Hoppa yfir valmynd

Nr. 143/2017- Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 143/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16120057

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.Málsatvik

Þann 15. mars 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 13. janúar 2016 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um hæli á Íslandi og endursenda hann til Frakklands. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 24. apríl 2016.Þeirri beiðni kæranda var synjað þann 21. júní 2016 og var sú ákvörðun birt honum þann 23. ágúst 2016.

Þann 9. desember 2016 fékk kærunefnd útlendingamála framsenda frá Útlendingastofnun, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beiðni kæranda um endurupptöku máls hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þann 29. desember 2016 barst kærunefnd greinargerð kæranda og fylgigögn. Þá bárust kærunefnd frekari gögn þann 5. janúar 2017.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína annars vegar á því að ábyrgð franskra stjórnvalda á umsókn hans um alþjóðlega vernd sé fallin niður vegna þess að vegabréfsáritun hans til Frakklands sé runnin út, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Hins vegar byggir kærandi á því að umsókn hans um alþjóðlega vernd skuli taka til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá óskaði kærandi eftir því að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar nr. 91/2016 yrði frestað á meðan kærunefnd úrskurðaði um beiðni kæranda um endurupptöku.

III.Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) skal flutningur umsækjanda um hæli fara fram í síðasta lagi innan sex mánaða frá því að viðtökuríki samþykkir beiðni um að taka við viðkomandi eða lokaákvörðun liggur fyrir í máli einstaklingsins, hafi réttaráhrifum verið frestað í samræmi við ákvæði 27. gr. reglugerðarinnar. Hafi flutningur ekki farið fram innan sex mánaða frestsins fellur niður sú skylda ríkisins, sem ber ábyrgð á afgreiðslu umsóknar um hæli, að taka við umsækjanda og færist ábyrgðin þá til aðildarríkisins sem lagði fram beiðni um viðtökuna.

Í samræmi við niðurstöður dóms Hæstaréttar frá 4. desember 2014 í máli nr. 430/2014, byrjaði framangreindur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda til Frakklands að líða þann 23. ágúst 2016, við birtingu niðurstöðu kærunefndar um beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar sem kveðinn var upp á grundvelli þágildandi laga um útlendinga. Kærunefnd telur því ljóst, eftir að hafa fengið staðfestingu Útlendingastofnunar þar um, að sex mánaða fresturinn til flutnings, skv. Dyflinnarreglugerðinni, sé liðinn og ábyrgð franskra stjórnvalda á afgreiðslu umsóknar kæranda um hæli því fallin niður.

Í ljósi framangreinds fellst kærunefnd því á að mál kæranda sé endurupptekið hjá kærunefnd á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og er það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 13. janúar 2016 sé felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi, enda ekki lengur fyrir hendi það skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sjá til hliðsjónar d-lið 1. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, að heimilt sé að krefja annað ríki um að taka við kæranda.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                 Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta