Mál nr. 55/2013.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 55/2013.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 4. nóvember til 31. desember 2011, en á þeim tíma hafi hann ekki talist uppfylla almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hafi fengið skráninguna: Ekki atvinnulaus. Var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 136.272 kr. að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 20.441 kr. eða samtals 156.713 kr. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með erindi, dags. 8. febrúar 2013, og var kæranda veittur rökstuðningur í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2013. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 4. júní 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um greiðslu atvinnuleysisbóta 3. janúar 2011 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur með hléum til 20. janúar 2012. Á tímabilinu 1.‒20. september 2011 var kærandi skráður af atvinnuleysisskrá. Vinnumálastofnun barst 26. september 2011 reikningur vegna verktakavinnu kæranda. Kærandi var einnig afskráður á tímabilunum 1. október til 3. nóvember 2011 og 17.‒29. nóvember 2011 vegna verktakavinnu. Vinnumálastofnun barst 5. desember 2011 tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá.
Við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í mars 2012 kom í ljós að kærandi reiknaði sér endurgjald í desember 2011.
Vinnumálastofnun óskaði í kjölfarið eftir upplýsingum frá kæranda vegna þessa í bréfi, dags. 6. mars 2012. Vinnumálastofnun barst reikningur vegna vertakavinnu kæranda í nóvember 2011 en stofnuninni barst ekki reikningur vegna desembermánaðar.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra var kærandi með opna launagreiðendaskrá tímabilið 11. október 2011 til 13. desember 2012. Á fundi Vinnumálastofnunar 2. maí 2012 var tekin sú ákvörðun að kæranda skyldi gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann var með opinn rekstur og fékk greiddar atvinnuleysisbætur samhliða, þ.e. 4.‒16. nóvember og 30. nóvember til 13. desember 2011.
Kæranda var send hin kærða ákvörðun í bréfi, dags. 20. september 2012, líkt og fyrr greinir. Vinnumálastofnun barst 6. janúar 2013 erindi frá B viðskiptafræðingi þar sem því var lýst yfir fyrir hönd kæranda að þau mistök hafi orðið við framtalsgerð að reiknað endurgjald hafi verið ranglega skráð 300.000 kr. fyrir bæði nóvember og desember 2011. Rétt væri að hið reiknaða endurgjald væri 600.000 kr. fyrir október 2011. Tekið var fram að óskað hefði verið eftir leiðréttingu á skattframtali kæranda í samræmi við þetta.
Vinnumálastofnun túlkaði umrætt erindi sem beiðni um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 2. maí 2012 í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og tók málið fyrir að nýju 17. janúar 2013. Tekin var ákvörðun um að staðfesta fyrri ákvörðunina. Með bréfi, dags. 22. janúar 2013, var kæranda tilkynnt um þessa ákvörðun. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar 8. febrúar 2013 og var veittur rökstuðningur í bréfi, dags. 5. mars 2013.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að reiknað endurgjald hafi allt verið vegna októbermánaðar 2011. Kærandi vísar í bréf ríkisskattstjóra, dags. 15. mars 2013, þar sem fallist sé á og staðfest að hann hafi verið atvinnulaus í nóvember og desember 2011.
Vinnumálastofnun skilaði greinargerð, dags. 3. júlí 2013, í máli kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Þar kemur fram að stofnunin telji að úrskurðarnefndin eigi að vísa stjórnsýslukæru kæranda frá nefndinni þar sem stofnunin telji að kærufrestur, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga, hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni. Óskar stofnunin jafnframt eftir því að fá að koma að athugasemdum síðar telji nefndin að fresturinn hafi ekki verið liðinn.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júlí 2013, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. júlí 2013. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi, dags. 17. júlí 2013, en þar bendir kærandi meðal annars á að miða eigi kærufrest hans við bréf Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2013.
Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. október 2013, var kæranda bent á að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda þar.
Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. nóvember 2013, óskaði nefndin eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til stjórnsýslukæru kæranda.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. desember 2013, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta varði ofgreiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda á tímabilunum 4.‒16. nóvember 2011 og 30. nóvember til 13. desember 2011 sökum þess að kærandi var með opinn rekstur sem verktaki. Vinnumálastofnun bendir á að verktakar teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá sé skv. f- og g-liðum 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum atvinnuleitanda að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 20. og 21. gr. laganna.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ráða að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá á tímabilinu 11. október til 13. desember 2011. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á tímabilinu hafi sú ákvörðun verið tekin að kæranda skyldi gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilin 4.‒16. nóvember 2011 og 30. nóvember til 13. desember 2011. Vinnumálastofnun bendir á að kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 3. maí 2012. Skuld kæranda hafi verið ógreidd og með bréfi, dags. 20. september 2012, hafi verið farið þess á leit við kæranda að hann greiddi útistandandi skuld. Mál kæranda hafi verið tekið upp í kjölfar yfirlýsingar B viðskiptafræðings á fundi 17. janúar 2013 í samræmi við 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en hafi ekki verið talið til þess fallið að breyta á ákvörðuninni. Vinnumálastofnun bendir á að meðfylgjandi kæru sé afrit af úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. mars 2013. Afmáðar hafi verið setningar í úrskurðinum og því sé ekki unnt að ráða nákvæmlega hvað felist í honum og af þeim sökum telur Vinnumálastofnun ekki unnt að taka afstöðu til hans.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. desember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. janúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi, dags. 8. janúar 2014.
Í athugasemdum kæranda greinir hann meðal annars frá því að hann hafi í fyrsta sinn unnið sem verktaki með virðisaukaskattsnúmer haustið 2011. Hann hafi farið til Vinnumálastofnunar er vinnan stöðvaðist og skráð sig atvinnulausan 4. nóvember 2011. Kærandi kveðst hafa fengið vinnu á tímabilinu 16.–30. nóvember 2011. Þegar hann hafi komið á skrifstofu Vinnumálastofnunar að sækja um greiðslur að nýju hafi honum verið tjáð að hann þyrfti að segja sig af launagreiðendaskrá sem kærandi kveðst hafa gert. Hann hafi síðan verið skráður atvinnulaus 1. desember. Kærandi kveðst ekki hafa fengið þær upplýsingar að hann þyrfti að loka launagreiðendaskrá í fyrra skiptið er hann sótti um atvinnuleysisbætur og hann ítrekar að hann hafi verið í góðri trú.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því að kærandi var á tímabilunum 4.‒16. nóvember 2011 og 30. nóvember til 13. desember 2011 með opinn rekstur sem verktaki.
Í b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Ákvæði b-liðar 3. gr. tekur til verktaka.
Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í 18. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Kemur þar fram í 1. mgr. að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., sem uppfyllir skilyrði a‒i-liða teljist tryggður samkvæmt lögunum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra. Í f- og g-liðum koma fram þau skilyrði að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stöðvað rekstur, sbr. 20. gr., og að hann þurfi að leggja fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr.
Er ákvæði 20. gr. um stöðvun rekstrar svo hljóðandi:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.
Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.“
Þá er ákvæði 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um staðfestingu um stöðvun rekstrar svohljóðandi:
„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., skal leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur skv. 20. gr. Staðfestingin skal fela í sér:
a. yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og
b. afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.“
Af gögnum málsins er ljóst að kærandi var með opna launagreiðendaskrá á tímabilinu 4.‒16. nóvember 2011 og 30. nóvember til 13. desember 2011 og uppfyllti því ekki fyrrgreind skilyrði f- og g-liða 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi ekki fengið upplýsingar um framangreind lagaatriði en að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum þar sem víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna. Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A sem tilkynnt var honum í bréfi, dags. 20. september 2013, um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest. Kærandi skal greiða samtals 156.713 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson