Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 92/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 92/2020

Fimmtudaginn 14. maí 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. febrúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 11. febrúar 2020, um synjun á umsókn hans um húsnæðisbætur. Undir rekstri málsins tók B lögmaður við málinu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 15. janúar 2020. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 20. janúar 2020, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknarinnar væri frestað þar sem hann væri ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu. Óskað var eftir staðfestingu Þjóðskrár Íslands á búferlaflutningi eða staðfestingu á því að tilteknar undanþágur ættu við í málinu. Með erindi lögmanns kæranda, dags. 4. febrúar 2020, var óskað eftir endanlegri afstöðu stofnunarinnar gagnvart umsókn kæranda svo hægt væri að hefja formlegt kæruferli. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 11. febrúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu, sbr. a.lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 17. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni 3. mars 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá ástæðu þess að hann hafi flutt í núverandi húsnæði sem sé sumarbústaður nálægt Reykjavík. Kærandi hafi ekki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, fengið að skrá lögheimili sitt í húsnæðinu. Hann hafi fengið staðfestingu sóknarprests á varanlegri búsetu fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Húsnæðið sé með stofu, eldhús, baðherbergi, sturtu, tvö svefnherbergi, þvottaherbergi og svefnloft. Einnig sé þar gestahús og stór gámur. Kærandi geri enga kröfu um snjómokstur eða sorphirðu, enda sjái hann um það sjálfur. Ljóst sé að húsnæðið fullnægi því að vera fullbyggt húsnæði, enda um að ræða heilsársbústað. Það sé mikilvægt fyrir kæranda að fá lögheimili sitt skráð með formlegum hætti hjá Þjóðskrá til að eiga rétt á húsnæðisbótum sem skipti hann sköpum til að eiga fyrir nauðsynjum.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að lög nr. 75/2016 um húsnæðisbætur gildi um rétt leigjenda til greiðslu húsnæðisbóta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Ágreiningur málsins lúti að því að kæranda hafi verið synjað um húsnæðisbætur þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um lögheimili. Í a-lið 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur komi fram að húsnæðisbætur séu einungis veittar ef umsækjandi og aðrir þeir sem umsækjandi tilgreini sem heimilismenn í umsókn séu búsettir í íbúðarhúsnæðinu, sbr. þó 10. gr. Með búsetu sé átt við þegar einstaklingur búi í hinu leigða íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um húsnæðisbætur. Þó sé heimilt að veita undanþágu frá ofangreindu skilyrði um lögheimili hafi heimilismaður tímabundið aðsetur í leiguhúsnæðinu vegna náms, veikinda, vegna dvalar á áfangaheimili eða vegna vinnu fjarri lögheimili, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Ekki sé að sjá að framangreint undanþáguákvæði geti átt við í máli kæranda og því verði ekki fjallað efnislega um það.

Í 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur sé sérstaklega fjallað um fasta búsetu og lögheimili. Þar segi í 2. mgr. að ,,[m]eð fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.” Þá segi í 3. mgr. að ,,[l]ögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang.“ Í umsókn kæranda komi fram að leiguhúsnæðið sé að X sem sé staðsett í Y. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé um að ræða sumarbústað sem sé staðsettur á svæði sem sé skilgreind frístundabyggð í aðalskipulagi Y. Af þeim sökum geti kærandi ekki skráð lögheimili sitt í sumarbústaðnum sem hann leigi og hafi Þjóðskrá Íslands þess í stað skráð kæranda til lögheimilis í sveitarfélaginu, þó án tilgreinds heimilisfangs.

Í kærunni segi að kærandi hafi ,,þrátt fyrir ítrekaðar óskir ekki fengið að skrá lögheimili sitt í húsnæðinu þrátt fyrir að hafa talað við sveitarfélagið og TR og hann hefur m.a. fengið staðfestingu sóknarprests á varanlegri búsetu hans fyrir TR.“ Eins og áður hafi komið fram sé eitt af skilyrðum fyrir veitingu húsnæðisbóta að umsækjandi og heimilismenn séu með búsetu í leiguhúsnæðinu og eigi þar skráð lögheimili. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 9. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um húsnæðisbætur þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt til að um búsetu sé að ræða í skilningi laganna. Annars vegar að heimilismaður búi sannanlega í viðkomandi húsnæði og hins vegar að hann sé þar með skráð lögheimili, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Þrátt fyrir að fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að kærandi hafi fasta búsetu í leiguhúsnæðinu uppfylli það eitt og sér ekki skilyrði a-liðar 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur. HMS sé með öllu óheimilt að víkja frá framangreindu ákvæði laganna nema í þröngum undantekningartilvikum samkvæmt 10. gr. laganna. Það hafi því verið niðurstaða stofnunarinnar að synja bæri umsókn kæranda um húsnæðisbætur þann 11. febrúar 2020. HMS geri þá kröfu að ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um synjun á umsókn kæranda um húsnæðisbætur. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu, sbr. a. lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Í 9. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta en samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins koma húsnæðisbætur aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt a. lið 2. mgr. 9. gr. skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi búsettur í íbúðarhúsnæðinu, sbr. þó 10. gr. laganna, en þar eru tilgreindar undanþágur frá skilyrðum um búsetu. Með búsetu er átt við þegar einstaklingur býr í hinu leigða íbúðarhúsnæði og á þar skráð lögheimili samkvæmt lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2016.

Óumdeilt er að kærandi er ekki með skráð lögheimili í hinu leigða húsnæði og að undanþáguákvæði 10. gr. laga nr. 75/2016 eiga ekki við um aðstæður hans. Að því virtu uppfyllir hann ekki skilyrði a. liðar 2. mgr. 9. gr. laganna og á því ekki rétt á greiðslu húsnæðisbóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 11. febrúar 2020, um synjun á umsókn A um húsnæðisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta