsuklúbb í C og fékk alls 25 (20+5) hjá sjúkraþjálfara. Er að fylgja prógrammi í C sem sett var upp af sjúkraþjálfara. Fór í Menntastoðir og fékk X viðtöl hjá næringarráðgjafa og X sálfræðitíma.

Skv. greinargerð sálfræðings þá var ástand talið óbreytt eftir meðferðina og skrifar: A sóttist sjálf eftir að fá að klára þau viðtöl sem hún átti eftir. Hún hafði farið í starfsprófun og gekk það ekki nógu vel vegna bakverkja. Niðurstöður D benda til að einkenni streitu og kvíða séu innan eðlilegra marka en þunglyndiseinkenni væg. A mun líklega finna fyrir kviða þegar hún fer aftur á vinnumarkað, en hefur lært aðferðir til að takast a við hann. Ekki talin þörf á frekari meðferð.

Ástand talið óbreytt eftir X tíma í sjúkraþjálfun.

Við yfirferð gagna og í samtali þá kemur í ljós að ástand hennar hefur versnað á tímabilinu hvað varðar andlegt ástand en líkamlegt ástand svipað. Meira orkuleysi og erfiðara að takast á við streitu og ekkert dagskipulag.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 5. júní 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með mikla bakverki, kvíða og vefjagigt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún fái mjög illt í bakið ef hún þurfi að sitja í einhvern tíma á stól. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól svarar hún þannig að ef hún sé slæm í baki eða hnjám þá geti það verið pínu erfitt að standa upp. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að það fari eftir dögum, hún sé misjafnlega slæm í baki og hnjám. Það komi því fyrir að það sé erfitt að beygja sig og krjúpa. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa svarar hún þannig að það að standa kyrr fari í bakið á henni. Kyrrstöður séu vondar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún búi á þriðju hæð og stundum sé pínu erfitt að fara upp. Oftast sleppi þetta þó. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera svarar hún þannig að það fari eftir dögum og hvernig hún sé í bakinu. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi.

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hún átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Þá geti kærandi ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Þá kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„X ára kona, útlit svarar til aldurs, litarháttur er eðlilegur. Hún er of þung, er X cm, X kg, BMI X. Göngulag er eðlilegt. Hreyfigeta og kraftar er eðlilegt. Hreyfinggar í hrygg eru eðlilegar í öllum plönum. Hún leggur lófa í gólf í frambeygju með bein hné. Hún er aum við þreyfingu í vöðvum og vöðvafestum í öxlum, í kringum herðablöð og yfir lendum, en ekki paravertebralt.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Saga um vægt þunglyndi og kvíða. Er með rugl á svefntíma, snýr við sólarhringnum. Er á þunglyndislyfjum. Var í sálfræðiviðtölum hjá Virk, sem voru ekki talin breyta miklu. Í viðtali er hún í andlegu jafnvægi, gefur góðan kontakt og góða sögu. Geðslag er eðlilegt. Engar ranghugmyndir.“

Í athugasemdum skoðunarskýrslunnar segir svo:

„X ára kona, sem er í sambúð. Hún hefur ekki starfsmenntun. Hún lauk nægilega mörgum framhaldsskólaeiningum til að komast í F um s.l. áramót og býr á G, en hefur ekki haft sig í gang með nám þar. Hún vann sem [...] frá unglingsaldri til X ára og við ýmis önnur [...] inn á milli, en gafst upp vegna bakverkja snemma árs X. Hún segist með bakverki við stöður eftir byltu af hestbaki, og kveðst greind með vefjagigt. Hún er með vægt þunglyndi og kvíða, er talin framtakslítil, með verkkvíða og með skerta áhugahvöt. Hefur verið á þunglyndislyfjum. Hún er með svefntruflanir, fer seint að sofa og oft seint á fætur. Var í starfsendurhæfingu í X ár og var metin 25% vinnufær.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Þá geti kærandi ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til tveggja stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Kærandi gerir athugasemd við að örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins hafi hvorki verið í samræmi við starfsgetumat VIRK þar sem hún hafi einungis verið talin vera með 25% starfsgetu né mat lífeyrissjóðs þar sem hún hafi verið metin óvinnufær. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að örorka samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er ekki metin með hliðsjón af starfsgetu umsækjanda heldur er hún ávallt metin samkvæmt örorkustaðli nema framangreind undanþága í 4. mgr. reglugerðar nr. 379/1999 eigi við. Því þurfa umsækjendur um örorkulífeyri almennt að uppfylla skilyrði örorkustaðalsins til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris, óháð því hvort þeir hafi verið metnir óvinnufærir eða ekki.  

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk þrjú stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og tvö stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta