Mál nr. 453/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 453/2019
Miðvikudaginn 4. mars 2020
A
gegn
Barnaverndarnefnd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með bréfi, dags. 29. október 2019, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 8. október 2019 vegna umgengni við dóttur hennar, D.
I. Málsatvik og málsmeðferð
D er X ára stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Stúlkan fór úr umsjá kæranda árið X og hefur frá þeim tíma verið á þremur fósturheimilum. Kærandi er búsett á E og hefur haft reglulega umgengni við stúlkuna í gegnum síma. Þá hittust mæðgurnar þegar kærandi var stödd á Íslandi.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X var kærandi svipt forsjá stúlkunnar. Ekki hefur náðst samkomulag við kæranda um umgengni við stúlkuna í kjölfar forsjársviptingar. Málið var því tekið til úrskurðar skv. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi umgengni við móður sína, fjórum sinnum á ári í formi símtala eða í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Umgengni verði í febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Þegar móðir er á Íslandi verði umgengni undir eftirliti í tvær klukkustundir í senn. Umgengni í formi símtala verði ½ til 1 klukkustund hvert sinn og fari fram klukkan 12 á hádegi að íslenskum tíma, fyrsta sunnudag í þeim mánuði sem umgengni á að fara fram. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi.“
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að umgengni kæranda við stúlkuna verði aðra hvora helgi. Þegar kærandi sé erlendis verði umgengni í formi símtala en þegar kærandi sé á Íslandi fari fram hefðbundin umgengni, þ.e. í eigin persónu í tvær klukkustundir í senn.
Kærandi kveður málavexti vera að kærandi hafi verið svipt forsjá yfir barninu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá X. Dómnum hafi verið áfrýjað til Landsréttar og því liggur ekki enn fyrir endanleg úrlausn mála varðandi forsjá. Barnið hafi farið úr umsjá kæranda árið X og hefur frá þeim tíma verið í þremur fóstrum. Kærandi sé búsett á E og hafi átt reglulega umgengni við dóttur sína í gegnum síma síðan stúlkan fór úr hennar umsjá, eins hafi mæðgurnar hist á Íslandi. Fyrst hafi verið um að ræða vikuleg Skype-símtöl en þann X hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað á þann veg að umgengni yrði tvisvar í mánuði.
Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þann X hafi barnavernd lagt til breytingu á umgengni mæðgnanna þannig að umgengni yrði fátíðari og þann X hafi barnaverndarnefnd úrskurðað um fátíðari umgengni.
Það sem er barni fyrir bestu
Við úrlausn þessa máls verði, líkt og endranær í barnaverndarmálum að hafa að leiðarljósi það sem sé stúlkunni fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi skv. 1. mgr. 4. gr. bvl. Kærandi telji af þeim ástæðum sem raktar verði að umræddur úrskurður gangi gegn hagsmunum dóttur sinnar og að það sé henni fyrir bestu að hafa tíðari umgengi við sig.
Vilji barns og tengsl
Grundvallaratriði í barnaverndarmálum sé að taka beri tillit til vilja barns, eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46., gr, og 2. mgr. 64. gr. a bvl. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls.
Í þessu máli komi fram í hinum kærða úrskurði að stúlkan sé „sátt“ við að eiga umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári. Kærandi telji hins vegar að raunverulegur vilji stúlkunnar sé til þess að eiga oftar umgengni við sig. Þótt stúlkan hafi ekki mótmælt sérstaklega tillögu barnaverndar þá væri hennar ósk að eiga tíðari umgengni við kæranda. Í skýrslu talsmanns stúlkunnar komi skýrt fram að hún vilji hafa umgengni með óbreyttum hætti, þ.e. hálfs mánaðarlega en þar komi eftirfarandi fram: „Ráðgjafi bað D að hugsa um það hvernig hún vildi hafa umgengni við móður sína. Svaraði D þá að þetta væri bara fín[t] eins og það væri núna.“
Einnig hafi hún í fyrri skýrslum talsmanns óskað eftir tíðari umgengni en jafnframt upplifi kærandi af samtölum sínum við stúlkuna að vilji hennar standi til þess að eiga reglulegri umgengni við sig. Kærandi telji vilja stúlkunnar hafi ekki verið veitt nægt vægi við úrlausn málsins.
Enn fremur telji kærandi þar sem hún hafi lengst framan af verið aðalumönnunaraðili stúlkunnar og vegna þess hve regluleg umgengni hafi verið milli mæðgnanna hingað til þá séu tengsl þeirra sérstaklega sterk. Kærandi telji að fái hinn kærði úrskurður að standa óhaggaður verði óhjákvæmilega rof á tengslum þeirra mæðgna. Kærandi telji að slíkt tengslarof kunni að vera stúlkunni skaðlegt til lengri tíma litið og að mikilvægt sé að hafa sterk tengsl mæðgnanna að leiðarljósi við úrlausn þessa máls.
Stöðugleiki og meðalhóf
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. sé það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns. Í máli þessu verði einnig að líta til meðalhófsreglu, en varnaraðili sé bundinn af meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. 38. gr. bvl. Í því felist að barnaverndaryfirvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Einnig skuli ekki beita íþyngjandi úrræðum, lengur en nauðsynlegt sé.
Í máli þessu liggi fyrir að stúlkan hafi farið í fóstur fyrir um þremur árum og tilhögun umgengni milli mæðgnanna hafi verið breytt þrisvar sinnum á þessum tíma. Þá hafi stúlkan einnig verið í þremur ólíkum fóstrum á þessum tíma. Gífurlegt rót hafi því verið á lífi stúlkunnar vegna þessa máls. Krafa kæranda lúti að því að umgengni verði áfram með óbreyttum hætti vegna þess að kærandi hafi þá bjargföstu trú að það sé best fyrir dóttur sína og stuðli að sem mestum stöðugleika í hennar lífi að umgengni verði áfram með óbreyttum hætti þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í forsjársviptingarmálinu. Þótt Héraðsdómur Reykjavíkur hafi kveðið upp dóm í forsjársviptingarmálinu þá hafi þeim dómi verið áfrýjað til Landsréttar og því sé enn til staðar talsverð óvissa um framtíðardvalarstað stúlkunnar. Það blasi því við, að það stuðli að verulegum óstöðugleika í lífi stúlkunnar að breyta tíðni og tilhögun umgengni nú, með tilheyrandi tengslarofi ef niðurstaða Landsréttar verði á þann veg sýkna kæranda af kröfu um forsjársviptingu, því þá færi stúlkan aftur í hennar umsjá í kjölfarið. Að sama skapi sé ótímabært og ómálefnalegt að vísa til markmiða með varanlegu fóstri til stuðnings ákvörðunar um að skerða umgengni nú enda liggur ekki fyrir að svo stöddu að stúlkan muni fara í varanlegt fóstur. Það væri betur í samræmi við meðalhófsreglu og stöðugleikasjónarmið að stuðla að stöðugleika í lífi stúlkunnar með óbreyttri umgengni, að viðhalda tengslum þeirra mæðgna til þess að það valdi sem minnstu róti á lífi stúlkunnar ef niðurstaða Landsréttar verði á þann veg að sýkna kæranda. Eftir atvikum væri hægt að endurskoða umgengni með tilliti til markmiða með varanlegu fóstri þegar endanleg niðurstaða í forsjársviptingarmáli liggi fyrir.
Rannsóknarregla
Líkt og að framan hafi verið rakið sé það grundvallarregla í barnarétti að hafa beri hag barns í fyrirrúmi við úrlausn hvers máls. Til þess að hægt sé að komast að því hvað sé best hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi í máli þessu gerst brotleg við rannsóknarreglu í 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærandi mótmæli fullyrðingum í hinum kærða úrskurði og sér í lagi þeim sem byggi eingöngu á fullyrðingum fósturforeldra um slæma líðan stúlkunnar í tengslum við umgengni. Meint áhrif umgengni á líðan stúlkunnar virðast hafa haft nokkur áhrif við ákvörðun um umgengni en þær hafi þó fyrst og fremst byggst á fullyrðingum fósturforeldra. Fósturforeldrarnir hafi eðlilega tengst barninu tilfinningaböndum og ekki sé hægt að ætlast til að þeir geti gætt hlutleysis gagnvart kæranda í lýsingum sínum á atvikum. Kærandi vilji sérstaklega vekja athygli á því að fullyrðingar um vanlíðan í tengslum við umgengni séu með öllu ósannaðar og því sé ótækt að leggja það til grundvallar við ákvörðun á umgengni að umgengnin valdi stúlkunni vanlíðan. Því sé einnig hafnað að það hafi svo slæm áhrif á stúlkuna þegar kærandi hafi ekki getað sinnt umgengni en í talsmannskýrslu stúlkunnar komi skýrt fram að stúlkunni sé „eiginlega alveg sama“ þegar kærandi nái ekki að hringja. Kærandi hafni því að umgengi við sig hafi verið orsök vanlíðan stúlkunnar og telji öllu fremur ef stúlkan sýni breytta hegðun eða vanlíðan í kjölfar umgengni að orsök þess séu þau að hún fái of litla umgengni við sig. Kærandi telji að ef byggja eigi á því að umgengni barnsins við móður sína valdi henni vanlíðan hafi barnaverndaryfirvöldum borið að kanna með sjálfstæðum hætti hver orsök vanlíðan stúlkunnar gætu verið og leggja fram gögn því til stuðnings. Þá telji kærandi rannsóknarregluna einnig leggja þá skyldu á barnaverndaryfirvöld að kanna hvort önnur vægari úrræði væru betur til þess fallin að tryggja bætta líðan stúlkunnar.
Í athugasemdum kæranda, dags. X, við greinargerð Barnaverndar B komi fram að í greinargerð gagnaðila sé á því byggt á því að hagsmunir stúlkunnar standi til þess að hafa umgengni fjórum sinnum á ári við kæranda. Kærandi mótmæli því að hagsmunir stúlkunnar standi til þess að hafa svo fátíða umgengni við sig en kærandi telji hagsmuni stúlkunnar standa til þess að eiga tíðari umgengni við sig.
Kærandi taki undir þau sjónarmið í greinargerð gagnaðila er lúti að því að nauðsynlegt sé að stuðla að stöðugleika og ró í lífi stúlkunnar. Kærandi hafni því þó að umgengni stúlkunnar við sig raski stöðugleika og ró í lífi stúlkunnar og árétti að engin gögn málsins styðji þá ályktun. Kærandi telji þvert á móti að það stuðli að stöðugleika í lífi stúlkunnar að umgengni sé með sem reglulegustum hætti.
Þá árétti kærandi mótmæli við fullyrðingum fósturforeldra um slæm áhrif umgengni á hegðun og líðan stúlkunnar. Kærandi telji ekki hægt, gegn mótmælum sínum, að leggja fullyrðingar fósturforeldra um svo mikilvægar staðreyndir máls til grundvallar í málinu þar sem þær styðjist ekki við nein önnur gögn málsins. Sérstaklega sé vakin athygli á því að þær séu ekki í samræmi við talsmannsskýrslu stúlkunnar þar sem hún lýsi því að henni sé „eiginlega alveg sama“ þegar kærandi missi af umgengni. Þar sem meint áhrif umgengni á líðan og hegðun stúlkunnar hafi verið ein meginforsenda fyrir ákvörðun gagnaðila um að skerða umgengni kæranda við stúlkuna telji kærandi ljóst að nauðsynlegt hafi verið að reyna að afla frekari gagna til stuðnings fullyrðingum fósturforeldra. Vakin sé athygli á því að á gagnaðila hvíli rannsóknarskylda skv. 41. gr. bvl. og 10. gr. ssl. Í því felist að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Þrátt fyrir það hafi gagnaðili ekki gert tilraun til þess að afla frekari upplýsinga um líðan og hegðun stúlkunnar í kjölfar umgengni, t.d. frá skóla stúlkunnar eða öðrum aðilum í daglegu lífi stúlkunnar. Þar sem þetta hafi ekki verið gert, telji kærandi ótækt að leggja til grundvallar í málinu að umgengni hafi svo slæm áhrif á líðan stúlkunnar.
Loks árétti kærandi að það samræmist ekki meðalhófsreglu að minnka umgengni á meðan að forsjársviptingarmálið sé rekið fyrir dómstólum. Að mati kæranda eigi sjónarmið um skerta umgengni vegna þess að fóstrinu sé ætlað að vara til 18 ára aldurs ekki við enda liggi ekki enn fyrir hvort stúlkan fari í varanlegt fóstur eður ei þar sem niðurstaða Landsréttar í máli aðila liggi enn ekki fyrir. Það kann því vel að vera að þegar meðferð málsins ljúki fyrir Landsrétti að stúlkan fari á ný í umsjá kæranda. Því telji kærandi ótímabært og ekki í samræmi við meðalhófsreglu að minnka umgengni nú, vegna óvissu um framtíðardvalarstað stúlkunnar. Réttara væri að hafa umgengni með óbreyttu sniði, líkt og kærandi leggi til, þar til niðurstaða í forsjársviptingarmálinu liggi fyrir og þá fyrst væri tilefni til þess að skoða hvort þörf sé á breytingu á umgengni. Þá sé brýnt að viðhalda sterkum tengslum stúlkunnar við kæranda með tíðari umgengni ef ske kynni að hún fari aftur í umsjá hennar til þess að koma í veg fyrir rask og óstöðugleika í lífi stúlkunnar ef kærandi haldi forsjá stúlkunnar.
Í athugasemdum kæranda, dags. X, við viðbótargreinargerð Barnaverndar B kemur fram að engin viðhlítandi rök hafi verið færð fyrir því að umgengni hafi verið minnkuð frá því að vera símtöl aðra hverja helgi í að vera símtöl fjórum sinnum á ári.
Minnkun á umgengni eigi sér ekki viðhlítandi stoð í gögnum málsins. Ljóst sé að frásögn fósturmóður geti ekki nægt ein og sér sem sönnunargagn fyrir því að umgengni hafi verið óæskilega mikil eins og nýleg dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og reyndar úrskurðarnefndar velferðarmála staðfesta. Rétt sé að minna á í þessu samhengi að fósturmóðir sé aðili að málinu. Frásögn fósturmóður eigi sér alls ekki nægjanlega stoð í gögnum málsins. Gögn um viðtöl sálfræðings við fósturmóður og barn eða ummæli í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur staðfesti t.d. ekki að sálfræðingurinn eða annar hlutlaus aðili telji orsakatengsl á milli slæmrar hegðunar barns í fóstri og umgengni þess við móður. Án þess að nokkur sönnun liggi fyrir um það mætti allt eins geta sér til um að tíð skipti á fósturheimilum gætu átt þátt í rótleysi og óöryggi barnsins.
Engin nýleg gögn hafi verið lögð fram til stuðnings málatilbúnaði barnaverndar um nauðsyn þess að minnka umgengnina og hvað þá eins mikið og gert hafi verið. Engin skýrsla talsmanns hafi verið lögð fram eða nokkuð annað um það hver afstaða barnsins, sem nú sé X ára, sé til þess sem efni kærunnar fjallar um.
Af framansögðu leiði að ekki sé hægt með réttu að staðfesta hinn kærða úrskurð.
III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B
Í greinargerð Barnverndar B, dags. X, kemur fram að mál stúlkunnar hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd B með hléum allt frá árinu X. Áhyggjur hafi verið af stúlkunni í umsjá kæranda vegna vímuefnavanda og uppeldisaðferða hennar og ofbeldis á heimilinu. Ýmis stuðningsúrræði hafi verið reynd áður en Barnaverndarnefnd B hafi kveðið upp úrskurð þann X um að gera ætti kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar. Kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar með dómi uppkveðnum X. Með úrskurði Landsréttar, dags. X, hafi dómurinn verið ómerktur með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 49/2016, þar sem dómkvaddir voru tveir sérfróðir meðdómendur í stað eins. Málið hafi af þessum sökum verið endurupptekið og dómur kveðinn upp að nýju í Héraðsdómi Reykjavíkur þann X þar sem kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar.
Eftir að stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis hafi hún átt vikulega umgengni við kæranda í gegnum samskiptaforritið Skype, sbr. bókun meðferðarfundar starfsmanna Barnaverndar B, dags. X, en kærandi hafi verið búsett í F og á E undanfarin ár. Þá hafi mæðgurnar hist á Íslandi þegar kærandi komi til landsins og að auki hafi stúlkan heimsótt kæranda til útlanda. Þetta fyrirkomulag hafi verið í gildi þar til í X.
Stúlkan sé nú vistuð á þriðja fósturheimilinu frá því í X. Hún hafi ekki náð að aðlagast á fyrstu tveimur fósturheimilunum sínum en um hafi verið að ræða fóstur hjá ættingjum í báðum tilfellum. Stúlkan hafi farið á núverandi fósturheimili í X. Vel hafi gengið með stúlkuna á nýju heimili en umönnun hennar sé krefjandi og sýni stúlkan stundum erfiða hegðun.
Kærandi hafi dvalið á Íslandi daganna X og hafi þá átt umgengni við stúlkuna auk þess sem hún hafi fundað með starfsmönnum Barnaverndar B þar sem hún hafi komið með þær óskir að umgengni yrði áfram óbreytt, þ.e. vikuleg símtöl auk símtala á afmælum stúlkunnar, aðfangadag og gamlársdag. Fjallað hafi verið um beiðni kæranda á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann X þar sem m.a. hafi verið bókað að komið hafi tímabil það sem kærandi hafi ekki hringt á umsömdum tíma í stúlkuna og það hafi verið að valda stúlkunni óöryggi. Starfsmenn hafi bókað að leggja ætti til við kæranda að umgengni yrði hálfsmánaðalega á meðan fosjársviptingarmálið væri rekið fyrir héraðsdómi. Kærandi hafi ekki fallist á tillögur starfsmanna og hafi málið verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B sem hafi úrskurðað þann X, um umgengni á tveggja vikna fresti á meðan forsjársviptingarmálið væri rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann X og hafi í kjölfarið gert þá kröfu um umgengni yrði áfram í samræmi við fyrrgreindan úrskurð barnaverndarnefndar frá X. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann X hafi komið fram að kærandi hafi átt erfitt með að hringja á umsömdum tíma og hefði auk þess aðeins nýtt þrjár af fimm símaumgengnum sem henni hefðu staðið til boða frá X. Þá hafi jafnframt komið fram að skv. upplýsingum frá fósturmóður yrði stúlkan óróleg í tengslum við þær tímasetningar þegar kærandi hafi átt að hringja og að stúlkan væri farin að gera ráð fyrir því að kærandi gleymdi umgengni. Stúlkan væri einnig erfið í hegðun og orðljót í kjölfari umgengni. Bókað hafi verið að stúlkan væri fyrir mikinn stöðugleika og ró. Þá hafi einnig komið fram að umönnun stúlkunnar væri mjög krefjandi, símtöl milli mæðgnanna væru að hafa slæm áhrif á líðan stúlkunnar og ekki væri hægt að treysta á að kærandi stæði við að hringja á fyrirfram ákveðnum tímum. Fram hafi komið það mat starfsmanna að það þjónaði ekki hagsmunum stúlkunnar að eiga hálfsmánaðarlega umgengni við kæranda heldur þyrfti stúlkan að fá frið til að aðlagast sem best á fósturheimilinu. Starfsmenn hafi lagt til að kærandi ætti umgengni við stúlkuna fjórum sinnum á ári. Kærandi hafi ekki fallist á tillögur starfsmanna og því hafi málið verið lagt fyrir fundar Barnavernarnefndar B þann X.
Fyrir fund nefndarinnar þann X hafi meðal annars legið skýrsla talsmanns, dags. X. Sami talsmaður hafi rætt við stúlkuna fimm sinnum áður og má ætla að stúlkan þekki viðkomandi ágætlega. Af skýrslunni megi sjá að talsmaður lýsti vel fyrir stúlkunni til hvers væri ætlast af talsmanni og hvaða spurningum stúlkan ætti að svara. Talsmaður hafi gert stúlkunni grein fyrir því að mikilvægt væri fyrir alla að vita hvað stúlkunni fyndist sjálfri því allir vildu það besta fyrir hana. Þá hafi einnig komið fram að talsmaður hafi rifjað upp með stúlkunni fyrri samtöl milli hennar og talsmanns og þær hugmyndir sem stúlkan hefði þá haft um umgengi við kæranda. Af skýrslu talsmanns megi ráða að talsmaður hafi skýrt vel fyrir stúlkunni tillögur starfsmanna Barnaverndar B um umgengni, en í skýrslunni segi meðal annars:
„D tók sér góðan tíma til þess að velta þessu fyrir sér og notaði fingurna til að reikna út hve langt yrði á milli þess sem umgengi væri. Ráðgjafi teiknaði upp fyrir hana hring þar sem allir mánuðir ársins vori taldir upp. Ráðgjafi merkti við þá mánuði sem barnavernd lagi til að umgengni færi fram (ráðgjafi hafði sett þær upplýsingar í beiðninni sem barst talsmanni). D sagði ráðgjafa að hún væri alveg sátt við þessi fjögur skipti sem barnavernd legði til en vildi þó breyta varðandi mánuðina“.
Í greinargerð starfsmanns Barnaverndar B, dags. X, sem og í bókun meðferðarfundar, dags. X, komi fram að umgengni hafi ekki haft góð áhrif á stúlkuna sem hafi sýnt erfiða hefðun á fósturheimili sínu í kjölfar umgengni. Í dagálsnótu, dags. X, komi fram lýsingar fósturmóður á hegðun stúlkunnar og líðan í tengslum við umgengni og greindi fósturmóður m.a. frá því að símtöl stúlkunnar við kæranda séu henni oft erfið og kærandi ræði um vinnslu barnaverndarmálsins við dóttur sína á meðan umgengi stendur. Í dagálsnótunni komi einnig fram að stúlkan eigi það til að beita ofbeldi og sé markalaus í samskiptum við jafnaldra. Þá komi einnig fram áform fósturmóður um að minnka við sig vinnu til að geta fylgt stúlkunni betur eftir.
Barnaverndarnefnd B hafi kveðið upp úrskurð sinn þann X. Niðurstaðanefndarinnar hafi verið á þá leið að kærandi ætti umgengni við stúlkuna fjórum sinnum á ári, í formi símtala eða í húsnæði á vegum Barnaverndar B.
Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi foreldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun barnsins í fóstur. Við mat á þessu skuli m.a. taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá skuli einnig taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.
Stúlkan hafi ekki verið umsjá kæranda í þrjú ár. Stúlkan hafi verið tekin úr umsjá kæranda vegna neyslu kæranda og óviðunandi aðstæðna stúlkunnar í hennar umsjá. Kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar þann X. Á þeim þrem árum sem liðin séu frá því að stúlkan hafi farið úr umsjá kæranda hafi hún verið á þrem fósturheimilum og þurft að aðlaga sig að þeim á skömmum tíma auk þess sem stúlkan upplifi þegar móðir hennar flytji af landi brott. Hún hafi því ekki átt kost á reglulegri umgengni með öðrum hætti en í gegnum síma. Líkt og fram komi í kæru hafi verið gífurlegt rót á lífi stúlkunnar vegna málsins. Starfsmenn barnaverndarnefndar hafi metið hagsmuni stúlkunnar með þeim hætti að ró þurfi að skapast í kringum hana. Það sama komi fram í niðurstöðukafla forsjársviptingardómsins sem kveðinn hafi verið upp þann X, en þar segi að kjarni málsins sé sá að stúlkan þarfnist stöðugleika og öruggra tengsla. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að ekki sé unnt að stuðla að stöðugleika og ró í lífi stúlkunnar nema með þeim hætti að draga úr umgengni stúlkunnar við kæranda.
Í kæru komi fram að hún mótmæli þeim fullyrðingum sem hafðar séu eftir fósturforeldrum um slæma líðan stúlkunnar í tengslum við umgengni. Kærandi bendi á að fósturforeldrar hafi tengst stúlkunni tilfinningaböndum og því sé ekki hægt að ætlast til þess að þeir gæti hlutleysis gagnvart kæranda í lýsingum sínum á atvikinu. Af þessu tilefni skuli það tekið fram að óumdeilt sé fósturforeldrar hafi tengst stúlkunni tilfinningaböndum, þau vilji stúlkunni allt hið besta og stuðla að vellíðan hennar sem meðal annars sé fólgin í því að greina frá hegðun stúlkunnar og líðan. Barnaverndarnefndin bendir á að fósturforeldrar séu að jafnaði þeir aðilar sem best þekki hagi og líðan barnanna, sbr. t.d. sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis frá 7. apríl 2006 í máli nr. 4474/2005. Fósturforeldrar hafi lýst erfiðri líðan og hegðun stúlkunnar í tengslum við umgengni við kæranda og ekki sé ástæða til draga þær lýsingar fósturforeldra í efa. Þá sé það jafnframt mat barnverndarnefndar að þrátt fyrir þau tengsl sem séu á milli kæranda og stúlkunnar verði að horfa til þeirra ríku hagsmuna stúlkunnar fyrir stöðugleika, ró og öryggi.
Í athugasemdum Barnaverndarnefndar B, dags. X, vegna viðbótarathugasemda kæranda kemur fram að stúlkan hafi ítrekað flutt á milli fósturheimila eftir að hún fór úr umsjá kæranda. Stúlkan hafi sýnt erfiða og krefjandi hegðun á öllum fósturheimilum sínum og hafi ekki náð að aðlagast þeim heimilum sem hún hafi verið vistuð á til þessa. Stúlkan hafi farið á núverandi fósturheimili í X árið X en fósturforeldrar hennar höfðu þá verið stuðningsfjölskylda hennar frá því í janúar sama ár auk þess sem fósturmóðir hennar hafi verið kennari í skólanum sem stúlkan hafi verið nemandi í frá því í lok árs X og þekki hún stúlkuna því mjög vel.
Í athugasemdum lögmanns kæranda sé vakin athygli á rannsóknarskyldu barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga og því haldið fram að barnaverndarnefnd hafi ekki uppfyllt þær skyldur sínar. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi mál stúlkunnar verið unnið á grundvelli barnaverndarlaga allt frá árinu X og stúlkan verið vistuð utan heimilis á vegum Barnaverndarnefndar B frá árinu X. Við vinnslu málsins hafi verið aflað fjölda gagna, þar á meðal forsjárhæfismats á kæranda, þar sem fjallað hafi verið með ítarlegum hætti um líðan stúlkunnar, auk þess sem sálfræðingur Barnaverndar B hafi átt á fjórða tug samtala við stúlkuna, talsmaður ítrekað rætt við hana, gagna aflað frá skóla hennar og mikil samskipti verið við fósturforeldra hennar hverju sinni.
Í niðurstöðukafla í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá X sé vitnað í samantekt sálfræðings sem hafi framkvæmt forsjárhæfismat á kæranda, dags. X. Í forsjárhæfismatinu komi meðal annars fram að matsmaður hafi aflað gagna frá sálfræðingi barnaverndar sem hafi átt í löngu meðferðarsambandi við stúlkuna og viðkomandi hafi bent á að ýmislegt í fari stúlkunnar bendi til tengslaröskunar og undirliggjandi vanlíðan. Þá hafi komið fram að stúlkan eigi erfitt með allar breytingar og þegar breytingar verði á umgengni við kæranda þá sýni hún aukinn mótþróa og vanlíðan á fósturheimili sínu. Auk þessa segir að mikilvægt sé að veita stúlkunni sem mestan stöðugleika, reglu og öryggi. Í niðurstöðu dómsins segi einnig að sálfræðingurinn hafi bent á að það fyrir dómi að stúlkan geti ekki reitt sig á kæranda og ekki treyst því að hún hringi á tilsettum tíma eða standi við áform um heimsóknir.
Frásagnir fósturmóður stúlkunnar, sem vitnað sé til í hinum kærða úrskurði, um erfiða hegðun og líðan stúlkunnar séu í fullu samræmi við það sem sálfræðingur stúlkunnar hafi bent á og ávarpað hafi verið í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. X, þar sem fram hafi komið að það sé kjarni málsins að stúlkan þarfnist stöðugleika og öruggra tengsla. Starfsmenn Barnaverndar B telja mikilvægt að horft verði til þess að stúlkan sé á sínu þriðja fósturheimili á tiltölulega skömmum tíma og hagsmunir hennar séu þeir að allt verði gert til að stuðla að því að stúlkan upplifi stöðugleika og jafnvægi í lífi sínu. Það verði einungis gert með því að takmarka umgengni stúlkunnar við kæranda með þeim hætti sem hinn kærði úrskurður kveður á um, þ.e. fjórum sinnum á ári. Með þeim hætti sé markaður skýr rammi utan um þá umgengni sem mæðgurnar eiga og stúlkunni gefinn kostur á að aðlagast fósturheimilinu í ró og næði. Barnaverndarnefnd vekur athygli úrskurðarnefndarinnar á því að hinn kærði úrskurður hafi tekið mið af líðan stúlkunnar og stöðu hennar eins og hún sé og bendir á að skv. 6. mgr. 74. gr. bvl. geti þeir sem umgengni eiga að rækja krafist þess að nefndin endurskoði fyrri úrskurð sinn um umgengnisrétt.
Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
IV. Afstaða fósturforeldra
Með tölvupósti X óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni stúlkunnar við kæranda. Fram kemur í svari fósturforeldra, sem barst samdægurs, að stúlkan hafi verið í fóstri hjá þeim í eitt ár. Í fyrstu hafi kærandi hringt Skype-símtöl annan hvern sunnudag. Eftir þau símtöl hafi stúlkan orðið mjög rótlaus og átti erfitt með skap. Í sumar hafi þessu verið breytt og símtölin farið fram fyrsta sunnudag þriðja hvern mánuð. Að mati fósturforeldra hafi gengið mun betur með stúlkuna eftir það og hún sjálf sagt að henni finnist það betra. Telja fósturforeldrar því að sú umgengni sé fín.
V. Sjónarmið D
Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar, dags. X, sem ræddi við hana til þess að kanna viðhorf hennar til umgengni við kæranda. Í samantekt talsmanns kemur fram að stúlkan hafi sterkar skoðanir hvað varði umgengni við kæranda en setji þó fram ákveðnar væntingar. Stúlkan sé sátt við fyrirkomulagið eins og það sé hvað varði símtölin en vilji þó ekki samþykkja hugmyndir barnaverndar varðandi hvaða mánuði símtölin eigi að fara fram heldur vilji stúlkan að kærandi hringi í sig á stórhátíðum og afmæli þeirra beggja. Aðspurð hvort hún myndi samþykkja hugmyndir barnaverndar og bæta líka við stórhátíðum og afmælum sagði stúlkan ekkert vilja það heldur bara halda þessum fjórum skiptum á ári. Stúlkan hafi sagst alveg vera til í að hitta kæranda og hafi sýnt því skilning hvers vegna umgengni væri undir eftirliti.
VI. Niðurstaða
D er X ára gömul stúlka. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X. Landsréttar staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í málinu með dómi X. Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis frá árinu X en verið í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum frá X.
Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð Barnaverndarnefndar B, þ.e. að eingöngu hafi verið byggt á fullyrðingum fósturforelda um slæma líðan stúlkunnar. Kærandi telur að barnaverndarnefnd hafi borið að kanna með sjálfstæðum hætti hver væri orsök vanlíðan stúlkunnar og leggja fram gögn því til stuðnings.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Samkvæmt gögnum málsins var aflað viðeigandi upplýsinga meðal annars frá skóla, talsmanni barns og fósturforeldrum. Með vísan til þess sem að framan greinir um skyldu barnaverndarnefndarinnar til að afla upplýsinga um aðstæður stúlkunnar áður en ákvörðun var tekin í málinu verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.
Með hinum kærða úrskurði frá 8. október 2019 var ákveðið að stúlkan hefði umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári í formi símtala eða í húsnæði á vegum Barnaverndar B Umgengni væri í febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Þegar kærandi væri á Íslandi yrði umgengni undir eftirliti í tvær klukkustundir í senn. Umgengni í formi símtala yrði ½ til 1 klukkustund hvert sinn. Í úrskurðinum er byggt á því að umgengni stúlkunnar við kæranda þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanlegt þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun í varanlegt fóstur sem ekkert bendi til annars en verði hjá núverandi vistforeldrum hennar. Kærandi krefst þess að umgengni hennar við stúlkuna verði aðra hvora helgi. Þegar kærandi sé erlendis verði umgengni í formi símtala en þegar kærandi sé á Íslandi fari fram hefðbundin umgengni, þ.e. í eigin persónu í tvær klukkustundir í senn.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni kæranda við stúlkuna þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja henni stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum stúlkunnar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að aðlögun stúlkunnar í fóstri hafi ekki gengið nægilega vel. Mikilvægt sé því að halda áfram að vinna að því að stúlkan geti aðlagast fósturheimilinu og öðlist þá ró sem hún þurfi á að halda.
Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að líta til þess að stúlkan hefur átt mjög erfiða bernsku. Mikið rótleysi hefur verið í lífi hennar, en hún hefur búið á þremur heimilum síðastliðin þrjú ár. Þá hefur hún þurft að búa við vímuefnaneyslu og óviðunnandi heimilisaðstæður. Mikilvægast er að byggja upp frið og ró í núverandi fóstri, traust á milli stúlkunnar og fósturforeldra og vinna áfram að því að aðlaga stúlkuna að þeim aðstæðum sem hún býr nú við á fósturheimilinu. Við úrlausn málsins verður einnig að líta til þess að fósturforeldrar telja að tíð umgengni hafi neikvæð áhrif á stúlkuna. Kærandi vísar til þess að stúlkan vilji reglulega umgengni við sig enda hafi stúlkan lýst því yfir að hún sé sátt við umgengni eins og hún er, þ.e. annan hvern sunnudag.
Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að meta hagsmuni stúlkunnar út frá þeirri stöðu sem hún er nú í. Eins og rakið hefur verið er mikilvægast að byggja upp frið og ró í núverandi fóstri og traust á milli stúlkunnar og fósturforeldra. Til að stuðla að aðlögun stúlkunnar á nýju heimili telur úrskurðarnefndin að mikilvægt sé að skapa henni fastmótaða umgjörð og hlífa henni við öllu áreiti og raski. Með vísan til þess ber að staðfesta þá niðurstöðu barnaverndarnefndarinnar að umgengni verði fjórum sinnum á ári og að þessu leyti hafi meðalhófsreglunnar verið gætt við úrlausn málsins hjá Barnaverndarnefnd B.
Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði verulega takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.
Með vísan alls framangreinds ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 8. október 2019 varðandi umgengni D við A, er staðfestur.
Kári Gunndórsson
Björn Jóhannesson Guðfinna Eydal