Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 42/2012

Miðvikudaginn 27. júní 2012

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2012, kærir B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda. 

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 28. september 2011, fór barnsmóðir kæranda fram á milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur vegna tveggja barna þeirra. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2011, tilkynnti stofnunin kæranda um að milliganga um meðlagsgreiðslur til barnsmóður hans hafi verið samþykkt frá 1. júlí 2011. Í máli þessu fer kærandi fram á að sú ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 „Kærandi telur ekki rétt að hann eigi að greiða meðlögin þar sem báðir foreldrar hafi forsjána og skipti allri umönnun jafnt á milli sem og öllum kostnaði er til fellur. M.a. hefur kærandi séð um greiðslu leikskólagjalda og foreldrar hafa báðir séð um að fæða börnin og klæða jafnt og hafa gert um nokkurra ára skeið eða allt frá samvistarslitum á árinu 2009. Hefur því verið háttað þannig að börnin eru hjá hvoru foreldri 2 vikur í senn.

Þegar gengið var frá lögskilnaði 20. júní sl. var að vísu bókað að meðlagsskylda væri fyrir hendi hjá kæranda en honum tjáð að slíkt væri óhjákvæmilegt vegna lagaákvæða en móðirin fengi lögheimili barnanna skráð hjá sér við samvistarslit. Þegar spurningar vöknuðu um endurskoðun forsjár/heimilisfesti barna o.s.frv. fullyrti móðirin að hún myndi aldrei innheimta slík meðlög þar sem öllum kostnaði væri skipt jafnt. Var því bókað sérstaklega, eins og sést í meðfylgjandi endurriti, “...en móðir segist ekki ætla að innheimta meðlagið”.

Kærandi taldi að með ofangreindri bókun væri tryggt að kostnaðarskipting væri jöfn að öllu leyti og hans framlag væri ígildi greiðslu meðlaga og hún fæli í sér samkomulag um greiðslu meðlaga sbr. 1. mgr. 55. gr. barnalaga.

Sú ákvörðun móður að svíkja nefnt samkomulag á rætur að rekja til þess að eitt sinn er hún krafði kæranda um greiðslu helmings tiltekinni útgjalda (tómstundaiðkun o.fl.) þá óskaði kærandi eftir að sjá kvittanir, sem var eðlileg og sanngjörn krafa.

Krafa móður um meðlög er í engu samræmi við bókunina hjá sýslumanni og að auki í andstöðu við þá meginreglu að meðlög séu til þess að greiða helming kostnaðar við framfærslu barns eins og sjá má af 56. gr. barnalaga.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 14. febrúar 2012. Í greinargerðinni, dags. 14. mars 2012, segir:

 „Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda, D, um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með sonum þeirra X og Z frá 1. júlí 2011.

Viðbótargögn bárust Tryggingastofnun í málinu þann 18. apríl sl.

Í þeim kemur fram að kærandi hafni því að 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 leiði sjálfkrafa til þess að sá aðili sem hafi úrskurð undir höndum skuli geta fengið greitt meðlag hjá Tryggingastofnun enda hlýtur að vera skilyrði fyrir meðlagsgreiðslum að framfærsla hafi verið vanrækt af hálfu hins meðlagsskylda.

Í 67. gr. barnalaga segir: „Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 63. gr. almannatryggingalaga segir: „Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Hvergi kemur fram í þessum lagagreinum að milliganga Tryggingastofnunar á meðlagi sé bundin því skilyrði að framfærsluskyldu hafi ekki verið sinnt.  Þvert á móti er talað um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar.  Með vísan til þess, fyrri greinargerðar og úrskurðar Félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 16. febrúar 2010 bar Tryggingastofnun að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2011 þegar hún sótti um slíka milligöngu.

Að öðru leyti gerir stofnunin engar athugasemdir vegna þessara viðbótargagna heldur vísar til fyrri greinargerðar.  Framlögð gögn gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. mars 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 4. apríl 2012, bárust svofelldar athugasemdir frá lögmanni kæranda:

 „Tryggingarstofnun ber fyrir sig að henni sé skylt að innheimta meðlög hjá umbj. mínum og ber fyrir sig 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og 67. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Af hálfu umbj. míns er því hafnað að nefnd lagafyrirmæli leiði sjálfkrafa til þess að sá aðili sem hefur úrskurð undir höndum skuli geta fengið greitt meðlag hjá Tryggingastofnun ríkisins enda hlýtur að vera skilyrði fyrir meðlagsgreiðslunum að framfærsla hafi verið vanrækt af hálfu hins meðlagsskylda. Engin meðlög voru í vanskilum og kærandi, sem hafði sinnt framfærsluskyldu sinni með jafnri framfærslu og umönnun á móti móðurinni, fékk enga aðvörun um hvað var í vændum og telur umbj. minn að brotinn hafi verið á honum réttur til andmæla skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og TR hafi heldur ekki sinnt rannsóknarskyldu skv. 10. gr. sömu laga. Ef Tryggingastofnun ríkisins hefði veitt umbj. mínum tækifæri til andmæla og sinnt rannsóknarskyldu sinni hefði mátt upplýsa hvernig málum væri í pott búið og meðlagskrefjandi væri í raun að krefjast meðlaga sem hún átti ekkert tilkall til.

Samningur var með foreldrum að þau skiptu á milli sín framfærslunni og að móðirin myndi ekki innheimta meðlögin. Ákvörðunin um meðlagsskyldu var aðeins til þess að móðirin gæti beitt henni ef illa færi, svo sem ef umbj. minn sinnti ekki framfærsluskyldu sinni. Eins og fram kemur í kærunni sömdu foreldrarnir, þannig að líta ber svo á að samkomulag hafi um greiðslu meðlaga sbr. 1. mgr. 55. gr. barnalaga.

Krafa móður um meðlög er í engu samræmi við bókunina hjá sýslumanni og raunveruleikann og að auki í andstöðu við þá meginreglu að meðlög séu til þess að greiða helming kostnaðar við framfærslu barns eins og sjá má af 56. gr. barnalaga: sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns getur krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða barn búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan.

Ef það er rétt sem Tryggingastofnun heldur fram í þessu máli að annað foreldri geti fengið meðlag sem það á ekki tilkall til þá er verið að bjóða upp á misnotkun kerfisins og slík meðferð getur vart verið í anda almannatryggingalaga, þ.e. að veita fólki félagslega aðstoð sem þarf þess með.“

 

Athugasemdir lögmanns kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 16. apríl 2012. Viðbótargreinargerð, dags. 2. maí 2012, barst frá stofnuninni þar sem segir:

 „Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda, D, um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með sonum þeirra Xog Z  frá 1. júlí 2011.

Viðbótargögn bárust Tryggingastofnun í málinu þann 18. apríl sl.

Í þeim kemur fram að kærandi hafni því að 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 leiði sjálfkrafa til þess að sá aðili sem hafi úrskurð undir höndum skuli geta fengið greitt meðlag hjá Tryggingastofnun enda hlýtur að vera skilyrði fyrir meðlagsgreiðslum að framfærsla hafi verið vanrækt af hálfu hins meðlagsskylda.

Í 67. gr. barnalaga segir: „Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.“

Í 63. gr. almannatryggingalaga segir: „Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Hvergi kemur fram í þessum lagagreinum að milliganga Tryggingastofnunar á meðlagi sé bundin því skilyrði að framfærsluskyldu hafi ekki verið sinnt.  Þvert á móti er talað um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar.  Með vísan til þess, fyrri greinargerðar og úrskurðar Félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 16. febrúar 2010 bar Tryggingastofnun að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2011 þegar hún sótti um slíka milligöngu.

Að öðru leyti gerir stofnunin engar athugasemdir vegna þessara viðbótargagna heldur vísar til fyrri greinargerðar.  Framlögð gögn gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun.“

 

Greinargerðin var kynnt lögmanni kæranda með bréfi, dags. 11. maí 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda.

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar segir að kærandi fari með forsjá barnanna ásamt barnsmóður sinni. Öll umönnun og kostnaður vegna barnanna sé skipt jafnt á milli þeirra. Þegar gengið hafi verið frá lögskilnaði kæranda og barnsmóður hans hafi verið bókað að meðlagsskylda væri fyrir hendi hjá kæranda en honum hafi verið tjáð að slíkt væri óhjákvæmilegt vegna lagaákvæða. Þá greinir kærandi frá því að þegar spurningar hafi vaknað um endurskoðun forsjár/heimilisfesti barna o.s.frv. hafi barnsmóðir hans fullyrt að hún myndi aldrei innheimta slík meðlög og að það hafi verið bókað sérstaklega, sbr. endurrit sýslumanns.  

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er m.a. vísað til úrskurðar félags- og tryggingamálaráðuneytis þar sem fram komi að hlutverk Tryggingastofnunar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með löglegum hætti. Leggi foreldri fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest hafi verið af sýslumanni beri stofnuninni skylda skv. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatrygginga sem og 67. gr. barnalaga til að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Þá segir að stofnunin hafi lögum samkvæmt ekki heimild til að fella niður milligöngu meðlags vegna þeirra ástæðna sem fram komi í kæru.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur þar sem segir:

,,Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði getur einstaklingur sem hefur barn á framfæri átt rétt á fyrirframgreiðslu meðlags liggi fyrir lögformleg meðlagsákvörðun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sótti barnsmóðir kæranda um meðlag til Tryggingastofnunar með umsókn, dags. 28. september 2011. Meðfylgjandi umsókninni var staðfest samkomulag af sýslumanni um meðlagsgreiðslur, dags. 21. júlí 2011. Samkvæmt samkomulaginu ber kæranda að greiða barnsmóður sinni meðlag með tveimur sonum þeirra frá 1. júlí 2011. Tryggingastofnun samþykkti milligöngu um meðlagsgreiðslur frá þeim tíma á grundvelli hinnar lögformlegu meðlagsákvörðunar.

Mál þetta lýtur að ágreiningi um samþykki Tryggingastofnunar á umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur. Kærandi hefur borið fyrir sig að þau fari sameiginlega með forsjá drengjanna og að öll umönnun og kostnaður sé jöfn. Þá vísar kærandi til bókunar úr endurriti úr hjónaskilnaðarbók sýslumannsins í Reykjavík. Samkvæmt endurritinu var hjónaskilnaðarmál kæranda og barnsmóður hans tekið fyrir þann 20. júní 2011 þar sem eftirfarandi var bókað: „[m]óðir fer fram á að faðir greiði henni einfalt meðlag með börnunum frá 1. júlí 2011 til 18 ára aldurs en móðir segist ekki ætla að innheimta meðlagið“. Kærandi telur að hér sé um að ræða tryggingu á því að kostnaðarskipting sé jöfn á milli hans og barnsmóður sinnar og að hans framlag sé ígildi meðlags auk þess sem hún feli í sér samkomulag um greiðslu meðlaga.

Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ber stofnunin lögbundna skyldu til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu segir nánar tiltekið að sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum.

Þrátt fyrir að kærandi og barnsmóðir hans fari sameiginlega með forsjá drengjanna breytir það engu um skyldu Tryggingastofnunar til þess að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur í tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir sé þess farið á leit við stofnunina. Samkvæmt fyrirliggjandi meðlagsákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, dags. 21. júlí 2011, ber kæranda að greiða barnsmóður sinni meðlag frá 1. júlí 2011.

Þá eru 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, talin upp tilvik sem réttlætt geta stöðvun meðlagsgreiðslna. Ekki verður séð að tilvik þessa máls falli undir eitthvert þeirra tilvika. Stofnunin hefur þar af leiðandi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu, fyrirliggjandi meðlagsákvörðun og 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins beri lögbundna skyldu til að greiða barnsmóður kæranda meðlag. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða meðlag til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2011 er því staðfest.

Í máli þessu gerir kærandi athugasemdir við að Tryggingastofnun ríkisins hafi hvorki gætt að andmæla- né rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Í þessu tilliti telur kærandi að hefði Tryggingastofnun sinnt þeirri skyldu sinni hefði stofnunin getað tekið upplýstari ákvörðun. Eins og áður greinir hefur hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við milligöngu meðlagsgreiðslna verið markað í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. þeirrar greinar kemur fram að sá sem hefur lögformlega meðlagsákvörðun undir höndum geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags. Þær upplýsingar sem þurftu að liggja fyrir í málinu til þess að Tryggingastofnun gat tekið ákvörðun í því eru þannig þess eðlis að ekki var við því að búast að kærandi hefði getað breytt nokkru þar um. Tryggingastofnun hefur enga heimild til að endurskoða efnislega úrskurði sýslumanns.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta