Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 46/2012

Miðvikudaginn 27. júní 2012

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2012, kærir B hrl. f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga frestun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um ellilífeyri og tengdar greiðslur.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 23. september 2011, sótti kærandi um ellilífeyri og tengdar greiðslur. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2011, óskaði Tryggingastofnun ríkisins eftir upplýsingum frá kæranda varðandi það hvort búseta hans í C væri langvarandi eða tímabundin. Þá segir í bréfinu að engir milliríkjasamningar um almannatryggingar séu á milli C og Íslands og því sé ekki hægt að greiða lífeyri milli þeirra landa sé umsækjandi búsettur í C. Með öðru bréfi, dags. 13. desember 2011, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að ákvörðun og bótagreiðslum vegna umsóknar kæranda hafi verið frestað þar sem umbeðnar upplýsingar samkvæmt fyrra bréfi stofnunarinnar hefðu ekki borist.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir m.a.:

 „A [...] hefur falið mér að kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins (hér eftir TR), að hann skuli ekki njóta ellilífeyris lögum samkvæmt, enda þótt hann uppfylli öll þau lagaskilyrði sem greind eru í lögum um almmmatryggingar nr. 100/2007 (hér eftir lögin).

Skv. 1. mgr. 12. gr. laganna telst sá tryggður samkvæmt lögunum sem búsettur er hér á landi. Í 2. mgr. greinarinnar er búseta skilgreind sem það að eiga lögheimili hér á landi í skilningi lögheimilislaga. Ekki leikur vafi á að umbj.m. uppfyllir það skilyrði að eiga lögheimili á Íslandi, nánar tiltekið að D, Reykjavík, samkvæmt þjóðskrá.

Í ákvæði 17. gr. laganna, sem fjallar um ellilífeyri, segir m.a., að þeir eigi rétt á ellilífeyri sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi a.m.k. þrjú ár á frá 16 til 67 ára aldurs. Um búsetu vísar ákvæðið til II. kafla laganna, þ.e. í þessu tilviki til 12. gr. laganna, sem skilgreinir hvað átt er við með skilyrðinu um búsetu, en það er að eiga lögheimili hér á landi skv. lögheimilislögum.

·         Umbj.m. er búsettur hér á landi í skilningi laganna þar sem hann á hér lögheimili.

·         Umbj.m. er 67ára að aldri eða eldri og uppfyllir því skilyrði lagana um ellilífeyri.

·         Umbj..m. hefur verið búsettur hér á landi a.m.k. þrjú ár frá 16 til 67 ára aldurs og uppfyllir því einnig það skilyrði..

Samkvæmt framansögðu uppfyllir umbj.m. öll skilyrði laganna til að njóta ellilífeyris eins og aðrir borgarar landsins.

Hin kærða ákvörðun TR er haldin þeim ágalla, að þar er ekki að finna nein lagarök fyrir niðurstöðunni og ákvörðunin ber einkenni geðþóttaákvörðunar. Sjónarmiðum TR í hinni kærðu ákvörðun er hafnað og mótmælt sem röngum.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 14. febrúar 2012. Í greinargerðinni, dags. 4. apríl 2012, segir:

 „Heimild til greiðslu ellilífeyris byggist á 17. gr. ATL.  Þar segir í 1. mgr.:

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Í 12. gr. ATL segir:

Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður, sbr. þó 29. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Með búsetu skv. 1. mgr. er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

Tryggingastofnun ríkisins eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 7.–9. gr.

Í 1. mgr. 58. gr.ATL segir:

Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi.

Í 3. mgr. 52. ATL segir:

Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, bótaþega eða maka hans er Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnuninni heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur og skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar.

Í 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 segir:

1. gr. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.

hkMaður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

hkDvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, er ekki ígildi fastrar búsetu. Sama gildir um húsnæði í skipulagðri frístundabyggð og á skipulögðu iðnaðar-, athafna- og hafnarsvæði og öðru svæði innan þéttbýlis sem skipulagt er fyrir atvinnustarfsemi nema búseta sé þar heimil samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum].

hkÞrátt fyrir ákvæði 3. mgr. má heimila tímabundna skráningu lögheimilis í starfsmannabústað.

A sótti um ellilífeyri og tengdar bætur með umsókn dags. 23. september 2011.  Með umsókninni fylgdi tekjuáætlun 2011 dags. sama dag, greinargerð með umsókn þar sem fram kemur að hann hafi dvalið í C frá árinu 2007 þar sem hann eigi fjölskyldu og dóttur fædda ........ en fari fram á undanþágu "frá þeim ónorrænu reglum sem takmarki veitingu ellilífeyris við hinn dýra vestræna heim" og leigusamning fyrir tímabilið 1/3/2011 til 1/3/2012.

Í framhaldi af því að umsókn A barst var honum skrifað bréf, dags. 10. nóvember 2011, stílað á skráð lögheimili hans að D Reykjavík þar sem í tilefni af því að greinargerðinni sem barst með umsókninni komi fram að hann búi í C og til þess að hægt sé að taka umsókn hans til afgreiðslu þurfi að berast upplýsingar frá honum hvort búseta hans í C sé langvarandi eins og ætla megi af greinargerðinni eða tímabundin.  Engir milliríkjasamningar um almannatryggingar séu milli C og Íslands og því sé ekki hægt að greiðsa lífeyri milli þessa landa ef umsækjandi er búsettur þar.

Ekkert svar barst við bréfi þessu og var A því sent bréf dags. 13. desember 2011 þar sem honum var tilkynnt að ákvörðun og greiðslu bóta væri frestað.

Í máli þessu liggja fyrir gögn sem bárust frá A sem bera með sér að hann sé búsettur í C og uppfylli því ekki skilyrði 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 fyrir því að halda lögheimili sínu hér á landi. Skilyrði fyrir lífeyrisgreiðslum skv. ATL er að viðtakandi sé tryggður hér á landi á grundvelli búsetu sinnar hér á landi skv. 12. gr. laganna eða að hann sé búsettur í ríki sem ríkisstjórnin hefur gert samning um almannatryggingar við skv. 1. mgr. 58. gr., sbr. 68. gr. laganna. 

Tryggingastofnun telur að ellilífeyrisgreiðslum til A hafi réttilega verið frestað á grundvelli þess að fyrirliggjandi upplýsingar frá honum bera skýrlega með sér að hann sé búsettur í C. Það, að hann hafi látið fyrir fara að tilkynna Þjóðskrá um flutning sinn hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. apríl 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 8. maí 2012, bárust svofelldar athugasemdir frá lögmanni kæranda:

 „Í meginatriðum má segja að neikvæð afstaða TR til réttar umbj.m. til að njóta ellilífeyris skv. íslenskum lögum sá af tvennum toga:

a)      Að umbj.m. eigi ekki lögheimili a´Íslandi.

b)      Að ekki fyrirfinnist samningur milli C og Íslands um almannatryggingar.

Um a) Í bréfi mínu hinn 9. febrúar 2012 er gerð grein fyrir því að umbj.m. sé búsettur hér á landi í lagaskilningi þar sem hann eigi hér lögheimili. Óumdeilt er að hann á skráð lögheimili hér á landi og uppfyllir því 17. gr. laga um almannatryggingar. TR viðurkenni þessar staðreyndir, en kveður þær ekki skipta máli þar sem stofnunin hafi ákveðið að hann skuli ekki teljast með lögheimili á Íslandi. Því til stuðnings vísar TR til 1. gr. lögheimilislaganna. Rétt er því að vekja athygli á ákvæðum 11. gr. sömu lag svohljóðandi:

11. gr. [Ef vafi leikur á um lögheimili manns, er [Þjóðskrá Íslands],1) hlutaðeigandi manni eða sveitarfélagi, sem málið varðar, rétt að höfða mál til viðurkenningar á hvar lögheimili hans skuli talið. Þess skal gætt að [Þjóðskrá Íslands]1) og sá maður, sem í hlut á, eigi aðild að slíku máli, en að öðru leyti fer um málið eftir almennum reglum um meðferð einkamála í héraði.] 2)

Samkvæmt framanrituðu ákvæði verður lögheimilisskráningu ekki breytt nema að undangengnum dómi og á TR ekki aðild að slíku máli. TR getur ekki ákveðið einhliða og án tillits til ákvæða stjórnsýslulaga breytt lögheimilisskráningu umbj.m. TR er bundið af gildandi skráningu. Þessi málsástæða fær því ekki staðist.

Minnt er á að rétturinn til ellilífeyris er varinn af 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar HR 1988 1532 segir:

 „Lagaákvæði sem takmarka mannréttindi verða að vera ótvíræð. Sé svo ekki ber að túlka þau einstaklingi í hag, því að mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum.“

Lagaákvæði þau sem TR vísar til sér til varnar geta með engu móti leitt til þess að umbj.m. verði sviptur þeim stjórnarskrárbundnu réttindum sem hér er fjallað um.

Um b) Vera kann að rétt sé að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert milliríkjasamning við C um almannatryggingar. TR heldur því fram og byggir á því að tilviljunarkennd framkvæmd íslenska ríkisins við gerð slíkra samninga geti ráðið niðurstöðu um hvort íslenskur ríkisborgari njóti þeirra mannréttinda sem honum eru áskilin í stjórnarskrá . Slík niðurstaða er í fyrsta lagi andstæð stjórnarskrárákvæðinu í 1. mgr. 76. gr. stjskr. um félagsleg mannréttindi. En hún er jafnframt andstæð jafnræðisákvæði 65. gr. stjskr. þar sem lagt er bann við mismunun . TR telur og ber fyrir sig að heimilt sé að mismuna borgurunum eftir því hvort gerðir hafa verið tilteknir milliríkjasamningar. Svo er ekki. Hvorki er unnt að benda á skýra lagaheimild fyrir mismununinni né heldur hafa verið færð rök fyrir því hvernig slík mismunun stenst ákvæði stjskr.

Þá er rétt að taka fram að rétturinn til ellilífeyris er eign sem nýtur verndar eignaréttarákvæðis 72. gr. stjskr. Umbj.m. verður ekki sviptur þeirri eign sinni nema með eignarnámi og komi fullt verð fyrir. Um þetta má vísa til fjölmargra dóma HR, svo sem dóms í öryrkjabandalagsmálinu fyrra.“

 

Athugasemdir lögmanns kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 10. maí 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar frestun Tryggingastofnunar ríkisins á afgreiðslu umsóknar kæranda um ellilífeyri og tengdar greiðslur. 

Í kæru til úrskurðarnefndar telur kærandi skilyrði ellilífeyris samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatrygginga uppfyllt. Kærandi hafi skráð lögheimili hér á landi, hann uppfylli aldursskilyrði auk þess hafi hann verið búsettur hér á landi a.m.k. þrjú ár frá 16 til 67 ára aldurs. 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að gögn málsins beri með sér að kærandi sé búsettur í C og uppfylli því ekki skilyrði 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Þá segir að það hafi ekki áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar að kærandi hafi látið fyrir fara að tilkynna flutninginn til Þjóðskrár.

Um ellilífeyri er fjallað í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um almenn skilyrði sem uppfylla verður til að greiðslur komi til álita, sbr. eftirfarandi:

 „Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Í máli þessu lýtur ágreiningur að búsetu kæranda. Tryggingastofnun ríkisins hefur frestað afgreiðslu á umsókn kæranda um ellilífeyri og tengdar greiðslur á þeirri forsendu að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvar kærandi sé búsettur. Í greinargerð Tryggingastofnunar í máli þessu kemur fram að samkvæmt upplýsingum úr greinargerð kæranda sé hann búsettur í C. Þá segir að það hafi ekki áhrif á ákvörðun Tryggingastofnunar að kærandi hafi látið fyrir fara að tilkynna Þjóðskrá um flutning sinn. 

Í framangreindu lagaákvæði er um búsetu vísað til II. kafla laga nr. 100/2007. Þar kemur eftirfarandi fram í 12. gr.:

 „Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður, sbr. þó 29. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Með búsetu skv. 1. mgr. er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 7.-9. gr.“

Af framangreindu verður ráðið að skilgreining á búsetu feli í sér lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands er kærandi með skráð lögheimili hér á landi að D,  Reykjavík. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga verður ekki horfið framhjá því við úrlausn þessa máls. Í tilvikum þar sem vafi leikur á um lögheimili manns er Þjóðskrá Íslands, hlutaðeigandi manni eða sveitafélagi sem málið varðar rétt að höfða mál til viðurkenningar á hvar lögheimili hans skuli talið, sbr. 11. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að slíkt hafi verið gert í tilviki kæranda.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að fella úr gildi frestun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um ellilífeyri og tengdum greiðslum á þeirri forsendu að kærandi sé búsettur í C og lagt fyrir stofnunina að taka umsóknina til afgreiðslu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Frestun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um ellilífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Stofnuninni ber að taka umsóknina til afgreiðslu.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta