Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 19/2015

Úrskurður úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána


nr. 19/2015


Ár 2015, miðvikudaginn 25. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 24/2014; kæra A, dags. 28. desember 2014. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur 


ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sinna þann 26. ágúst 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 1.327.578 kr. en frá henni voru dregnar 129.991 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Ákvörðuð leiðrétting var 1.197.587 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda endurreiknuð 19. nóvember 2014. Ráðstöfun leiðréttingarinnar var síðan birt kæranda 23. desember 2014.

Með kæru, dags. 28. desember 2014, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga. nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærandi krefst þess að ráðstöfun leiðréttingar fari inn á lán lífeyrissjóðsins X nr. 1, tryggðu með lánsveði í fasteign fyrrverandi tengdamóður hans að M götu, en ekki inn á glatað veð hjá Y banka nr. 2 eins og ráðstöfun ríkisskattstjóra gerir ráð fyrir. Til vara krefst hann þess að leiðréttingin myndi sérstakan persónuafslátt. Kærandi tekur sérstaklega fram í kæru sinni að hann geri ekki athugasemd við fjárhæð leiðréttingar.


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að ráðstöfun leiðréttingar. Af málsatvikalýsingu kæranda má ráða að hann hafi orðið gjaldþrota seinni hluta árs 2013 og Y banki hafi eignast fasteign hans og fyrrverandi eiginkonu hans að N götu á nauðungarsölu en síðan selt aftur skömmu síðar. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að eftir hafi staðið fasteignaveðkrafa Y banka nr. 2 sem hafi glatað veðtryggingu að fjárhæð 1.715.999 kr. Ágreiningslaust virðist að krafan er til staðar en málatilbúnaður kæranda byggir einkum á því að ráðstöfun leiðréttingar inn á kröfuna muni ekki hafa vægi fyrir hann og því muni hann ekki samþykkja hana óbreytta.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014 og þar kemur fram í 1. mgr. að hafi fasteignaveðkröfur, sem glatað hafa veðtryggingu sinni í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008, ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda skuli leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. er hærri en 200.000 kr. skuli leiðrétting fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt þeirri grein. Að öðrum kosti fari um framkvæmd leiðréttingar skv. 12. gr. og myndi hún þá sérstakan persónuafslátt. Sérstaklega er tekið fram í lokamálslið 4. mgr. 11. gr. laganna að ef eftir leiðréttingu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda standi eftir fasteignalán umsækjanda sem tryggt er með veði í fasteign annars einstaklings skuli það fært niður með sama hætti.

Nánar er fjallað um frádráttarliði og ráðstöfun í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með annarri ráðstöfun eignar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 sé m.a. átt við sölu eða aðra eignaráðstöfun sem framkvæmd hefur verið í tengslum við gjaldþrot umsækjanda og leitt hefur til þess að fasteignaveðlán hans hefur glatað veðtryggingu. Fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, teljast endanlega niðurfelldar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og dragast frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. laganna, sé fyrningarfrestur skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. liðinn á samþykktardegi ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Ef fyrningarfrestur fasteignaveðkröfu, sem glatað hefur veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, er ekki liðinn á framangreindu tímamarki, skal leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 fyrst ráðstafað til að lækka slíkar kröfur skv. 1. mgr. 11. gr. laganna enda hafi krafan ekki verið endanlega felld niður.  

Í tilviki kæranda er til staðar glatað veð í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 en ekki fasteignaveðlán samkvæmt 2.-4. mgr. þeirrar lagagreinar, að undanskildu láninu sem tryggt er með lánsveði í fasteign annars einstaklings. Ljóst er af lagagreininni að ráðstöfun leiðréttingar upp í fasteignaveðkröfu Y banka nr. 2  er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

 
Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta